Mánaskál

Færslur: 2014 September

26.09.2014 23:08

Kominn tími á færslu!!

Jæja núna gengur þetta ekki lengur! Ég hef ekki komið með færslu síðan í júlí í fyrra og ætla hér með að bæta úr því. Ég geri samt ráð fyrir að ansi margt "fréttnæmt" gleymist í þessari yfirferð en ég ætla allavega að reyna að stikla á því sem helst hefur á daga okkar drifið síðastliðið rúmt ár! 

Svona að tilefni þess að síðusta færsla er síðan í júlí í fyrra þá er væntanlega mál málanna að ég fæddi stúlku þann 16. ágúst (í fyrra!) Þessi prinsessa er nú orðin rúmlega ársgömul og eins og eflaust allir vita nú þegar heitir hún Íris Björg og er algjör gaur emoticon

Á fæðingardeildinni


Systur að kynnast


Hún var ekki lengi að stækka..











Þórdís Katla stækkar líka hratt og er komin í skóla 




Skólasetning


Fyrsti skóladagurinn 

Lífið í sveitinni hefur verið ljúft í sumar. Veiðin í Laxá á Refasveit hefur gengið vel og Atli fór aðeins í hana sjálfur. Ég ætlaði að setja hér inn myndir af Atla í veiðinni en finn engar myndir í tölvunni minni svo ég vísa bara á heimasíðu árinnar www.refasveit.is þangað til ég kemst í myndirnar sem allar virðast vera í Atla tölvu. 

Í vor fengum við tvö folöld, bæði undan Hvítserk frá Sauðárkróki sem er 1. verðlauna hestur undan Álfi og Smáradóttur. Assa kastaði 31. maí brúnni hryssu sem fékk nafnið Aldrei.



Ég sá út um eldhúsgluggann þegar Assa var lögst til að kasta og rauk af stað og rétt missti af því þegar hryssan kom í heiminn en við náðum henni samt svona glænýrri emoticon  Assa verður stygg þegar hún er köstuð og var ekki til í að sýna okkur folaldið sitt neitt of mikið. Fljótlega rákum við hana því í aðhald og tókum folaldið hennar til að handfjatla það. Aldrei litla fékk þar allskonar klapp og klór.



Hugsýn kastaði svo 23. júní eftir mikla bið! .. ég var alveg farin að velta fyrir mér hvort það væri ekki örugglega folald í henni eftir allt. Ég var búin að vakta hana og fylgjast með henni svo lengi að ég var eiginlega hætt að nenna því. Það var auðvitað þá sem hún kastaði. Atli hringdi í mig í vinnuna og sagði mér að nú yrði ég glöð þegar ég kæmi heim! Þegar ég kom heim blasti svo við mér þessi líka fína skjótta, blesótta hryssa emoticon




Þessi sæta hryssa fékk nafnið Hófsemi.. svona bara því hún er svo "hóflega" skjótt emoticon

Bæði Assa og Hugsýn fóru svo undir Byr frá Borgarnesi sem er ungur, jarpvindóttur 1. verðlauna hestur. Ég er að sjálfsögðu búin að leggja inn beiðni um tvær vindóttar hryssur. 



Orða frá Stórhóli er loksins orðin 3. vetra og til stendur að hefja tamningu í vetur. Hún stakk mig af blessunin í sumar og fannst svo síðar í hólfi á næsta bæ.. og já auðvitað hjá stóðhesti emoticon mér til mikillar "gleði". Ég geri því fastlega ráð fyrir að fá eitt aukafolald á næsta ári. Ég ætla samt að reyna að byrja á tamningunni í vetur, en það fer aðallega eftir því hvað mér tekst að búa til mikinn tíma fyrir hrossin í haust/vetur.



Í vor fengum við þrigga fasta rafmagn og ljósleiðara emoticon Nýja nettengingin er algjörlega ástæða þess að ég legg í að blogga á ný. Nýja netið er algjör bylting og svo fengum við líka Rúv snjólaust og fullt af öðrum stöðvum í kaupbæti, algjör lúxus. Fyrst við vorum hérna með gröfuverktaka á hlaðinu þá sömdum við við hann um að taka grunninn að nýja fjárhúsinu okkar. Grunnurinn var tekinn og vatnslagnir og rafmagn plægt að grunninum.  Síðan þá hefur ekkert gerst þar sem við tókum skyndilega U-beygju og settum fjárhúsbygginguna á bið og fjárfestum í annari jörð í staðinn. Jörðin heitir Sturluhóll og er í næsta nágreni við okkur, ca. 5 km frá okkur og um ca 2 km frá Skagastrandarvegi. Á jörðinni er íbúðarhús með bílskúr og eldri útihús. Hvort tveggja þarf viðhald og erum við komin af stað í allskonar framkvæmdir. 


Húsið þarf nauðsynlega á klæðningu að halda og vonandi komumst við í það fyrir vorið.



Útihúsin hafa verið notuð sem hesthús síðustu ár. Ég ætla að hafa fé í hlöðunni og hesta í gamla fjósinu. Síðar meir verð ég væntanlega með fé þar líka. 

Við erum byrjuð að taka til hendinni og gera og græja. Íbúðarhúsið fer í útleigu um mánaðarmótin og því höfum við verið að eyða tíma í það núna. Eftir mánaðarmótin getum við svo sett meiri kraft í útihúsin. Síðan við fengum afhent þann 1. september höfum við tekið til, hent rusli, mokað út úr hlöðunni og hesthúsinu, lagað rafmagnið í hesthúsinu og hlöðunni, sett upp ljós inni og úti og girt. Í íbúðarhúsinu er búið að háþrýstiþvo, mála, pússa, hengja upp ljós, ganga frá rafmagni og fleira. 




Sævar mættur að moka út


Valerie vinnukona að háþrýstiþvo


Hérna erum við Valerie búnar að handmoka því sem liðléttingurinn náði ekki úr hlöðunni


Atli að smíða stoðir undir þakið í hlöðunni

Í september er alltaf nóg að gera í réttum og því tengdu. Ég fór sjálf í göngur í fyrsta skipti í ár. Ég tók Valerie vinnukonu með mér og ég held að við höfum ekki gert mikið af okkur. Valerie var búin að vera dugleg að hreyfa reiðhrossin á meðan ég var í vinnunni, á milli þess sem hún vann allt milli himins og jarðar. Hún var sko algjör himnasending þessi stelpa og vonandi kemur hún til okkar aftur á næsta ári. 


Valeri á Vöku, teymir Rák og Kóngur utaná

Í göngunum kom ég á Mjóadal í fyrsta skipti sem var mjög gaman því þarna á ég land sem ég hafði aldrei séð. 


Séð yfir þröskuld


Á leið ofan í Mjóadal


Mætt á Mjóadal


Mjóidalur





Valerie og Kóngur


Safnið að koma niður að Balaskarðsrétt.

Mamma og pabbi og Lólý systir og hennar fjölskylda komu til okkar réttarhelgina. Atli var erlendis og missti því af öðrum réttunum í röð. Þetta var þrælskemmtileg helgi og auðvitað nóg að gera. Við gistum öll á Sturluhóli svo það var nóg pláss fyrir alla.


Valerie og Ágúst Unnar búin að finna Snædísi


Kiddi og Sandra fundu lamb



Lengi vel leit dilkurinn okkar svona út.. rosa margt fé

Ein af okkar kindum kom af fjalli með lítið lamb og fékk því far í réttina á kerru. Lambið var ca 1-2 vikna gamalt (réttirnar voru 7. sept). Lambið vakti mikla lukku enda voða lítið og sætt emoticon




Frændsystkin saman í réttunum


Kolla BÓNDI komin heim með litlu gimbrina

September er algjör veisla fyrir sveitavarga eins og mig. Helgina eftir fjárréttirnar eru stóðsmölun og stóðréttir sem er ekki minna skemmtilegt en fjárréttir og göngur. Við Valerie fórum að sjálfsögðu ríðandi Laxárdalinn og höfum með okkur Kanadíska ferðakonu og Gumma vinnufélaga minn. Þar með voru öll mín reiðhross í notkun og hér með óska ég eftir reiðhrossum að láni næsta sumar emoticon Ég fór í fyrsta skipti frá Gaustsdal eins og gagnamennirnir og það var upplifun að fara þessa leið núna en hingað til hef ég riðið upp Strúgsskarðið. 


Tiffany með Vöku og Valerie með Kóng


Drungi tapaði skeifu og fékk nýja neglda undir á Kirkjuskarði


Fullt af hrossum og fólki


Rák, Drungi og Vaka

Við stelpurnar skelltum okkur á ball á Blönduósi með Made in Sveitin og Magna Ásgeirs um kvöldið. Þetta var rosalega gaman og þrátt fyrir langan dag þá varð ég eiginlega spæld þegar hljómsveitin hætti að spila emoticon en fyrst stóðréttirnar eru svo daginn eftir var kannski bara ágætt að fara heim að sofa.


Ég var ekki lengi að finna hana Orðu mína í réttinni.. ég þarf bara að finna alla útlendingana með myndavélarnar á lofti.. þá finn ég Orðu. Hún er alltaf vinsælt myndefni enda spök og nýtur þess að baða sig í sviðsljósinu.


sko mig.. búin að finna hross





Brynja Pála kom svo norður til að finna sinn hest í réttunum og setja á hann múl. Þrátt fyrir mörg hross fundum við rétta hestinn og viti menn hann var ekki búinn að gleyma neinu frá fortamningunni í vor. 


Vörður frá Narfastöðum, Brynja Pála stoltur eigandi og Guðrún Árný

Lambadómar fóru svo fram í síðustu viku og þá var loksins komið að því að uppskera árangur erfiði síns. Öll lömbin okkar skiluðu sér heim í haust fyrir utan það eina sem týndist hérna heima við bæ síðasta vor. Það var alveg merkilegt, kindin fór út með tvö lömb og var í hólfi hér heima við bæ með hinum kindunum. Allt í einu var hún bara með annað lambið og hitt fannst hvergi. Ég var langt frameftir nóttu að leita að lambinu hennar en allt kom fyrir ekki. Heilt á litið er ég var mjög ánægð með lömbin mín þetta árið. Ég fékk mun fleiri einlembinga en ég kæri mig um en í staðin voru lömbin að meðalali mjög væn. Sigurvegarinn í lambadómum þetta árið reyndist vera hrúturinn hennar Þórdísar. Við gátum þá með góðri samvisku sett hann á eins og við höfðum óskað okkur. Þessi hrútur er undan einni af spökustu kindunum og er botnóttur Grámannssonur. 


Hrúturinn hefur fengið nafnið Hraunar og er búinn að stækka ansi mikið síðan þessi mynd var tekin.

Hraunar stigaðist svona:
51 kg
ómv. 30
ómfita 3,4
lögun 5
 fótur 104
haus 8
frampartur 8,5
bak og útl 9
bak 9
malir 8,5
læri 18
ull 8
fætur 8
samræmi 8,5
ALLS 85,5 stig

Annar hrútur var settur á svona bara "just in case".. svona ef þessi skyldi óvænt drepast eða eitthvað svoleiðis. Sá er undan Salamon sæðingarstöðvarhrút og þrílembu undan Frostasyni. Hann fékk nafnið Órói og hann er skemmtilega flekkóttur. Á þessum bæ voru semsagt bara settir á mislitir hrútar svo vonandi fáum við einhverja skemmtilega liti í sauðburðinum í vor emoticon

Við fengum líka vænar gimbrar og ætla ég að gera þeim nánari skil síðar.

Ég veit að ég er að gleyma og sleppa mörgum hlutum sem ég hefði almennt leyft að fljóta með í bloggið en ég held að þetta sé orðið gott í bili. Ég ætla að vona að ég standi við að koma héðan í frá með fréttir reglulega. Það var bara svo erfitt að koma sér af stað fyrst það var orðið svo langt um liðið. 
  • 1
Flettingar í dag: 65
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 63
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 173226
Samtals gestir: 23924
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 19:36:41

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar