Mánaskál

16.10.2008 11:09

Akureyri, fréttir af Birtu og fleira

Lífið heldur áfram..

Ég er ekki enn að standa mig í blogginu, það er hreinlega allt of mikið að gera hjá mér. Bara vinnan eða bara skólinn væri alveg nóg fyrir mig en þýðir ekkert að kvarta, þetta er bara tímabil sem líkur 15. des þegar ég klára jólaprófin.. og vá hvað ég get ekki beðið! Verkefnastaðan í skólanum er orðin gríðarlega þung og ég veit ekki alveg hvar þetta endar allt saman. Þetta kemur nú samt bara allt í ljós um jólin, nú í versta falli fell ég, það gerist ekkert verra en það emoticon

Ég er búin að skipuleggja ansi mikið eftir 15. des.. eins og það verði eitthvað nægur tími í allt og ekkert þá.. 9 dagar til jóla.. allar jólagjafir eftir, skreyta húsið, þrífa og allt það emoticon  en það er eins og allt annað.. jólin láta ekki bíða eftir sér, þau koma sama hvort maður er tilbúinn eða ekki. Ég þarf líka að spýta heldur betur í lófana eftir prófin og skipuleggja mig og gera og græja fyrir heimkomu barns í janúar.. vá hvað það er skrítið að segja þetta! Mér finnst alveg tvennt ólíkt að vera ólétt (sem hingað til hefur verið ágætt.. en er að þyngjast) og að hugsa til þess að eftir aðeins ca 3 mánuði þá eigi ég dóttur eða son! Ég er ekkert viss um að ég sé að átta mig á því ennþá hvað það eiginlega þýðir. Þetta er bara eins og með jólin.. lætur ekki bíða eftir sér og kemur sama hvort maður er tilbúinn eða ekki. Ég er auðvitað samt jákvæð og hlakka bara mikið til, það má enginn misskilja það þó svo að ég sé eitthvað að velta þessu svona fyrir mér.

Ég fór á fyrstu fjarnemadagana mína á Akureyri í síðustu viku. Ég flaug norður á miðvikudegi eftir vinnu og var búin að leigja íbúð frá starfsmannafélagi Kaupþings í bænum. Ég bauð svo nokkrum stelpum að vera með mér enda hefði ég dáið úr leiðindum ef ég hefði átt að vera þarna alein. Við vorum þarna 5 þegar mest lét og höfðum það bara fínt. Við vorum auðvitað lítið heimavið þar sem dagskráin í skólanum var mjög stíf og svo var farið út á lífið á kvöldin. Eftir að sitja í skólanum allan daginn og á pöbb á miðvikudags- og fimmtudagskvöldi þá var ég eiginlega bara búin á því. Á föstudeginum var einmitt kennsla frá 8 um morguninn til 8 um kvöldið og það var bara meira en nóg fyrir mig.. ég hafði mig ekki út á djammið loksins þegar aðal djammið átti að vera! Það var svo kennsla á laugardeginum líka og það seint að ég hefði ekki átt að ná síðasta flugi heim, ég ætlaði því að fara á sunnudagsmorgni með flugi. Laugardagsfagið var svo tilgangslaust að kennslustofan hálf tæmdist í hléinu og ég dreif mig bara líka. Beint heim í íbúðina að þrífa og ganga frá og svo upp í flugvél og heim! Sunnudagurinn varð ekki til mikilla stórræða hjá mér þrátt fyrir næg verkefni, ég þurfti bara að jafna mig á þessari törn. Svo til að toppa allt þá var skólavika strax vikuna á eftir svo ég er eiginlega ekki búin að ná mér niður ennþá.

Það er allt gott að frétta af Birtu minni. Atli sá um umbúðaskiptin á meðan ég var á Akureyri og fer að verða alvanur þessu hestaveseni hjá mér emoticon Ég fór með Atla í umbúðaskiptin á þriðjudag og þá leit sárið bara rosalega vel út. Það hefur minnkað rosalega mikið og það er komið hrúður yfir það allt, þetta er hætt að vera svona blautt og vessandi og virðist vera góður gróandi í því. Hún finnur líka greinilega lítið til í þessu núna þó maður krukki í því. Hún er orðin ansi lituð á fætinum eftir allt joðið og verður örugglega svona lituð í dágóðann tíma.. lítur frekar bjánalega út. Annars hálf brá mér þegar ég sá hana í vikunni því hún var svo tætt, ég skildi eiginlega ekkert í þessu. Líklega er ég þó búin að fá skýringuna þar sem hún hafði víst verið að slást óvanalega mikið úti í gerði. Ég vona bara að hún sé ekki að gera Lilju mína eða aðra geðveika með dólgshættinum. Hún heitir auðvitað Birta og Birtur eru alltaf prisnessur og láta ekkert vaða yfir sig. Ég þekki allavega aðra Birtu sem fellur vel í þennan flokk og ég held að Lilja viti alveg hverja ég er að tala um emoticon  Annars er Birta örugglega orðin leið líka á hangsinu, búin að vera inni í mánuð án brúkunar. Ég væri að verða geðveik líka held ég. Það er spurning hvort það megi eitthvað fara að eiga við hana bráðlega þar sem sárið er komið svo vel á veg. Ég trúi ekki öðru en að það megi allavega fara með hana í gerðisvinnu, tvítaum og eitthvað svona sniðugt og kannski teyma hana með. En sjáum til hvað verður.

Ég tók myndir af Birtu sem ég skelli vonandi inn í kvöld.

Ég hugsa mikið til hrossanna minna í Mánaskál þessa dagana. Greinilega komið haust í mig. Við Atli stefnum á norðurferð þarnæstu helgi til að huga að hrossunum. Ég hefði viljað fara þessa helgi en Atli kemst ekki svo við förum þá næstu í staðinn.  Nú ef svo fer að Atli komist ekki þá fer ég sjálf og óska hér með eftir ferðafélaga þar sem ég langar síður að fara alein. Það þarf að bæta við hagann hjá þeim svo þau hafi það nú gott í sveitinni. Ég geri ráð fyrir að við þurfum að skella niður nokkrum staurum og klára síðustu reddingarnar fyrir veturinn. Svo vona ég að Birta fari að komast norður aftur.

Það virðist ekki vera mikið að frétta hjá mér þessa dagana, lífið er aðallega skóli og vinna.. þangað til næst..


Flettingar í dag: 322
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 1019
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 188727
Samtals gestir: 25612
Tölur uppfærðar: 18.5.2024 08:14:04

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar