Mánaskál

08.07.2009 07:02

Fréttir úr sveitinni

Það hefur gengið erfiðlega að blogga en ég netsambandið hér í Mánaskál gerist bara ekki hægara og því fara allar myndir beint í myndaalbum en ekki inn á bloggið. Ég náði loksins að setja inn síðustu færslu sem aldrei birtist. Ég setti inn myndir í albumið í gær og það tók ekki nema 6-7 klukkutíma, ég er ekki alveg viss hvenær upphalið hætti því ég fór að sofa! Mig vantar líka eitthvað af myndum sem mamma og Lólý eru með í sínum vélum. Ég bið þær að setja þær beint inn fyrir mig bráðlega.


Nú er allt að gerast!

Atli er að verða tilbúinn með suðurgaflinn undir járn, það verður rosalega spennandi að sjá hvernig húsið mun líta út. Sólpallurinn er líka að taka á sig mynd, skjólveggirnir eru komnir upp svo það verk er líka á áætlun.


Traktorinn var aðeins að stríða Atla en hann er kominn í lag aftur. Þetta var ekki stór bilun og vitað fyrir fram að það þyrfti að skipta um þetta stykki. Þegar traktorinn er kominn aftur í gagnið getur Atli haldið áfram með klæðninguna á húsinu.


Ég reyni að hestast eitthvað á hverjum degi.. og vá hvað maður finnur fyrir því þegar mamma er farin af svæðinu.. takk fyrir alla aðstoðina mamma! Atli leysir mig af í skyldustörfunum svo ég komist á bak og að dunda í hrossunum. Ég er loksins búin að fá járningu svo Birta og Drungi eru komin í stand. Það gekk rosalega vel að járna þau bæði og eiginlega vonum framar með Drunga þar sem ég hafði ekki upp á góða aðstöðu að bjóða ef hann væri ekki þægur. Ég er byrjuð að lónsera Drunga og fer að leggja við hann bráðum. Við Birta erum að skríða af stað líka, það var nú dálítið sjokk fyrir hana að eiga allt í einu að fara að gera eitthvað.. ja annað en að þiggja klapp eða eitthvað annað sem hún kýs sjálf. Ég er búin að vera að teyma hana með mér þegar ég fer á Vöku og það gengur vel. Ég er líka búin að fara tvisvar á bak á henni og ég er að verða tilbúin að fara í reiðtúr á henni en vantar fylgd af stað. Atli ætlar að redda því J


Ágúst og Sandra komu til okkar í nokkra daga. Lólý skutlaði þeim í sveitina og stoppaði sjálf í 2 daga. Ég held að krakkarnir hafi skemmt sér vel eins og alltaf í sveitinni. Þau fengu að fara aðeins á hestbak líka sem er alltaf vinsælt. Mamma og pabbi voru í Mánaskál í ca mánuð og fóru heim á leið í fyrradag. Krakkarnir fóru heim með þeim. Pabbi smíðaði handa mér lónseringar gerði / rétt J og gerði upp rakstarvélina sem hann kom með í vor. Mamma stóð sig stórvel í eldabuskunni og bakstri! Það er sko ekkert betra en að koma inn í kaffi og fá pönnsur eða heita skúffuköku :D


Sama dag og mamma, pabbi og krakkarnir fóru héðan þá komu ný börn. Í þetta skiptið Birta og Kári systurbörn Atla. Þau komu með rútunni frá Reykjavík og ætla að vera hjá okkur í nokkra daga. Kári er að göslast með Atla allan daginn og gerir stíflur og fossa, á meðan Birta dundar sér og kemur með mér í hestana. Birta fékk að fara á bak á Vöku í gær og fannst það mjög gaman. Hún fær svo að fara aftur á bak í dag J


Þórdís Katla litla heimasætan okkar blómstrar í sveitinni :) Hún fór í 5 mánaða skoðun á Blönduósi í síðustu viku og mældist 66 cm og tæp 8 kg. Við nánast horfum á hana stækka!

Afi Atla frá Klaustri var að deyja 95 ára að aldri. Það verður jarðað næstu helgi svo við leggjum land undir fót. Við förum af stað á morgun og það er ekki alveg víst hvenær við komum til baka.


Annars er allt gott að frétta úr sveitasælunni og gestir velkomnir J

29.06.2009 07:45

Fréttir úr fríinu

Jæja þá er sumarfríið hafið.. æðislegt! Við lögðum af stað seinnipart fimmtudags en ég hafði eytt deginum í að græja okkur fyrir fríið, pakka niður, versla og allt það. Atli fór aftur á móti austur fyrir Selfoss snemma morguns til að kaupa traktor! Jei loksins traktor í Mánaskál J Traktoramálin enduðu þannig að vélin fór á bíl í Staðarskála og Atli keyrði svo traktorinn þaðan.



Á föstudag fór ég með hestakerru yfir í Skagafjörð að sækja Vöku. Hún var að koma úr Kjalarferð. Vaka stóð sig vel eins og við var að búast og er búin að hlaupa af sér töluvert af aukakílóunum. Núna þarf ég bara að fara að ríða út! Hrossin tóku henni mjög vel þegar henni var sleppt í girðinguna. Ekki eitt bit eða spark, ekki einu sinni kollhúfur, bara eins og hún hafi alltaf verið hérna.

Ég er ekki búin að fá járningu ennþá en það stendur til bóta.

Ég fór að kíkja á Byltingu í dag og ég hef bara gott af henni að segja. Það gengur vel og hún er eins og hún á að sér að vera. Primadonnan virðist hafa allan gang, og hún er rúm og með góðar hreyfingar. Ég hélt að hún væri pottþétt klárhryssa en hún virðist núna vera alhliða eftir allt. Ég er bara ánægð með dömuna og bara gott hljóð í tamningamanninum.


Atli er rosa duglegur eins og við var að búast, hann er strax farinn að grafa og smíða og allt það! Í dag sótti hann svo litla beltagröfu til að grafa meðfram húsinu.. það er verið að undirbúa fyrir pallasmíði og húsklæðningu!


Ég reyni að henda inn fréttum af okkur öðru hverju en ég efast um að myndirnar komi inn að ráði fyrr en við erum komin í bæinn.

23.06.2009 20:00

Langþráð frí..

Litla fjölskyldan fór austur á Klaustur á svokallaða Mosahelgi. Þar kemur móðurfjölskyldan hans Atla saman einu sinni á ári á Mosum rétt fyrir utan Klaustur. Hátíðin var vel mætt, 58 stykki ef ég man rétt. Þórdís Katla fékk fullt af athygli hjá ömmum og frænkum og allir skemmtu sér vel.

Á sunnudaginn kíktum við á hestaþing Kóps. Veðrið var æðislegt og ég skemmti mér mjög vel í brekkunni. Held þó að Atla hafi þótt þetta heldur mikið af því góða en hann var þó ótrúlega þolinmóður emoticon alltaf svo góður þessi elska. Ég hafði sérstaklega gaman af barnaflokknum því það er svo gaman að sjá svona duglega krakka og sumir voru heldur ekki háir í loftinu!

Ég var með myndavélina með mér og tók eitthvað af myndum. Myndirnar eru komnar í myndaalbumið.


Sigurvegari í A-flokk


Sigurvegari í B-flokk


Sigurvegari í Tölti


Barnaflokkur

Við Atli erum enn ekki komin af stað í fríið góða og langþráða. Bíllinn er eitthvað að stríða okkur og Atli liggur yfir honum allan daginn til að koma okkur af stað. Það lítur út fyrir að þetta sé að hafast og við ættum að komast í þessari viku norður. Ég get ekki beðið! Ég hlakka svo til að fara að dunda í sveitinni og fá á mig hestalyktina góðu.. Mmmmm love it!

Ég verð að einhverju leyti nettengd í Mánaskál og held því áfram að blogga. Ég verð vonandi dugleg að skella inn myndum í leiðinnni emoticon

 

10.06.2009 09:45

Ferð austur og fleira

Við vorum ekki heima síðustu helgi frekar en aðrar. Við skelltum okkur austur á Klaustur í þetta skipti. Atli var að vinna fyrir veiðifélagið og ég að hestastússast.

Siggi hjálpaði mér að redda hestakerru og ég fékk svo far fyrir Vöku í bæinn með hestamönnum úr Keflavík. Við Siggi fórum saman að sækja merina niður á aur og það var auðvitað bara ekkert mál. Ég var orðin dauðhrædd um að það væri orðið stórmál að umgangast hana og erfitt að ná henni en það er víst orðið ljóst að það eina sem þarf er að eiga kúlur í vasanum.. þá eru allir vinir hennar emoticon jæja það var nú gott að það var ekki meira að henni en að hún er vön að fá eitthvað þegar það á að taka hana. Ég fór svo sjálf með hana á kerru út í Álftaver og þaðað fór hún áleiðis í bæinn. Hún var æði lengi á leiðinni þar sem karlarnir voru í einhverjum hestaleiðangri í leiðinni. Þetta fór bara allt vel og ekkert mál með hana. Ylfa og Konni redduðu mér svo gistingu fyrir gripinn í Heimsenda. Vaka smellpassaði inn í stíu með feitasta hrossinu þeirra, hann var í aðhaldi og Vaka þurfti svosum ekki mikið að éta heldur. Henni samdi líka vel við hrossin úti í gerði.

Í Hörgsdal fæddist eitt folald í vor, brúnstjörnóttur hestur undan Blesu frá Mánaskál og líklega undan ógelta folanum hans Sigga (sem ég man ekki hvað heitir í augnablikinu). Hryssan fór þó í stóðhestaleiðangur síðasta sumar en þó er talið líklegra að hún hafi fyljast heima áður en hún fór til hestsins. Blesa er undan gömlu merinni minni frá afa í Mánaskál, semsagt systir Mána heitins sem var í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér finnst voða gaman að þessi hryssa skuli vera til þar sem Máni var eina hrossið sem ég hélt undan gömlu minni. Það er til rauðblesóttur hestur undan Blesu líka í Hörgsdal sem Siggi er að temja.







Nokkrar myndir í viðbót af hrossunum í myndaalbuminu

Í gær fórum við Atli svo í annan hestaleiðangur með Vöku. Við fengum lánaða kerru hjá Lilju og Bigga og keyrðum hana austur að Kjóastöðum en þaðan fer hún svo yfir Kjöl. Það var ekkert mál að sækja hana út í gerði og taka hana, ekkert mál að teyma hana upp á kerru.. hún er ekki svo vitlaus blessunin... og svo er hún líka alltaf svo falleg emoticon  kemst maður ekki langt á því??

Hestaferðalagið með Vöku gekk bara vel en ég heimleiðinni stoppuðum við á Glóru en þar var einmitt gulrótin sem dró Atla með mér austur.. traktórinn sem okkur langar svo í! Atli er búinn að vera með hugann við þessa vél í nokkra mánuði, eitthvað búið að karpa um verð og svona svo þegar hann var loksins ákveðinn að kaupa vélina og borga það sem karlinn vildi fá fyrir hana þá var hann líklega hættur við að selja hana! Þetta er nú bara svona ef maður hikar.. og svo er maður bara oft svo ferlega óheppinn. Nema hvað karlinn hafði samband aftur í gær og vélin er föl eftir allt saman emoticon Við fórum því að skoða hana svona formlega og því miður er hún meira ryðguð en okkur fannst áður svo nú erum við aftur orðin efins um að kaupa hana.. þetta er voðalega erfitt að ákveða. Þetta skýrist örugglega á næstu dögum.. spennó! 

Eitthvað fleira er í hestafréttum, t.d. að Bylting er á leið í tamningu til annars aðila. Ég vona bara að það gangi vel. Ég kem með nánari fréttir af henni síðar. Hestakerran okkar Sillu og Lilju er enn ónothæf í Heimsenda eftir að hún missti undan sér annað hjólið. Ég er búin að setja mig í samband við Sillu og vonandi verður það drifið af núna að laga kerruna. Við þurfum eitthvað að spá hvað á að gera, hversu miklu á að kosta upp á hana en þetta verður vonandi afgreitt sem fyrst þar sem mér finnst óþolandi að vera kerrulaus!

Annars er bara allt gott að frétta, ég get ekki beðið eftir því að komast norður og dunda í hrossunum mínum. Ég vona að ég hafi nægann tíma og veðrið verði okkur frekar hliðhollt.

04.06.2009 05:49

Önnur sveitaferð

Við skelltum okkur aðra ferð í Mánaskál, við vorum þar síðustu helgi og fram á þriðjudag. Atli var duglegur eins og alltaf og í þessari ferð voru t.d. gluggarnir á skemmunni pússaðir og málaðir og þakið á skemmunni fékk fyrstu umferð. Það er sko allt annað að sjá heim á bæ þegar þökin eru orðin svona "sveitabæjarauð".

allt annað að horfa heim á bæ!

Hrossin hafa það fínt, koma heim á hlað til að þiggja brauð og klapp. Mér leiðist sko ekki að hafa þau svona nálægt mér og ég hlakka rosalega til sumarfrísins! Það stendur sko mikið til, ég ætla mér að gera svo mikið.. vona bara að ég fái tímann í það. Hrossin eru ofarlega á listanum og ætla ég að reyna að vera með allt á járnum og temja smá í rólegheitunum. Kannski förum við bara norður í júní og verðum allavega út júlí emoticon Þvílíkur draumur!

Það eru miklar hrossapælingar á þessum bæ. Ég er búin að fá þá flugu í hausinn að halda öllum hryssunum mínum þetta árið því ég verð ekki með neitt á húsi í vetur. Það þýðir auðvitað að ég verði hestlaus næsta sumar en það er örugglega þess virði. Ég myndi brúka þær í sumarfríinu þetta árið áður en þær fengju leyfi til að fara á karlafar. Ég sé alveg hvernig ég yrði næsta vor.. myndi ekki sofa þegar hryssurnar væru komnar á tíma!

Ég verð líka alltaf vitlaus þegar ég sé hross sem mig langar í. Í þetta skiptið rak ég augun í systur Birtu minnar undan Gamm frá Steinnesi. Þetta er virkilega sæt klárhryssa sem ég væri sko meira en til í að bæta í stóðið mitt.. en hún kostar kannski dálítið marga peninga emoticon Ég ætti kannski bara sjálf að halda Birtu undir Gamm! Svo veit ég reyndar um aðra systur hennar á söluskrá en sú er ótamin, örugglega mjög efnileg og spennandi samt. Allavega flott á myndum.

Það er allt í einu eins og við Atli eigum fullt af fé.. allavega lítur út fyrir það ef það er horft heim á bæ til okkar þessa dagana. Kindurnar sækja voða mikið í okkur og virðast ekki fá straum þegar þær fara inn í öll hólf hjá okkur. Reyndar er alveg greinilegt að þær kunna þetta því þær setja undir sig hausinn og hlaupa þegar þær ætla í gegn! Svo var ég búin að taka eftir því líka að þær stoppa hjá hrossunum og fá sér salt og vítamín. Ætli þetta verði ekki fastur áfangastaður hjá þeim í sumar á rúntinum. Ég held að við þurfum bara að eignast kindur líka, það þarf hvort sem er að gefa hrossunum.. er ekki bara hægt að gefa fé út rúllur líka og leyfa þeim að ganga inn og út úr skemmunni? Bara hugmynd.. ég veit allavega að það væri mjög flott að eiga fulla kistu af lambakjöti núna þegar grilltímabilið er að renna í garð!

Það styttist í að mamma og pabbi hefji sitt sumarfrí. Þau verða fyrir norðan að mestu leyti og pabbi mun sjálfsagt dunda eitthvað fyrir okkur. Ég er búin að leggja inn pöntun fyrir hestarétt/gerði sem vonandi verður fyrsta mál á dagskrá svo ég geti hafist handa með hrossin mín fljótlega eftir að ég kem norður. Ég ætla að panta járningu um leið og ég veit hvenær við förum norður til að slóra nú ekkert.

Mig langar voða mikið að hafa einn barnahest í sumar, bara svona rétt til að leyfa krökkunum að fara á bak þegar þau koma í heimsókn. Birta og Kári koma til Íslands í júní og ætla að koma í heimsókn norður til okkar áður en þau fara heim til Svíþjóðar. Einnig munu Ágúst og Sandra vera hjá okkur. Ekki væri nú verra ef ég gæti notað sama hross í "tamningarnar" þannig að ef einhver lumar á svona hrossi sem mætti vera í sumardvöl hjá mér gegn klappi og knúsi þá endilega hafið samband!

Við erum á leið austur í dag og verðum yfir helgina. Atli þarf að veiðistússast eitthvað fyrir veiðifélagið og ég ætla að sækja Vöku mína og koma henni á Kjóastaði. Lilja ætlar að taka hana með sér yfir Kjöl sem er bara besta mál, Vaka kemst þá í form áður en ég byrja sumarfríið mitt.

25.05.2009 18:02

Komin heim úr sveitinni

Jæja þá er fjölskyldan komin heim úr sveitasælunni. Þetta er nú meiri paradísin sem við eigum þarna! Við vorum heppin með veður, þetta var æðislegt! Þórdís Katla var eins og ljós allan tímann. Svaf báðar leiðir í bílnum, svaf allar nætur, svaf úti í vagni eins og hún fengi borgað fyrir það og svo kom út stundum út í vagninum og horfði á okkur vinna.. bara draumur!



Atli var samur við sig.. á fullu í allskonar verkefnum. Hann málaði eina umferð á þakið á íbúðarhúsinu og er búinn að blettagrunna þakið á skemmunni. Þetta verður voða fínt þegar það verður klárað.


hérna sést íbúðarhúsið í bakgrunninum





Atli setti líka nýja hurð á skemmuna og stóran glugga með æðislegu útsýni.. beint upp í skálina!





Ég setti upp sumargirðinguna í norðurtúninu fyrir hrossin og í lautina heima við. Atli girti svo frá hlaðinu og niður í hestastykkið fyrir neðan bæ. Núna er "réttarhólfið" mitt nánast tilbúið. Ég er semsagt að vonast til að við setjum upp rétt/gerði í sumar fyrir neðan bæinn svo ég geti dundað í hrossunum í sumarfríinu. Við eigum meiri hlutann af efninu í gott gerði svo þetta er aðallega spurning um tíma.

Birta, Myrvki og Drungi líta mjög vel út. Ég er mjög sátt við það hvernig þau koma undan vetri. Þau eru engar fitubollur en í fínum holdum samt. Strákarnir eru bara reglulega flottir. Ég er voða skotin í Drunga mínum, hann er að þroskast svo fallega. Hann er mjög laglegur og svo eru fallegar hreyfingar í honum líka. Þeir bræður eru báðir spennandi finnst mér, og allur gangur laus í þeim báðum. Hrossin voru hress og kát og mikill leikur í þeim þegar ég hleypti þeim út úr vetrarstykkinu og inn á annað. Bylting missti af þessu partyi þar sem hún er í tamningu. Við kíktum á dömuna og fengum að sjá hvernig gengur. Hún er nú voða sæt þessi primadonna mín.. og já.. primadonna er hún. Hún er með einhverja smá prinsessustæla í tamningunni en það er nú örugglega bara svo að það viti nú allir hvað þeir eru með í höndunum. Hún er sko ekki primadonna fyrir ekki neitt!


Birta frá Blönduósi







Myrkvi


Bræðurnir, Drungi og Myrkvi frá Mánaskál


Drungi frá Mánaskál







Atli bar áburð á plönturnar sínar og kjarr í nánasta nágrenni okkar.

Við slóðadróum svo suðurtúnið og hestastykkið.. og þar sem við erum ekki enn búin að finna traktor þá var þetta gert með ekki minna tæki en húsbílnum hehe!



Fjórhjólið var auðvitað notað helling líka.. og munar sko heilmikið um það í girðingavinnunni!

Ég er sjálfsagt að gleyma einhverju en þetta ætti nú að vera það helsta. Annars er ég bara svo spennt fyrir sumarfríinu í sveitinni að ég er að springa. Þetta verður svo notalegt og svo margt á prjónunum!

Eitt að lokum.. síðasta einkunn er komin í hús.. var ekki nærri því jafn góð og ég átti von á! Svoleiðis er alltaf spælandi en þó voru bara 3 sem náðu hærri einkunn en ég svo ég verð bara að vera sátt við þetta. Ég var því með þeim hæðstu í 3 fögum en 2 voru ekki alveg svo góð. Núna er bara málið að spýta í lófana fyrir næstu önn!

Fleiri myndir í myndaalbuminu

Endilega kvittið í gestabókina eða commentið

20.05.2009 10:12

.. á leið í sveitina!

Jæja enn líður of langt á milli frétta á þessum bæ.

Ég er ekki búin að fá allar einkunnir enn, en ég er þó búin að fá út úr 4 fögum af 5 og þetta er bara allt í gúddí. Ég veit að mér gekk vel í síðasta faginu líka þannig að fyrsta árinu í viðskiptafræði er hér með lokið! Ég ætla svo að taka 4 fög í sumar.. vona að það gangi eitthvað þar sem það er jú auðvelt að finna sér eitthvað annað að gera á sumrin!

Við erum á leið í Mánaskál í dag.. veðurspáin er fín fram á helgi og það á að mála þökin! Vá hvað það verða mikil viðbrigði að sjá allt í einu fagurrauð þök! Bærinn hefur verið hvít/grár litlaus forever svo þetta verða tíðindi! Svo á jú líka að reyna að klæða húsið að hluta í sumar.. smíða pall og fleira og fleira!

Bylting er í tamningu á hjá Söndru Marin, þetta gengur ágætlega. Hún er ekkert vitlaus merin þó hún hafi aðeins skransað hjá henni um daginn. Ég geri mér allavega vonir um að framhaldið verði fínt.

Ég ætla að girða smá fyrir hrossin í þessari norðurferð. Ekki veitir af að rýmka á þeim fyrir sumarið. Við erum ekki enn búin að fá traktór en núna er búið að auglýsa á Húnahorninu fyrir norðan svo kannski finnum við sniðuga vél þarna á svæðinu... sem minnir mig á það.. ég þarf að panta heyskap aftur :o)

Atli fór út til Bretlands fyrir nokkrum dögum og var í 4 daga úti. Við Þórdís Katla vorum þá bara einar heima á meðan því meira að segja Svenni fór austur í sauðburð. Við vorum auðvitað voða kátar að fá hann pabba heim og hann var ekki síður glaður að hitta stelpuna sína aftur. Þórdís Katla er auðvitað svo endalaust sæt og fín að það hefur bara ekki verið til annað eins barn hehe!

Gunni og Sveinbjörg voru að koma heim frá Svíþjóð og þau komu færandi hendi í gær. Þórdís fékk fullt af fínum stelpufötum og meira að segja sundföt.. svo nú verðum við að fara að drífa okkur í sund!


í nýju dressi frá ömmu og afa í Hveró


hress og kát með pabba áður en hann fór út.. og í legghlífum og gallakjól!


að prufuheyra nýja rúmið.. og þetta dót er sko æðislegt!


alltaf í æfingum á leikteppinu


ég og elsku pabbi minn!


gaman í baði.. en sjáið baðendurnar.. þær synda á hliðinni hehe



Fleiri myndir í myndaalbuminu

Nýjar fréttir koma eftir helgi þegar við komum heim úr sveitinni!

08.05.2009 05:40

prófin búin.. sumarið að hefjast

Jæja þá er próftörnin búin! Ég byrjaði í próflestri strax eftir skírn og hef varla verið viðræðuhæf síðan þá. Þórdís Katla hefur verið hálf móðurlaus en hún átti í staðinn duglegann pabba! Hún var á daginn hjá Karen frænku og svo var Sveinbjörg amma dugleg að taka hana og Lólý frænka líka emoticon Ég get ekki annað sagt annað en ég sé hæst ánægð með próflokin.. þetta er svo erfitt á meðan á því stendur.. og erfitt á eftir reyndar líka. Ég var eins og draugur í gær, þreytan eftir próftörnina var að gera út af við mig en ég er vonandi að komast á rétt ról. Núna tekur bara við bið eftir einkunnum, þær detta inn í rólegheitunum en sú fyrsta kemur væntanlega ekki fyrr en á þriðjudag og næsta á miðvikudag og svo hinar eitthvað aðeins seinna.

Atli fór eina ferð norður í Mánaskál á meðan ég var í prófum. Hann fór með Byltingu í tamningu fyrir mig til Söndru Marinar á Efri Mýrum. Ég hlakka til að sjá hvernig rætist úr primadonnunni minni.  Vaka á að fara norður líka en það getur verið að hún fái að hlaupa norður sjálf. Hugsanlega fer hún með Lilju yfir Kjöl í lok júní og verður þá komin í form þegar við förum í sumarfrí í júlí emoticon ohh hvað það verður gaman hjá okkur! Litla fjölskyldan ætlar að vera saman í sveitinni í heilan mánuð! Ég hef hrossin mín og Atli er búinn að finna sér allskonar verkefni til að dunda í emoticon Ætli ég verði ekki með öll hrossin á járnum í sumar. Ég vona að ég geti riðið Byltingu eitthvað eftir að hún kemur frá Söndru, og svo verður Vaka á járnum og vonandi gengur mér vel að komast af stað með Birtu. Nú og ef vel gengur með prinsessurnar þá vil ég hafa Drunga og Myrkva á járnum líka og dunda eitthvað í þeim í sumar. Atli getur eflaust hjálpað mér við "tamningarnar" emoticon

Þórdís Katla er orðin rúmlega þriggja mánaða.. þetta líður svo hratt að ég á ekki orð! Ég hef ekki tekið mikið af myndum af henni undanfarið þar sem ég hef bara varla séð hana í 3 vikur.. en ég tók samt nokkrar í gær og í fyrradag af prinsessunni..


í Bumbó stólnum.. sem er kallaður koppurinn dags daglega emoticon


einbeitt hehe





sæt og kát.. enda er ég farin að sjá mömmu mína meira emoticon


 
Fleiri myndir í albuminu!

Gústa amma var í Boston um daginn og Þórdís Katla græddi heilan helling! Maður græðir sko á því að vera lítil og sæt! Amma keypti sko samfellur, sokka, boli, náttgalla, kjóla, skó, jakka, smekki, eyrna hitamæli, leikföng og fleira! Úff.. hvað ætli gerist eiginlega þegar mamman kemst sjálf til útlanda!

Bíllinn minn dó.. það hlaut að koma að því! Reyndar er hægt að lífga hann við en vatnskassinn sprakk á leiðinni heim einn daginn. Eins og það er nú "gaman" að verða stopp á háanna tíma á Kringlumýrarbrautinni þá þurfti fólk að vera að flauta á mig! Hvað er málið! Það var eins og fólk héldi að ég væri að leika mér að því að stoppa umferð! En nota bene það bauðst enginn til að hjálpa mér að ýta bílnum í burtu.. nei en endilega flautum á gelluna sem er ein með dauðan bíl sem er fyrir öllum! Tillitssemin er alveg að fara með fólk á þessum síðustu og verstu dögum! En að sjálfsögðu var mér komið til bjargar.. Svenni minn og vinur hans úr skólanum voru akkúrat einir af þessum sem hugsuðu "hvaða hálfviti er stopp þarna" .. og sáu svo hvaða bjáni var þarna á ferð og komu mér til bjargar emoticon svo er kannski dálítið lýsandi fyrir samfélagið okkar að það kom svo einn ókunnugur og hjálpaði okkur að íta bílnum upp á umferðareyju og það var útlendingur! Íslendingar eru víst ekki svo hálpsamir!

Þar sem skólinn er "búinn" ætla ég að skella mér í ræktina.. nema hvað að Baðhúsið sem er í næst götu við mig býður ekki upp á barnagæslu..isssss! Ég þarf því að leita annað sem er mjög spælandi því það hefði verið svo gott að geta labbað yfir í Baðhúsið með barnavagninn og spriklað þar. Í staðinn þarf ég að taka stelpuna með í bílinn og hún sofnar líklega á leiðinni og verður kannski pirruð þegar hún vaknar og allt eftir því, en hún hefði geta sofið bara í vagninum á meðan ég væri að púla í baðhúsinu. Svona er þetta bara.. við reddum okkur einhvern veginn.

Núna þegar önnin er búin þarf ég að fara ákveða hvaða fög ég ætla að taka í sumar! Jább.. ég er rugluð.. ætla að vera í skólanum í sumar líka! Ég ætla samt ekki að taka alveg fulla önn því ég ætla að eiga eitthvað sumarfrí líka með fjölskyldunni.. en ég ætla að reyna að flýta fyrir náminu og taka auka fög í sumar fyrst það er boðið upp á það emoticon

Ég er örugglega að gleyma einhverjum "fréttum" en ..jæja best að fara að gera eitthvað "að viti" ..

18.04.2009 23:24

Daman er komin með nafn!

Jæja þau stórtíðindi áttu sér stað í dag að Litla Atladóttir var skírð og fékk hún nafnið Þórdís Katla emoticon Betra er seint en aldrei eins og einhver sagði. Ég held að það séu bara allir voða sáttir við nafnið hennar og ekki leiðinlegt fyrir skvísuna að heita í höfuðið á besta pabba í heimi emoticon


Þórdís Katla hjá langafa Simma (langafa í Torfó)


hjá langömmu Ásu (langömmu í Torfó)


með ömmu Gústu


og ömmu Sveinbjörgu


hjá afa Guðna


hjá afa Gunna


og hjá Tinnu frænku

Ég tók voða fáar myndir sjálf í veislunni og óska hér með eftir myndum. Ég á t.d. engar myndir af okkur Atla en nóg var tekið af myndum svo eitthvað hlítur að skila sér. Ég bæti inn myndum á næstu dögum. Nokkrar myndir í viðbót í myndaalbuminu.

Annars er fátt um fréttir.. við vorum á Klaustri um páskana. Það var vinnuhelgi í húsinu hjá afa hans Atla og nóg að gera. Við Þórdís Katla dunduðum okkur á meðan og lærðum aðeins. Við hittum langafa Jón sem býr á Klaustri og tókum myndir við það tilefni

 



Í baði með ömmu Sveinbjörgu


Þórdís Katla fékk páskaegg frá afa og ömmu í Sæviðarsundi. Það mátti auðvitað ekki mismuna barnabörnunum.. lítil eða ekki þá fékk hún sko líka egg emoticon

þetta er nú svolítið spennandi

Ég átti nú víst afmæli um daginn, kerlan bara orðin 28 takk fyrir.. úff! Voðalega er maður að þroskast. Það er samt svo skrítið að mér líður samt ekkert öðruvísi en þegar ég var 27..

Atli fór norður þarna um daginn sem gekk vel. Stefnir fór með honum og þeir gátu aðeins leikið sér á sleða. Þeir keyrðu líka Benzinn upp í fjall í snjónum en þegar á reyndi voru þeir myndavélalausir, eins og það hefði verið gaman að eiga myndir af þessu. Svo var auðvitað eitthvað unnið líka enda duglegir strákar á ferð. Það er margt á dagskrá á næstunni, og sumarið verður skemmtilegt. Atli verður í fæðingarorlofi í júlí og við ætlum að vera allan mánuðinn í Mánskál! Ég, Atli, Þórdís Katla, hrossin, skemman (bílskúrinn hans Atla) og góða veðrið... hvað er betra! Það er aldrei að vita nema það verði kominn traktor í Mánaskál fyrir sumarið, allavega höfum við augastað á einum flottum en sjáum til hvað verður úr því.

Pabbi fór austur um páskana og skoðaði traktor sem honum leist svo ekki nógu vel á. Hann græddi samt múgavél í ferðinni og eitthvað meira. Þau mamma fóru svo norður með gersemina svo það er aldrei að vita nema við snertum eitthvað heyskap sjálf í sumar. Ég er svo auðvitað með nokkur verkefni í huga fyrir Atla þegar hann verður kominn á nýja traktorinn sinn emoticon
Bylting er á leið í tamningu. Ég hlakka til að sjá hvað verður úr henni. Svo er alveg inní myndinni að halda henni í sumar ef tamingin gengur vel. Ég hef augastað á Glám hans Villa Gustara sem ég leigði pláss hjá í fyrravetur. Ég held að það gæti bara verið mjög spennandi samsetning en sjáum hvað verður.

Vaka hefur ekki selst eins og til stóð svo hún fer norður í Mánaskál við tækifæri og verður notuð í sumar. Ég vona að mér gangi vel með Birtu og ég geti þá notað þær tvær í að teyma Myrkva og Drunga og fleira. Ég held barasta að við Atli eigum eftir að ríða út eitthvað saman eftir að Vaka kemur norður. Hann er nú alveg hestfær drengurinn og ég myndi þiggja félagsskapinn og aðstoðina. Til stendur að byrja á Drunga þar sem hann er orðinn 4. vetra. Ég held að hann verði ekkert til vandræða enda vel mannvanur og var inni sem folald og aftur aðeins veturgamall. Ég veit ekki alveg hvað verður með Myrkva, það þyrfti nú endilega að byrja almennilega á honum. Ef ég get þá reyni ég að dúlla eitthvað meira í honum, teyma hann og svona í sumar en það er alveg kominn tími á meiri tamningu.  Ég þarf að komast norður til að fara með Byltingu til Söndru Marinar í tamningu og vona að við finnum eitthvað út úr því.

Skella mín er komin á nýtt heimili! Ég á því engann hund lengur. Skella varð óvænt heimilislaus en  hún hafði verið hjá mömmu hans Ragga í Þorlákshöfn í dágóðann tíma við gott yfirlæti. Nú voru góð ráð dýr og ég fékk eitthvað hugskeyti að hafa samband við hana Moniku (www.tofradogs.com) og athuga hvort hún vildi nokkuð ættleiða einn vitleysing emoticon nema hvað að hún hafði svo bara áhuga. Ég held að ég hafi sko dottið í lukkupottinn þarna þar sem hún og Rúnar eru svo áhugsöm um hundana sína og sinna þeim vel. Monika er hundaþjálfari og notar clicker við sína þjálfun. Skella hefur bara gott af því að læra eitthvað nýtt og gott og ég held að það geti bara allir verið sáttir með sitt. Ég held að þetta muni allt fara vel, Skella kann allavega vel við sig, hundarnir þeirra tóku vel á móti henni og svo sýnist mér að hún fái að vera prinsessa þarna eins og hún er vön emoticon


En jæja ég held að það sé kominn tími til að fara í bælið. Núna er próftörnin að skella á svo ég á ekki von á uppfærslum í einhvern tíma. Ég skelli þó inn fleiri myndum frá skírninni þegar þær berast til min.

Kveðja Kolla og Þórdís Katla emoticon

Fleiri myndir í myndaalbumi

03.04.2009 23:04

.. nóg að gera

Jæja lífið er enn ljúft og gott á þessum bæ. Verkefnatörnin mun líklega taka enda á hjá fyrr en síðar. Ég er að leggja lokahönd á verkefni sem á að skila á sunnudag og um helgina eru líka 2 próf.. gaman gaman! Svo held ég nú að brjálæðið sé búið í bili.. næst dembist bara yfir mig próflesturinn.

Þar sem ég er nú svona upptekin þá fór Atli með Litlu í 9. vikna skoðunina í dag emoticon Hún er orðin 5370 gr og 60,1 cm.. bara stækkar og stækkar.

Atli ætlar svo að fara í Mánaskál á morgun og vera eina nótt. Við Litla verðum heima á meðan og reynum að læra áfram. Atli er að fara í dótaferð í sveitina, með vélsleða og fleira skemmtilegt emoticon Hann verður bara að heilsa upp á hrossin fyrir mig þar sem ég kemst ekki fyrr en eftir próf norður.

Við Litla tökum myndir öðru hverju svona þegar vel stendur á.. hér eru nokkrar..


svo fín í dressinu frá Agga og Snæju


svo var hún að fá svona rosa flotta prjónaða peysu frá Önnu Siggu og Dedda

aðeins byrjuð að halda á dóti


... sjáið þið bara emoticon
verst að hún endaði svo á að slá sig í andlitið með dótinu..og það var hart. Mamma þarf greinilega að kaupa eitthvað mjúkt dót sem daman getur æft sig með.

nokkrar myndir í viðbót í albuminu

30.03.2009 11:17

Nýjar myndir

Það var eins og ég hélt.. Litla er enn að þyngjast og allt eins og það á að vera emoticon Hún var 5.170 grömm á fimmtudaginn og 58,5 cm.

Það er svo brjálað að gera í skólanum hjá mér að það er ekki fyndið.. en það góða er að það styttist í að önnin klárist emoticon

Litla frænka okkar fyrir vestan var skírð um helgina og fékk nafnið Vigdís Eva emoticon  Við hittum hana og fjölskylduna í gærkvöldi. Það var rosa stuð með öll þessi kríli. Við hittust heima hjá Ásu og tvíburunum og svo mætti ég með Litlu og Petra með Vigdísi Evu emoticon  Ég tók reyndar engar myndir af þessum hitting en geri ráð fyrir að stelpa myndum frá Petru og Ásu til að sýna.

Við erum búin að festa dag fyrir skírn, já það hlaut að koma að því.. stúlkan fær nafn 18. apríl

Gunni afi kom færandi hendi í síðustu viku með smekki.. þessi mynd var tekið við það tilefni.. Grandpa´s little Angel emoticon




á leiðinni í bað


vel innpökkuð eftir baðið

hress og kát og komin í náttgallann




komin í Hello Kitty gallann frá Birtu frænku í Svíþjóð





Fleiri myndir í myndaalbuminu

25.03.2009 22:17

Fréttir, myndir

Vá hvað tíminn líður hratt! Ég er nú eiginlega farin að skammast mín fyrir bloggleysið. Svona er þetta víst bara þegar maður er orðinn "full time mom", það er lítill tími í annað.

Af fjölskyldunni er fátt í fréttum. Atli er farinn að vinn aftur og er þessa dagana í kvöld- og næturtörn. Við Litla fáum að hafa hann á daginn í staðinn svo við erum sáttar. Það er brjálað að gera í skólanum hjá mér, endalaus verkefnaskil og próf og svo er nú bara mánuður eftir af önninni.. og inn í því er páskafríið svo þetta er orðið ansi stutt. Ég kvíði fyrir prófunum en ég hlakka líka til þegar próftörnin verður búin.. þá er komið sumar emoticon

Litla fór í skoðun á heilsugæsluna fyrir hálfum mánuði og þá kom í ljós að daman var að léttast emoticon Ég mjólka greinilega ekki nóg fyrir hana og þarna er komin skýringin á því afhverju hún var svo oft pirruð og erfið, hún var bara svöng emoticon Núna fær hún pela líka og er farin að þyngjast. Ég ætla með hana í aukaviktun á morgun til að vera viss um að hún sé enn að þyngjast því næsta reglubundna skoðun er ekki fyrr en eftir hálfan mánuð. Ég á ekki von á öðru en að hún sé búin að þyngjast eðlilega.
Litla er farin að sofa úti í vagni og sefur þá vel og lengi. Ég held að við séum að verða komnar með góða rútínu fyrir daginn og allir sáttir. Hún sefur tvo góða lúra úti og svo er háttatíminn að kvöldi orðinn fastur. Hún er rosalega dugleg að fara sjálf að sofa, bæði í vagninum og í vöggunni á kvöldin og svo sefur hún vel á nóttunni.. hvað getur maður beðið um meira emoticon Hún er auðvitað bara fínust emoticon 

Síðasta vika var ansi strembin á þessu heimili, það var skólavika hjá mér og Atli var að vinna á kvöldin. Sveinbjörg Amma, Gunni afi og Tinna frænka redduðu okkur á meðan ég var í skólanum emoticon Kærar þakkir fyrir það!
Ég reyni að vera dugleg að taka myndir, hérna koma nokkrar..


Litla er farin að brosa og hjala mikið


í bleika dressinu af mömmu emoticon



Litla í bílaviðgerðum með pabba


Svenni frændi kom heim með gullfisk af djamminu.. hvað dregur hann heim næst hehe


Svenni Akerlie og Gulla komu í heimsókn.. og auðvitað var litla vinsæl emoticon

Það styttist í skírnina, við erum ekki alveg búin að negla dagsetningu en vonandi verður hún fyrir páska.. nánar um það síðar. Það er sko nóg að gera í skírnum þessa dagana. Petra frænka er að koma suður og ætlar að skíra dóttur sína næstu helgi. Ása og Konni skýra svo prinsana helgina eftir páska. Það er búið að nefna tvíburana, þeir verða skírðir Christian Arnþór og Alexander Jens en það er spennandi að vita hvað Petrudóttir á að heita emoticon

Ég er alveg pottþétt að gleyma helling þar sem það er svo langt síðan ég bloggaði síðast.

Fleiri myndir í myndaalbuminu

08.03.2009 18:18

Nýjar myndir

Litla fjölskyldan skellti sér í sveitina í viku og hafið það voða gott í snjónum. Ég og snúlla vorum auðvitað bara inni en Atli gat dundað helling í skemmunni. Það var hvítt en auður vegur þegar við komum en bætti heilmikið í snjóinn á meðan við vorum þarna. Flesta dagana var still og bjart en þegar við vorum farin að hugsa okkur til hreyfings heim gerði byl og ófærð. Það gerði ekki mikið til, Atli komst á Blönduós í búðina og við biðum róleg eftir betra ferðaveðri.






mamma er svo fyndin emoticon


að skoða pabba sinn


með súperman skykkjuna emoticon smekkurinn var víst oftar á bakinu en að framan

Hrossin hafa það ósköp gott í sveitinni. Ég tók nokkrar myndir af þeim þó að ég hafi lítið sem ekkert verið utandyra í þessari ferð.


Birta


Bylting


Drungi


Myrkvi


Við Snúlla kíktum í heimsókn til Ásu frænku og tvíburanna í vikunni. Strákarnir eru sko búnir að stækka helling síðan ég sá þá síðast enda eru þeir að verða 2. mánaða! Tíminn líður ekkert smá hratt.. Snúlla Atladóttir er líka að verða 5 vikna!


Christian, Alexander og Litla Atladóttir

Mamma og pabbi komu í heimsókn um daginn og Samba fékk að koma með. Hún spáði ekki mikið í litlunni fyrr en það heyrðist í henni.. þá stökk hún til og varð að fá að skoða hvað þetta eiginlega var!..


dömurnar að skoða hvor aðra emoticon

Fleiri myndir í myndaalbuminu

26.02.2009 08:35

Klárlega kominn tími á fréttir

Það er sko aldeilis kominn tími á fréttir af litlu fjölskyldunni, mér gengur bara ekkert að blogga þessa dagana.

Lífið gengur sinn vanagang, litlan drekkur og sefur og kúkar og allt það, bara eins og þetta á að vera. Reyndar tók hún upp á því að vilja ekki taka brjóstið og lét hafa ansi mikið fyrir sér á tímabili. Mamma og pabbi voru orðin ansi þreytt á orginu en það virðist ríkja eitthvað samkomulag um þessa brjóstagjöf núna, allavega eins og er.

Það hefur verið alveg brjálað að gera í skólanum, það er merkilegt hvað það þarf alltaf allt að vera á dagskrá á sama tíma, prófin og verkefnin hellast yfir mig þessa dagana. Atli og litlan hafa verið dugleg að bjarga sér á meðan ég er í skólanum og svo hef ég geta lært eitthvað smávegis.

Nýjasta nýtt er að ég fékk flensu.. oj bara. Ég hata að vera veik, það er svo ömurlegt. Nema hvað að ofan á það þá var litla óvær akkúrat þegar ég lá í flensu sem er ekki skemmtilegt. Ég er eitthvað að hressast sem betur fer og verð örugglega búin að hrista þetta af mér fljótlega. Við vorum meira að segja á leiðinni í Mánaskál þegar ég lagðist í bælið sem gerir þetta enn leiðinlegra.


Birta frænka að passa


Kári frændi stóð sig líka vel


Í ömmustólnum.. og í gallanum af mömmu emoticon

Ég þarf endilega að henda inn myndum af mér í þessum galla.. kannski við séum bara dálítið líkar.


ohhh eitthvað svo sár

Fleiri myndir í myndaalbuminu

10.02.2009 14:00

Daman rúmlega vikugömul

Jæja þá er prinsessan á heimilinu orðin rúmlega vikugömul.. já þetta líður sko hratt!! Heimilislífið gengur vel fyrir sig. Hún er dugleg að drekka og sofa og kúka í bleyjur.. hvað á maður svosum annað að gera þegar maður er svona lítill emoticon Næturnar hafa verið góðar, hún vaknar einu sinni á nóttu og svo bara aftur um morguninn, eftir þann sopa má sko bara alveg halda áfram að sofa. Pabbinn hefur aldrei sofið eins mikið og hann hefur gert núna og kannski var löngu kominn tími á að hann hvíldist almennilega, hann er alltaf eins og þeytiskífa því það er svo margt skemmtilegt hægt að gera ef maður á pínu lausann tíma emoticon

Við fengum heimsókn frá Svíþjóð á laugardaginn því þá kom Habba systir Atla og krakkarnir hennar Birta og Kári. Birta ætlar að vera barnapía hjá okkur og Kári ætlar að guttast eitthvað á meðan. Þau verða hjá okkur fram á næstu helgi og það er sko ekki leiðinlegt fyrir okkur að hafa svona marga að snúast í kring um prinsessuna, þeim mun fleiri pásur fyrir okkur emoticon

Ég er búin að vera með myndavélina uppivið til að gleyma nú ekki að taka myndir. Svona kríli stækka svo ógurlega hratt að maður verður að passa að missa nú ekki af neinu.


Ágúst Unnar og Sandra Diljá með litlu frænku


Á leiðinni í 5 daga skoðun á barnaspítalann





Fleiri myndir eru í myndaalbumi hægra megin á síðunni



Flettingar í dag: 119
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 152
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 174510
Samtals gestir: 24091
Tölur uppfærðar: 3.5.2024 17:18:16

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar