Mánaskál

Mánaskál

Mánaskál er í Laxárdal í Austur Húnavatnssýslu. Bærinn er merktur in á kortið rétt neðan við Skrapatungurétt.

Amma mín og afi, þau H. Torfi Sigurðsson og Agnes Sigurðardóttir bjuggu í Mánaskál í Laxárdal, Austur Húnavatnssýslu. Faðir minn bjó í Mánaskál þegar hann var 12-15 ára en bróðir minn bjá hjá þeim frá 4 ára aldri og þangað til hann stofnaði sitt eigið heimili í Vestmannaeyjum. Þegar afi lést 1993 flutti amma á Blönduós þar sem hún bjó allt til október 2003 er hún lést. Fjölskyldan hefur síðan 1993 notað bæinn sem sumarhús. Ég og bróðir minn erfðum jörðina þegar amma lést og við eigum örugglega eftir að eiga þar góðar stundir í framtíðinni. Íbúðarhúsið er farið að láta á sjá og stefnt er að því að gera eitthvað fyrir það í nánustu framtíð eða byggja sumarhús á jörðinni.

Ég á margar góðar minningar frá Mánaskál og mér hefur alltaf fundist gott að koma í dalinn minn. Þarna er friðsælt og maður getur auðveldlega gleymt stað og stund. Því fylgir alltaf sérstök tilfinning þegar maður kemur í hlað eftir keyrslu að sunnan. Ég er alltaf jafn spennt þegar ég er á leiðinni norður og vona að þetta verði sælureiturinn minn í framtíðinni.

 

Mér finnst stundum að ég muni lítið eftir afa. Ég var 13 ára þegar hann dó og ég vildi að ég hefði haft lengri tíma með honum. En minningarnar eru góðar og ég man mjög vel eftir því hvað afi var alltaf skemmtilegur. Hann hafði mikla þolinmæði gagnvart börnum og ekkert var jafn spennandi og að fá að fara með honum í Kaupfélagið á Blönduósi eða yfir á Balaskarð.

 

Sveitin hjá afa og ömmu var oft ekkert voðalega spennandi fyrir krakka því þau voru bara með kindur í minni tíð en maður fann sér alltaf eitthvað að gera. Amma var alveg hörð á því að krakkar ættu ekki að hanga inni í sveitinni og mér var alveg sama því ég vildi helst vera úti. Afi gaf mér gamla Cortinu sem stóð á hlaðinu og ég skemmti mér konunglega í hræinu í nokkur ár. Það eru ekki allir krakkar sem eiga sinn eigin bíl til að leika sér í. Ég og systir mín áttum líka eldavél á hlaðinu þar sem við bökuðum drullumallið okkar. Ég drullumallaði oft í Mánaskál enda stutt að fara í bæjarlækinn til að sækja vatn. Eftir að Mánaskál fór í eyði fór pabbi með eldavélina og bleiku kortínuna mína á haugana. Ég var lengi að sætta mig við að hann hafi gert það en maður varð víst að eldast upp úr þessu á endanum.

 

Það var rosalega gaman að vera í Mánaskál í heyskap á sumrin. Það var voða sport að fá að raða upp heyböggunum á túninu og ég man vel eftir því þegar afi leyfði mér að keyra traktorinn með heyvagninn aftan í meðan aðrir hentu böggunum upp á. Mér fannst ég auðvitað voðalega merkilega að fá að keyra en í raun dólaði Zetórinn bara í lága drifinu og ég stýrði. Þessi blessaði heyvagn var alltaf skemmtilegur. Pabbi smíðaði hann sjálfur og ég var alltaf voða stolt af því. Þegar farið var með baggana inn í hlöðu fengum við að sitja á vagninum og Lassi gamli fékk oftast far. 

 

Fyrstu minningarnar mínar frá Mánaskál eru af Moldu. Molda var smalahesturinn hans afa ef ég man rétt og var hún oft ein heima við bæ. Hún var voðalega spök og kom á móti mér þegar ég trítlaði niður á tún til hennar með brauðbita. Hún kunni greinilega á ömmu því hún kom stundum að eldhúsglugganum og sníkti brauð. Amma gaf líka smáfuglunum á veturnar og var fallegt að sjá allan fjöldann sem var saman kominn í garðinum.

 

Við fórum eitt árið í Mánaskál á páskum og þá var folaldsmeri í fjárhúsinu. Hryssan hafði kastað snemma og tíðarfar var þannig að ekki var hægt að hafa hana úti. Ég hafði rosalega gaman af þessu enda með ólæknandi hestasýki. Afi fór með mig inn í stíuna og ég fékk að klappa folaldinu. Þetta folald var sótrauð stjörnótt hryssa sem ég eignaðist þó nokkrum árum seinna. Áður en afi lést gaf hana mér eina af stóðmerunum sínum og dag einn þegar ég fletti gömlum myndum sá ég að folaldið sem ég skoðaði með afa um árið var sama hryssan.

 

Það var alltaf gaman að koma norður í réttirnar. Eina skiptið sem ég man eftir að hafa verið ósátt við afa var í réttunum eitt árið. Afi átti lambhrút sem ég var ofsalega hrifin af en hann vildi ekki setja hann á. Ég man enn eftir honum, hann var fallega flekkóttur, með blesu og vel hyrndur. Afi vildi nánast bara hvít lömb og ég gat ekki verið meira ósammála honum í þeim málum. Ég fyrirgaf honum þetta auðvitað en ég man enn eftir þessum hrút.

 

Stóðréttir í Skrapatungurétt

 

Hvergi á landinu koma eins mörg hross saman í stóðréttum eins og á Norðurlandi vestra. Helstu réttirnar eru Víðidalstungurétt í Húnaþingi vestra, Skrapatungurétt í Austur Húnavatnssýslu og Laufskálarétt í Skagafirði. Hundruðir hrossa eru rekin á afrétt í júlímánuði. Bændur fara í göngur í lok september og byrjun október samkvæmt aldagamalli hefð, og þá eru bæði kindur og hross rekin úr víðáttumiklum sumarhögum sínum til byggða.

Mikil upplifun er að taka þátt hrossagöngum og er það sífellt að verða vinsælla hjá Íslendingum og erlendum gestum. Ferðaþjónustuaðilar bjóða hestaferðir í hrossasmölun til fyrrnefndra rétta. Réttir eru ein stærsta hátíð heimafólks á árinu. Það alltaf jafn spennandi fyrir bændurna að sjá hrossin sín aftir þegar þau koma til byggða eftir sumardvöl á fjöllum. Í réttunum er slegið á létta strengi og sungið og skemmt sér. Oft blómstrar hestaverslunin og margur gerir góð kaup.

Heimild: http://www.northwest.is/rettir.asp

Stóðréttirnar í Skrapatungu eru yfirleitt þriðju helgina í september og verða því líklega 17.-18. september í ár. Þangað mætir eflaust her manna líkt og fyrri ár en væntanlega er stutt í að fólkið verði fleira en hrossin. 


 

Stóðreksturinn 2002. Balaskarð í bakgrunni.

 

Alltaf er áð við Mánaskál

 

Hrossin við réttina

 

"Tökum þennan rauða"

 

Síðustu 4 mynir eru fengnar að láni frá http://www.velkomin.is/jonsig

Flettingar í dag: 62
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 107
Gestir í gær: 16
Samtals flettingar: 173055
Samtals gestir: 23885
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 12:18:38

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar