Mánaskál

Færslur: 2008 Febrúar

28.02.2008 09:16

Tamning að byrja

Ég kíkti í hesthúsið í gærkvöldi og dundaði aðeins í hryssunni. Þetta er nú allt létt til að byrja með, ég tók upp fætur og klappaði og strauk hægri vinstri. Svo setti ég á hana múl og teymdi hana út. Samba kom með mér í hesthúsið og fylgdist náið með þessum aðferðum. Ég teymdi hana aðeins um gerðið og það var ekki hik á henni, alveg eins og hundur bara. Svo leyfði ég henni að hreyfa sig aðeins í gerðinu. Hún byrjaði á því að leggjast og velta sér, rosalega ánægð með frelsið. Svo tók hún smá montrúnt um gerðið og lék sér í loftköstum. Ég var rosalega ánægð þegar ég fór úr hesthúsinu því mér líst svo vel hana, hreyfingarnar góðar og allt til fyrirmyndar. Ég hlakka SVO til að byrja almennilega á henni. Ef ég kemst í kvöld þá ætla ég að lónsera hana í fyrsta skipti.

Ég tók auðvitað Canon EOS myndavélina mína með en svo var ég búin að fikta svo mikið í henni að ég strandaði. Ég fékk ekkert vit út úr henni. Ég þarf greinilega að kíkja með vélina í heimsókn til Ásgeirs aftur og biðja hann að leiðrétta ruglið í mér. Ég er auðvitað alltaf með litlu myndavélina með mér líka þó að hún sé prump í samanburði við hina.


Ohh svo gott að leggjast í snjóinn


..og velta sér


svo gaman að vera til :)

Bylting fylgdist mikið með því sem var að gerast í kring um sig. Það er nú auðvitað ein "aðal umferðaræðin" framhjá gerðinu hennar, mikið af fólki sem ríður þar framhjá. Þegar einhver kom ríðandi þá hljóp hún meðfram gerðinu samferða útreiðafólki, frekar sætt. Svo sýndi daman auðvitað bæði tölt og brokk! Ég er voðalega spennt fyrir framhaldinu.

Svo gat ég líka tekið hana út í gerði og teymt hana inn á múlnum. Ég átti frekar von á því að hún myndi ekki láta ná sér og færi frekar inn á eigin forsendum.

Ég er allavega bara mjög sátt með mitt :)

26.02.2008 10:29

Bylting kom í gærkvöldi, nýtt myndaalbum

Ég var að búa til nýtt myndaalbúm á síðunni undir Hestar. Ég á svo eftir að setja fleiri myndir þar inn.

Kristján ætlaði að vera í Gusti hálf tólf í gærkvöldi. Ég var orðin svo þreytt að ég varð að leggja mig um tíu. Svo hringdi bara síminn minn fyrir klukkan 23 og þá var Kristján alveg að detta í Gust. Úff ég þurfti því að drífa mig fram úr rúminu og fara út í kuldann.

Bylting teymdist eins og hundur af bílnum og inn um öll hlið og inn í hús. Það er ekki hægt að kvarta undan þessari elsku, ekki enn allavega! Hún var voðalega sátt að komast inn í stíuna sína, það beið meira að segja hey í stallinum. Ég reyndi að sýna henni vatnsskálina þar sem ég var smá hrædd um að hún myndi ekki fatta að fá sér vatn úr henni. Hún vildi samt ekkert fá sér neitt úr þessari skál svo ég dreif mig heim að sofa.

Lilja sendi mér svo sms í morgun og sagði að Bylting hefði verið mjög þyrst þegar hún kom í húsið. Hún hafði greinilega ekki náð að fá meira vatn í skálina þar sem hún er aðeins stíf. Við látum bara laga það. Að öðru leiti leit allt vel út og Bylting virðist hafa það gott, eins og prímadonnum sæmir.

En jæja.. ég er víst í vinnu.. ég fer svo í hesthúsið á eftir og heilsa upp á dömuna :)

25.02.2008 21:46

 

Búin að klára bloggið á undan..

Dagurinn byrjaði á ræktinni í morgun.. ég var nú samt ógurlega þreytt. Það er svo gott að "þurfa" að keyra Atla í vinnuna.. þá fer ég í rætkina. Ef ég "þyrfti" ekki að keyra hann þá væri ég örugglega ekki dugleg að mæta á svona ókristinlegum tíma í sporthúsið.

Eftir vinnu fór ég upp í hesthús til Lilju. Hún er nefnilega með lykla að húsinu hans Villa dýralæknis en ég er að leigja pláss hjá honum. Lilja sýndi mér húsið og hvar drottningin mín ætti að vera þegar hún kemur. Við spjölluðum auðvitað aðeins, aðallega um hesta í þetta skiptið held ég. Signý á Balaskarði hringdi svo i mig til að láta mig vita að Kristján væri búinn að sækja Byltingu og allt hefði gengið vel. Kristján ætlaði líka að reyna að fara alla leið suður í kvöld en ég átti ekki von á hryssunni fyrr en seinnipartinn á morgun. Það gerði ekkert til fyrir mig, plássið hennar er búið að standa autt síðan um áramót þar sem Ótti hefur enn ekki skilað sér í bæinn. Hann átti að fá að halda plássinu heitu þar til Bylting kæmi inn.

Kristján hringdi svo og lét mig vita að hann kæmi í bæinn um hálf tólf... ég verð nú sennilega þreytt í fyrramálið. En það er líka gaman að geta tekið sjálf á móti henni. Bylting verður örugglega mjög fengin að fá fast undir fót enda búin að vera í 8 tíma á ferðinni þegar hún kemur til mín.

24.02.2008 21:45

Helgi í Mánaskál, Bylting á leið í bæinn

Jæja þá er maður kominn heim úr sveitinni :)

Við fórum af stað eftir vinnu á föstudaginn og Skella fékk að koma með. Norðurferðin gekk vel fyrir sig, hálka en autt og enginn skafrenningur. Þegar við komum í Laxárdal var aðeins snjór á veginum, mátti í raun ekki vera mikið meiri fyrir okkur því við vorum bara á MMC Lancer. Á svona tímum vantar manni sko jeppann. Þetta gekk annars bara vel fyrir sig en það var auðvitað of mikill snjór í lautinni milli bæjarhólanna að við komumst ekki upp á hlað á bílnum. Þá ber maður bara dótið upp hólinn og kvartar ekki einu sinni. Það var ótrúlega tunglbjart svo við vorum ekki í neinum vandræðum með að sjá. Skella var auðvitað voðalega fegin að komast út úr bílnum enda var hún klárlega búin að átta sig á því hvert hún var komin. Henni finnst svo gaman að koma í Mánaskál, hún er auðvitað búin að koma þangað reglulega síðan hún var hvolpur og er sko drottning í ríki sínu þar til hins ítrasta. Við kyntum svefnherbergið mjög vel en samt vöknuðum við um nóttina og þurftum að kveikja aftur upp í gasinu. Þetta var aðeins og mikið af því "góða".

Á laugardagsmorgun var húsið enn mjög kalt eins og við er að búast. Ég dreif þá bara gasofninn í eldhúsið og byrjaði að hita þar. Við klæddum okkur svo bara vel og fórum út. Við sáum svo mikið af tófuförum þegar við komum í dalinn að við ákváðum að skoða aðeins í kring um okkur. Veðrið var ótrúlega gott -6° og stillt. Við fórum að veiðihúsinu og þar hafði bara verið traffík, nóg var af tófuförunum. Við röktum förin að gamni þar sem við ætluðum hvort sem er að ganga upp skarðið við Balaskarð. Við fórum ótrúlega langt þarna upp og gátum rakið förin alla leiðina, við gáfumst svo upp á endanum og röltum bara heim aftur enda getur tófa ferðast allt að 60 km og ansi mikil heppni að ganga fram á hana.

Þegar við komum niður kíktum við á stóðið í túninu í Balaskarði. Tryppin mín heilsuðu öll upp á mig en þó voru strákarnir mínir mannelskari.


Drungi










allt í einu orðinn "stjörnóttur"



Bylting




 


Myrkvi





Mér finnst alveg ótrúlegt að Drungi Klettssonur sé allt í einu stjörnóttur. Ég veit að hún er ekki stjór stjarnan hans en hún telur allavega 7 hár og það hlítur að gilda. Hver veit nema að ég breyti litnum á honum í Feng.. allavega ef starnan verður enn þarna í vor. Svona geta draumar ræst.. ég sem var orðin svo leið á því að Dimma gæfi mér bara brúna, einlita hesta.. mér finnst ég eiga þessa stjörnu inni :)

Eftir dýrindis kvöldmat fórum við í heimsókn til Signýjar og Magnúsar að Syðra Hóli. Það snjóaði þegar við fórum úteftir svo við stoppuðum ekki lengi, það var öruggara að koma sér heim á litla fólksbílnum sem ekkert drífur í snjó. 

Á sunnudag var -3° og gott veður. Við fórum fljótlega af stað út á Balaskarð til að handsama Byltingu. Við lokkuðum hana inn í fjárhús með brauði og heytuggu sem gekk bara furðu vel. Myrkvi og Drungi komu líka inn og við gáfum þeim ormalyf. Það var ekkert mál að taka þá og mýla. Bylting var ekki eins hrifin af því að láta taka sig en hún gaf samt undan strax. 

Við fórum svo bara heim og gengum frá því sem við gátum til að geta haldið heim á leið þegar við vorum búin að koma hryssunni frá okkur. Við kíktum líka á hyrnuna og mældum út það tún. Ég er alltaf að spá í að girða.. og þegar maður á meira að segja staurana þá fer þetta að verða ansi mikið sniðugt. Planið er að girða allavega eina girðingu í vor fyrir hrossin mín. Ég er búin að fá fullt af sjálfboðaliðum í girðingarvinnu svo ég hugsa að það verði girt á mettíma ef nóg er til af bjórnum :)

Við fórum svo út að Syðra Hóli aftur og fórum með Signýju og Magnúsi að Balaskarði til að setja Byltingu á kerruna. Þetta gekk allt bara ótrúlega vel en ég átti alveg eins von á því að hún myndi sýna okkur "hvað hún á sig sjálf" það veður nefnilega enginn yfir hana.. að henni finnst allavega. Þetta gekk allavega stórvel fyrir sig og hún var komin inn í hesthús hjá Magnúsi áður en ég vissi af. 

Við drifum okkur svo bara suður.











 

20.02.2008 21:02

Tíminn líður og líður..

Ég fór í heimsókn til Berglindar Önnu í gær. Tjica (www.tjica.com) var voðalega mikil vinkona mín.. auðvitað enda er ég besta frænka ever.. Vikotría var líka bara pínu hrifin af mér.. eða .. ég er reyndar alltaf svo ánægð þegar krakkar garga ekki á mig að þetta var bara brilliant. Hún setti meira að segja upp svona "gesta show" fyrir mig, þe. að þykjast vera týnd í gardínunum sínum. Við Begga gláptum svo bara á DVD og átum snakk og nammi eftir að stelpan sofnaði.. og Tjica fékk að sjálfsöðgðu að kúra hjá okkur :)

Ég mætti í ræktina í morgun þrátt fyrir að hafa alls ekki nennt því. Ég mætti ekki á mánudag eða þriðjudag og þvi var kominn tími til að sprikla smá. Ég var reyndar mjög dugleg í ræktinni í síðustu viku og mætti alla morgna.

Eftir vinnu fór ég upp að Rauðavatni með Sömbu og Skellu mína. Það var allt of langt síðan ég sá Skellu síðast og Sömbu veitir ekki af hreyfingunni. Þess má geta að Samba og Skella fóru báðar í augnskoðun síðustu helgi og stóðust báðar. Það er auðvitað ekki að spyrja að því.. Samba var stilltasti hundurinn á svæðinu.. eins og flestir eru búnir að heira oft og mörgum sinnum.. pabbi er sko alveg með þetta á hreinu. Það hefur aldrei verið til jafn stilltur hundur held ég og þessi dekurprinsessa þeirra!! Við "tíkurnar" eins og einhver orðaði, fórum stóran hring við Rauðavatn í grenjandi rigningu en annars fínu veðri. Ég var auðvitað eins og algjör sveitalúði, í galla og alles.. ég fann ekki svörtu regn/hlífðarbuxurnar mínar og því var ekki annað á dagskrá en að grípa skærgulu 66°N buxurnar mínar. Ég held að ég hefði ekki komið óséð að neinum allavega.. sást from a mile away. Þetta var frábær ferð, tíkurnar skemmtu sér rosalega vel og meira að segja léku sér saman.. eins og Samba hatar Skellu mikið.. þetta var ótrúlegt. Reyndar var þráðurinn stuttur hjá Sömbu og friðurinn var úti þegar Skella sóttist eftir smá knúsi frá mömmu sinni.. það var einum of fyrir Sömbu. Ég elska að fara út að labba með hundana mína í ekkert voðalega skemmtilegu veðri, ef maður er rétt klæddur þá skiptir veðrið engu máli en snilldin við þetta er að maður hittir sjaldnast hræðu. Það eru ekki allir eins og ég sem láta sig hafa það að fara út sama hvernig viðrar. Svona á þetta nefnilega að vera, maður á að geta farið út að ganga með hundana sína í lausagögnu án þess að þurfa að hafa áhyggjur af umferð, öðrum hundum, gangandi vegfarendum eða hestamönnum.. það er rosalega fínt að vera bara aleinn með hundunum í friði.

 
Skella að kíkja á útsýnið


Samba




Ég gerði eina heiðarlega tilraun til að stilla vinkonunum upp saman fyrir myndatöku.. þær eru nú eiginlega bara eins og dauðadæmdar þarna.. ferlega asnalegar báðar tvær.

Eins gaman og það er að hafa alltaf myndavél með sér þá er ekkert jafn pirrandi og það hvað ég er óánægð með myndavélina mína.. hún er bara ekki að gera sig!! Allt of sein að taka myndir.. lengi að vinna þær, er heilan dag að gera sig tilbúna til að taka næstu mynd.. þetta er bara ferlegt. Ég hafði svo mörg tækifæri til að taka fínar myndir af stelpunum en endaði yfirleitt með hálfann hund eða engann loksins þegar myndavélin varð tilbúin!! ARG! Mér finnst að bankinn hefði átt að slysast til að gefa mér myndavél sem skilur hvað ég vil.. ekki eitthvað dót sem klúðrar öllu fyrir mér :)

Eins og áður kom fram var mjög gaman á spilakvöldinu hjá Karenu.. eins og þessar myndir bera með sér.. 


Karen með flottustu ryksugu í heimi sem við gáfum henni fyrir að vera komin inn í prógramið á Reykjalundi! Til hamingju Karen AKA Karen Kinky :)



Konni hennar Ásu.. verulega karlmannlegur með einhvern ónefndann bleikan drykk



Karen sá um að enginn þornaði upp.. Mmmm OPAL :)

Hehe.. frekar fyndið.. Konni minn.. afhverju ert þú á eiginlega öllum myndunum mínum frá þessu kvöldi?? Hættu nú þessari athyglissýki drengur!!

Jenný.. þú mátt senda mér myndir frá spilakvöldinu og frá þorrablótinu á manaskal@gmail.com :)

Enn stefni ég á að fara í Mánaskál um helgina. Ég veit ekki enn hvort ég fer ein eða ekki.. ég ætla allavega að fara. Ég hlakka rosalega til að kíkja á tryppin mín.. sem minnir mig á það.. ég þarf að kaupa ormalyf og jafnvel fleira fyrir norðurferðina. Ég vonast líka til að geta tekið Skellu með mér í sveitina, ég veit að við höfum báðar gaman að því :)

Eitt að lokum.. hvernig er það er ekki almenn kurteisi að kvitta í gestabókina??

18.02.2008 11:04

Febrúar hálfnaður

Jæja þá er enn einni vinnuhelginni lokið.. og einn einn mánudagurinn tekinn við :(

Það er ósköp fátt að frétta hjá mér held ég. Síðasta vika var viðburðalítil, nema að minnið sé að stíða mér :) Á föstudagskvöld hittumst við stelpurnar "með mökum" til að spila og djúsa. Konni hennar Ásu var reyndar sá eini sem mætti af "mökunum" og fær hann prik í kladdann fyrir það. Konni hennar Jennýjar var með strákinn sinn og því löglega afsakaður, Atli var svo að mála bæinn rauðann einhvers staðar. Ég var bara í rólega gírnum og keyrði stelpurnar í bæinn og fór svo heim að sofa. Þetta var bara fínt spilakvöld, ég og Sara systir Karenar og Dagnýjar rústuðum auðvitað þessu spili sem var tekið.. ég sem hélt að það væri verra fyrir okkur að einu 2 edrú manneskjurnar væru dregnar saman í lið. En svona er þetta.. þetta fulla lið er ekki nógu skarpt á móti okkur Söru.. ég held að það sé alveg á hreinu eftir þetta :)

Það stefnir í að þessi vika verði viðburðalítil einnig en næstu helgi verður gerð önnur tilraun til að fara í Mánaskál. Ég ætlaði auðvitað að fara norður þarsíðustu helgi en þá kom stormur.. hvað ætli gerist næst?? Ég kíkti á spána á mbl.. hún er ekkert frábær.. en það er nú bara mánudagur. Ég veit allavega að ég þarf að komast norður til að kíkja á hrossin mín, þetta gengur ekki lengur. Svo er ég farin að bíða eftir því að fá Bytlingu í bæinn til mín. Plássið hennar stendur bara autt þar sem Ótti hefur enn ekki skilað sér í bæinn. Ég sé ekki að hann sé á leiðinni og því kemur hann örugglega ekki alla leið suður, fer örugglega beint að Stokkseyri.
 
Það eru ýmis járn í eldinum varðandi Byltingu en eitt er víst að ég vil fá hana í bæinn, helst um mánaðarmótin. Núna þarf hún að byrja að vinna fyrir matnum sínum þessi elska.

en jæja.. ég þarf víst að vinna líka.. ég er svo auðvitað með myndir í vélinni minni sem detta inn við tækifæri :)

09.02.2008 21:00

Myndatími

Jæja.. þá koma myndirnar..

Klausturferð / Þorrablót




Gott veður en mjög kalt. Foss á Síðu.


Skemmtiatriðin voru góð.. hér er sonur Sigga Gunn að fæðast.. sjálfur íþróttaálfurinn


Svenni í línudans.. ég er eitthvað skömmustuleg á bakvið


.. þarna kemur skýringin.. ég er örugglega 3 skrefum af eftir öllum öðrum


Ása og Konni hennar að leika "Friends"


Ég og Atli, örugglega skársta myndin af okkur.. tekin þokkalega snemma á ballinu.. annað er ekki til opinberrar birtingar allavega.


Svona er "uppáhaldsmanneskjanmín" góð við mig..

.. segið svo að karlpeningurinn komi ekki að notum :)

og að lokum.. Jenný með afmælisgjöfina frá okkur Karen og Dagnýju..

úlala...

Við Atli fórum ekki norður núna um helgina sökum veðurs, það var einfaldlega ekkert ferðaveður. Ég bíð því enn eftir að komast norður í sveitina mína.

Cheers..

08.02.2008 09:12

Nýtt blogg - loksins

Jæja ég sveik það að blogga í fyrrakvöld eins og ég ætlaði.. ég hafði alveg ágæta afsökun.. var þreytt :)

en já.. mál málanna.. þorrablót síðustu helgi!

Konni hennar Ásu veiktist á föstudagin síðasta sem var auðvitað tíbískt því loksin var komið að langþráðu þorrablóti á Kirkjubæjarklaustri. Við ætluðum að fara saman 3 frænkurnar og Konnarnir tveir en Ása og Konni heltust úr lestinni á síðustu stundu. Við fórum því bara 3 saman og vorum í ansi rólegum gír. Við vorum ferlega lengi að koma okkur út úr bænum, ég held barasta að ég hafi aldrei farið svona seint af stað áður. En mér var alveg sama, ég var ekki að keyra.. gat bara slakað á :)

Það var ótrúlega kalt þessa helgi, ég man bara varla eftir svona frosti.. brrrr Húsið í Hörgsdal var ótrúlega kalt, vatnslögnin frosin svo húsið var vatnslaus.. og ég hafið engann til að kúra hjá.. brrr

Á laugardeginum var geðveikt veður, kalt, stillt og sól.. bara æði. Atli og aðrir Klausturdrengir fóru á fjöll að leika sér á sleðum, hjólum, jeppum og snjóbrettum. Við Jenný og Konni dunduðum okkur í staðinn í nágreni Klausturs, tókum nokkrar myndir og áttum ágætann dag. Ása og hennar Konni komu svo seinnipartinn austur þar sem drengurinn var búinn að jafna sig á pestinni. Við vorum auðvitað eins og við erum vanar, að fíflast við eldhúsborðið í Hörgsdal þangað til tími var kominn til að taka sig til fyrir blótið.

Það var reyndar bankað upp á hjá okkur um 2 tímum fyrir blót.. stóðið var víst farið upp í heiði! Djö. Hrossin voru sett út til að viðra sig en girðingin við hesthúsið var komin af kaf svo hrossin gátu eiginlega bara farið þangað sem þeim langaði.. og allt í einu datt Brúnku gömlu að taka á rás með alla bjánana á eftir sér! Gamla fór víst með stóðið yfir ristarhlið hjá öðrum sumarbústaðnum og þar yfir girðingu og upp í heiði.. frábært.. og alveg að koma balltími :) Siggi dreif sig á eftir stóðinu á snjósleða og kom öllum niður með ótrúlega lítilli fyrirhöfn. Ég "stóð fyrir".  Ég hjálpaði honum svo að koma öllum fyrr inn í húsi og gefa nokkrum rolluskjátum í leiðinni.

Næst var það bara ballgírinn! Atli kom og sótti mig og ég fór í sturtu og svona hjá honum upp á Klaustri. Þegar ég var að taka mig til áttaði ég mig á því að ég gleymdi ballkjólnum í forstofunni í Hörgsdal.. ohh ekta ég.. kannski merki um að sleppa því að fara á ball.. en jæja.. eins og ég hafi einhvern tímann hlustað á svoleiðis. Siggi og stelpurnar komu svo með kjólinn þegar þau komu á Klaustur svo þetta reddaðist nú allt.

Gulla og Gústi voru í skemmtinefnd með m.a. Kristínu og Sigmari. Mér fannst skemmtiatriðin frábært, og það kom mér á óvart hvað ég var ágætlega inní málunum. Fyndnast af öllu fannst mér nú samt að Gulla og Gústi gerðu grín að sjálfum sér líka. Ein auglýsingin hljóðaði svo.. "Tengdadóttir óskast.. verður að vera komin fyrir sauðburð, Gulla og Gústi í Hörgsdal" haha mér fannst þetta ótrúlega fyndið.. og enn fyndnara er nú að Gulla fann einmitt tengdadóttur á ballinu.. sem er tilbúin að koma fyrir sauðburð.. en þá er bara spurning hvað Siggi segir um ráðahaginn. Mér skilst að þessi "tengdasóttir" sé meira að segja meira en lítið spennt og eiginlega bara búin að ráða sig hehe.

Ballið var frábært að mér fannst. Bjórinn var góður og Opal enn betra held ég. Svei mér þá.. ég held að ég hafi aldrei drukkið jafn mikið.. kannski er eitthvað samhengi á milli þess sem ég stækka..og þess sem ég get torgað af áfengi hehe.

.. eða kannski ekki... sunnudagurinn kom með allri sinni dýrð.. vá hvað ég var fáránlega veik. Ég var eins og ég hefði drukkið fullt baðkar af vodka.. oj bara. Ég fæ bara næstum því tár í augun af því að hugsa um þennan dag.. ég man ekki eftir að hafa nokkurn tímann orðið svona veik! Ég ældi fram yfir kvöldmat, hélt engu niðri, gat ekki fundið lykt af mat, með dundrandi hausverk og bara ógeðsleg í einu og öllu. Ég gat ekki einu sinni farið í bæinn með stelpunum! Ég var svo heppin að Ásgeir Páll var ekki á hraðferð í bæinn og fór í seinna fallinu, ég rétt gat druslast með honum suður. Ég veit nú samt ekki afhverju ég er að segja frá þessu þar sem það virðast allir hafa verið búnir að frétta þetta.. allavega fékk ég skot úr mörgum áttum :)

Mánudagurinn var skelfilegur líka, svokallaður "annar í þynnku". Ég mætti þó í vinnuna en ég var hvorki hundur eða köttur.. voðalega dapur starfsmaður :( Þessi dagur var með þeim furðulegri sem ég hef upplifað, það er ótrúlega skrítið að ganga um en finnast maður samt ekki vera til. Það er voðalega erfitt að lýsa þessari tilfinningu.. þeir sem vita hvað ég meina skila mig örugglega.

.. að öðrum málum.. Ótti er enn ekki kominn í bæinn og ég er farin að efast um að hann komi til mín. Ég er farin að hallast að því að hann fari bara beint til Gumma og Sjafnar í uppeldi. Eyjólfur hringdi loks til baka og ég fékk að vita það að hann veit ekki hvenær folöldin verða tekin undan, hann er þó á gjöf og undir daglegu eftirliti. Ég vona bara að þetta sé allt í góðum málum. Ég verð sko ekki kát ef hann er í lélegu holdafari.

Það styttist í að Bylting komi í bæinn en ég stefni á næstu mánaðarmót :) Úff þá kemur í ljós hvað ég er sleip í tamningunum. Ég veit reyndar að ég fæ góða aðstoð þar sem Lilja á nú svolítið í þessari hryssu. Lilja kannast líka við þessa primadonnuætt.. ef hún er óþekk.. þá kemur það auðvitað beint frá hennar hrossum en ekki hvað?

Við Atli ætluðum norður um helgina þar sem þetta er eina helgin í langan tíma þar sem ég kemst þangað. Mér sýnist ekki vera neitt ferðaverður.. en við eigum eftir að ákveða þetta samt.

Í gær var hittingur á Ruby tuesday í tilefni þess að Jenný átti afmæli síðasta laugardag.. þorrablótsdaginn mikla! Pabbi átti líka afmæli þann dag og mamma og pabbi áttu eins árs brúðkaupsafmæli :) Til hamingju m&p :)

Myndirnar eru enn allar í myndavélinni.. lofa að bæta úr því. Ég er með fullt af myndum frá þorrablótinu, svo er ég með myndir af "uppáhaldsmanneskjunniminni" í góðum gír og myndir frá Ruby tuesday í gærkvöldi.

.. en ég verð samt að sýna ykkur eina mynd.. málið er að það skilja ekki allir hvað ég er mikil hundamanneskja.. og hvað hundar eru í mínum augum..

.. sko það eru til fleiri sem eru eins og ég.. þó ég sé sérstök.. þá er ég ekki ein um það.. ég frétti nefnilega að litlum gutta sem átti tveggja ára afmæli og fékk "köku" og alles.. sem væri ekki frásögu færandi.. nema því..









































þetta er Tímon afmælisdrengur sem heldur með Man Unt.

Það er líka gaman að segja frá því að ég komst að því að ég er ekki ein um að vera skrítin í annari deild.. í gærkvöldi kom nefnilega í ljós að Konni hennar Jennýjar og Konni hennar Ásu eru alveg eins og ég.. með ofur næmann nafla!! Það má nefnilega ekki koma við naflann á mér og ef einhver slysast til að reka fingur þangað niður þá á sá hinn sami von á hnefa! Strákarnir eru semsagt alveg eins með þetta.. ótrúlega fyndið! Ég sem hélt að ég væri með supernafla. Ég fæ gæsahúð og hárin á hnakkanum rísa ef fólk er að tala um að pota í nafla og eitthvað svona.. oj.. ég bara ræð ekki við mig. Ég held að það hafi eitthvað gerst þegar naflastrengurinn minn var klipptur :) Héðan í frá er þetta semsagt kallað "tripple K syndrome".. Konni, Konni og Kolla hehe

Myndirnar eru væntanlegar..

  • 1
Flettingar í dag: 46
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 409
Gestir í gær: 8
Samtals flettingar: 165776
Samtals gestir: 22935
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 13:08:03

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar