Mánaskál

Færslur: 2008 Janúar

31.01.2008 21:19

Myndir

Voðalega er ég ódugleg við að blogga.. en myndirnar eru allavega loksins komnar í tölvuna mína :)

Afmælið hennar Ásu Maríu..



Kúkadansinn lifir tímans tönn.. ekki að sjá að skvísan sé orðin þrítug !


Ég og Elvar Atli að dansa "kúkadansinn" .. gamall siður síðan á Suðureyri "back in the days"


Afmæli Önnu Marínar...

Ég fór í annað þrítugsafmæli á dögunum en hún Anna Marín fyrrverandi slysógella varð þrítug. Hún bauð í party út í sveit á Álftanesi og var vel mætt eins og vanalega. Hún tók á móti gestum og gangandi í plast hjúkkugalla og tók sig vel út.




Árshátíð Icelandair...

Við fórum á árshátíð sl. helgi í Laugardalinn. Þetta er ótrúlega stórt battery og mikið lagt í þetta. Skemmtiatriðin voru svona upp og niður en í heildina var þetta bara fínt. Þegar stefnan var tekin á miðbæinn vandaðist málið þar sem það var kominn bylur og enga leigubíla að fá. Einhverjar hetjur mynduðu röð fyrir utan laugardalshöllina en mér datt sko ekki í hug að standa úti í hríð og skafrenningi á kjól! Þetta endaði svo að bestasta besta frænka mín hún Karen kom og sótti okkur Atla og keyrði okkur heim. Við hættum við að fara í bæinn þar sem það var ekki gott leigubílaútlit fyrir nóttina.



Enn hef ég ekkert frétt af Ótta, þrátt fyrir að hafa reynt að ná í Eyjólf til að fá fréttir. Mér stendur orðið ekki á sama um folann þar sem tíðin hefur alls ekki verið góð. Ég er svo á leið út úr bænum um helgina og þarf því að vita það núna en ekki á morgun eða hinn hvort hann komi í bæinn um helgina! Lilja vinkona er líka að fara út úr bænum svo ég er í vondum málum ef hann skyldi allt í einu koma í bæinn núna.

Það er semstagt tekin stefnan á þorrablót á Klaustri sem er einn af hápunktunum hjá okkur frænkunum. Gulla er búin að raða okkur saman á borð og þetta verður örugglega rosalega gaman. Gulla og Gústi eru í skemmtinefnd sem gerir þetta extra skemmtilegt fyrir okkur stelpurnar. Konnarnir verða með í för.. haha já það er víst enn hægt að hlæja að þessu.. systurnar Ása og Jenný eiga báðar kærasta sem heita Hákon og kallaðir Konni!! Engin smá samkeppni á þessum bæ.. maður verður nú að passa að fá allt eins og systir hehe!

Ég stefni enn á að fara norður næstu helgi þar sem Miami ferð Atla er dottin uppfyrir. Atla datt nú meira að segja dottið í hug að taka með og það er ótrúlega góð tilhugsun í kuldanum hérna heima. En ferðin datt úpp fyrir og það þýðir ekkert að gráta það. Ég er líka ótrúlega spennt að fá að sjá tryppin mín og komast í sveitina.

Jæja.. nóg komið í bili.. fréttir væntanlegar eftir þorrablót :)


24.01.2008 11:28

Jæja, kominn tími á blogg!

Ótti er enn ekki kominn í bæinn og ég hef ekkert heyrt.. alveg ótrúlegt. Ég er farin að halda að hann sé svo flottur að honum verði bara ekki skilað. Það er kannski bara líklegasta skýringin :)

Ég er búin að kaupa mér ógurlega sæta skó fyrir árshátíðina um helgina og svo er auðvitað þorrablót líka helgina þar á eftir. Reyndar er Atli orðinn eitthvað slappur svo kannski verður ekkert farið á árshátíð um helgina. Það gerir þá ekkert til.. það kemur þorrablót eftir það. Ég er að leita að sjali sem passar við kjólinn minn og gengur illa.. svo ef einhver á svart sjal þá vil ég endilega fá það lánað :)

Ég er búin að fá fréttir af tryppunum mínum fyrir norðan. Þau eru komin heim á bæ hjá Signýju og komin á gjöf. Ég er auðvitað voðalega glöð að heyra þetta þar sem ég var komin með óþægindi í magann yfir þeim. Mér heyrðist á Signýju að hún og Magnús hefðu þurft að hafa svolítið fyrir þessu og lent í ævintýrum í leiðinni. Ég vona bara að ég geti hjálpað þeim eitthvað í næsta stríði í staðinn. Mér finnst voðalega gaman að hestastússast en maður hefur bara of sjaldann tíma í það. Þetta á nú vonandi eftir að breytast. Ég stefni á að fara norður aðar helgina í febrúar og hlakka mikið til að kíkja á bangsana mína :)

Mér gengur ekkert að koma myndunum mínum á netið.. ég held að ég verði að fara að kaupa mér nýja tölvu.. þá fara hlutirnir örugglega að gerast. Allt er þetta samt í vinnslu.

Ég var að vinna síðustu helgi sem var ekki frásögufærandi nema að ég flaug á hausinn þegar ég mætti í vinnuna á laugardag. Það var svo mikill snjór og lítið rask bak við hús svo ég vandaði mig að ganga í fótsporunum sem voru þarna fyrir. Einhvern veginn tókst mér að stíga aftan á hælinn á vinstri fæti og fljúga framfyrir mig.. með tilþrifum!! Sem betur fer var fallið ekki hátt og lendingin mjúk. Ég hefði svo viljað sjá þetta gerast þar sem ég datt eins og litlu börnin þegar þau detta.. beint á andlitið! Ég stóð svo upp ógurlega hissa og skömmustuleg og dauðfegin að enginn sá til mín.. nema hvað að ég lít beint framan í Lólý systir. Hún var þarna með Kidda að versla og stóð akkúrat í bakdyrahurðinni og sá snjókallinn koma! Ég var þakin snjó frá tám og upp á haus og handtaskan mín stúfull af snjó! Þetta kennir mér sko að hafa töskuna ekki alltaf opna! 

Annars er ég farin að hallast að því að það sé eitthvað orðið að mér. Ég er eitthvað svo mikill klaufi allt í einu. Ég datt í vinnunni síðustu helgi og svo var ég ógurlegur klaufi í innpökkunum, bara eins og hendurnar vildu ekki gera eins og ég bað.. gat varla bundið almennilega slaufu stundum... og til að toppa allt þá hrasaði ég í stiga í vinnunni í gær og var næstum því búin að drepa mig! Án gríns það hefði þurft sjúkrabíl til að skafa mig upp úr gólfinu ef þetta hefði ekki sloppið fyrir horn. Ég var að koma niður úr mat með Svanhildi geyjinu sem fékk algjört taugaáfall þegar ég flaug af stað. Við gengum niður af þriðju hæð og þegar við vorum að leggja af stað niður síðustu hæðina þá rann ég eitthvað til og hentist niður stigann. Sem betur fer náði ég að grípa í handriðið og bjargaði mér fyrir horn en ég fór sko head first niður stigann! Svanhildur fékk taugaáfall en ég hló :)  Ég hlít að hafa stigið í bleytu eða eitthvað.. en þetta var alveg kostulegt.. á hælum og alles :)

Ég fékk sendar myndir af Mánaskálar Degi sem fór til Hollands um daginn, er alltaf á leiðinni að skanna þær inn og setja á netið. Sama með Mánaskálar Dögun sem fór til Danmerkur. Svo tók ég sjálf myndir af Dropa sem ég þyrfti að henda inn aftur. Ég þarf endilega að fara að setja þetta inn á hundasíðuna mína sem ég er algjörlega búin að vanrækja www.manaskal.islenskurfjarhundur.com Þetta kemur með tíð og tíma.

Ég er nú örugglega að gleyma einhverju en þetta gerist bara alltaf þegar maður dregur það að blogga.. reyni að vera duglegri :)

18.01.2008 09:17

vikan að klárast...

Ása María varð þrítug á miðvikudag þann 16. janúar og ég gleymdi að hringja í hana. Einnig átti Aggi bróðir afmæli þann 16. janúar og ekki mundi ég heldur eftir að hringja í hann.. ég er alveg ferleg! Til hamingju með afmælin bæði tvö :)

Enn er ekkert að gerast hjá mér í hestamálum, Ótti er enn fyrir austan svo ég er bara að bíða eftir að hann komi í bæinn. Ég hef ekkert frétt af tryppunum mínum, verð að muna eftir að hringja norður. Ég las á Röðuls-síðunni að holdafar hefði ekki verið mjög gott á þeirra hrossum vegna slæmrar tíðar.. sem þýðir það sama um mín hross geri ég ráð fyrir. Einhverra hluta vegna hef ég á tilfinningunni að Ótti komi í bæinn um helgina.. þar sem ég er að vinna!

Næstu helgi er árshátíð hjá Atla. Ég er að vinna þá helgi líka en ætla að reyna að fá frí svo ég komist með þangað. Svo er auðvitað þorrablótið á Klaustri 2. febrúar og svo er árshátíð Kaupþings 15. mars.. ég hlít að þurfa að kaupa mér nýjann kjól! Reyndar keypti ég rosa sætann kjól í Boston sem ég notaði um jólin.. en það er svo gaman að vera í nýjum kjól :) Ég sé til hvað ég geri í þessu.. ég gæti alveg komist upp með það að fara alltaf í sama kjólnum enda aldrei sama fólkið í kring um mann.. nema Atli.. og hann er karlmaður ;)  Ég hugsa að ég kíki samt í búðir við tækifæri. Ég sá æðislegann kjól í Flash á Laugaveginum um daginn.. ég held að ég verði að fara að skoða hann.. allavega að kíkja á verðmiðann :)

Atli var að vinna í nótt sem er frekar glatað, ég þurfti að kúra ein :( Ekki skánaði það þegar ég gat ekki sofið vegna kviðverkja og veltist um og grenjaði vel framyfir miðnætti :( Svo til að toppa allt voru engar verkjatöflur til.. og öll apótek bæjarins lokuð! Ekki nóg með það heldur svaf ég líka mjög illa þarsíðustu nótt og þarf því að hefja vinnuhelgina illa sofin og ómöguleg.. æðislegt! 

Djöfull skitu íslendingar á sig á móti Svíum í EM í handbolta í gærkvöldi. Það var eiginlega bara pínlegt að horfa á þetta, seinni hálfleik sérstaklega. Þetta er bara svo spælandi þar sem við getum svo mikið mikið meira. Svo urðum "við" allt í einu lifandi rétt fyrir leikslok.. en þá var það auðvitað allt of seint. Úff ég hef bara ekki taugar í svona! Ég vona að næsti leikur gangi betur :)

Þessi vika hefur liðið frekar hratt, en hún var líka í styttra lagi hjá mér. Ég er að vinna um helgina og hlakka mikið til þegar helginni verður lokið. Ég er ekki alveg í stuði fyrir helgarvinnu núna.

Myndirnar úr afmælinu hennar Ásu eru enn á leiðinni, þær eru reyndar enn í myndavélinni minni en þær koma á endanum :)

 

15.01.2008 22:46

Janúar hálfnaður.. hætt að vinna hjá KB í Smáranum..

Janúarmánuður er hálfnaður.. ég er nú ekki alveg að ná þessu. Þetta ár ætlar að líða enn hraðar en það síðasta held ég.

Ása María vinkona verður þrítug á morgun og hélt upp á það á laugardaginn í góðra vina hópi. Við vorum nokkuð mörg frá Suðureyri sem var svolítið gaman enda fólk sem ég hitti ekki á hverjum degi. Við fórum svo út á lífið og skiluðum okkur heim undir morgun. Ég var með myndavélina með mér og tók eitthvað af myndum. Ég held reyndar að þær hafi verið fáar sem teljast góðar en þó náðist ein ótrúlega ógeðsleg af mér.. og ég ætla að skella henni hingað inn. Það er nefnilega alveg merkilegt hvernig ég myndast stundum.. úffff ég kem mér svo oft í furðulegar stellingar :)

Sunnudagurinn var óttalegur letidagur hjá mér og maður hefði pottþétt getað nýtt tímann í eitthvað nytsamlegt. Svona er þetta bara stundum, svo ótrúlega gott að gera ekkert. Pestin "góða" náði svo í mig á aðfaranótt mánudags sem var ekki skemmtilegt en ég var svo komin í vinnu aftur á þriðjudag enda ekki annað hægt því það stóð til að flytjast búferlum í vinnunni.

Dagurinn í dag var að mestu eðlilegur nema að það var allt í kössum í útibúinu. Á slaginu fjögur var svo mættur hópur manna til að flytja okkur út úr smáranum og upp í Hamraborg. Það tók nánast engann tíma að breyta útibúinu í tóman geim með nokkrum skrifborðum.. hvert einasta snitti horfið út í sendibíl. Við vorum svo framyfir níu að koma okkur fyrir í "nýja-notaða" útibúinu okkar. Ég held reyndar að þetta muni ganga ágætlega en ég vona að smiðirnir hinum megin við vegginn verði ekki mjög hávaðasamir á meðan þeir koma upp nýja húsnæðinu okkar.

Ég var búin að fá þær fréttir að Ótti kæmi í bæinn annað kvöld.. en svo breyttist það.. ég er nú alveg að fá nóg af þessu! Ég hringdi í karlinn sem er með Ótta til að fá að vita hvenær ég mætti eiga von á honum á morgun, svona ca allavega þar sem ég þarf að blikka Lilju til að taka á móti honum ef ég er enn að vinna þegar hann kemur. Nei nei.. þá eru þeir hættir við að gera þetta á morgun.. og það verður sko ekkert í þessari viku heldur.. og þeir munu sko bara koma honum í bæinn sama hvenær það verður og vilja bara hafa það þannig, ég á ekkert að spá í því! Halló.. ég þarf nú að vita eitthvað.. ég vildi fá hann inn fyrir löngu síðan og er alveg búin að fá nóg af þessari bið. Ég þarf nú líka að vera til taks þegar folinn kemur, ég er eiginlega alveg viss um að þeir hringja þegar þeir eru að leggja af stað eða eru hálfnaðir í bæinn til að láta mig taka á móti honum.. og ætli ég sé þá ekki að vinna í blómabúðinni eða eitthvað! óþolandi! Vá hvað ég verð fegin þegar hann verður kominn til mín... og eins gott að ég fái rétta folaldið í hendurnar.. það væri það eina eftir að fá vitlaust folald!

Ég þarf nú að fara að fá fréttir af tryppunum mínum að norðan, ég vil fara að heyra eitthvað af þeim. Ætli ég bjalli ekki í Signýju til að athuga stöðuna. Mér þykir nú verst af öllu að hreinlega komast ekki norður sjálf til að kíkja á þau, ég er að verða hálf taugaveikluð yfir þeim.

Ég er að vinna næstu tvær helgar þar sem ég þurfti að skipta helgum til að geta verið í fríi þegar þorrablótið á Klaustri er. Ohh hvað það er leiðinlegt að vinna svona helgi eftir helgi.. en svo fæ ég reyndar 2 í frí í röð og það verður kærkomið. Verst að það er svo langt þangað til ég kemst norður næst.. febrúar er eitthvað svo langt í burtu :(

Það er ótrúlega mikið að gera í social lífinu, búið að bjóða manni í annað þrítugsafmæli næstu helgi. Anna Marín verður örugglega með skrautlegt party á Álftanesinu ef ég þekki hana rétt. Næstu helgi eru líka 2 Díf sýningar (www.dif.is) sem hefði verið rosalega gaman að fara á. Reynar er aldrei að vita nema að ég reyni að ná fyrri hlutanum af þeim áður en ég mæti í vinnuna í blómabúðina. Á laugardagskvöld er svo hittingur hjá Díf félögum á Players sem mig langar mikið að kíkja á en ég kemst því miður ekki í matinn því ég er auðvitað að vinna. Ég reyni að fara á báða staði hugsa ég en þó líklega í mýflugumynd á báða.

Ég fékk ótrúlega flotta mynd senda af systurdóttur minni í dag.. Ég horfði nú lengi á myndina áður en ég fattaði hvað mamma hennar meinti. Daman var búin að klippa toppinn á sér.. og það líka ekkert smá! Hún var sem betur fer ekki byrjuð að snyrta síða hárið að aftan! Hún er með rosa sítt og flott hár og mamman hafði sko ekki húmor fyrir þessu! Pabbinn skemmti sér þó heldur betur en mig grunar að hann hafi ekki sýnt Lólý mikið hvað honum þótti þetta spaugilegt. 

 


Komið nóg af bloggi í bili.. reyni að henda inn myndum á morgun

08.01.2008 22:34

Byrjuð í ræktinni

Ég kom mér loksins af stað í ræktina aftur eftir jólafríið. Ég er algjör hetja þó ég segi sjálf frá :) Núna er bara að standa við stóru orðin og vera samviskusöm. Það styttist hratt í bikinítíð og þá er eins gott að vera húsum hæfur.  Ég mætti semsagt í ræktina í morgun og planið er að mæta á morgnana flesta morgna vikunnar. Ég er alveg búin að sjá að ég nenni þessu ekki þegar ég er búin  að vinna.

Það eru komnar 6 vikur síðan ég hætti að reykja!! og gengur enn vel :) .. hvar eru pakkarnir mínir!! :P Ása frænka er enn að standa sig líka eftir því sem ég best veit. Núna er mamma í ferlinu líka og ég ætla nú bara að opinbera það hérna til að setja pressu á kerlu. Hún er líka orðin svona gsm skvísa eftir að ég gaf henni gemsa í jólagjöf. Ég held að ég sleppi nú reyndar að opinbera símanúmerið hennar en fyrir þá sem vita það þá má hringja í hana.. hún þarf að æfa sig :) Hún kom mér reyndar ótrúlega á óvart í tækninni þar sem hún er að nota fítusa sem ég hef ekki nennt að nota. Ég á tæknilegasta símann á markaðnum (ekki einu sinni kominn til íslands!) og ég hringi, svara og sendi sms.. geri ekki mikið meira en það.

Ég á að sækja Ótta austur á laugardaginn og ég er að vona að Kristján hestabílstjóri reddi því fyrir mig þar sem ég á ekki kerru og ekki bíl til að draga kerru heldur. Hann er reyndar ekki svo stór.. ég gæti lagt niður sætin í station og troðið honum í skottið hehe. Lilja er búin að setja hausinn á sér að veði því hún er búin að marglofa Villa (sem ég verð í hesthúsi hjá) að ég sé ekki erfið í umgengni og gefi "yfirleitt" þegar ég á að gefa. Greinilega eins gott að standa sig hehe. Ég hef reyndar engar áhyggjur af þessu, ef einhver þekkir mig þá er það Lilja og ég veit að hún hefði ekki reddað mér plássi nema hún væri viss um að missa ekki hausinn fyrir vikið. Takk Lilja mín... hlakka til að eiga góðar stundir í hesthúsinu :)

Ég er semsagt ekki á leið norður þessa helgi því Atli verður að vinna og fer í skólann. Það er bara allt í lagi, ég get þá tekið á móti Ótta og leikið mér í hesthúsinu. Það rifjaðist t.d. upp fyrir mér að gerðið hjá Villa er frekar stórt og það verður spennandi að koma Ótta inn í húsið eftir að hann fær að fara í gerðið í fyrsta skipti... sjálfboðaliðar óskast! Vá hvað ég er að verða spennt.. úlala.. ótrúlega gaman. Úú.. sem minnir mig á það.. ég þarf kannski að skjótast í dótabúð hestamannsins og kaupa mér lítinn sætann folaldamúl fyrir óskafola þjóðarinnar. Sem er auðvitað bara flottastur og flottastur á litinn líka.. og þið sem haldið að hann sé brúnn skuluð halda ykkar skoðunum út af fyrir ykkur þar sem þetta er svona "nýjufötinkeisarans" dæmi.. það er bara bilað fólk sem sér ekki rétta litinn á honum. Hann er að sjálfsögðu úr skýragulli :

Það eru loksin komnar fréttir af þorrablótinu á Klaustri. Það reyndist ekki vera síðustu helgina í janúar eins og ég hélt heldur helgina þar á eftir sem er að sjálfsögðu vinnuhelgi! ohh.. alltaf jafn heppin ég! En þetta reddaðist, ég gat fengið skipt um helgi og vinn þá síðust 2 helgarnar í janúar í staðinn. Jenný frænka á einmitt afmæli sama dag og þorrablótið er sem hlítur að gera þetta extra skemmtilegt. Pabbi á auðvitað afmæli þá líka og mamma og pabbi eiga eins árs brúðkaupsafmæli líka! Við frænkurnar erum að verða ansi spenntar fyrir þorrablótinu enda er þetta orðin svona hefð. Núna koma reyndar "makar" með.. hehe finnst fyndið að segja þetta.. við erum ekki nógu fullorðnar fyrir svona tal :) svo þetta verður örugglega aðeins öðruvísi en örugglega rosalega gaman samt.

Það er brjálað að gera í vinnunni núna.. úfff. Útibúið mitt er að flytja upp í Hamraborg í næstu viku svo það verður í nógu að snúast hjá okkur að pakka niður og svona. Ég vona bara að þetta verði ekki mjög leiðinlegt.

Það stendur núna "keisari" á bak við mig.. er farin í bólið.. :)

05.01.2008 22:34

Gleðlilegt nýtt ár

Jæja þá er víst komið árið 2008.. og ekki yngist maður við það!

Andskotans djöfulsins hvað ég hata þessa tölvu!!!!!!!! Ég var búin að gera langt og stórt blogg með fullt af myndum þegar helvítis tölvan klúðraði því!!! ARG!!! Ég sem var búin og ætlaði að fara að sofa!!!! AAARRGGG!!!!!!!!!!!!

Jæja þá.. ég geri þá aðra tilraun.. með hangandi haus og meira til!!!

Eins og áður kom fram þá fór Atli austur á annan í jólum en ég var að vinna milli jóla og nýárs. Ég var í fríí helgina fyrir áramótin og ákveðið var að fara austur og eyða áramótunum á Klaustri. Ég ætlaði að fá far austur á sunnudag en var mikið að spá í að skella mér bara á laugardegi þar sem ég var í fríí og hafði í sjálfu sér ekkert að gera. Það spáði stormi á landiu öllu aðfaranótt sunnudags og allan sunnudaginn svo ég ákvað að drífa mig bara af stað austur um kvöldmatarleyti á laugadag. Ég hefði nú frekar farið fyrr um daginn því veðrið náði í rassinn á mér undir eyjafjöllunum og það var sko ekki skemmtilegt. Ég sótti fyrst á Selfoss flugeldasýninguna fyrir jörgunarsveitina Kyndil á Kirkjubæjarklaustri en hún gleymdist víst. Ég lagði því af stað í brjálæðið með fullan bíl af flugeldum! Veðrið fór að versna við Landeyjarnar og snarversnaði þegar ég kom undir eyjafjöllin. Það ringdi ofan í svellið og ég hélt að sumar vindhviðurnar myndu koma mér af veginum. Ég keyrði auðvitað hægt þar sem ég réð ekkert við bílinn. Ég var ótrúlega þakklát fyrir glænýju vetrardekkin mín en dauðsá eftir því að hafa ekki fengið mér nagladekk sem ég ætlaði að gera þar til ég var töluð ofan af því. Þetta kennir mér bara að gera það sem ég ætla að gera, ekki það sem aðrir vilja að ég geri. Á einhvern ótrúlegann hátt komst ég alla leið á Klaustur, dauðfegin að vera á lífi.. og rosa ánægð að vera komin í sveitina.

Það var skítaveður á öllu landinu á sunnudeginum og því miður var Klaustur ekki undanskilið. Reyndar var örugglega skárra verður hjá okkur en hjá flestum öðrum.. enda er hvergi betra að vera en á Klaustri. Það var því frekar fátt gert þennan dag enda varla verandi úti fyrir roki og rigningu.

Gamlársdagur var frekar rólegur líka, fórum aðeins í heimsókn til Gulla í Fagurhlíð og ég fór svo í heimsókn í Hörgsdal. Það er búið að taka hestana á hús í Hörgsdal og ég varð auðvitað að kíkja á þá. Vá hvað ég verð að fara að taka inn hross og fara að gera eitthvað.. hlakka rosalega til!

Gamlárskvöld var ósköp notalegt. Við vorum í Jónshúsi með foreldrum Atla og Sissa og foreldrum hans. Þetta var allt eins og það á að vera, góður matur, brenna og áramótaskaup. Þegar skaupið var búið fóru strákarnir upp í fjall til að breyta skiltinu. Í brekkunni fyrir ofan þorpið er ljósaskilti með ártalinu. Þessu er alltaf breytt á miðnætti með öllu tilheyrandi. Ég held að Atli og pabbi hans hafi byrjað á þessu og sjái alfarið um þetta. Þetta hefur allavega verið í mörg ár og er voðalega skemmtilegt að sjá þetta.


fyrir miðnætti.. enn 2007


2008

Strákarnir komu svo niður og byrjuðu að sprengja frá sér allt vit. Þeir voru með ótrúlegt magn af flugeldum og svei mér þá held ég að þeir hafi keypt upp lagerinn hjá björgunarsveitinni. Ég fékk meira að segja flugelda frá björgunarsveitinni fyrir það að hafa komið með flugeldasýninguna með mér austur. Ég á alla mína flugelda ennþá.. svo endilega bjóðið mér í party :P


Atli byrjaður að skjóta upp



Nýársdagur var ekkert rosalega góður fyrir mig þar sem þynnkupúkinn heimsótti mig hressilega í morgunsárið. Ég man ekki hvenær ég varð síðast svona veik. Ég þarf eitthvað að endurskoða hvítvínið, kampavínið og bjórinn á sama kvöldinu.. nú eða magnið.. eitthvað er það. Þegar höfuðverkurinn loksins hvarf gat ég farið að taka dótið mitt saman og koma okkur af stað í bæinn. Ferðin heim var svo rosalega skemmtileg :)

Ég er að vinna í blómabúðinni núna um helgina og svo var planið að fara norður í Mánaskál næstu helgi. Það gæti farið á annan veg þar sem ég náði loksins í þann sem keypti Dimmu og er þar af leiðandi með Ótta minn. Ég er búin að reyna að ná í hann í marga daga og náði loksins í skottið á honum í dag og komst að því að ég verð að sækja hann austur á laugardaginn.. akkúrat þegar ég ætlaði að vera í Mánaskál. Það hefði verið fínt að vita þetta með góðum fyrirvara! Ég er búin að hringja í Kristján hestabílstjóra og er að vona að hann geti flutt Ótta í bæinn fyrir mig næstu helgi og einhver tekið á móti honum svo að ég geti farið norður eins og stóð til.

Lilja er búin að redda mér plássi hjá Villa í Gusti. Til að byrja með verð ég með Ótta hjá honum en ég sendi hann svo austur til Gumma fer að þrengjast í húsinu. Þá er kominn tími til að taka fröken Byltingu í bæinn og byrja að temja hana. Það er of mikið að hafa Byltingu í bænum heilan vetur þar sem hún er bara á 4. vetur svo það hentar vel að nýta plássið svona fyrir þau bæði. Ég hefði helst viljað vera í Heimsenda en ég tími bara ekki að borga fyrir heilt pláss fyrir Byltingu en nota það svo bara hálfan veturinn.

Ég veit að það verða fullt af fínum hrossum í húsinu og þar á meðal er hann Glámur frá Hofsósi.. það verður nú freistandi að "missa" Byltingu út í gerði til hans í vor því Glámur er enn með kúlurnar góðu.


Glámur á ísnum

Ég er örugglega að gleyma einhverju sem var búið að koma fram í upprunalega blogginu.. en svona er þetta bara.. þegar maður tínir heilu bloggi þá fer allur andi úr manni!

  • 1
Flettingar í dag: 56
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 63
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 173217
Samtals gestir: 23922
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 18:24:34

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar