Mánaskál

Færslur: 2009 Ágúst

30.08.2009 19:30

Alir komnir "heim"

Jæja nú er svo langt síðan ég bloggaði að ég veit varla hvar ég á að byrja eða enda. Við semsagt komum heim síðasta sunnudag en Atli fór aftur norður á föstudag með Stefni til að halda áfram með ýmis verkefni. Það er víst nóg eftir enn!

Birta og Vaka eru búnar í Kjalferðunum sínum en núna vantar mig bara að koma þeim í bæinn. Ég hef ekki bíl í verkið og þarf eitthvað að finna út úr þessu. Ég veit ekki annað en að þetta hafi gengið vel allavega vildi einn túristinn endilega kaupa aðra hryssuna um daginn en nei hún var ekki til sölu. Ég held að Össi hafi ætlað að leggja á Birtu í þessari síðustu ferð en ég hef ekki fengið neinar fregnir af þeirra ævintýrum. Ég ætla að vera með prinsessurnar á húsi fram að stóðréttum og ef allt gengur upp þá fer ég ríðandi í stóðreksturinn. Ég er að krossa putta og vona að hestakerran mín verði komin á götuna fyrir stóðréttirnar en pabbi er á fullu að vinna í því fyrir mig. Ég hlakka líka til að geta hestast smá með Ylfu og Konna í Heimsenda. Það verður skrítið að vera ekki í Gusti með þær, ég hef aldrei verið annars staðar og rata ekkert þarna uppfrá. Ég gæti trúað að mig vanti "göturnar mínar", það er nefnilega svo gott að ríða göturnar í Gusti í hinum ýmsu æfingum. En annars vona ég bara að ég fái ekki bara "skemmtilega" haustveðrið sem nú fer bráðum að skella á.

Þórdís Katla fékk göngugrind um leið og við komum heim og er ótrúlega fljót að læra inn á hana. Hún er semsagt farin að rífa og tæta allt sem hún kems í. Nú á sko að láta mömmu sína vinna fyrir fæðingaroflofinu emoticon Hún er orðin svo sterk og dugleg að standa að ég spái því að hún verði farin að hlaupa fyrir eins árs... með fyrirvara um að bumban skemmi ekki jafnvægið hennar hehe. Hún er núna að detta í 7mánaða! þetta líður sko endalaust hratt.



Skólinn minn byrjar á morgun sem er bara fínt en það verða viðbrigði að vera ekki lengur í fríi. Alvara lífsins er að taka við með öllum sínum verkefnum og prófum. Ég er skráð í fullt nám og ætla að halda því til streytu. Ég er orðin allt of gömul til að dunda mér í skólanum.

Við Þórdís eyddum gærdeginum hjá mömmu og Lólý og hittum líka Agga bróðir sem kom upp á land á reunion. Við komum ekki heim fyrr en í gærkvöldi og svo fórum við aftur á flakk í dag en þessum degi var eytt í húsdýragarðinum í góða veðrinu.







Ég setti inn fleiri myndir myndaalbumið um daginn, allt undir Mánaskál sumar 2009. Ég held að þá sé nú flest komið þar inn.

10.08.2009 19:58

Fríið er að taka enda

Sumarfríið er að verða búið.. ohh hvað ég vildi að það væri hellingur eftir af því. Svona er þetta bara víst. Við erum búin að eiga frábært sumar svo ég ætla að vera þakklát fyrir það. Við höfum fengið margar heimsóknir og margt verið framkvæmt og margt annað uppi á tengingnum. Ég held að það sé ekki búið að biðja um meira.

 

Heyskapur er "hafinn" í Mánaskál en pabbi startaði honum með því að slá hluta af túninu fyrir neðan veg, neðan við bæinn. Semsagt, sláttuvélin gamla virkar enn! Þökk sé Signýju og Magnúsi því þau áttu gamla hnífa í svona sláttuvél. Það dugar víst ekki að slá með ¼ af hnífunum hehe. Mér sýnist að það verði ekkert slegið í þessari viku en kannski verður þurrkur í þeirri næstu.

 

Atli fór í vinnuferð á föstudag svo við Þórdís Katla erum einar í sveitinni að dunda okkur. Þórdís sendir pabba sínum sms til að segja honum hvað hún er að bardúsa með mömmu svo pabbi missi ekki af neinu þessa daga sem hann er í burtu. Stelpan er orðin svo stór og dugleg að ég er bara ekki að trúa því. Hún vill orðið helst standa, situr til borðs með okkur, er farin að borða smá alvöru mat, fer alein að sofa, burstar tennurnar og allt! Jeminn hvar endar þetta! Hún fór í 6 mánaða skoðun í síðustu viku og þyngdist um rétt tæpt kíló á einum mánuði og lengdist um 3 cm.. þrífst sko vel í sveitinni daman! Þórdís Katla er semsagt tæp 9 kg og 70 cm.

 

Ylfa og Konni gistu eina nótt hjá okkur á fimmtudag og stoppa vonandi lengur næst. Það var heljarinnar ferðalag á þeim þar sem þau komu alla leið frá Egilsstöðum í heimsókn til okkar! Mamma og pabbi komu svo á föstudag og Sveinbjörg og Gunnar gistu eina nótt áður en þau héldu áfram í sínu ferðalagi.

 

Um verslunarmannahelgina voru Sveinbjörg og Gunnar hjá okkur og Biggi bróðir Gunnars og Bryndís konan hans. Karlarnir grófu rás fyrir vatnsrörið í rafstöðina og Biggi kom með suðugræjur til að sjóða saman rörin. Þetta var ansi góð vinnuhelgi enda góður mannskapur að aðstoða Atla. Rörið er nánast komið alla leið og þetta verður klárað núna þegar Atli kemur norður aftur. Svo geri ég ráð fyrir að Atli fari á fullt við að reisa rafstöðvarhúsið fyrir veturinn.

 

Það er alltaf eitthvað sem þarf að klára fyrir veturinn og núna er örugglega í meira lagi af svoleiðis verkefnum. Þetta ætti nú alveg að hafast allt hjá okkur enda vinnur Atli yfirleitt á við fleiri en einn mann, alltaf svo rosalega duglegur þessi elska!

 

Vaka og Birta fóru yfir í Skagafjörð á föstudaginn og lögðu af stað suður yfir Kjöl á sunnudag. Þær ætla að trimmast á fjöllum í 3 vikur áður en þær koma á hús í Heimsenda. Ylfa og Konni ætla að skjóta skjólshúsi yfir okkur þrjár í september. Svo er aldrei að vita nema að ég geti aðstoðað þau eitthvað en það á sko ekkert að slaka á í tamningnum þó Ylfa eigi von á sér í október. Mér skylst að Konni verði settur á alla gripina þetta haustið og Ylfa verði meira í því að skipa fyrir hehe nei nei ég er nú bara að grínast en það er ljóst að Ylfa gerir örugglega minna en hún er vön!

 

Annars er allt gott héðan að frétta, ég man ekki fleira í bili.. þangað til næst..

 

Kv. Kolla og Þórdís Katla sveitakerlur

 

 

 

 

 

04.08.2009 17:29

Nokkurra daga gamalt blogg.. fyrst að koma inn núna

Tíminn líður sko áfram, þetta frí verður búið áður en við vitum af. Hugsanlega fer Atli erlendis í næstu viku sem myndi stytta fríið helling.


Framkvæmdir ganga vel. Síðustu helgi komu Sveinbjörg og Gunnar og Tinna systir Atla líka. Karlarnir smíðuðu glugga í kjallarann og kláruðu að klæða suðurgaflinn. Sveinbjörg dúllaðist með Þórdísi Kötlu og meira að segja var slegist um að fá að fara á fætur með henni á morgnana.. merkilegt!

Við Tinna skelltum okkur yfir á Sauðárkrók á föstudagskvöldinu þar sem það var ball á Króknum. Fullt af leikurum voru þar við tökur á bíómynd svo Tinnu langaði að kíkja á stemmninguna þar. Atli afþakkaði ballferð þar sem hann væri kominn með vinnumann og mætti engann tíma missa, við fórum því bara tvær.


Á laugardeginum fórum við Tinna á hestbak. Ég lagði á Vöku fyrir hana en fór sjálf á Birtu. Þetta var frekar skrautleg ferð gekk nú allt vel samt en þetta byrjaði nú t.d. á basli við að koma gjörð utan um Birtu.. hún er nú meira stykkið! Þetta endaði svo þannig að gamli hnakkurinn fór á Vöku og minn á Birtu en ég ætlaði að vera svo almennileg að lána Tinnu góða hnakkinn en hinn bara komst ekki yfir bumbuna á Birtu minni þrátt fyrir aðstoð Atla og Gunna. Eina gjörðin sem var þá á lausu var einföld gjörð fyrir Birtu. Tengdapabbi furðaði sig á því að ég notaði ekki reiða en ég sagði honum að ég væri eiginlega hætt að nota svoleiðis, hefði ekkert við hann að gera. Nema hvað að ég þurfti sko aldeilis á honum að halda í þessari ferð! Ég þurfti að fara mörgum sinnum af baki til að laga hnakkinn, hann rann alltaf fram á haus! Þetta var eiginlega hálf fáránlegt, ég man ekki eftir að hafa lent í svona rosa vandræðum áður. Við fengum svo á okkur ausandi rigningu og til að toppa þetta allt þá þurftum við að hitta bíl, svona til að það hafi örugglega einhver séð til mín fram á hálsi á hryssunni haha! Ég hefði eiginlega viljað eiga mynd af þessu. En það voru nú samt allir sáttir eftir þessa ferð. Birta mín stóð sig bara vel og Vaka eins og engill með Tinnu.


Ég fór svo á Birtu aftur í vikunni og teymdi þá Vöku með. Birta var ekkert rosa spennt fyrir því að hafa hross svona nálægt sér en svona er bara lífið. Þetta gekk samt bara ágætlega. Birta er svo ótrúlega feit, ég veit ekki hvernig hún væri ef hún fengi að ganga laus um dalinn núna.. hún yrði eins og kúla held ég bara. Ég vil endilega koma henni í brúkun í vetur til að hún fái ekki frí annan vetur þannig að ef einhvern vantar auka reiðhross þá er hún á lausu.. tekur frekar mikið pláss en þarf lítið sem ekkert að borða hehe. Hún er rosalega gæf og skemmtilegur karakter finnst mér, góður fótaburður og falleg á litinn.. hvað er hægt að biðja um meira :o)

Hér á bæ er allt á fullu í virkjana framkvæmdum. Rörin fyrir rafstöðina komu hingað heim á hlað í vikunni á flutningabíl. Bílstjórinn var nú ekki nema ca tvítug stelpa.. ég skammaðist mín nú eiginlega fyrir að geta varla bakkað station bíl þegar ég sá hvað þessi var flink á bílnum. Ég þarf greinilega að fara að æfa mig hehe. Hingað er svo mætt fólk til að sjóða saman rörin og grafa þau niður. Gaman gaman allt að gerast!


Petra og Leifur komu hér í heimsókn á mánudaginn með stelpurnar sínar. Það var rosalega gaman að sjá frænkurnar Þórdísi Kötlu og Vigdísi Evu saman. Þær eru ótrúlega svipaðar í þroska og getu þó að þær séu ótrúlega ólíkar. Við tókum helling af myndum af þeim saman og ég hlakka til að sjá hverju Petra náði á filmu. Mínar myndir verða ekki public fyrr en ég kem heim úr fríinu, það er bara ekki hægt að gera neitt hérna með þessa nettengingu.


Signý og Magnús komu á saman tíma í heimsókn með Björn Elvar og Stefaníu Dúfu með sér. Það er alltaf gaman að fá sveitunga sína í heimsókn og alltaf nóg að spjalla um. Við Atli vorum á kafi í að tæma háaloftið þegar gestirnir fóru að streyma. Eitt af því sem kom niður af lofti var hestur! Já, afi hefur greinilega látið súta skinnið af einhverju hrossi en Signý heldur að þetta sé hann Bleikur hans afa. Nú er ég að reyna að finna stað fyrir skinnið og fá samþykki fyrir því veggjaskrauti. Atli er nú ekki spenntur en við erum nú með hreindýr uppi á vegg heima í Reykjavík.. er þá eitthvað að því að vera með hest á vegg í sveitinni.. mér finnst það bara flott :o)


Ég kíkti á Byltingu í tamninguna í dag. Tamningunni miðar vel áfram og daman er bara í fínum gír. Ekkert óvænt og enginn vitleysisgangur. Víði líst bara ágætlega á hana og hún er bæði að bæta brokk og tölt. Merkilegt nokk að hún brokkar núna ekki nema utanvega, svona koma þessar sparimerar á óvart, ég sem var hrædd um að hún yrði rosalega klárgeng.., nei takk mín vill helst tölta.


Annars er að sjálfsögðu bara allt gott að frétta af okkur, lífið í sveitinni er yndislegt. Hér á ég heima.. mig langar ekkert aftur í bæinn. Gestir eru alltaf velkomnir! Ég á enn von á Lilju og co og Ylfu og Konna og ég get lengi bætt við :o)

  • 1
Flettingar í dag: 74
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 63
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 173235
Samtals gestir: 23926
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 20:57:25

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar