Mánaskál

Færslur: 2009 Júní

29.06.2009 07:45

Fréttir úr fríinu

Jæja þá er sumarfríið hafið.. æðislegt! Við lögðum af stað seinnipart fimmtudags en ég hafði eytt deginum í að græja okkur fyrir fríið, pakka niður, versla og allt það. Atli fór aftur á móti austur fyrir Selfoss snemma morguns til að kaupa traktor! Jei loksins traktor í Mánaskál J Traktoramálin enduðu þannig að vélin fór á bíl í Staðarskála og Atli keyrði svo traktorinn þaðan.



Á föstudag fór ég með hestakerru yfir í Skagafjörð að sækja Vöku. Hún var að koma úr Kjalarferð. Vaka stóð sig vel eins og við var að búast og er búin að hlaupa af sér töluvert af aukakílóunum. Núna þarf ég bara að fara að ríða út! Hrossin tóku henni mjög vel þegar henni var sleppt í girðinguna. Ekki eitt bit eða spark, ekki einu sinni kollhúfur, bara eins og hún hafi alltaf verið hérna.

Ég er ekki búin að fá járningu ennþá en það stendur til bóta.

Ég fór að kíkja á Byltingu í dag og ég hef bara gott af henni að segja. Það gengur vel og hún er eins og hún á að sér að vera. Primadonnan virðist hafa allan gang, og hún er rúm og með góðar hreyfingar. Ég hélt að hún væri pottþétt klárhryssa en hún virðist núna vera alhliða eftir allt. Ég er bara ánægð með dömuna og bara gott hljóð í tamningamanninum.


Atli er rosa duglegur eins og við var að búast, hann er strax farinn að grafa og smíða og allt það! Í dag sótti hann svo litla beltagröfu til að grafa meðfram húsinu.. það er verið að undirbúa fyrir pallasmíði og húsklæðningu!


Ég reyni að henda inn fréttum af okkur öðru hverju en ég efast um að myndirnar komi inn að ráði fyrr en við erum komin í bæinn.

23.06.2009 20:00

Langþráð frí..

Litla fjölskyldan fór austur á Klaustur á svokallaða Mosahelgi. Þar kemur móðurfjölskyldan hans Atla saman einu sinni á ári á Mosum rétt fyrir utan Klaustur. Hátíðin var vel mætt, 58 stykki ef ég man rétt. Þórdís Katla fékk fullt af athygli hjá ömmum og frænkum og allir skemmtu sér vel.

Á sunnudaginn kíktum við á hestaþing Kóps. Veðrið var æðislegt og ég skemmti mér mjög vel í brekkunni. Held þó að Atla hafi þótt þetta heldur mikið af því góða en hann var þó ótrúlega þolinmóður emoticon alltaf svo góður þessi elska. Ég hafði sérstaklega gaman af barnaflokknum því það er svo gaman að sjá svona duglega krakka og sumir voru heldur ekki háir í loftinu!

Ég var með myndavélina með mér og tók eitthvað af myndum. Myndirnar eru komnar í myndaalbumið.


Sigurvegari í A-flokk


Sigurvegari í B-flokk


Sigurvegari í Tölti


Barnaflokkur

Við Atli erum enn ekki komin af stað í fríið góða og langþráða. Bíllinn er eitthvað að stríða okkur og Atli liggur yfir honum allan daginn til að koma okkur af stað. Það lítur út fyrir að þetta sé að hafast og við ættum að komast í þessari viku norður. Ég get ekki beðið! Ég hlakka svo til að fara að dunda í sveitinni og fá á mig hestalyktina góðu.. Mmmmm love it!

Ég verð að einhverju leyti nettengd í Mánaskál og held því áfram að blogga. Ég verð vonandi dugleg að skella inn myndum í leiðinnni emoticon

 

10.06.2009 09:45

Ferð austur og fleira

Við vorum ekki heima síðustu helgi frekar en aðrar. Við skelltum okkur austur á Klaustur í þetta skipti. Atli var að vinna fyrir veiðifélagið og ég að hestastússast.

Siggi hjálpaði mér að redda hestakerru og ég fékk svo far fyrir Vöku í bæinn með hestamönnum úr Keflavík. Við Siggi fórum saman að sækja merina niður á aur og það var auðvitað bara ekkert mál. Ég var orðin dauðhrædd um að það væri orðið stórmál að umgangast hana og erfitt að ná henni en það er víst orðið ljóst að það eina sem þarf er að eiga kúlur í vasanum.. þá eru allir vinir hennar emoticon jæja það var nú gott að það var ekki meira að henni en að hún er vön að fá eitthvað þegar það á að taka hana. Ég fór svo sjálf með hana á kerru út í Álftaver og þaðað fór hún áleiðis í bæinn. Hún var æði lengi á leiðinni þar sem karlarnir voru í einhverjum hestaleiðangri í leiðinni. Þetta fór bara allt vel og ekkert mál með hana. Ylfa og Konni redduðu mér svo gistingu fyrir gripinn í Heimsenda. Vaka smellpassaði inn í stíu með feitasta hrossinu þeirra, hann var í aðhaldi og Vaka þurfti svosum ekki mikið að éta heldur. Henni samdi líka vel við hrossin úti í gerði.

Í Hörgsdal fæddist eitt folald í vor, brúnstjörnóttur hestur undan Blesu frá Mánaskál og líklega undan ógelta folanum hans Sigga (sem ég man ekki hvað heitir í augnablikinu). Hryssan fór þó í stóðhestaleiðangur síðasta sumar en þó er talið líklegra að hún hafi fyljast heima áður en hún fór til hestsins. Blesa er undan gömlu merinni minni frá afa í Mánaskál, semsagt systir Mána heitins sem var í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér finnst voða gaman að þessi hryssa skuli vera til þar sem Máni var eina hrossið sem ég hélt undan gömlu minni. Það er til rauðblesóttur hestur undan Blesu líka í Hörgsdal sem Siggi er að temja.







Nokkrar myndir í viðbót af hrossunum í myndaalbuminu

Í gær fórum við Atli svo í annan hestaleiðangur með Vöku. Við fengum lánaða kerru hjá Lilju og Bigga og keyrðum hana austur að Kjóastöðum en þaðan fer hún svo yfir Kjöl. Það var ekkert mál að sækja hana út í gerði og taka hana, ekkert mál að teyma hana upp á kerru.. hún er ekki svo vitlaus blessunin... og svo er hún líka alltaf svo falleg emoticon  kemst maður ekki langt á því??

Hestaferðalagið með Vöku gekk bara vel en ég heimleiðinni stoppuðum við á Glóru en þar var einmitt gulrótin sem dró Atla með mér austur.. traktórinn sem okkur langar svo í! Atli er búinn að vera með hugann við þessa vél í nokkra mánuði, eitthvað búið að karpa um verð og svona svo þegar hann var loksins ákveðinn að kaupa vélina og borga það sem karlinn vildi fá fyrir hana þá var hann líklega hættur við að selja hana! Þetta er nú bara svona ef maður hikar.. og svo er maður bara oft svo ferlega óheppinn. Nema hvað karlinn hafði samband aftur í gær og vélin er föl eftir allt saman emoticon Við fórum því að skoða hana svona formlega og því miður er hún meira ryðguð en okkur fannst áður svo nú erum við aftur orðin efins um að kaupa hana.. þetta er voðalega erfitt að ákveða. Þetta skýrist örugglega á næstu dögum.. spennó! 

Eitthvað fleira er í hestafréttum, t.d. að Bylting er á leið í tamningu til annars aðila. Ég vona bara að það gangi vel. Ég kem með nánari fréttir af henni síðar. Hestakerran okkar Sillu og Lilju er enn ónothæf í Heimsenda eftir að hún missti undan sér annað hjólið. Ég er búin að setja mig í samband við Sillu og vonandi verður það drifið af núna að laga kerruna. Við þurfum eitthvað að spá hvað á að gera, hversu miklu á að kosta upp á hana en þetta verður vonandi afgreitt sem fyrst þar sem mér finnst óþolandi að vera kerrulaus!

Annars er bara allt gott að frétta, ég get ekki beðið eftir því að komast norður og dunda í hrossunum mínum. Ég vona að ég hafi nægann tíma og veðrið verði okkur frekar hliðhollt.

04.06.2009 05:49

Önnur sveitaferð

Við skelltum okkur aðra ferð í Mánaskál, við vorum þar síðustu helgi og fram á þriðjudag. Atli var duglegur eins og alltaf og í þessari ferð voru t.d. gluggarnir á skemmunni pússaðir og málaðir og þakið á skemmunni fékk fyrstu umferð. Það er sko allt annað að sjá heim á bæ þegar þökin eru orðin svona "sveitabæjarauð".

allt annað að horfa heim á bæ!

Hrossin hafa það fínt, koma heim á hlað til að þiggja brauð og klapp. Mér leiðist sko ekki að hafa þau svona nálægt mér og ég hlakka rosalega til sumarfrísins! Það stendur sko mikið til, ég ætla mér að gera svo mikið.. vona bara að ég fái tímann í það. Hrossin eru ofarlega á listanum og ætla ég að reyna að vera með allt á járnum og temja smá í rólegheitunum. Kannski förum við bara norður í júní og verðum allavega út júlí emoticon Þvílíkur draumur!

Það eru miklar hrossapælingar á þessum bæ. Ég er búin að fá þá flugu í hausinn að halda öllum hryssunum mínum þetta árið því ég verð ekki með neitt á húsi í vetur. Það þýðir auðvitað að ég verði hestlaus næsta sumar en það er örugglega þess virði. Ég myndi brúka þær í sumarfríinu þetta árið áður en þær fengju leyfi til að fara á karlafar. Ég sé alveg hvernig ég yrði næsta vor.. myndi ekki sofa þegar hryssurnar væru komnar á tíma!

Ég verð líka alltaf vitlaus þegar ég sé hross sem mig langar í. Í þetta skiptið rak ég augun í systur Birtu minnar undan Gamm frá Steinnesi. Þetta er virkilega sæt klárhryssa sem ég væri sko meira en til í að bæta í stóðið mitt.. en hún kostar kannski dálítið marga peninga emoticon Ég ætti kannski bara sjálf að halda Birtu undir Gamm! Svo veit ég reyndar um aðra systur hennar á söluskrá en sú er ótamin, örugglega mjög efnileg og spennandi samt. Allavega flott á myndum.

Það er allt í einu eins og við Atli eigum fullt af fé.. allavega lítur út fyrir það ef það er horft heim á bæ til okkar þessa dagana. Kindurnar sækja voða mikið í okkur og virðast ekki fá straum þegar þær fara inn í öll hólf hjá okkur. Reyndar er alveg greinilegt að þær kunna þetta því þær setja undir sig hausinn og hlaupa þegar þær ætla í gegn! Svo var ég búin að taka eftir því líka að þær stoppa hjá hrossunum og fá sér salt og vítamín. Ætli þetta verði ekki fastur áfangastaður hjá þeim í sumar á rúntinum. Ég held að við þurfum bara að eignast kindur líka, það þarf hvort sem er að gefa hrossunum.. er ekki bara hægt að gefa fé út rúllur líka og leyfa þeim að ganga inn og út úr skemmunni? Bara hugmynd.. ég veit allavega að það væri mjög flott að eiga fulla kistu af lambakjöti núna þegar grilltímabilið er að renna í garð!

Það styttist í að mamma og pabbi hefji sitt sumarfrí. Þau verða fyrir norðan að mestu leyti og pabbi mun sjálfsagt dunda eitthvað fyrir okkur. Ég er búin að leggja inn pöntun fyrir hestarétt/gerði sem vonandi verður fyrsta mál á dagskrá svo ég geti hafist handa með hrossin mín fljótlega eftir að ég kem norður. Ég ætla að panta járningu um leið og ég veit hvenær við förum norður til að slóra nú ekkert.

Mig langar voða mikið að hafa einn barnahest í sumar, bara svona rétt til að leyfa krökkunum að fara á bak þegar þau koma í heimsókn. Birta og Kári koma til Íslands í júní og ætla að koma í heimsókn norður til okkar áður en þau fara heim til Svíþjóðar. Einnig munu Ágúst og Sandra vera hjá okkur. Ekki væri nú verra ef ég gæti notað sama hross í "tamningarnar" þannig að ef einhver lumar á svona hrossi sem mætti vera í sumardvöl hjá mér gegn klappi og knúsi þá endilega hafið samband!

Við erum á leið austur í dag og verðum yfir helgina. Atli þarf að veiðistússast eitthvað fyrir veiðifélagið og ég ætla að sækja Vöku mína og koma henni á Kjóastaði. Lilja ætlar að taka hana með sér yfir Kjöl sem er bara besta mál, Vaka kemst þá í form áður en ég byrja sumarfríið mitt.

  • 1
Flettingar í dag: 58
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 439
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 166227
Samtals gestir: 22949
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 12:08:20

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar