Mánaskál

Færslur: 2008 Desember

23.12.2008 09:13

Jólin alveg að skella á

Jæja núna er Atli minn loksins kominn heim emoticon ohh það er svo notalegt. Hann er reyndar hálfslappur greyjið sem er ekki nógu gott en hann jafnar sig vonandi fljótlega.

Ég var rosa dugleg um helgina í jólageðveikinni, kláraði allar jólagjafirnar og pakkaði inn og alles! Þetta er örugglega í fyrsa skipti sem ég á enga gjöf eftir á þorláksmessu emoticon Mikið rosalega taka svona verslunartúarar samt á, ég er ekki búin að þrífa eða skreyta einu sinni. Maður liggur bara hálfdáinn í sófanum eftir svona leiðangra. Kraðak allstaðar, engin bílastæði, snjór og slapp og biðraðir á kassa.. iss þetta er ekki fyrir mig! En þetta er allt búið svo það er óþarfi að kvarta núna.

Ég fór í tékk á heilsugæslunni í gærmorgun. Ég fór í blóðprufur sem ég á von á að ekkert sé að, hitti ljósmóður og svo lækni. Ég er víst komin það langt að ég þarf extra eftirlit. Litla krílið okkar situr enn á rassinum og virðist ekki vera á því að snúa sér neitt. Ljósan hefur áhyggjur af því og við erum því á leið í sónar í fyrramálið og svo í framhaldinu á að reyna vendingu á mándaginn eftir jól þe. ef því dettur ekki bara allt í einu í hug að snúa sér. Spáið í þessu.. barnið er ekki fætt og maður er strax kominn í þann pakka að þurfa að vakna á morgnana.. meira að segja á aðfangadag! iss hvað er maður nú búinn að koma sér út í emoticon Við erum á leið á tónleikana hans Bubba í kvöld og svo þarf maður að vakna snemma í fyrramálið til að fara upp á spítala.. þetta er nú hálf ósanngjarnt. Ég slepp nú samt betur en Atli hugsa ég.. ég er ekki að fara að fá mér bjór emoticon Það verður bara flott jólagjöf að komast í sónar á aðfangadag held ég.. og hver veit nema að maður sjái óvart inn í "pakkann" emoticon 

Ég er enn ekki búin að þvo barnafötin sem ég tók frá til að hafa tilbúin. Það verður enga stund gert. Ég er nú líka ekki frá því að þau hafi brætt Atla dálítið emoticon enda ekki annað hægt! Sumt af þessu er svo pínulítið og endalaust sætt!

Ég er búin að fá út úr 2 prófum í viðbót og er bara sátt. Ég hef ekkert til að skammast mín fyrir. Núna er bara ein einkunn eftir en ég veit að hún verður ekki glæsileg, en ég ætla ekkert að hafa áhyggjur af því.. ég kem mér í reiknigírinn aftur á no-time og klára þetta í janúar!

Núna er ég bara að reyna að fá jólaandann yfir mig.. mér finnst nefnilega svo ótrúlegt að það sé þorláksmessa í dag og aðfangadagur á morgun. Ég vona að þetta komi allt í kvöld þegar við förum í þorláksmessugírinn emoticon

19.12.2008 22:23

komin helgi og jólin nálgast

Mikið er ég fegin að það er komin helgi.. það er bara erfitt að vera komin aftur í vinnuna. Ég á eftir að gera jólagjafainnkaupin og þrífa og fleira svo helgin er mjög kærkomin. Í gærkvöldi gerði ég huggulegt inni í svefnherbergi, breytti pínkulítið og er alveg farin að sjá fyrir mér barnarúmið. Ég held að það sé um að gera að breyta sem mest á meðan Atli er ekki á landinu svo ég fái nú að ráða einhverju hehe emoticon

Annars hef ég ekki heyrt í honum síðan hann var í London snemma í dag. Ég vona að allt gangi vel hjá honum. Flugfélagið týndi auðvitað töskunni hans með varahlutunum fyrir vélina en það má vona að hún skili sér til hans nægilega snemma svo hann nái að gera við flugvélina. Ég verð sko ekki sátt ef hann strandar þarna úti. Nákvæmlega það sama gerðist í fyrra og á sama tíma líka! Hann kom heim daginn fyrir þorláksmessu í fyrra og hafði þá tafist þar sem flugfélagið týndi töskunni með varahlutnunum! Merkilegt hvað það er hægt að vera óheppinn. Allir að senda góða strauma til hans emoticon

Í kvöld fór ég í gegn um barnafötin frá Lólý systir. Ég held að ég sé bara í ótrúlega góðum málum, það er örugglega ekki margt sem mig vantar. Ég er svo líka auðvitað með bæði stráka og stelpuföt sem gerir þetta enn betra emoticon  Nú þarf ég bara að koma þessu í þvott og strauja það sem þarf og hafa allt tilbúið í kommóðunni. Það eru einhverjir pokar og kassar uppi á lofti sem ég á eftir að fara í gegn um en ég gríp tækifærið næst þegar einhver er heima til að láta bera þetta niður fyrir mig.

Einkunn nr. 2 var að detta inn. Ég fékk 7 sem ég var ekki nógu sátt við en svo ákvað ég að það væri ekkert hægt að vera í fýlu yfir því. Ég get örugglega ekkert þrætt við kennarann og ég nenni því heldur ekki þar sem hún er bresk og er farin af landinu. Ég ætla bara að vera sátt við að vera búin að ná þessu fagi og þakka fyrir að þurfa aldrei að spá í þessu rugli aftur emoticon Þetta var með tilgangslausari áföngum sem ég hef setið. Svo á ég að fá út úr 2 fögum í næstu viku og þá er það bara bókfærslan sem bíður framyfir áramót.

Jæja núna ætla ég að henda mér fyrir framan sjónvarpið og setja tærnar upp í loft.. ahh já og kannski skrifa jólakortin sem ég gleymdi að skrifa í gær.. ég er víst orðin aðeins of sein með þau eins og alltaf emoticon  Adios

17.12.2008 09:19

Jólafrí

Jæja þá er kominn tími á smá fréttir af mér og mínum.

Ég kláraði síðasta prófið á mánudag og er bara mjög glöð að vera komin í jólafrí. Mér gekk í heildina mjög vel í prófunum þó svo að ég geri ráð fyrir að þurfa að taka endurtektarpróf í stærðfræði í janúar. Það var mjög mikil óánægja með þetta próf og það á eftir að koma í ljós hvort væginu á prófinu verði breytt til að hífa nemendur upp. Það þýðir þó ekkert að spá í það og ég bara stefni á að taka prófið aftur.

Fyrsta einkun er dottin inn og ég er bara mjög ánægð með hana. Svo vona ég bara að ég verði glöð með framhaldið líka. Líklega verða komnar 2 einkunnir í viðbót fyrir jól.

Við Atli fórum með Tinnu systur hans á Frostrósa tónleikana í Laugardalshöll síðustu helgi. Garðar var að syngja svo við fengum að fljóta með. Þetta voru rosa fínir tónleikar og sum lögin alveg ótrúlega flott emoticon

Linda Bergdís átti gullfallegann dreng þann 10. desember. Núna er sko allt farið af stað. Ása bíður spennt þar sem hún er næst í röðinni.. þar á eftir komum við Petra emoticon
Fæðingin hjá Lindu gekk rosalega vel fyrir sig, hún stóð sig eins og hetja stelpan og allt gengur eins og í sögu heima fyrir. Ég verð að láta fylgja með eina mynd af prinsinum. Hann er fæddur 16 merkur og 51,5 cm.


drengur Harðarson

Í hestafréttum er helst að Birta er farin norður. Ég fór síðustu helgi með Sissa að handsama Birtu og koma henni heim á bæ til að bílinn gæti sótt hana. Ég er nú ekki til mikilla afreka sjálf og Atli var að vinna svo Sissi bjargaði mér alveg. Ég er ekkert í standi til að labba langt, hvað þá í snjó. Við vorum voða heppin þar sem við gengum beint fram á hrossin við hlið meira að segja. Birta kom auðvitað og þáði smá brauð og lét mýla sig. Sissi gekk svo með hana heim á bæ.

Hestabílstjórinn var ótrúlega ragur að sækja hana upp í Kjós, það mætti halda að ég hafi beðið um að hún yrði sótt inn á hálendið! Svo hafði hann einhverjar áhyggjur af hálkunni.. bíddu.. var maðurinn ekki á leiðinni norður í land.. og er hann hræddur við smá hálku? Birta fékk allavega far norður enda ekki eftir neinu að bíða, hún er spræk og fín og lítið orðið eftir af sárinu, ég veit ekki hvort það koma hár yfir þetta eða hvort hún verði bara með smá ör á fætinum. Ég hef allavega engar áhyggjur af þessu.

Á sunnudagskvöld hringir Signý í mig og spyr hvort það geti verið að Birta mín sé komin norður. Jú jú það passaði allt. Þá stóð blessað hrossið við ristarhliðið við Skrapatungu, alein og yfirgefin! Hún átti að sjálfsögðu að fara inn í girðingu hjá mér til hinna hrossanna! Það er auðvitað alltaf möguleiki að hross fari út úr girðingum, Bylting hefði svosum geta verið vond við hana eða eitthvað svo ég hringdi bara í bílstjórann og spurði hann hvar hann hefði skilið við hryssuna. Svarið var mjög einfalt.. við ristarhliðið! Ég átti ekki orð! Afhverju í ósköpunum skildi maðurinn hana eftir þar?? Ég var auðvitað alls ekki sátt og krafði manninn um svör. Hann sagði að honum hefði fundist hann vera búinn að keyra svo langt, ég hefði talað um að þetta væri ekki mjög langt og hann taldi bara að hann hlyti að vera kominn! Halló halló, hann bara keyrði þangað til honum fannst nóg og henti henni út! Hann sagði að hann hefði verið seint á ferðinni og orðið dimmt, hann hefði séð ljós á einum bæ og talið að það hlyti að vera rétti bærinn og setti hryssuna út við ristarhliðið! Ég spurði afhverju hann hefði ekki hringt í mig ef hann væri eitthvað óviss með staðsetninguna og þá var hann víst með rafmagnslausann síma. Hann hefði þá átt að fara heim að einhverjum bæ og spyrja hvar hann væri og hversu langt væri að Mánaskál. Maður getur ekkert bara haldið að maður sé búinn að keyra það lengi að maður sé örugglega kominn á réttan stað.. og hvað þá að sleppa hryssunni út á veg! Ég átti bara ekki orð yfir því að maðurinn væri ekki búinn að sjá bæjarnafnið til að vera viss um að hann væri á réttum stað! Hann staulaðist eitthvað á því að ég hefði talað um ristarhlið og ó nei.. ég talaði um að setja hana inn fyrir rafmagnshliðið á afleggjaranum hjá mér! Urr.. ég var svo hoppandi ill að ég hélt að fæðingin færi af stað! Ég gerði manninum það sko ljóst að hann væri búinn að gera mér óleik þar sem ég væri í Reykjavík og það væri heldur betur mikið mál fyrir mig að fara norður til að leita að hryssunni og koma henni heim á bæ! Guð mætti nú vita hvert hún færi og hversu gott væri að komast að stóðinu væri heldur aldrei að vita! Greyjið maðurinn var akkúrat á ferð í Langadal þegar ég hringdi og hann skellti sér inn í Laxárdal til að skoða aðstæður.. þegar hann kom þangað var farið að dimma en hann hann vildi freista þess að ná henni og koma henni heim á bæ. Hann hitti einhvern sem var að vesenast í hrossum og fékk lánað beisli eða múl. Mér til mikillar gleði þá fann hann hryssuna þar sem hana bar við himinn á einhverri hæð og náði henni. Birta var svo bara teymd út um gluggann á bílnum heim að Mánaskál og ætti því nú að vera hjá stóðinu mínu í góðu atlæti. Þetta fór því allt vel á endanum en ég held að ég hafi sjaldan orðið svona reið! Ég er sko að skrifa þetta 3 dögum eftir að þetta var í aksjón svo það er kannski hægt að ímynda sér hvernig frásögnin hefði verið ef ég hefði skrifað þetta strax.

Pabbi fór líka norður síðustu helgi að gefa hrossunum fyrir mig. Þau voru smá stund að fara í rúllurnar samt. Bylting elti slóðina eftir pabba að rúllunum en svo gekk hún bara hringinn voða tortryggin og þorði ekki að láta til skara skríða. Bræðurnir voru ekkert að þessu veseni og fóru bara beint í kvöldmat þegar þeir áttuðu sig á því hvað biði eftir þeim. Bylting þorði þá auðvitað að fara líka. Ég held að það séu því bara allir sáttir í Mánaskál núna, Birta komin heim og nóg af heyi fyrir alla emoticon

Atli var að leggja af stað til útlanda í morgun. Hann var einmitt úti á nákvæmlega sama tíma í fyrra. Hann flýgur fyrst til London, þaðan til Prag þar sem hann á að vinna og svo þaðan til Miami til að vinna meira. Hann er svo væntanlegur heim að morgni 22. des emoticon  Það verður ósköp gott að fá hann heim aftur. Vonandi verð ég búin að græja allt fyrir jólin, þrífa og kaupa gjafir og pakka inn og allt það. Við erum búin að kaupa miða á þorláksmessutónleika Bubba og svo detta jólin bara inn þar strax á eftir. Við ætlum að vera í Hveragerði hjá tengdó á aðfangadag, svo er jólaboð hjá mömmu á jóladag og jólahittingur í Vík hjá fjölskyldunni hans Atla á annan í jólum. Ég er nú reyndar ekki búin að tilkynna fjölskyldunni þetta formlega, þe. að ég komi ekki í jólaboðið okkar á annan í jólum.. en svona áður en allir fara að æsa sig og hringja í mig.. þá kom Atli með mér í jólaboð í Flúðasel í fyrra á annan í jólum svo núna fer ég með honum austur emoticon

Í kvöld verða litlu jól hjá okkur frænkunum. Við ætlum að skiptast á pökkum og borða saman. Það er auðvitað alltaf gaman emoticon Ég hitti einmitt stelpurnar síðast á mánudagskvöld þegar Petra kom í heimsókn. Við erum nú meiri bumbulínurnar.. og auðvitað voru teknar myndir af okkur saman. Ég skelli kannski einhverju inn þegar ég fæ myndir sendar.
Ása bíður og bíður eftir dregjunum sínum. Ég er viss um að hún verði búin að fæða fyrir jól svo þetta eru bara einhverjir dagar í viðbót. Ég veit að hún fór í skoðun í gær en ég hef ekkert heyrt enn, svo ég geri ráð fyrir að það sé enn allt í orden hjá þeim.

Annars er fátt að frétta held ég.. núna þarf ég bara að skipuleggja mig til að klára jólasnúningana. Ég fór einmitt í smá leiðangur eftir vinnu í gær.. og það sem ég græddi á því voru grindarverkir, bakverkir og höfuðverkur.. æðisleg blanda emoticon Ég þarf greinilega að fara í skottúr á hverjum degi til að klára þetta, ég get ekki þrammað nema smá í einu.

Þangað til næst..

08.12.2008 22:28

Próftörn

Jæja þá ætla ég að leyfa mér að líta aðeins upp úr bókunum og blogga smá. Ég var í fríi alla síðustu viku og verð í fríi þessa viku og fram á þriðjudag vegna prófanna. Próftörnin byrjaði á fimmtudag í þarsíðustu viku og hefur verið stanslaus síðan þá. Ég tók 2 próf í síðustu viku, markaðsfræði og aðferðarfræði. Mér gekk mjög vel í báðum prófunum enda varla annað hægt miðað við undirbúninginn sem var lagður í þetta. Við vorum alltaf 3-5 saman að læra og skiptum með okkur köflum til að glósa og fleira í þeim dúr. Við stóðum vaktina frá morgni og fram á nótt flesta daga. Ég er búin að búa í skólanum í allan þennan tíma, hef réttsvo komið heim til að sofa. Strax eftir markaðsfræðiprófið voru næstu bækur opnaðar og undirbúningi fyrir næsta próf skellt í gír. Helgin fór svo öll í stærðfræðilærdóm. Ég fór ásamt fleirum í einkakennslu í stærðfræði á laugardags- og sunnudagsmorgun og svo var setið fram á kvöld yfir skruddunum. Í gærdag var ég svo slæm í skrokknum, með samdrætti og bakverki, að ég fór bara heim um sexleitið og lagði mig. Ég var farin að halda að ég færi af stað í stressinu. Ég ákvað því að fara heim og ná að slaka smá á og læra heima í rólegheitum til að ná mér niður. Atli sat svo með mér yfir stærðfræðinni til að verða 2 í nótt og hjálpaði mér. Alveg yndislegur þessi drengur emoticon  Í morgun fór ég svo upp í skóla og hélt áfram að læra fyrir prófið sem var kl. 2. Jáhh.. get ekki sagt að prófið hafi farið vel. Ég er fallin nema að prófið verði kært og allir hækkaðir um eitthvað í einkunn. Það er mikil óánægja með þetta próf, bæði þung og mjög langt. Ég held að það hafi bara 2 verið farnir þegar að próftíminn var búinn. Við vorum eitthvað um 40 í prófinu. Ég átti nú von á að mér gengi ekkert sérstaklega vel en ég átti ekki von á að engum gengi vel. Miðað við það sem ég hef heyrt þá verða endurtektarprófin í janúar ansi þéttsetin. Næsta próf er á fimmtudag og svo bókfærslan á mánudag. Eftir það ætti ég að geta slakað pínu á.. en þá bíður auðvitað blessaða stærðfræðiprófið ennþá emoticon Ég verð bara að krossleggja fætur og vona að ég nái að taka prófið í janúar.

Ég fór í gærmorgun eftir stærðfræðitímann í skottúr í Kjósina að kíkja á Birtu þar sem við komumst ekki inn í skólann strax. Hún lítur vel út og ég hef engar áhyggjur af sárinu hennar, þetta hverfur á endanum. Núna þarf ég bara að fá flutning fyrir hana norður.


"Ertu komin að kíkja á bágtið??"


Svo sæt hún Birta mín

Atli ætlar að fara noður næstu helgi og starta vetrargjöfinni fyrir "stóðið" okkar, þau verða örugglega rosa glöð emoticon  Atli hefði farið síðustu helgi ef hann hefði ekki þurft að vinna. Verst að ég kemst ekki með til að "hjálpa". Ég get reyndar ekki verið meira en félagsskapur eins og er en það er betra en ekki neitt emoticon

Það er allt með kyrrum kjörum hjá krílinu okkar. Ég er gengin 34 vikur í dag og þetta gengur enn fínt þó svo að síðustu dagar séu greinilega erfiðari en þeir hafa verið hingað til. Ég næ samt að sofa vel og hvílast, það er alveg að bjarga mér. Svo datt ég líka í hálku í dag við skólann.. slapp bara helvíti vel.. ekkert nema egóið sem slasaðist emoticon  Ég get nú ekki sagt að það sé alltaf vinnufriður fyrir krílinu enda er að verða ansi þröngt í bumbunni.

Á föstudag í þarsíðustu viku hittumst við kerlurnar í familíunni og borðuðum góðann mat. Fyrst við vorum þarna saman þá voru teknar myndir af okkur óléttu frænknunum.

Ég stal þessari mynd af síðunni hennar Ásu og ætla að birta hana án leyfis. Ása er fremst, gengur með eineggja tvíbura stráka og er sett 24. janúar. Linda Bergdís var sett 5. des og er að bíða og svo er ég sett 19. janúar. Petra frænka býr á Suðureyri og var því ekki með, hún er sett 20. jan.. við erum nú meiri frænkurnar.. þegar ein þarf að míga þá..



Ég skelli í leiðinni inn link á barnalands-síðunna hennar Ásu.



  • 1
Flettingar í dag: 30
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 168
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 172602
Samtals gestir: 23794
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 11:16:29

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar