Mánaskál

Færslur: 2008 Ágúst

13.08.2008 17:10

Verslunarmannahelgi, Mánaskál og fleira

Jæja.. ég er aftur farin að slóra smá í blogginu.. best að taka sig á.

Ég byrjaði að blogga fyrir mörgum mörgum dögum en ég gat ekki sett inn myndir.. er ekki viss afhverju en það varð til þess að ekkert varð úr blogginu.

Ég ætla því að blogga núna samt þó að það fylgi engar myndir strax.. en þær koma á endanum.

Verslunarmannahelgin var í rólegri kantinum. Ég fór austur til Atla og við fórum meðal annars á fjöll. Frændfólk hans var í veiðihúsi/fjallakofa við Grænalón svo við kíktum þangað. Stefnan var svo tekin á Langasjó en við hættum við sökum þoku. Við renndum bara aftur inn á Klaustur og héldum áfram í útilegufíling á preststúninu við Jónshús. Húsbíllinn er bara auðvitað æðislegur og stóð sig eins og hetja í fjallferðinni, alveg merkilegt hvað þessi stóri og þungi bíll kemst.

Á Klaustri var brenna og flugeldasýning á sunnudagskvöldi, allt eins og vanalega skilst mér. Þetta var bara fínasta helgi þó svo að maður hafi verið alveg grænn og blár yfir því að hafa ekki farið á þjóðhátíð á næsta ári. Ég skal fara á næsta ári!!

Við erum búin að fara norður í Mánaskál til að girða meira. Við girtum fyrir neðan bæinn (á eftir að finna nafn á stykkið) og svo lokuðum við á milli þeirrar girðingar, girðingarinnar á bæjarhlaðinu og svo stóru túngirðingunni og fengum út úr því "millistykkið". Atli er alveg ofurgirðingavinnumaður, ótrúlega duglegur drengurinn minn. Svo var hann svo góður við mig líka að hann leyfði mér bara að sofa út og þegar ég vaknaði þá var drengurinn bara ber að ofan að berja niður girðingastaura.. úlala.. hehe semsagt bara allt eins og það á að vera  Sissi kom alla leið frá Kirkjubæjarklaustri í heimsókn og til að hjálpa okkur, ég er ekki viss um að hann leggi í að keyra alla þessa leið aftur fyrir svona stuttan tíma.. þó er aldrei að vita.. við erum svo ansi skemmtileg  

Hryssurnar frá Balaskarði komu til baka frá Njálsstöðum á meðan við vorum fyrir norðan og tryppunum smalað heim líka svo við gripum tækifærið að sækja hrossin okkar og setja þau í nýja millistykkið. Við Sissi teymdum hrossin 4 á milli en Atli kom á eftir á bílnum. Reyndar varð smá misskilningur á milli Byltingar, Drunga og Sissa svo að Bylting skildi við okkur og fór aftur í réttina til hinna hrossana. Við Sissi héldum þá bara áfram og Bylting var sótt í annari ferð. Mikið er rosalega notalegt að hafa hrossin svona heima við. Ég er svo glöð að standa á hlaðinu mínu og fylgjast með hrossunum.. svo koma þau líka upp og heilsa upp á mann, allt voða heimilislegt bara  Ég er líka alltaf að sjá betur og betur hvað ég á fínar hryssur. Folarnir eru nú ekkert síðri en hafa allavega ekki litinn með sér enda báðir bara brúnir. Við klipptum hófana á Drunga á hlaðinu og gáfum honum ormalyf. Þetta gekk bara ótrúlega vel enda ekki við öðru að búast.

Lilja og co fengu Mánaskál lánaða eftir að við Atli fórum heim. Þau áttu bara notalega stund í sveitinni okkar held ég.. slógu njóla og eitthvað tilfallandi heimavið og fylgdust með slættinum fyrir mig  Jább..  það er sko búið að heyja í Mánaskál eftir nokkurra ára hlé. Ég fékk 25 rúllur af suðurtúninu sem ég er bara ósköp sátt við. Það ætti að duga fyrir hrossin mín og ég hef jú ekki við meira en það að gera. Verra er að rúllurnar voru allar gataðar fyrir mér af fugli, líklega krummanum en þó gæti mávurinn hafa komið nálægt rúllunum líka. Lilja og Biggi límdu allar rúllurnar fyrir mig og svo var bara legið á bæn og vonað að að þær yrðu ekki gataðar strax aftur! Þessar myndir eru fengnar af láni frá Lilju.







Tásla á baki á Birtu og Bylting fylgist með

Signý og Magnús röðuðu rúllunum í stæðu fyrir mig í gær og fuglinn hefur gatað nokkrar rúllur aðeins aftur. Þær verða límdar saman um leið og færi gefst og vonandi bjargar það einhverju. Svo er ekkert annað að gera en að sjá hvernig heyjið verður. Þetta leit allavega allt vel út þangað til rúllurnar voru gataðar.. bara spælandi!! Takk fyrir aðstoðina Signý og Magnús, það er alltaf gott að eiga góða granna

Ég var í sumarfríi í síðustu viku sem var frábært! Atli er í sumarfríi og ég fór austur til hans og var þar í viku. Reyndar ætti ég að byrja söguna aðeins fyrr þar sem Atli var svo huggulegur að fara austur í fríið til að laga bílinn minn.. hann er orðinn gamall og lúinn og veitti ekki af upplyftingu. Nema hvað.. á fimmdag í þar síðustu viku þá klessti ég bílinn hans á leiðinni heim úr vinnuni. Frekar súrt að klessa bílinn hans á meðan hann er að lakka minn og fleira  Ég held að mér sé samt fyrirgefið.

Ég fór austur daginn eftir með foreldrum Atla og áfangastaðurinn var rétt við Vík í Mýrdal. Við vorum í brúðkaupi alla helgina. Þetta var ótrúlega flott sveitabrúðkaup.. alveg eins og brúðakaup eiga að mínu mati! Veisla í hlöðunni, brenna og gítar og allur pakkinn! Bara yndislegt! Við Atli fórum svo austur á Klaustur á sunnudeginum og dunduðum okkur út vikuna. Ég reið svolítið út og svo fórum við saman að veiða. Við fengum nokkra góða fiska og ég veiddi meira að segja tvo frekar stóra, stærri var 5 pund en það er persónulegt met  Það er líka bara svo gaman að vera í útilegufíling í húsbílnum, það skiptir varla máli hvar maður er.

Ég er alltaf að lenda í einhverju.. ég fór í reiðtúr í síðustu viku og lagði af stað á Vöku. Stóðið í Hörgsdal kom auga á okkur og hófst þá hnegg og læti. Stóðið hljóp svo af stað og ég vissi að ég þyrfti að vera svolítið sannfærandi til að koma Vöku framhjá hrossunum fyrst þau létu svona. Vaka varð líka allt í einu "palli er einn í heiminum" þegar hrossin kölluðu svona á hana og hún átti bara verulega bágt. Ég reið svo bara framhjá hrossunum og taldi mig vera á góðri leið.. svo allt í einu heyri ég hófatak fyrir aftan okkur og sjit.. stóðið var komið út úr girðingunni og á harðastökki í áttina til okkar! Á þeim tímapunkti var ég ekki alveg viss hvor ég myndi lifa þetta af hehe.. en ég er svosum seigari en það.. ég er búin að komast að því!

Hestaferð Kóps var síðustu helgi og ég var mjög spennt að fara með. Ég fékk lánaða hesta fyrir okkur Sigga svo við gætum farið með í ferðina. Það fór reyndar svo að Gulla lagði af stað með mér þar sem Siggi var upptekinn, við Gulla voru allt of seinar fyrir svo við lögðum af stað án þess að ég væri búin að prufa lánshrossin til að sjá hvor ég vildi hafa. Ég lagði bara á hryssuna og fór af stað. Ég var reyndar svo bara mjög sátt við hana og prufaði aldrei klárinn. Fyrsta stopp var í Mörtungu en þar var hrossunum sleppt og farið inn í bæ að skála. Þegar gengið var í verk að handsama hrossin aftur lenti ég í því að vera slegin allhressilega. Ég hef aldrei verið slegin af hrossi en ég held að það hafi ekki verið margir slegir svona illa eins og ég í þetta skiptið. Ég stóð akkúrat fyrir aftan hrossið þegar það lyfti sér upp og barði og ég bókstaflega flaug aftur fyrir mig. Vitni sagði að ég hafi farið meter upp í loftið og ég lenti nokkuð langt fyrir aftan þar sem ég stóð. Ég vissi auðvitað bara ekki hvað á mig stóð verðrið og varð brjáluð! Ég fékk báðar afturlappirnar í mig, í hægri öxlina og svo undir vinstri hendina og í vinstri handlegginn. Fólki varð auðvitað mjög brugðið þar sem þetta leit mjög illa út. Það er kannski ekki hentugast að það sé ólétta manneskjan sem er slegin  ég meiddi mig sem betur fer ekkert nema bara á sálinni. Ég fékk töluvert sjokk eftir að mér rann reiðin. Svo fékk ég auðvitað mar en það er eitthvað sem fer.. ég get hreyft mig og gert allt sem ég þarf svo ég slapp bara rosalega vel. Ég var eiginlega send heim úr hestaferðinni þarna þar sem fólki fannst að ég ætti að slaka á og jafna mig áður en ég héldi áfram. Hrossin mín voru því sett inn í hesthús og við sóttum þau seinna um daginn og keyrðum þau þangað sem átti að byrja á sunnudaginn.

Ég er búin að lenda í árekstri.. og vera slegin af hesti.. ég er semsagt að bíða eftir 3. slysinu

Hestaferðin gekk svo bara vonum framar á sunnudeginum þrátt fyrir ótrúlega mikla rigningu í lokin, ég hef ekki oft séð svona rigningu! Við lögðum af stað í sól og enduðum í vatnsveðri. Ég lagði af stað á lánshrossinu og verð að viðurkenna að hún var aðeins og gróf fyrir mig, ég fékk svokallaða togverki í bumbuna og leið ekki alveg nógu vel en það slapp allt. Svo um leið og ég skipti um hross og fór á Vöku þá fann ég ekki fyrir neinu. Hún er svo mjúk og fín að það skipti ekki máli hvort ég reið tölt eða brokk, ég fékk enga verki en um leið og ég skipti aftur yfir á hina hryssuna þá komu verkirnir aftur. Þetta var dúndur reið yfir heiði, börð og skurði, brekkur og tilheyrandi og á köflum mátti maður hafa sig alla í að sitja hrossið. Ég reið Vöku yfir allan þennan kafla og vá hvað hún stóð sig vel. Ég er ótrúlega ánægð með hana. Svo er líka æðislegt að teyma hana, maður finnur ekki fyrir henni. Lánshrossið teymdist ágætlega en hún tók stundum aðeins of mikið pláss frá okkur Vöku þegar við vorum að fara þrögar og erfiðar leiðir. Annars ætla ég sko ekkert að kvarta, ég fór á 2 mjög góðum hrossum og þetta var fín ferð.

Ég var ansi ansi þreytt á mánudag í vinnunni, eiginlega dáin eftir helgina og ég er enn að jafna mig. Núna er skólinn byrjaður og ég er á fullu að skipuleggja mig. Bækurnar eru ekki fáanlegar í Reykjavík og ég er því að bíða eftir þeim frá Akureyri. Það er sko bara allt að gerast!

Ég veit að ég er búin að fara á hundavaði yfir sl. mánuð eða svo. Ég er pottþétt að gleyma mörgu. T.d. fórum við Atli í gæsaleiðangur í Hörgsdal sem endaði þannig að ég svaf í skurði í grenjandi rigningu og svaf af mér þegar gæsin kom hehe.. Ég blogga vonandi bráðum aftur.. núna fer mig að vanta eitthvað til að gera þegar ég á að vera að læra hehe.. þá er fínt að blogga.

Jæja ég held að það sé kominn tími til að fara að sofa.. ég þarf að fara snemma á fætur í læknastúss. Ég hendi vonandi inn myndum fljótlega.

  • 1
Flettingar í dag: 45
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 63
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 173206
Samtals gestir: 23918
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 17:52:19

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar