Mánaskál

Færslur: 2015 Október

28.10.2015 21:54

Nýjar myndir af Sturluhóli

Í gær gerðist heilmikið í húsklæðningunni emoticon

















Svo er útsýnið líka æðislegt 

26.10.2015 21:47

Góður dagur á Sturluhóli

Smiðirnir mættu á Sturluhól í morgun og hófust handa við að raða járninu á húsið. Það er ótrúlegt hvað þetta gengur hratt emoticon Í dag gerðist heilmikið og ég hlakka svo til að sjá útkomuna! Húsið verður glæsilegt! emoticon















Ég hlakka til að sjá hvað þetta verður langt komið eftir daginn á morgun emoticon

25.10.2015 16:52

Blogg dag eftir dag :)

Ég er bara farin að blogga "daglega".. meiri dugnaðurinn emoticon
Ég kíkti á Sturluhól í dag til að kíkja á féð og sjá hvernig gengur með íbúðarhúsið. Atli og Jói frændi hans voru iðnir um helgina og núna er húsið alveg klárt undir járn og þeir byrjuðu meira að segja á þakkantinum emoticon Byggingarfulltrúinn kom í dag til að taka út ullina og smiðurinn mætir í fyrramálið til að byrja að setja járnið á! Spennandi!





Gimbrarnar hafa það gott inni og ég smellti nokkrum myndum af þeim.


Litla grábotnótta gimbrin hennar Söndru sem gengur undir nafninu Sandra þar til Sandra gefur henni nafn. Systir hennar fékk nafnið Diljá (seinna nafnið hennar Söndru).


Skessa Drífandadóttir


Ein af ónefndu Smáhamragimbrunum.


Smáhamra Flekka sem á eftir að fá nafn.


Nýji kollótti hrúturinn.. það er ekkert verið að standa upp samt fyrir myndatökur

Eldri ærnar eru úti við hlöðuna og hafa það alveg gott þó svo að þær séu ekki þess heiðurs aðnjótandi að fá að vera í hlöðunni í góðri rúllu. Allavega ákvað Grána að koma aftur í girðinguna eftir að hafa stungið af um leið og henni var hleypt út eftir lambadómana.



Fleirum finnst reyndar líka gott að vera hjá okkur.. 



Á heimleiðinni tók ég myndir af bænum okkar og fína dalnum. Ég fæ bara ekki nóg af því.





Þrátt fyrir að það sé kuldalegt í þessu fallega veðri þá er það sko ekki alslæmt. Fröken Nótt finnst snjórinn ekki leiðinlegur.. og gólfunum mínum ekki heldur! Þvílíkur munur þegar hundurinn getur farið út og komið inn aftur.. ennþá hrein emoticon



24.10.2015 21:03

Meira af kindum

Ég lét ekki verða að því um daginn að taka rúnt á Strandirnar til að kaupa mér nokkrar gimbrar. Mér fannst ég ekki vera í ástandi til þess að fara í slíkt ferðalag, gengin eins langt og ég var þá. Nema hvað að svo frétti ég af því í síðustu viku að Jón Heiðar væri á leið á Smáhamra að sækja tvo hrúta og þá langaði mig voðalega að nýta ferðina til að fá 2-3 gimbrar í leiðinni. Því meira sem ég spáði í þetta þá bara varð ég að fara með til að velja sjálf.. og viti menn, ég skellti mér á Strandirnar emoticon Við fórum á hans fræga Subaru Impreza sem hefur farið nokkra hrútaleiðangrana í gegn um árin. Á leiðinni vestur sagði hann mér að hann hafi áður tekið 7 lömb í bílinn svo mér væri óhætt að velja mér 5 gimbrar í þessari ferð.

Þegar á Smáhamra var komið leitaði Jón Heiðar að góðum gimbrum fyrir mig á meðan ég fletti í bókhaldinu. Úr varð að ég keypti 6 gimbrar og þær ásamt hans 2 hrútum voru öll sett í Subaru. Ég bjóst nú ekki við að þetta kæmist allt í bílinn en í bílinn fóru öll þessi lömb og ég þurfti ekki að labba heim.



Af þessum 6 gimbrum sem ég valdi voru 4 með 18 í læri, 2 með 30 í ómvöðva, 3 með 9 fyrir frampart og 3 með 4,5 í lögun. Ein var botnótt og önnur svarflekkótt emoticon og allar kollóttar. Tvær af þeim eru undan hrút sem mér hefur verið sagt að hann sér nýr hrútur á leið á sæðingarstöð í haust en það voru einmitt afkvæmarannsóknir á Smáhömrum þetta haustið fyrir sæðingarstöðvarnar.

Sama dag fékk ég svo nýja kollótta hrútinn minn frá Hraunhálsi heimsendan alla leið á Sturluhól emoticon Aldeilis þjónusta það! Mér líst voðalega vel á hann og hlakka til að sjá hvað hann gefur mér á næsta ári.

Við tókum gimbrarnar á hús 16. okt en þær eldri eiga að vera áfram úti þeim til mikillar undrunar. Þær eru búnar að koma inn og fá smjörþefinn úr gjafagrindinni og skilja ekki alveg afhverju þeim er svo úthýst. Gimbrarnar eiga að fá að vera einar um góssið og hafa það gott þar til þessar eldri koma inn.




Stefán dýralæknir kom á föstudaginn og bólusettið lömbin við garnaveiki. Sjálf erum við búin að bólusetja við öðru sem þarf og merkja lömbin. Atli og Jón Heiðar græjuðu líka réttina í einum grænum svo við gátum nýtt ferðina hjá Stefáni. Við smöluðum hrossunum saman og létum sprauta allt með orma- og lúsalyfi. Einnig var litið yfir hófa. Hér er því allt að verða komið í stand fyrir veturinn og þetta litla barn sem ég geng með getur farið að koma í heiminn. 


Ég tók því miður engar myndir af hrossunum en bæti úr því flljótlega eftir að ég verð búin að létta á mér. Ég var nú samt glöð að sjá að Hugulsemi mín er enn jarpvindskjótt og þú hún sé ekki sú fallegasta þá allavega töltir hún voða fínt emoticon

Fröken Brá frá Hraunhálsi er reyndar inni og fékk líka tékk hjá Stefáni í þessari ferð en hún var með eitthvað ógeðslegt kýli í andlitinu sem við stungum á um daginn. Hún er núna í sýklalyfjameðferð.



Atli er enn á fullu í húsinu á Sturluhóli og keppist við að klára áður en barnið fæðist og veturinn skellur á. Járnið og efnið í þakkantinn kom í síðustu viku og við erum farin að sjá fyrir endann á þessu.



Smiðurinn kemst ekki fyrr en eftir helgina til að byrja að setja járnið á húsið svo Atli notar tímann til að undirbúa þakkantinn. Hesthúsið lítur því út eins og smíðaverkstæði um þessar mundir.





Ég er núna gengin rúmar 39 vikur og settur dagur er næsta miðvikudag (28.október). Ef allt verður samkvæmt áætlun þá förum við suður á fimmdudaginn (og ég ætla að fæða á föstudaginn). Á meðan ég næ að halda í mér lítur út fyrir að járnið komist á húsið áður en  nýja prinsessan mætir á svæðið emoticon Ég hlakka rosalega til að sjá útkomuna.. já og létta á Atla í þessu öllu saman. Hann hamast og hamast við að klára þetta og vill örugglega gjarnan fara að slaka á.

Á meðan við dveljum í Reykjavík fær Þórdís Katla að vera gestanemandi í bekk hjá Sigríði vinkonu sinni sem var í Höfðaskóla en byrjaði í Hvassaleitisskóla í Reykjavík í haust. Þetta verða eflaust skemmtilegir dagar hjá þeim vinkonunum og mikið sport emoticon Íris Björg getur því miður ekki fengið að vera gestur á Hjallaleikskóla í Reykjavík svo við foreldrarnir verðum að hafa ofan fyrir henni þessa daga emoticon Það verður reyndar bara gaman líka.

10.10.2015 21:39

Kindablogg

Á fimmtudag fórum við með féð heim að Sturluhóli en það var búið með nýræktina á Mánaskál og meira til. Planið var að fá Bjarka á Breiðavaði með smalahundana sína til að smala þessu á kerrur eða fjárvagn en svo ákváðu Atli og Jón Heiðar að þeir gætu alveg smalað þessu sjálfir út í Balaskarðsrétt. Ég verð að viðurkenna að ég var með smá fiðring í maganum þegar þeir fóru af stað með féð á milli. Ég var pínu smeik um að þetta færi allt út um allt og þeir misstu þetta frá sér. Þetta gekk nú samt (auðvitað) mjög vel en það var samt merkilegt að þrjár ær hálf gáfust upp á þessari stuttu vegalengd. Það segir mér kannski að þær hafi haft dálítið mikið að éta á Mánaskál og væru kannski orðnar hálf þungar á sér! Við keyrðum svo fénu úr réttinni á hestakerrum emoticon

Atli og Jón Heiðar voru búnir að græja hlöðuna undir vigtun og flokkun en nýja fjárvogin mín var einmitt prufkeyrð þarna. Mér hálf brá þegar fyrsta kind inn í boxið ætlaði eiginlega ekki að passa inn í hana. Það þurfti allavega að ýta duglega á eftir henni! .. en flestar runnu nú ágætlega í gegn. Bæði ær og lömb voru vigtuð og nú á að vigta reglulega til að fylgjast með fóðrun og vexti þeirra emoticon Maður verður nú að vera duglegur að nota græjuna fyrst það er búið að fjárfesta (já þetta er eiginlega fjárfesting) í svona græju fyrir örfáar kindur.





Á föstudag mætti Anna Magga með sónargræjuna og stigaði lömbin. Ég er svo furðuleg að ég læt dæma allt, bara svona til að hafa fleiri tölur í fjárvís til að grúska í emoticon Mér finnst allt í lagi að leyfa sér svona sérviskur þegar maður á ekki fleira fé en þetta, ráðunautinum fannst samt dálítið skondið að dæma fleiri hrúta en gimbrar, yfirleitt er það öfugt og munar líklega heilmiklu á fjölda.

Við dæmdum 24 hrúta og fengum úr því 5 hrúta með 85-85,5 stig. 6 hrútar fengu 18 í læri og 8 hrútar mældust með bakvöðva frá 30-34mm.

Við völdum hrúta undan Saum og Kölska til ásetnings. Saumsonurinn er gemlingslamb, undan Garradóttur sem ég keypti frá Fáskrúðarbakka síðasta haust.

Hann fær nafnið Nagli og hans dómur var
 50 kg - fót. 101, ómv. 34, ómf. 2,4, lögun 4,0. 8-8,5-9-9-8,5-18-8-8-8,5 alls 85,5 stig.

Kölskasonurinn er undan ær frá Hraunhálsi sem við keyptum 2012 þegar við byrjuðum sauðfjárbúskapinn. Þetta er í annað skipti sem við setjum á hrút undan þessari ær en hún átti ásetningshrút í fyrra líka undan Salamon. Kölskasonurinn fær nafnið Satan og hans dómur var

46 kg - fót. 103, ómv. 30, ómf 3,4, lögun 4,0. 8-8,5-9-9-9-18-7,5-8-8,5 alls 85,5 stig.



Hér eru nýju lambhrútarnir. Satan hægra megin og Nagli vinstra megin. Á bað við þá er svo Órói Salamonsson, stóri bróðir Satans. 

Svo er ég búin að festa kaup á einum kollóttum hrút frá Hraunhálsi á Snæfellsnesi. Ég á eftir að sjá hann en hans dómur er 51 kg, fót. 110, ómv. 30, ómf. 3,0, lögun 5,0. 8-8,5-8,5-9-9-18,5-8-8-8,5 alls 86 stig. Hann er undan Kroppsyni og Sigurfaradóttur.

Við létum svo dæma allar 20 gimbrarnar okkar þrátt fyrir að sumar væru nú ansi litlar og léttar emoticon  Það var t.d. búið að lofa einni frænku að fá að eiga eina grábotnótta gimbur sem hún sá fæðast hér í lok sauðburðar. Sú gimbur var svo ekki nema 28 kg en fékk samt dóm eins og hinar og verður sett á sem smálamb. Maður verður víst að standa við stóru orðin. Gimbrin á móti þessari títlu var líka lítil, vigtaði 32 kg en hún mældist samt með 27 í ómvöðva sem mér þykir bara ótrúlega vel gert fyrir svona lítið dýr.

Svo kom að því að slátra og keyrði Atli lömbin á Blönduós til slátrunar á föstudagsmorgun. Allan daginn beið ég svo eftir vigtarseðlinum eins og smákrakki að bíða eftir jólunum emoticon Um kvöldið kom svo loksins niðurstaðan og hún var bara fín. Við sendum 25 lömb (26 með hrútnum sem fór um daginn) og var meðalvigtin 17 kg - fita 6,77 og gerðin 10,88. Alls fóru 5 lömb í E flokk, 17 lömb í U flokk, 2 í R flokk og 2 í O flokk.

Við sendum 3 ræfla sem voru 29 og 30 kg. Tvö af þeim voru litlir seinbornir þrílembingar og það þriðja var líklega undanvillingur með lungnabólgu í þokkabót. Tvö af þeim flokkuðust í O og eitt í R. Svo fór einn hrútur undan Aþenu hennar Þórdisar og Drífanda í R flokk. Mér finnst Drífandi ekki hafa verið að gera sig hjá okkur þetta árið. Aftur á móti var ég ánægð með Kölska. Ég fékk undan honum 4 hrúta og fengu 3 þeirra 18 í læri. Ég var líka ánægð með Saumslömbin mín. Hrúturinn sem var settur á undan honum og var með þykkasta bakvöðvann og einnig var gimbrin með þykkasta bakvöðvann (og 18 í læri) undan honum. Ég fékk tvær aðrar gimbrar undan honum undan frekar lakri kind og þær stiguðust líka ágætlega emoticon

Það var nú smá metingur á milli okkar Atla núna um það hvort hrúturinn hans eða minn hefði gert betri hluti þetta árið. Hrúturinn "minn" (reyndar Þórdísar) var settur á sem aðalhrútur en Atli valdi svo flekkóttan Salamonsson sem varahrút. Hann fékk svo notkun líka. Atli má bara vera sáttur við sinn hrút en hann skilaði tveimur E hrútum en minn bara einum E hrút. Mér sýnist líka í fljótu bragði að hans hrútur hafi líka skilað betri lærum og baki en minn emoticon Ég held að Atli ætli að nota hann eitthvað í ár líka.

Framkvæmdir við íbúðarhúsið á Sturluhóli ganga vel. Atli og Jói frændi hans eru að vinna í því að klára að setja járn utan um glugga og horn og allt það sem þarf áður en hægt er að setja járnið utan á kofann. Vonandi verður hægt að mæla fyrir járninu í byrjun vikunnar og svo raða því á nokkrum dögum síðar! emoticon




Allt að gerast emoticon

Veðrið í dag var alveg dásamlegt. Stelpurnar komu með mér á Sturluhól og Íris Björg var í essinu sínu að sulla í pollum! og stóra systir náði alveg að bleyta sig líka!







Brynja Pála og Guðrún Árný komu norður um helgina með mömmu og pabba. Þær voru settar í að spekja hrútana emoticon Það verður að hafa þá spaka emoticon



Nú er ég hætt að vinna enda ekki nema rúmar tvær vikur í setta dag. Næstu daga verður væntanlega farið í gegn um barnaföt og eitthvað þannig sniðugt en sjálfsagt verður líka hangið áfram í fjárvís! .. nú þarf að fara að skipuleggja fengitímann! emoticon Það er nú meira hvað maður getur verið jarmandi.

  • 1
Flettingar í dag: 103
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 81
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 173345
Samtals gestir: 23950
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 21:36:35

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar