Mánaskál

16.10.2008 20:10

Ótitlað

Jæja hérna koma nýjustu myndirnar af Birtu minni




svo sæt - sjúklingurinn með umbúðirnar

og svo ein mynd handa Lilju.. þetta er það sem ég var að meina.. það er eins og hún hafi stungið hóf í innstungu hehe


svolítið úðfin og tætt.. mætti halda að hún sé nývöknuð hehe


svona leit svo sárið út á þriðjudaginn, allt á réttri leið og hellings munur að sjá þetta emoticon

Atli er svo farinn austur í meiri veiði.. ég er farin að halda að hann ætli að lifa á fiski og gæs.. verði honum að góðu emoticon  Ég ákvað að vera heima enn eina helgina til að læra og reyna að koma mér áfram í bókunum. Ég geri ráð fyrir að næsta helgi fari að mestu í annað en lærdóm svo ég má engann tíma missa.. þarf að læra eins og ég get þangað til.

Jæja.. pásan er búin.. ég er farin að læra aftur

16.10.2008 11:09

Akureyri, fréttir af Birtu og fleira

Lífið heldur áfram..

Ég er ekki enn að standa mig í blogginu, það er hreinlega allt of mikið að gera hjá mér. Bara vinnan eða bara skólinn væri alveg nóg fyrir mig en þýðir ekkert að kvarta, þetta er bara tímabil sem líkur 15. des þegar ég klára jólaprófin.. og vá hvað ég get ekki beðið! Verkefnastaðan í skólanum er orðin gríðarlega þung og ég veit ekki alveg hvar þetta endar allt saman. Þetta kemur nú samt bara allt í ljós um jólin, nú í versta falli fell ég, það gerist ekkert verra en það emoticon

Ég er búin að skipuleggja ansi mikið eftir 15. des.. eins og það verði eitthvað nægur tími í allt og ekkert þá.. 9 dagar til jóla.. allar jólagjafir eftir, skreyta húsið, þrífa og allt það emoticon  en það er eins og allt annað.. jólin láta ekki bíða eftir sér, þau koma sama hvort maður er tilbúinn eða ekki. Ég þarf líka að spýta heldur betur í lófana eftir prófin og skipuleggja mig og gera og græja fyrir heimkomu barns í janúar.. vá hvað það er skrítið að segja þetta! Mér finnst alveg tvennt ólíkt að vera ólétt (sem hingað til hefur verið ágætt.. en er að þyngjast) og að hugsa til þess að eftir aðeins ca 3 mánuði þá eigi ég dóttur eða son! Ég er ekkert viss um að ég sé að átta mig á því ennþá hvað það eiginlega þýðir. Þetta er bara eins og með jólin.. lætur ekki bíða eftir sér og kemur sama hvort maður er tilbúinn eða ekki. Ég er auðvitað samt jákvæð og hlakka bara mikið til, það má enginn misskilja það þó svo að ég sé eitthvað að velta þessu svona fyrir mér.

Ég fór á fyrstu fjarnemadagana mína á Akureyri í síðustu viku. Ég flaug norður á miðvikudegi eftir vinnu og var búin að leigja íbúð frá starfsmannafélagi Kaupþings í bænum. Ég bauð svo nokkrum stelpum að vera með mér enda hefði ég dáið úr leiðindum ef ég hefði átt að vera þarna alein. Við vorum þarna 5 þegar mest lét og höfðum það bara fínt. Við vorum auðvitað lítið heimavið þar sem dagskráin í skólanum var mjög stíf og svo var farið út á lífið á kvöldin. Eftir að sitja í skólanum allan daginn og á pöbb á miðvikudags- og fimmtudagskvöldi þá var ég eiginlega bara búin á því. Á föstudeginum var einmitt kennsla frá 8 um morguninn til 8 um kvöldið og það var bara meira en nóg fyrir mig.. ég hafði mig ekki út á djammið loksins þegar aðal djammið átti að vera! Það var svo kennsla á laugardeginum líka og það seint að ég hefði ekki átt að ná síðasta flugi heim, ég ætlaði því að fara á sunnudagsmorgni með flugi. Laugardagsfagið var svo tilgangslaust að kennslustofan hálf tæmdist í hléinu og ég dreif mig bara líka. Beint heim í íbúðina að þrífa og ganga frá og svo upp í flugvél og heim! Sunnudagurinn varð ekki til mikilla stórræða hjá mér þrátt fyrir næg verkefni, ég þurfti bara að jafna mig á þessari törn. Svo til að toppa allt þá var skólavika strax vikuna á eftir svo ég er eiginlega ekki búin að ná mér niður ennþá.

Það er allt gott að frétta af Birtu minni. Atli sá um umbúðaskiptin á meðan ég var á Akureyri og fer að verða alvanur þessu hestaveseni hjá mér emoticon Ég fór með Atla í umbúðaskiptin á þriðjudag og þá leit sárið bara rosalega vel út. Það hefur minnkað rosalega mikið og það er komið hrúður yfir það allt, þetta er hætt að vera svona blautt og vessandi og virðist vera góður gróandi í því. Hún finnur líka greinilega lítið til í þessu núna þó maður krukki í því. Hún er orðin ansi lituð á fætinum eftir allt joðið og verður örugglega svona lituð í dágóðann tíma.. lítur frekar bjánalega út. Annars hálf brá mér þegar ég sá hana í vikunni því hún var svo tætt, ég skildi eiginlega ekkert í þessu. Líklega er ég þó búin að fá skýringuna þar sem hún hafði víst verið að slást óvanalega mikið úti í gerði. Ég vona bara að hún sé ekki að gera Lilju mína eða aðra geðveika með dólgshættinum. Hún heitir auðvitað Birta og Birtur eru alltaf prisnessur og láta ekkert vaða yfir sig. Ég þekki allavega aðra Birtu sem fellur vel í þennan flokk og ég held að Lilja viti alveg hverja ég er að tala um emoticon  Annars er Birta örugglega orðin leið líka á hangsinu, búin að vera inni í mánuð án brúkunar. Ég væri að verða geðveik líka held ég. Það er spurning hvort það megi eitthvað fara að eiga við hana bráðlega þar sem sárið er komið svo vel á veg. Ég trúi ekki öðru en að það megi allavega fara með hana í gerðisvinnu, tvítaum og eitthvað svona sniðugt og kannski teyma hana með. En sjáum til hvað verður.

Ég tók myndir af Birtu sem ég skelli vonandi inn í kvöld.

Ég hugsa mikið til hrossanna minna í Mánaskál þessa dagana. Greinilega komið haust í mig. Við Atli stefnum á norðurferð þarnæstu helgi til að huga að hrossunum. Ég hefði viljað fara þessa helgi en Atli kemst ekki svo við förum þá næstu í staðinn.  Nú ef svo fer að Atli komist ekki þá fer ég sjálf og óska hér með eftir ferðafélaga þar sem ég langar síður að fara alein. Það þarf að bæta við hagann hjá þeim svo þau hafi það nú gott í sveitinni. Ég geri ráð fyrir að við þurfum að skella niður nokkrum staurum og klára síðustu reddingarnar fyrir veturinn. Svo vona ég að Birta fari að komast norður aftur.

Það virðist ekki vera mikið að frétta hjá mér þessa dagana, lífið er aðallega skóli og vinna.. þangað til næst..


05.10.2008 15:37

Mikið að gera

Jæja ég blogga allt of sjaldan.. ég er farin að fá skammir. Meira að segja Atli segist þurfa blogg til að vita hvað sé í gangi hjá mér á hverjum tíma. Ég skil bara ekkert í svona kommentum, ég hef aldrei talið mig vera fámálu týpuna.. ég þarf eitthvað að skoða þetta greinilega.

En að fréttunum... ég er allavega lifandi og mitt fólk líka. Ég bara stækka og stækka og ég bíð eftir að það komi gat á mig emoticon annars finnst mér ég vera farin að standa í stað en svo hitti ég frænkurnar í gær og þær áttu ekki orð yfir því hvað ég væri búin að stækka mikið.. ég sé þetta ekki sjálf. Ég kemst allavega enn í nokkrar flíkur þó þeim fari hratt fækkandi.

Petra mín.. ég tók eina mynd sérstaklega handa þér áðan.. ég verð bara að óska eftir einhverjum í þetta myndatökuhlutverk þar sem það gengur mjög illa að gera þetta einn.


Ég er gengin 25 vikur á mánudag en ég er ekkert dómbær á það hvort ég stærri eða minni en flestir. Ég er örugglega bara eitthvað meðal hross. Ég veit bara að það er nóg eftir og það hlítur að koma gat á mig áður en þetta er yfirstaðið. 

Svo tók ég með myndavél í gær og ætlaði að taka myndir af okkur óléttu frænkunum. Ég, Ása og Linda vorum nefnilega allar þarna og við tókum myndir af okkur saman fyrri nokkrum vikum og það væri gaman að sjá muninn núna. Linda var svo eitthvað slöpp og fór heim snemma og svo nennti ég ekki að standa í myndatöku af okkur Ásu þegar við vorum að fara heim. Við verðum bara að muna að grípa tækifærið næst.

Birta er enn á húsi hjá Lilju og er í sjúkrgæslu. Ég átti tíma hjá Björgvini dýralækni eftir vinnu á föstudag en ég bara heinlega komst ekki úr vinnunni þar sem íslendingar töpuðu glórunni og fóru í bankana til að taka út spariféð og selja hlutabréfin sín, stofna reikninga og færa á milli. Ég hef bara ekki vitað annan eins dag og þennan. Sömu sögu var að segja í öðrum útibúum og svo verður fróðlegt að sjá hvernig mánudagurinn verður emoticon Ég vona nú að þessi ótti fólks fari að minnka, það eru margir sem hreinlega sofa ekki. En allavega þar sem ég missti af tímanum fyrir Birtu þá bjó ég um hana sjálf á föstudagskvöldið og held áfram að skipta á henni annan hvern dag. Björgvin skoðar hana svo eftir helgi. Líklega þarf að skera eitthvað í þetta og hún er ekki á leið út aftur alveg í bráð. Það er svo merkilegt hvað hún lætur þetta yfir sig ganga.. ég skil ekki hvað Lilja og Björgvin voru að kvarta undan henni um daginn.. alltaf stendur hún kyrr hjá mér emoticon þau hljóta bara eitthvað að hafa verið að pína elskuna mína.. hún er nefnilega svo stillt og fín emoticon Það gengur allavega furðuvel að skipta á sárinu, þó að ég þurfi að gera það ein þar sem Atli hefur ekki verið heima. Ég sit bara á bossanum eins og 5 ára krakki og næ að bjarga mér. Ég á nefnilega orðið svolítið erfitt með að bogra og beygja mig.


Svona leit sárið út á föstudaginn, þetta lokast ótrúlega hratt en líklega þarf að krukka eitthvað í þessu meira.

Atli er byrjaður að æfa sig fyrir væntanlegt feðrahlutverk emoticon hann fór nefnilega í bónus og keypti ungbarnableyjur í fyrsta skipti (geri ráð fyrir því). Björgvin dýralæknir mælti með því að við keyptum bara bleyjur til að pakka fætinum inn í og það svínvirkar! Mjög þægilegt bara, svo eru þær líka vatnsheldar emoticon Ég verð nú samt að viðurkenna að bleyjurnar voru minni en ég átti von á.. frekar sætar bara. Annars var ég ekki jafn pró og Atli í þessu bleyjustandi.. ég var í stökustu vandræðum með að opna blessaðann bleyjupakkann.. ein greinilega ekki vön emoticon

Samba var hjá mér um helgina sem var ósköp notalegt þar sem Atli fór austur og Svenni líka og ég var því bara alein eftir. Helgin var annars ekki merkileg, ég mætti í skólann kl.l 9 í gærmorgun og fór svo á þjóðarbókhlöðuna þar á eftir. Í dag er svo próf í bókfærslu og skilaverkefni í stærðfræði emoticon  En ég hitti frænkurnar mínar í gærkvöldi sem var ljósi punkturinn á helginni. Við elduðum saman.. tja.. eða Karen verslaði, undirbjó og eldaði og ég hrærði í einum potti emoticon allavega þá var maturinn mjög fínn. Ég verð nú samt að bauna aðeins á frænkur mínar emoticon .. mínar varðandi það að hittast og gera eitthvað saman.. það þýðir ekki að Karen eigi að elda og ganga frá eftir matinn. Ég stakk upp á því að þeir sem ekki hefðu eldað ættu að sjá um uppvaskið og ég var eiginlega skotin niður.. þetta væri nú ekkert til að vaska upp.. það væri uppþvottavél og hver færi bara með sitt.. en svo gerði samt enginn neitt! Svo var nú líka meira til að ganga frá en bara diskarnir okkar þar sem allt eldhúsið hafði verið undirlagt undir eldamennsku. Jæja nóg af tuði.. ég fæ örugglega eitthvað ömurlegt viðurnefni eftir að hafa látið þetta frá mér emoticon Við horfðum svo á Mama Mia sem allir nema Jenný og Ása voru búnar að sjá.. og við Karen fórum óvart í bíó á hana um daginn án þess að bjóða þeim með..sorry sorry.. algjör misskilingur! Við fengum okkur svo auðvitað vínber, popp og nammi enda laugrdagur. Það er nú reyndar hálf furðulegt frá því að segja að þetta blessaða nammi var keypt í sér sendiferð í Kópavogi þar sem að ekki var til nægilega góð sjoppa í Hafnarfirði.. hmm. Ég er nú sko enginn gikkur þegar kemur að nammi hehe.

Síðustu helgi var hundasýning HRFÍ og ég leyfði mér að kíkja á hana þrátt fyrir næg verkefni í lærdómnum. Linda Björk var líka komin til landsins og ég varð því að nýta tímann vel. Við fórum reynar út að borða og svona á föstudeginum svo ég fékk minn Lindutíma. Það var rosalega gaman að fara og hanga á hundasýningu, ég hafði ekki gert það lengi. Samba kom með mér þar sem ég var að ath hvernig hún myndi bregðast við öllum hundunum. Hún er með svo lítið hjarta blessunin, ég er ekki viss um að það sé hægt að sína hana svo vel fari. Kemur í ljós hvort það verði einhvern tímann látið á það reyna.

Fyrstu fjarnemadagarnir mínir á Akureyri eru að renna upp. Ég á að vera í skólanum á fimmtudag, föstudag og laugardag. Ég fer norður á miðvikudag eftir vinnu og kem líklega heim á sunnudag. Reyndar er ekki orðið alveg ljóst hvernig ég fer en ég er allavega komin með gistingu. Ég er ekkert svo spennt fyrir því að keyra alla leið í kannski óskemmtilegri færð.. og hvað þá ef ég þarf að fara ein á bíl alla leiðina.. en ég er heldur ekki spennt fyrir því að borga yfir 20 þús fyrir innanlandsflug í skólaferð þar að auki! Kannski getur Atli reddað mér hagstæðu flugi, það á eftir að koma í ljós samt.

Jæja ég þarf víst að halda áfram með lærdóminn.. þangað til næst.

24.09.2008 00:23

Ótitlað

Jæja.. ég er alltaf á leiðinni að henda inn fullt af myndum. Um daginn virkaði það ekki.. svo nú er tilraun 2..

Birta mín er sjúklingur þessa dagana. Við Atli komum að henni svona slasaðri á vinstri framfæti þarsíðustu helgi í Mánaskál. Ekki er víst í hverju hún lenti en hún hefur greinilega skorið sig á einhverju. Birta átti far með Dódó og Össa í bæinn en hún átti bara að fara í létt trimm og svo í sölu. Hún fékk að fara í bæinn eftir að Egill dýri hreinsaði sárið og bjó um það.. en bara til að vera í sjúkragæslu. Ég held að mér sé bara ætlað að eiga hana fyrst svona fór emoticon Ekki það að mig langar sko alveg að eiga hana, hún er ferlega skemmtileg og fallegur hagaljómi en þar sem ég er ólétt þá veit ég að ég mun ekki hafa mikinn tíma í hestamennskuna á næstunni.

Atli er búinn að vera að hjálpa mér að skipta um á sárinu þar sem ég á erfitt með að beygja mig. Ég fór svo með hana til Björgvins dýralæknis í gær sem leist bara áglega á batann. Hún á samt annan tíma á morgun og þarf svo líklega að fara til hans aftur eftir það.. en við vonum bara það besta!

.. og fyrst ég er byrjuð og á hvort sem er að vera farin að sofa.. þá get ég alveg skellt inn nokkrum myndum í viðbót..


Bylting feit og fín




Myrkvi er líka með bumbu


Drungi er ekki lengur tryppalegur


Birta, Drungi og Bylting

Ég gleymdi greinilega að taka almennilega mynd af Birtu.. myndaði bara sárið. Ég á eitthvað af myndum af þeim frá því fyrr í sumar sem ég hendi inn fljótlega. Einnig eru væntanlegar myndir úr stóðréttunum, afmælinu hennar Karenar réttarhelgina á Klaustri, verslunarmannahelginni og fleira skemmtilegt.

23.09.2008 20:25

Uppfærsla væntanleg

Jæja ég er eitthvað að reyna að bæta mig í heimasíðuhaldinu. Ég er búin að gera nýjar síður fyrir Birtu og Vöku en þær eru fastar neðst í valmyndinni. Ég er viss um að það er músinni hans Atla að kenna.. kemur í ljós á morgun þegar ég reyni að breyta þessu í annari tölvu emoticon

Allavega þá eru komnar grunnupplýsingar um nýjustu hrossin í stóðinu mínu og fleiri myndir eru væntanlegar. Svo er aldrei að vita nema ég bæti inn meira efni þegar ég tek mér pásu frá lærdómnum.. það þarf nefnilega að gera það reglulega.

Ég hef frá helling að segja og ég á fullt af áður óbirtum myndum..svo hold tight hehe emoticon því meira sem ég ætla mér að læra.. því oftar og meira stelst ég til að gera eitthvað annað.

10.09.2008 14:37

Afmælið hennar Karenar og fleira

Jæja jæja.. hvað er nú að frétta??

Karen frænka varð 25 ára á laugardaginn síðasta.. til hamingju aftur! og amma og afi áttu brúðkaupsafmæli.. sem ég gleymdi reyndar eins og alltaf áður. Ég held að ég hafi í alvöru aldrei munað eftir því.. þó svo að ég viti vel að það sé á afmælisdaginn hennar Karenar  svona er ég nú bara skrítin.

Í tilefni afmælisins vorum við frænkunarnar búnar að plana ýmislegt. Fjörið byrjaði á fimmtudag en þá hélt Karen að hún væri bara að fara í bíó með Söru og Dagnýju en það endaði sko ekki þannig. Sara stóð sig eins og hetja í að tefja Karenu, þræddi búðir í Kringlunni og var að gera Karen vitlausa þar sem bíóið var að byrja og þær áttu eftir að borða og svo framvegis! Á meðan voru aðrar frænkur og makar að koma sér fyrir á Ruby Tuesday. Sara kom svo loks með Karen til okkar þegar allir voru komnir en svo birtist John vinur Karenar algjörlega óvænt líka! Hann er búsettur í Svíþjóð og Karenu grunaði ekki að hann væri að koma

Svo var auðvitað ekki annað hægt en að halda áfram að plata hana upp úr skónum fyrst hún gleypti við svona miklu og við sögðum henni að vera tilbúin í meira fjör kl. 11 á laugardagsmorgni. Ég var nú líka svo hugguleg að benda henni á að fara ekki mjög seint að sofa á föstudag til að vera vel stemmd með okkur á laugardegi. Nema hvað.. það stóð alltaf til að sækja hana á föstudegi og fara með hana út úr bænum. Þetta var nú bara svona gert til að vera alveg viss um að við værum að koma henni á óvart. Karen fékk þó rúmann klukkutíma til að pakka niður og svona áður en við birtumst.. nota bene á ógeðslega hallærislega skreyttum bílnum mínum.. með blöðrum og stjörnum og bleikum brúðarslaufum haha  Atli hafði ekki alveg húmor fyrir þessu greyjið og dauðsá eftir að hafa ekki farið austur með einhverjum öðrum.

Ferðinni var svo heitið austur fyrir fjall og lengra til því áfangastaðurinn var Hörgsland á Síðu, rétt austan við Kirkjubæjarklaustur. Þar vorum við búin að leigja 2 sumarhús fyrir mannskapinn.

Á leiðinni austur varð ég fyrir því  "ó"láni að keyra á tófuræfil sem steindrapst. Karen og John fengu vægt taugaáfall þegar Atli byrjaði að skera skottið af hræinu hehe.. svipurinn á þeim var æði  

Allir komust nú á áfangastað í heilu lagi og restinni af kvöldinu eyddum við í að horfa á gamlar myndir úr tölvunni.. það var nú dálítið hlegið  bara gaman að þessu.

Ég fór á fætur með Atla á laugardagmorgni og keyrði hann í réttirnar. Við hin fórum ekki í réttirnar fyrr en um ellefu eða svo enda var alveg nóg að fá bara smá fíling. Laugardagurinn var frekar rólegur bara en svo snérist dæmið upp í að græja sig fyrir réttarball og ná að grilla fyrir miðnætti hehe. Vá hvað það getur tekið langann tíma að kveikja upp og grilla þegar maður hefur bara kolagrill.. maður er greinilega allt of góðu vanur. Allavega þá fóru allir saddir á ball og ég held að flestir hafi skemmt sér mjög vel.

Atli minn "týndist".. allavega var hann hvernig að sjá lengi lengi.. en fann hann svo sofandi í Jónshúsi í réttarbuxunum og lopapeysunni.. meiri dúllan þessi drengur  svo dauðþreyttur.. en hann drapst auðvitað ekki þó hann hafi verið að drekka síðan snemma um morguninn.. nei nei.. höfum það á hreinu að hann sofnaði  meiri engillinn.

Ég fór auðvitað bara aftur á ballið enda fór ég bara í svona snögga "eftirleit" að drengnum mínum. Ég keyrði svo mannskapinn heim.. enda bara komið að mér held ég þar sem ég hef alltaf fengið far hjá einhverjum hingað til. Ég keyrði mitt fólk í 2 ferðum á Hörgsland, Svenna + dömuna hans og Siggu að hótelinu á Núpum og Sigga fúsa í Hörgsdal. Aðrir voru búnir að redda sér fari áður en ég kom aftur upp á Klaustur. Ég gisti svo bara í Jónshúsi hjá byttunni minni.

Sunnudagurinn var ósköp rólegur.. við ætluðum að fá okkur að borða á Systra Kaffi en það var bara lokað! ótrúlegt alveg hreint! Sjoppan varð því að duga. Við Ása og Jenný fórum svo aðeins í heimsókn í Hörgsdal og svo var bara brunað heim. Sara kom með okkur í bíl þar sem Karen, John, Dagný og Siggi urðu eftir og ætluðu ekki heim fyrr en á þriðjudag. Atli hafði vit á því að fara ekki með okkur enda var allt rætt milli himins og jarðar en við vorum þó mikið sneggri í bæinn heldur en austur.

Þessi vika hleypur frá mér eins og svo oft áður, allt í einu er kominn miðvikudagur. Svenni átti afmæli á mánudaginn og hann eldaði fínann mat handa okkur og fleirum um kvöldið. Til hamingju með afmælið Svenni okkar! Í gærkvöldi fórum við Atli upp í Hrísakot og tókum niður járnhliðið og græjuðum mublurnar sem við erum að fá frá ömmu og afa til að fara með í Mánaskál. Ferðinni er svo heitið norður á föstudag og vonandi ekki í bæinn aftur fyrr en á mánudag. Foreldar Atla ætla að koma með í fyrsta skipti svo ég vona að það viðri extra vel og svona svo þau njóti þess sem mest. Stóðréttirnar eru núna um helgina svo það verður eitthvað við að vera, auk þess stendur til að girða smá og græja meiri beit fyrir hrossin okkar.

Birta er jafnvel að koma í bæinn á sunnudaginn með Össa og Dódó þar sem ég hef ekkert við of mörg hross að gera svona ólétt og fín. Ég hef Vöku til að nota næsta sumar og hef engann tíma til að vera með hross á húsi í vetur svo ég hef ákveðið að selja Birtu. Mig langar auðvitað að eiga hana, mér finnst hún æði en hún verður ekkert æði ef það verður ekki haldið áfram með hana. Ég sé ekki fram á að hafa hross á húsi næstu 2 árin allavega, jafnvel næstu 4! Svo held ég að ég þurfi líka að spá í það hvað ég ætla að gera við Byltingu. Ég sé eiginlega eftir því núna að hafa ekki haldið henni undir hest í sumar þegar það leit út fyrir að ég væri ekkert að fara að ríða henni í vetur. Svona er þetta bara.. ég þarf eitthvað að spá í þessu.

Við Atli sóttum í gær barnaföt til Lólýar og Kidda, bæði stelpu og strákaföt þar sem við vitum ekki kynið og ætlum að láta það koma á óvart. Það er nú svolítið spennandi að vera kominn með fullt af dóti til sín og verður voða gaman að skoða í kassana að sjá hvað er til  Ég er nú ekki svona æst samt.. Lólý er að flytja og því var best fyrir hana að láta mig taka þetta strax því hún er að flytja í bráðabirgðahúsnæði á meðan þau eru að byggja og dótið yrði bara fyrir henni. Ég er nú samt alveg að skríða í 5 mánaða meðgöngu.. sem er bara meira en helmingurinn og bumban er í samræmi við það.. vá hvað þetta líður hratt!

Jæja meira blogg síðar..

13.08.2008 17:10

Verslunarmannahelgi, Mánaskál og fleira

Jæja.. ég er aftur farin að slóra smá í blogginu.. best að taka sig á.

Ég byrjaði að blogga fyrir mörgum mörgum dögum en ég gat ekki sett inn myndir.. er ekki viss afhverju en það varð til þess að ekkert varð úr blogginu.

Ég ætla því að blogga núna samt þó að það fylgi engar myndir strax.. en þær koma á endanum.

Verslunarmannahelgin var í rólegri kantinum. Ég fór austur til Atla og við fórum meðal annars á fjöll. Frændfólk hans var í veiðihúsi/fjallakofa við Grænalón svo við kíktum þangað. Stefnan var svo tekin á Langasjó en við hættum við sökum þoku. Við renndum bara aftur inn á Klaustur og héldum áfram í útilegufíling á preststúninu við Jónshús. Húsbíllinn er bara auðvitað æðislegur og stóð sig eins og hetja í fjallferðinni, alveg merkilegt hvað þessi stóri og þungi bíll kemst.

Á Klaustri var brenna og flugeldasýning á sunnudagskvöldi, allt eins og vanalega skilst mér. Þetta var bara fínasta helgi þó svo að maður hafi verið alveg grænn og blár yfir því að hafa ekki farið á þjóðhátíð á næsta ári. Ég skal fara á næsta ári!!

Við erum búin að fara norður í Mánaskál til að girða meira. Við girtum fyrir neðan bæinn (á eftir að finna nafn á stykkið) og svo lokuðum við á milli þeirrar girðingar, girðingarinnar á bæjarhlaðinu og svo stóru túngirðingunni og fengum út úr því "millistykkið". Atli er alveg ofurgirðingavinnumaður, ótrúlega duglegur drengurinn minn. Svo var hann svo góður við mig líka að hann leyfði mér bara að sofa út og þegar ég vaknaði þá var drengurinn bara ber að ofan að berja niður girðingastaura.. úlala.. hehe semsagt bara allt eins og það á að vera  Sissi kom alla leið frá Kirkjubæjarklaustri í heimsókn og til að hjálpa okkur, ég er ekki viss um að hann leggi í að keyra alla þessa leið aftur fyrir svona stuttan tíma.. þó er aldrei að vita.. við erum svo ansi skemmtileg  

Hryssurnar frá Balaskarði komu til baka frá Njálsstöðum á meðan við vorum fyrir norðan og tryppunum smalað heim líka svo við gripum tækifærið að sækja hrossin okkar og setja þau í nýja millistykkið. Við Sissi teymdum hrossin 4 á milli en Atli kom á eftir á bílnum. Reyndar varð smá misskilningur á milli Byltingar, Drunga og Sissa svo að Bylting skildi við okkur og fór aftur í réttina til hinna hrossana. Við Sissi héldum þá bara áfram og Bylting var sótt í annari ferð. Mikið er rosalega notalegt að hafa hrossin svona heima við. Ég er svo glöð að standa á hlaðinu mínu og fylgjast með hrossunum.. svo koma þau líka upp og heilsa upp á mann, allt voða heimilislegt bara  Ég er líka alltaf að sjá betur og betur hvað ég á fínar hryssur. Folarnir eru nú ekkert síðri en hafa allavega ekki litinn með sér enda báðir bara brúnir. Við klipptum hófana á Drunga á hlaðinu og gáfum honum ormalyf. Þetta gekk bara ótrúlega vel enda ekki við öðru að búast.

Lilja og co fengu Mánaskál lánaða eftir að við Atli fórum heim. Þau áttu bara notalega stund í sveitinni okkar held ég.. slógu njóla og eitthvað tilfallandi heimavið og fylgdust með slættinum fyrir mig  Jább..  það er sko búið að heyja í Mánaskál eftir nokkurra ára hlé. Ég fékk 25 rúllur af suðurtúninu sem ég er bara ósköp sátt við. Það ætti að duga fyrir hrossin mín og ég hef jú ekki við meira en það að gera. Verra er að rúllurnar voru allar gataðar fyrir mér af fugli, líklega krummanum en þó gæti mávurinn hafa komið nálægt rúllunum líka. Lilja og Biggi límdu allar rúllurnar fyrir mig og svo var bara legið á bæn og vonað að að þær yrðu ekki gataðar strax aftur! Þessar myndir eru fengnar af láni frá Lilju.







Tásla á baki á Birtu og Bylting fylgist með

Signý og Magnús röðuðu rúllunum í stæðu fyrir mig í gær og fuglinn hefur gatað nokkrar rúllur aðeins aftur. Þær verða límdar saman um leið og færi gefst og vonandi bjargar það einhverju. Svo er ekkert annað að gera en að sjá hvernig heyjið verður. Þetta leit allavega allt vel út þangað til rúllurnar voru gataðar.. bara spælandi!! Takk fyrir aðstoðina Signý og Magnús, það er alltaf gott að eiga góða granna

Ég var í sumarfríi í síðustu viku sem var frábært! Atli er í sumarfríi og ég fór austur til hans og var þar í viku. Reyndar ætti ég að byrja söguna aðeins fyrr þar sem Atli var svo huggulegur að fara austur í fríið til að laga bílinn minn.. hann er orðinn gamall og lúinn og veitti ekki af upplyftingu. Nema hvað.. á fimmdag í þar síðustu viku þá klessti ég bílinn hans á leiðinni heim úr vinnuni. Frekar súrt að klessa bílinn hans á meðan hann er að lakka minn og fleira  Ég held að mér sé samt fyrirgefið.

Ég fór austur daginn eftir með foreldrum Atla og áfangastaðurinn var rétt við Vík í Mýrdal. Við vorum í brúðkaupi alla helgina. Þetta var ótrúlega flott sveitabrúðkaup.. alveg eins og brúðakaup eiga að mínu mati! Veisla í hlöðunni, brenna og gítar og allur pakkinn! Bara yndislegt! Við Atli fórum svo austur á Klaustur á sunnudeginum og dunduðum okkur út vikuna. Ég reið svolítið út og svo fórum við saman að veiða. Við fengum nokkra góða fiska og ég veiddi meira að segja tvo frekar stóra, stærri var 5 pund en það er persónulegt met  Það er líka bara svo gaman að vera í útilegufíling í húsbílnum, það skiptir varla máli hvar maður er.

Ég er alltaf að lenda í einhverju.. ég fór í reiðtúr í síðustu viku og lagði af stað á Vöku. Stóðið í Hörgsdal kom auga á okkur og hófst þá hnegg og læti. Stóðið hljóp svo af stað og ég vissi að ég þyrfti að vera svolítið sannfærandi til að koma Vöku framhjá hrossunum fyrst þau létu svona. Vaka varð líka allt í einu "palli er einn í heiminum" þegar hrossin kölluðu svona á hana og hún átti bara verulega bágt. Ég reið svo bara framhjá hrossunum og taldi mig vera á góðri leið.. svo allt í einu heyri ég hófatak fyrir aftan okkur og sjit.. stóðið var komið út úr girðingunni og á harðastökki í áttina til okkar! Á þeim tímapunkti var ég ekki alveg viss hvor ég myndi lifa þetta af hehe.. en ég er svosum seigari en það.. ég er búin að komast að því!

Hestaferð Kóps var síðustu helgi og ég var mjög spennt að fara með. Ég fékk lánaða hesta fyrir okkur Sigga svo við gætum farið með í ferðina. Það fór reyndar svo að Gulla lagði af stað með mér þar sem Siggi var upptekinn, við Gulla voru allt of seinar fyrir svo við lögðum af stað án þess að ég væri búin að prufa lánshrossin til að sjá hvor ég vildi hafa. Ég lagði bara á hryssuna og fór af stað. Ég var reyndar svo bara mjög sátt við hana og prufaði aldrei klárinn. Fyrsta stopp var í Mörtungu en þar var hrossunum sleppt og farið inn í bæ að skála. Þegar gengið var í verk að handsama hrossin aftur lenti ég í því að vera slegin allhressilega. Ég hef aldrei verið slegin af hrossi en ég held að það hafi ekki verið margir slegir svona illa eins og ég í þetta skiptið. Ég stóð akkúrat fyrir aftan hrossið þegar það lyfti sér upp og barði og ég bókstaflega flaug aftur fyrir mig. Vitni sagði að ég hafi farið meter upp í loftið og ég lenti nokkuð langt fyrir aftan þar sem ég stóð. Ég vissi auðvitað bara ekki hvað á mig stóð verðrið og varð brjáluð! Ég fékk báðar afturlappirnar í mig, í hægri öxlina og svo undir vinstri hendina og í vinstri handlegginn. Fólki varð auðvitað mjög brugðið þar sem þetta leit mjög illa út. Það er kannski ekki hentugast að það sé ólétta manneskjan sem er slegin  ég meiddi mig sem betur fer ekkert nema bara á sálinni. Ég fékk töluvert sjokk eftir að mér rann reiðin. Svo fékk ég auðvitað mar en það er eitthvað sem fer.. ég get hreyft mig og gert allt sem ég þarf svo ég slapp bara rosalega vel. Ég var eiginlega send heim úr hestaferðinni þarna þar sem fólki fannst að ég ætti að slaka á og jafna mig áður en ég héldi áfram. Hrossin mín voru því sett inn í hesthús og við sóttum þau seinna um daginn og keyrðum þau þangað sem átti að byrja á sunnudaginn.

Ég er búin að lenda í árekstri.. og vera slegin af hesti.. ég er semsagt að bíða eftir 3. slysinu

Hestaferðin gekk svo bara vonum framar á sunnudeginum þrátt fyrir ótrúlega mikla rigningu í lokin, ég hef ekki oft séð svona rigningu! Við lögðum af stað í sól og enduðum í vatnsveðri. Ég lagði af stað á lánshrossinu og verð að viðurkenna að hún var aðeins og gróf fyrir mig, ég fékk svokallaða togverki í bumbuna og leið ekki alveg nógu vel en það slapp allt. Svo um leið og ég skipti um hross og fór á Vöku þá fann ég ekki fyrir neinu. Hún er svo mjúk og fín að það skipti ekki máli hvort ég reið tölt eða brokk, ég fékk enga verki en um leið og ég skipti aftur yfir á hina hryssuna þá komu verkirnir aftur. Þetta var dúndur reið yfir heiði, börð og skurði, brekkur og tilheyrandi og á köflum mátti maður hafa sig alla í að sitja hrossið. Ég reið Vöku yfir allan þennan kafla og vá hvað hún stóð sig vel. Ég er ótrúlega ánægð með hana. Svo er líka æðislegt að teyma hana, maður finnur ekki fyrir henni. Lánshrossið teymdist ágætlega en hún tók stundum aðeins of mikið pláss frá okkur Vöku þegar við vorum að fara þrögar og erfiðar leiðir. Annars ætla ég sko ekkert að kvarta, ég fór á 2 mjög góðum hrossum og þetta var fín ferð.

Ég var ansi ansi þreytt á mánudag í vinnunni, eiginlega dáin eftir helgina og ég er enn að jafna mig. Núna er skólinn byrjaður og ég er á fullu að skipuleggja mig. Bækurnar eru ekki fáanlegar í Reykjavík og ég er því að bíða eftir þeim frá Akureyri. Það er sko bara allt að gerast!

Ég veit að ég er búin að fara á hundavaði yfir sl. mánuð eða svo. Ég er pottþétt að gleyma mörgu. T.d. fórum við Atli í gæsaleiðangur í Hörgsdal sem endaði þannig að ég svaf í skurði í grenjandi rigningu og svaf af mér þegar gæsin kom hehe.. Ég blogga vonandi bráðum aftur.. núna fer mig að vanta eitthvað til að gera þegar ég á að vera að læra hehe.. þá er fínt að blogga.

Jæja ég held að það sé kominn tími til að fara að sofa.. ég þarf að fara snemma á fætur í læknastúss. Ég hendi vonandi inn myndum fljótlega.

25.07.2008 12:40

nýtt blogg - upptekin í vikunni.. austur um helgina

Jæja ég ætla bara að vera dugleg og henda inn öðru bloggi. Reyndar er ég ekki búin að setja myndirnar í tölvuna enn.. en það kemur á endanum.

Ég kom heim á sunnudagskvöld að austan og hafði bara tíma fram á þriðjudagsmorgun með Atla þar sem hann fór austur á þriðjudaginn. Ég er því búin að vera "alein" alla vikuna en ég hef nú haft nóg að gera.

Á þriðjudag dró ég Lólý systir í búðaráp þar sem mig vantaði föt.. ég er víst eitthvað stækkandi og þurfti að hugsa mér til hreyfings í fatamálum. Ég fór svo með Ásu Maríu út að borða á Tai stað á þriðjudagskvöld og svo leigðum við okkur eina bíómynd á eftir. Það var orðið allt of langt síðan við gerðum eitthvað saman  Vonandi verðum við duglegri að hittast í framhaldinu.

Á miðvikudaginn fór ég í langann göngutúr með Skellu mína áður en ég fór í mat til Lólýjar og co í Rjúpnasalina. Það er voða gott að geta bara mætt í mat til systu og fengið ís í eftirrétt og allt.. takk fyrir mig  Sandra Diljá vildi fá Atla með mér í heimsókn en hún fékk að tala við hann í gegn um símann í staðinn og var bara sátt við það.  Krakkarnir réttu mér svo smá glaðning með bangsímon myndum á  Það er dálíð sérstakt að fá fyrstu hlutina í þessari deild  Bara gaman að þessu!

Á fimmtudag bauð Rakel Ósk nokkrum sérvöldum skvísum í matarboð.. ég er þar auðvitað meðtalin  Þetta var rosa flott, góður matur og góður félagsskapur. Eins og með Ásu Maríu þá var þetta orðið vel tímabær hittingur! Dagný systir Rakelar var líka svo næs að flikka aðeins upp á mig í leiðinni og ég fékk litun og plokkun og brúnkumeðferð í stofunni á meðan við kjöftuðum frá okkur allt vit.. bara snilld

Í dag er stefnan svo tekin á Klaustur  sem er nú aldrei leiðinlegt. Núna er eitthvað ættarmót í gangi svo ég á von á að hitta eitthvað af fólki sem ég kannast ekki við en ég veit að ég þekki nógu marga þarna svo ég hef engar áhyggjur  Svo verður líka fínt að hitta loksins þennan kærasta sem ég á einhversttaðar í veiði  .. ég veit að ég má svosum ekki segja það.. en hann er enn með öngulinn í rassinnum eftir því sem ég best veit hehe Hann vill meina að það sé afþví að ég sé einhver óheillakráka.. en þar er hann að misskilja eitthvað.. hann var aldrei jafn heppinn og þegar hann hitti mig.. ég skil ekki hvað hann er að væla

Jæja þangað til næst..

21.07.2008 10:13

Kominn tími á blogg!!!

Ég er farin að skammast mín fyrir síðuna mína, ég á ekki von á að margir kíki enn við hjá mér eftir þessa ritstíflu. Ég ætla að reyna að bæta mig í þessum bloggmálum. Ég verð líka að viðurkenna að ég er með eldgamlar myndir í myndavélinni minni sem ekkert gengur að koma í tölvuna.. ég þarf eitthvað að endurskoða þetta

Ég ætla að fara á hundavaði yfir sl. vikuR já eða kannski bara mánuði  Í síðasta bloggi var ég að monta mig á því hvað ég eigi fínar hryssur.. þær eru auðvitað enn fínar en núna eru þær komnar norður í dalinn minn. Bylting,  Birta og Myrkvi fóru saman í sveitina og voru örugglega bara sátt við það. Við Raggi fórum að Baugsstöðum og sóttum Byltingu og Myrkva tvem dögum áður minnir mig og María skaut skjólshúsi yfir þau í Gusti. Hún var einmitt með Birtu fyrir mig líka. Það gekk eins og í sögu að sækja tryppin og við náðum þeim bara úti í hólfinu  ég á auðvitað svo fullkomin hross. Birta stóð svo eins og klettur á meðan Atli reif undan henni og snyrti hófana.

Í júní fórum við Atli norður í Mánaskál að girða. Mamma og pabbi komu líka og upp var sett þessi líka fína rafmagnsgirðingin utan um suðurtúnið. Núna á sko að láta heyja fyrir sig og fá rúllur í "stóðið" mitt. Signý á Balaskarði lánaði okkur gamlan traktor og svo fengum við lánaðann staurabor líka. Annars sáu Atli og pabbi að mestu um að reka staurana niður á höndum og það verður bara að segjast að hann Atli minn stóð sig eins og hetja! Án hans væri ég enn fyrir norðan að girða  Rollurnar slæðast inn í girðinguna mína en ég veit ekki til þess að hross hafi gert það enda ætti það ekki að gerast á meðan rafmagnið tollir á.

Vaka fór með Lilju yfir Kjöl í júní og stóð sig víst með ágætum. Hún fékk svo að hlaupa suður aftur og kom til baka um mánaðarmótin. Hún er núna komin austur í Hörgsdal og á að vinna fyrir matnum sínum eitthvað lengur. Hún fékk reynda að kenna á því í stóðinu greyjið því hún er ansi mikið bitin eftir vargana. Verstu vargarnir voru teknir frá og þá jafnaði þetta sig, hún er auðvitað ekkert vinsæl sem aðkomuhrossið en hún fær að lifa allavega  

Ég fór austur um helgina og slappaði af í sveitinni. Vaka var járnuð á laugardagskvöld ásamt Fork hans Sigga. Annar framfóturinn var kominn vel yfir á járningu og skeifan gjörsamlega fullnýtt, hún brotnaði bara þegar hún var snert. Hún var því bara járnuð upp og er til í slaginn. Við Siggi skelltum okkur á bak í gær en það var reyndar ekki farið langt þar sem klárinn hans hefur staðið óhreyfður í 2 ár held ég og farinn að eldast líka. Hann var vel sveittur þegar við komum til baka en Vaka skildi sjálfsagt ekki afhverju hún slapp svona vel

Við Atli fórum til Orlando í júní og skemmtum okkur rosa vel. Þetta var vinnuferð hjá Atla og ég fékk að laumast með  Þarna er auðvitað bara spánarveður, pálmatré og alles.. búðir, skemmtigarðar og vantsleikjagarðar.. hvað vill maður meira! .. Reynar var maturinn ekki vinsæll hjá mér og ég var rosalega ánægð þegar ég komst heim í kókómjólk og fleira sem ég treysti á þá dagana.

Atli útskrifaðist í júní frá Háskólanum í Reykjavík  og reyndar mætti hann ekki í útskriftina sína þar sem hún var á meðan við vorum í bandaríkjunum. Þrátt fyrir allt stressið á lokasprett lokaverkefnisins þá hafðist þetta auðvitað! Hann er svo klár þessi drengur  Það eru auðvitað allir voða stoltir af honum.

Landsmót hestamanna er liðið.. og ég missti af því. Það var lengi vel óákveðið hvort maður ætti að skella sér en svo ar ákv. að fara en þá varð ég veik! Ömurlegt og missti af landsmóti og góða verðrinu sem var þá helgina!

Ótti er loksins komin til nýrra heimkynna á Akureyri. Það tók engann smá tíma að fá ferð fyrir hann þarna norður! Einn og hálfur mánuður er hellingur finnst mér! Við Atli fórum austur á fimmtudaginn með kerru og sóttum folann. Linda Karen var svo búin að bjarga mér um pláss fyrir hann hjá vinkonu sinni í heimsenda.. takk æðislega fyrir það! Þetta bjargaði mér alveg! Ég fór svo austur á föstudag og Atli ætlaði að segja Ótta á bílinn á laugardag en svo veiktist Atli svo rosalega að hann var ekki fær út úr húsi alla helgina. Raggi hljóp þá í skarðið og reddaði þessu.. hann fer bara að verða alvanur hestum  Ég vona bara að nýji eigandinn sé ánægður með hann, mér leist allavega stórvel á hann. Hann er stór og þroskaður og bara mjög fallegur foli.

Ég er alveg pottþétt að gleyma einhverju.. ég á eftir að blogga aftur mjög bráðlega og ætla ekk að missa dampinn aftur. Það gerðist bara svo margt í vor sem sló mig út af laginu.. nánar um það síðar. Svo hendi ég inn myndum við tækifæri líka.

Þangað til næst.. adios

23.05.2008 09:03

Loksins nýtt blogg - Myndir

Jæja það hefur verið allt of mikið að gera hjá mér undanfarið.. og er reyndar enn. Ég ætla samt að henda inn myndum af Byltingu og Birtu síðan í vikunni. Svona á ég nú sætar dömur.





Bylting er orðin skröltfær hjá Lilju og hefur nóg af tölti og vilja. Ég held að við séum bara nokkuð sáttar með dömuna 




Ég er rétt farin að prufa Birtu og líst vel á byrjunina. Þó að Lilja sé grimm á svip þá leist henni bara vel á hana líka  

Ég vona að ég geti bloggað almennilega um helgina, ég er með mikið meira af myndum sem bíða birtingar bæði af þessum dömum og svo síðan við fórum austur á annan í hvítasunnu.

Mikið er ég ánægð með íslensku Eurovison farana.. áfram Ísland!

.. þangað til næst

11.05.2008 12:25

Hvítasunnudagur

Ég fór snemma á fætur.. á sunnudagi.. frekar ólíkt mér  Ég dreif mig í hesthúsið gaf í húsinu mínu og hengdi upp netin hjá Lilju fyrst ég "vakti" húsið. Ég fór eina bunu á Vöku í rokinu og merkilegt að ég hafi ekki fokið af á köflum. Voðalega er ég ánægð með þessa hryssu, hún stendur sko undir sínu. Tekur ekki feilspor í hávaða roki, fyrir vinnuvélum eða öðru sem á vegi manns verður.. meira að segja sáum við tófu.. hvíta tófu í Kópavoginum.. það hlítur að teljast spes svona innan bæjarmarka  Reyndar held ég að þessi tiltekna tófa sé ekki að fara neitt. Ég næ kannski mynd af henni seinna.

Ég lónseraði svo Birtu, bara svona til að sjá hana betur.




bara soldið sæt

Jæja þá er það vinnan næst.. í dag er mæðradagurinn og það þurfa allir að kaupa blóm.. alltaf sama fjölbreytnin í þessu hjá fólki

þangað til næst..


10.05.2008 21:52

Birta komin í bæinn - fyrstu myndir

Dagurinn byrjaði á því að ég sótti Siggu, Særós, Hafþór og Táslu rétt fyrir kl. 10 í morgun.. reyndar byrjaði ég á að taka til í bílnum og ryksuga hann.. en fyrir flesta er það svosum ekki afrek. Ég keyrði Særós og Hafþór í fimleika þar sem Lilja var á næturvakt og Sigga er vön að fara með börnin í strætó í fimleikana sem tekur fáranlega langann tíma á milli hverfa í Kópavogi. Tásla má heldur ekki fara í strætó svo það var lang gáfulegast að ég myndi bara sækja hópinn og koma öllum á sinn stað fyrst ég var á leiðinni í hesthúsið hvor sem var. 

Við Sigga drifum okkur svo kirkjugarðshringinn á gæðingunum okkar, ég á Vöku og Sigga á Sjón sinni. Ég lónseraði svo Myrkva sem verður dálítið útundan þessa dagana. Ég hefði farið á bak nema að hnakkurinn minn er ekki kominn til baka úr skoðuninni og ég nennti ekki að gera mér aðra ferð til að sækja hnakk til Lilju.

Birta, nýja hryssan mín kom í bæinn seinnipartinn. Ég gat sjálf skroppið og tekið á móti henni en stoppaði ekkert því ég þurfti að flýta mér aftur í vinnuna. Hryssan er bara sæt að sjá en ég er nú bara búin að fá svona augnabliksskoðun á hana. Ég kíkti við hjá henni eftir vinnu í kvöld til að ath hvort það væri ekki allt með sóma. Ég setti hana út augnablik til að fá að sjá hana almennilega og auðvitað tók ég myndir. María kom akkúrat á sama tíma til að gefa og Birta vildi auðvitað bara fara beint inn.. ég leyfði henni það bara þar sem ég hef nægann tíma til að skoða hana seinna.







Sæt lítil blesa

10.05.2008 00:29

Ótitlað

Ég var í fríi í vinnunni í dag þar sem ég tók daginn frá til að vera til staðar fyrir Atla og lokaverkefnið. Þetta fór allt saman vel og við Atli fórum með verkefnið í útprentun og innbindingu. Ég er bara voðalega stolt af drengnum mínum, búinn með lokaverkefnið og vonandi að fara að útskrifast úr HR  .. svo er bara að sjá hvað ég á eftir að standa mig vel á næstu árum  ég á þetta víst eftir.

Ég fór ekkert í hesthúsið í dag og var svo að vinna í blómabúðinni í kvöld. Eins og áður hefur komið fram þá er ég að vinna núna um þessa helgi og næstu og þá er ég hætt og ætla að njóta sumarsins! Nema hvað að ég var að frétta að sú sem hefur verið ráðin í vinnu lætur ekki ná í sig og mér skilst að það sé búið að reyna stanslaust í viku! Hún á að vinna næstu helgi og hefur enn ekki fengið neina aðlögun.. og svara ekki í síma.. furðulegt. Eitthvað segir mér að þessi manneskja ætli ekki að vinna þarna og láti þess vegna ekki ná í sig! .. en kemur allt í ljós.

Við Lilja riðum út í blíðunni á fimmtudaginn.. veðrið var geggjað.. og hvað varð svo um það.. núna er rigning og frekar kalt! Ég var hálf dauð í gær í gegningunum þar sem hitinn var svo mikill og ég mætti auðvitað í hesthúsinu í vinnufötunum. Í gær var ég t.d. í kjól og ekki ætlaði ég að ríða út og moka í kjól svo ég dríf mig auðvitað úr honum en var ekki með bol með mér svo það var bara farið beint í flísjakka og ég var að kafna! Það var sko ekkert jakkaveður og ég neyddist til að moka út í jakka í öllum þessum hita!! vá hvað ég hefði geta dáið þarna! En ég komst heim í heilu lagi og ekki dáin úr ofþurrki  Ég held að ég passi mig að eiga auka bol uppfrá héðan í frá.

Ég er óttalega ein þessa helgina Atli fór á Klaustur og ég vona að hann skemmti sér vel þar. Mamma og pabbi fóru í fyrstu húsbílaferð sumarsins. Karen og Dagný fóru á Ísafjörð. Ég held að allavega Ása sé í sumarbústað ef ekki bara Jenný líka. Ekki það að ég hef svosum ekki mikinn tíma aflögu á þessum blessuðu vinnuhelgum en kommon.. hundurinn er ekki einu sinni heima!

Á svona stundum er ágætt að t.d. læra (sem ég er búin að gera) og skipuleggja myndirnar sínar.. sem ég er að gera..

Hér eru t.d. myndir af Vöku í reið sem ég tók um daginn. Ég á nú eftir að fá betri myndir af dömunni og að sjálfsögðu ætla ég þá að vera knapinn





Ég fer svo í hesthúsið í fyrramálið og vonandi kemur Birta í bæinn  Ég hef reyndar ekkert heyrt ennþá en ég held samt í vonina.

07.05.2008 23:30

Ég var á námskeiði í dag og slapp svo ótrúlega vel frá vinnunni, var komin snemma í hesthúsið og náði að fara með hnakkinn minn í Lífland.

Ein skondin saga.. Ég er ein af þessum "skrítnu" manneskjum sem bara geta ekki setið fallega á hestbaki.. alltaf er verið að skamma mig fyrir að vera skökk og ég skekki hrossin mín líka á þessu veseni. Hrossin mín hafa t.d. öll farið á vinstra stökk því ég virðist stíga meira í vinstra ístaðið. Mér hefur illa gengið að losa mig við þennan ávana. Ég hef reyndar alltaf sagt að ég hljóti að vera með annan fótinn lengri en hinn  Um daginn var ég eitthvað að væflast með að það væri örugglega ójafnt í ístöðunum hjá mér en komst svo að þeirri niðurstöðu að það væri jafn langt í þeim og ég væri bara að ímynda mér þetta. Alltaf skekki ég mig í reið og er alltaf að laga mig í hnakknum. Ég bað Lilju að fara aðeins á Vöku um daginn til að ég gæti séð hana undir og Lilja stökk á bak og í hnakkinn minn.. nema hvað um leið og hún settist í hnakkinn þá tók hún eftir og ég líka að það er missítt í ístöðunum!! Aftur skoða ég ístaðsólarnar og tel götin og kemst að því að ístaðsólarnar eru mislagar og ég þurfi að kaupa nýjar.. samt hélt ég að þessar úr gerviefnunum myndu ekki teygjast og aflagast eins og leðurólarnar gera. Ég tók svo ólarnar af hnakknum og ætlaði að ath hvort ég ætti ekki aðrar til skiptana og ég bar þær saman.. og þær eru bara jafn langar! og ístöðin jafn stór og allt eins og það á að vera!! .. sem þýðir að hnakkurinn minn er gallaður og það hefur verið mitt vandamál! Ístaðsupphengin eru greinilega mishá eða bara að virkið í hnakknum er virkilega skakkt.  Jáhérna.. heppin ég. Ég fór allavega með hnakkinn upp í Lífland og hann var sendur til söðlasmiðs.. svo vonandi fæ ég hnakkinn í fínu standi til baka og get hætt að sitja eins og gúrka  Ég er svo kannski bara með 2 jafn stuttar lappir

Málið með hnakkinn er að ég keypti mér hnakk fyrir rúmum 2 árum, svo var ég auðvitað ekki með hesta á húsi síðasta vetur og er tiltölulega nýbyrjuð að ríða út núna.  OG aulinn ég er bara að kveikja á perunni núna!

Ég er búin að heyra af Birtu "minni".. hehe fyndið.. Lilja á sína Birtu og því finnst mér skrítið að vera að fá Birtu "mína" í bæinn  Samkvæmt nýjustu áætlun kemur daman í bæinn á laugardaginn.. ekta fyrir mig.. ég er auðvitað að vinna! Svo er bara spurning hvenær á laugardaginn skvísan kemur en ólíklegt verður að teljast að ég geti tekið á móti henni sjálf. En það koma þá allavega myndir á sunnudag  

Við Lilja fórum eina ferð í dag og Myrkvi karlinn fékk að hlaupa með. Hann stóð sig eins og hetja.. alveg eins og Bylting um daginn. Teymist eins og hundur. Þetta var nú pínu erfitt fyrir hann en það var auðvitað passað upp á að ofgera honum ekki, hann er svo mikill sláni.

Á morgun á ég svo gegningarnar og ég geri ráð fyrir að fara allavega eina ferð í hnakknum. Svo er það bara að reyna að koma Atla í gegn um lokaverkefnið á lokasprettinum.. sem á örugglega eftir að ganga hjá drengnum  .. vinnuhelgi hjá mér og Atli fer austur.

Eitt að lokum.. Karen frænka (www.123.is/ior) er komin með dagsetninu á aðgerðina sína.. það eru 12 dagar í þetta.. semsagt 19. maí. Hún er algjör hetja og hefur staðið sig svo vel. Ég hlakka til að fylgjast með henni ganga í gegn um þetta ferli.. og knús til þín Karen mín 

06.05.2008 21:37

Myndir af Vöku

Jæja þá er enn ein vikan á góðri leið og verður búin áður en maður veit af.

Hér koma myndir af Vöku "minni" sem ég er að kaupa. Hún er svo fín með ljósa faxið sitt





Við Lilja fórum saman eina bunu í kvöld og auðvitað fór ég á sparimerinni "minni" henni Vöku. Lilja er svo auðvitað að temja Byltingu og það gengur bara ok. Hún er búin að fara eina götu á henni og hún komst allavega heim í heilu lagi.. það dugar mér í bili  Reyndar þarf ég að panta tíma fyrir hana hjá Björgvini dýra í munnskoðun þar sem okkur grunar að eitthvað sé að angra hana.


Birta "mín" þessi leirljósa blesótta er ekki komin suður en ég vona að ég fari að frétta eitthvað af hennar ferðum.


Ég var á námskeiði í vinnunni í dag og verð líka meiri hlutann af morgundeginum. Svo er ég á hraðlestrarnámskeiði á miðvikudagskvöldum en svo er bara kominn fimmtudagur og á hesthúsið. Ég er svo að vinna næstu 2 helgar en þá er ég líka hætt í blómabúðinni og farin að njóta sumarsins

Atli er á fullu að reyna að klára skólann sinn. Hann er að vinna að lokaverkefninu sínu en það hefur veri svo mikið að gera í vinnunni hjá honum svo hann er kannski ekki kominn þangað sem hann hefði viljað. Ég reyni að hjálpa eins og ég get.. en hvað veit ég um rafmagns"eitthvað" hehe Ég held að ég haldi mig bara við heimildaskrána

Ég sit núna á verkstæðinu hjá Atla en við þurftum aðeins að skjótast í vinnuna til hans. Ég er bara að blogga á meðan hann bjargar einhverri flugvél. Ég fór inn í flugvélaskemmuna áðan.. vá hvað þetta er stórt! Ein flugvél, eins stór og hún er rúmast bara mikið meira en vel þarna inni. Það er svolítið spes líka að sjá inní flugvél sem er búið að taka í sundur í frumeindir.. og svo á maður að treysta einhverjum gaurum til að muna að tengja alla víra aftur hehe.. úff.. ég held að ég taki ekki að mér að fara í fyrstu ferð

Ég er með fleiri myndir sem ég á eftir að skella hér inn, t.d. myndir af vöku í reið. Svo á ég líka nýjar myndir af Byltingu.

Jæja þetta er gott í bili.. þangað til næst..

Flettingar í dag: 29
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 226
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 174646
Samtals gestir: 24120
Tölur uppfærðar: 4.5.2024 06:49:09

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar