Mánaskál

Blogghistorik: 2008 N/A Blog|Month_10

28.10.2008 11:04

Ferð í Mánaskál og fleira

Jæja tíminn flýgur áfram.. núna er október að verða búinn! Ég er komin rúmar 28 vikur á leið, rúmlega 6 mán. svo þetta er allt að styttast. Litla krílið mitt er ansi fyrirferðarmikið á köflum og minnir reglulega á sig í bumbunni emoticon Mér líður bara ósköp vel þrátt fyrir auka þyngslin og allt það. Ég er alveg fær í flestan sjó ennþá og læt ekkert stoppa mig sem þarf ekki að gera það. Atli er líka voða voða góður við mig og passar upp á að ég fari mér ekki að voða. Ég fæ svo mikla athygli þessa dagana og endalaus knús að ég verð örugglega bara abbó út í litla barnið þegar það fer að stela athyglinni frá mér emoticon Mér finnst svo ósköp notalegt að fá alla þessa hlýju.  

Við Atli fórum norður í Mánaskál á föstudaginn þrátt fyrir frekar slæma verðurspá. Við vorum viss um að við yrðum á undan veðrinu og svo var óveðrið líka alveg á mörkunum að ná okkur í Mánaskál. Fyrst það var ekki útlit fyrir að það yrði ófært inn í dal ef það snjóaði þá fórum við bara alla leið og ferðin gekk vel. Við fórum meira að segja upp á bæjarhólinn sem ég sá ekki fyrir mér í fyrstu! Það var ótrúlega mikill snjór í lautinni og því átti ég ekki von á að við færum upp. En svona er nú nýji fíni jeppinn duglegur emoticon og ökumaðurinn auðvitað líka. Það er allavega ljóst að ég geri ekki mikið gagn hangandi á innréttingnum í skelfingu hehe. Ég er sko ekki mikil jeppamanneskja, það er nokkuð ljóst emoticon 

Það var skítaveður á laugardag, kalt og hvasst og skafrenningur. Við vorum samt aðeins úti og Atli setti niður nokkra staura. Já.. einmitt.. við vorum að girða í snjó og skafrenningi! Það sem hann gerir ekki fyrir mig og trunturnar! Alveg hreint yndislegur!! Hrossin þáðu brauð með þökkum og röltu með mér inn í nýtt hólf þar sem beitin er meiri. Það var misdjúpt niður á gras en grasið var meira að segja nokkuð grænt ennþá emoticon Hrossin líta vel út og hafa það ágætt enn sem komið er. Við opnuðum fyrir þau inn á suðurtúnið svo þau hefðu þar sjól fyrir kaldri norðanáttinni. Veðrið var mikið skárra á sunnudag, eiginlega bara ágætt. Atli kláraði þá að girða en rúllustæðan var girt af, svo verður bara að koma í ljós hvort sú girðing standi eitthvað upp úr eða hvort hún hverfur alveg. Það er allavega blússandi straumur á girðingunni svo ég efast um að hrossin fari viljandi að fara of nálægt henni.

Atli gat auðvitað ekki gert "ekki neitt" svo hann málaði líka ganginn uppi og reif fatahengið niður. Þetta er því bara orðið voða huggó, kominn nýr skenkur á ganginn og svo á ég öruggl. eftir að hengja upp eitthvað punt, myndir eða svoleiðis. Verst að það er mjög áberandi hvað gólfið er dapurt þegar það er búið að mála veggi og loft og gera fínt. Ég held að við hljótum að henda einhverju þarna á gólfið fljótlega. Ég held að það sé þó búið að ákveða að næst á dagskrá sé að steypa gólfið í kjallaranum.

Við komumst með þokkalega góðu móti út úr dalnum aftur en það hefði geta verið búið að skafa í erfiða kafla.. það reyndist nú vera ekkert sem við kæmumst ekki yfir í fyrstu tilraun emoticon

Atli er enn að skipta á Birtu fyrir mig.. enn og aftur gerir drengurinn allt fyrir mig og trunturnar! Ég var í skólanum í gærkvöldi og Atli fór því og sá um þetta. Hún er á batavegi og vonandi erum við að sjá fyrir endann á þessu. Það stendur til að selja hana þegar hún er búin að ná sér að fullu.

Atli var að vinna í alla nótt og kom ekki heim fyrr en eftir að ég var byrjuð að snooza emoticon það var auvðitað rosa gott að fá hann heim þó að ég hefði auðvitað kosið að fá hann mikið fyrr.
 
Ég fer til ljósunnar í fyrramálið, bara þetta standard tjekk. Ég á ekki von á öðru en að allt sé í orden. Ég á reyndar að fara í smá auka blóðprufur en ekkert stórmál samt. Svo var ég búin að ákv. að fara á eitthvað fæðingarnámskeið.. það hlítur að fara að styttast í svoleiðis emoticon jább.. alveg rétt það er víst ekki bara að styttast í krílið.. heldur í fæðinguna sjálfa! hehe Þetta verður ekkert mál, ég er ekkert kvíðin. Atli á eftir að standa sig eins og hetja og svo verður litla fjölskyldan saman heima í einhvern tíma.. bara notalegt emoticon

Ég er svolítið farin að spá í barnadót, hvað vantar og svona. Amma í Torfó kom þessu eininlega öllu af stað.. það er þá kannski bara henni að kenna ef ég næ ekki jólaprófunum sökum einbeitingarkorts hehe. Málið er að amma og afi í Torfó hafa gefið fínar gjafir þegar barnabörnin hafa átt sín fyrstu börn. Þau ákáðu að láta okkur bara hafa pening núna og leyfa okkur alfarið að velja eitthvað sjálf. Þetta varð til þess að ég fór að spá í það hvað ég ætti nú að kaupa sem væri þá frá þeim og boltinn fór að rúlla. Ég er allavega allt í einu orðinn fastagestur á auglýsingasíðunni á barnalandi og rata inn á heimasíður allra barnabúðanna í bænum emoticon Inni á stofugólfi hjá mér er kominn barnabílstóll og barnakerra og margt annað í býgerð. Ég frétti svo af því að Svenni og nokkrir aðrir hafi meira að segja verið að skoða og dáðst að nýju græjunni okkar um helgina.. kerran er víst með bjórhaldara og alles.. hehe.. meiri bjánarnir.

Annars er bara allt nokkuð við það sama. Brjálað að gera í skólanum og úff hvað ég hlakka til þegar þessi önn klárast. Þetta hefur verið rosa törn og ég hreinlega veit ekki hvernig jólaprófin mín fara. Ég er þó bara jákvæð og tek þá prófn bara aftur í ágúst ef ég þarf. Ég er allavega búin að panta prófafrí frá vinnunni og hlakka mikið til.. bara 4 vikur og 3 dagar þangað til ég verð komin í "skóla-orlof" en já vá.. hvað það er lítið eftir af önninni emoticon

Ég tók nokkrar myndir fyrir norðan sem ég reyni að henda inn í kvöld, annars er ekkert hægt að mynda þessi hross mín.. þau setja samasem merki á milli myndavélar og brauðpoka og koma um leið og þau sjá myndavél. Þau standa svo ofan í manni að maður getur ekkert myndað nema snoppuna á þeim.. Ég set samt örugglega eitthvað hér inn.

Þangað til næst..





16.10.2008 20:10

Ótitlað

Jæja hérna koma nýjustu myndirnar af Birtu minni




svo sæt - sjúklingurinn með umbúðirnar

og svo ein mynd handa Lilju.. þetta er það sem ég var að meina.. það er eins og hún hafi stungið hóf í innstungu hehe


svolítið úðfin og tætt.. mætti halda að hún sé nývöknuð hehe


svona leit svo sárið út á þriðjudaginn, allt á réttri leið og hellings munur að sjá þetta emoticon

Atli er svo farinn austur í meiri veiði.. ég er farin að halda að hann ætli að lifa á fiski og gæs.. verði honum að góðu emoticon  Ég ákvað að vera heima enn eina helgina til að læra og reyna að koma mér áfram í bókunum. Ég geri ráð fyrir að næsta helgi fari að mestu í annað en lærdóm svo ég má engann tíma missa.. þarf að læra eins og ég get þangað til.

Jæja.. pásan er búin.. ég er farin að læra aftur

16.10.2008 11:09

Akureyri, fréttir af Birtu og fleira

Lífið heldur áfram..

Ég er ekki enn að standa mig í blogginu, það er hreinlega allt of mikið að gera hjá mér. Bara vinnan eða bara skólinn væri alveg nóg fyrir mig en þýðir ekkert að kvarta, þetta er bara tímabil sem líkur 15. des þegar ég klára jólaprófin.. og vá hvað ég get ekki beðið! Verkefnastaðan í skólanum er orðin gríðarlega þung og ég veit ekki alveg hvar þetta endar allt saman. Þetta kemur nú samt bara allt í ljós um jólin, nú í versta falli fell ég, það gerist ekkert verra en það emoticon

Ég er búin að skipuleggja ansi mikið eftir 15. des.. eins og það verði eitthvað nægur tími í allt og ekkert þá.. 9 dagar til jóla.. allar jólagjafir eftir, skreyta húsið, þrífa og allt það emoticon  en það er eins og allt annað.. jólin láta ekki bíða eftir sér, þau koma sama hvort maður er tilbúinn eða ekki. Ég þarf líka að spýta heldur betur í lófana eftir prófin og skipuleggja mig og gera og græja fyrir heimkomu barns í janúar.. vá hvað það er skrítið að segja þetta! Mér finnst alveg tvennt ólíkt að vera ólétt (sem hingað til hefur verið ágætt.. en er að þyngjast) og að hugsa til þess að eftir aðeins ca 3 mánuði þá eigi ég dóttur eða son! Ég er ekkert viss um að ég sé að átta mig á því ennþá hvað það eiginlega þýðir. Þetta er bara eins og með jólin.. lætur ekki bíða eftir sér og kemur sama hvort maður er tilbúinn eða ekki. Ég er auðvitað samt jákvæð og hlakka bara mikið til, það má enginn misskilja það þó svo að ég sé eitthvað að velta þessu svona fyrir mér.

Ég fór á fyrstu fjarnemadagana mína á Akureyri í síðustu viku. Ég flaug norður á miðvikudegi eftir vinnu og var búin að leigja íbúð frá starfsmannafélagi Kaupþings í bænum. Ég bauð svo nokkrum stelpum að vera með mér enda hefði ég dáið úr leiðindum ef ég hefði átt að vera þarna alein. Við vorum þarna 5 þegar mest lét og höfðum það bara fínt. Við vorum auðvitað lítið heimavið þar sem dagskráin í skólanum var mjög stíf og svo var farið út á lífið á kvöldin. Eftir að sitja í skólanum allan daginn og á pöbb á miðvikudags- og fimmtudagskvöldi þá var ég eiginlega bara búin á því. Á föstudeginum var einmitt kennsla frá 8 um morguninn til 8 um kvöldið og það var bara meira en nóg fyrir mig.. ég hafði mig ekki út á djammið loksins þegar aðal djammið átti að vera! Það var svo kennsla á laugardeginum líka og það seint að ég hefði ekki átt að ná síðasta flugi heim, ég ætlaði því að fara á sunnudagsmorgni með flugi. Laugardagsfagið var svo tilgangslaust að kennslustofan hálf tæmdist í hléinu og ég dreif mig bara líka. Beint heim í íbúðina að þrífa og ganga frá og svo upp í flugvél og heim! Sunnudagurinn varð ekki til mikilla stórræða hjá mér þrátt fyrir næg verkefni, ég þurfti bara að jafna mig á þessari törn. Svo til að toppa allt þá var skólavika strax vikuna á eftir svo ég er eiginlega ekki búin að ná mér niður ennþá.

Það er allt gott að frétta af Birtu minni. Atli sá um umbúðaskiptin á meðan ég var á Akureyri og fer að verða alvanur þessu hestaveseni hjá mér emoticon Ég fór með Atla í umbúðaskiptin á þriðjudag og þá leit sárið bara rosalega vel út. Það hefur minnkað rosalega mikið og það er komið hrúður yfir það allt, þetta er hætt að vera svona blautt og vessandi og virðist vera góður gróandi í því. Hún finnur líka greinilega lítið til í þessu núna þó maður krukki í því. Hún er orðin ansi lituð á fætinum eftir allt joðið og verður örugglega svona lituð í dágóðann tíma.. lítur frekar bjánalega út. Annars hálf brá mér þegar ég sá hana í vikunni því hún var svo tætt, ég skildi eiginlega ekkert í þessu. Líklega er ég þó búin að fá skýringuna þar sem hún hafði víst verið að slást óvanalega mikið úti í gerði. Ég vona bara að hún sé ekki að gera Lilju mína eða aðra geðveika með dólgshættinum. Hún heitir auðvitað Birta og Birtur eru alltaf prisnessur og láta ekkert vaða yfir sig. Ég þekki allavega aðra Birtu sem fellur vel í þennan flokk og ég held að Lilja viti alveg hverja ég er að tala um emoticon  Annars er Birta örugglega orðin leið líka á hangsinu, búin að vera inni í mánuð án brúkunar. Ég væri að verða geðveik líka held ég. Það er spurning hvort það megi eitthvað fara að eiga við hana bráðlega þar sem sárið er komið svo vel á veg. Ég trúi ekki öðru en að það megi allavega fara með hana í gerðisvinnu, tvítaum og eitthvað svona sniðugt og kannski teyma hana með. En sjáum til hvað verður.

Ég tók myndir af Birtu sem ég skelli vonandi inn í kvöld.

Ég hugsa mikið til hrossanna minna í Mánaskál þessa dagana. Greinilega komið haust í mig. Við Atli stefnum á norðurferð þarnæstu helgi til að huga að hrossunum. Ég hefði viljað fara þessa helgi en Atli kemst ekki svo við förum þá næstu í staðinn.  Nú ef svo fer að Atli komist ekki þá fer ég sjálf og óska hér með eftir ferðafélaga þar sem ég langar síður að fara alein. Það þarf að bæta við hagann hjá þeim svo þau hafi það nú gott í sveitinni. Ég geri ráð fyrir að við þurfum að skella niður nokkrum staurum og klára síðustu reddingarnar fyrir veturinn. Svo vona ég að Birta fari að komast norður aftur.

Það virðist ekki vera mikið að frétta hjá mér þessa dagana, lífið er aðallega skóli og vinna.. þangað til næst..


05.10.2008 15:37

Mikið að gera

Jæja ég blogga allt of sjaldan.. ég er farin að fá skammir. Meira að segja Atli segist þurfa blogg til að vita hvað sé í gangi hjá mér á hverjum tíma. Ég skil bara ekkert í svona kommentum, ég hef aldrei talið mig vera fámálu týpuna.. ég þarf eitthvað að skoða þetta greinilega.

En að fréttunum... ég er allavega lifandi og mitt fólk líka. Ég bara stækka og stækka og ég bíð eftir að það komi gat á mig emoticon annars finnst mér ég vera farin að standa í stað en svo hitti ég frænkurnar í gær og þær áttu ekki orð yfir því hvað ég væri búin að stækka mikið.. ég sé þetta ekki sjálf. Ég kemst allavega enn í nokkrar flíkur þó þeim fari hratt fækkandi.

Petra mín.. ég tók eina mynd sérstaklega handa þér áðan.. ég verð bara að óska eftir einhverjum í þetta myndatökuhlutverk þar sem það gengur mjög illa að gera þetta einn.


Ég er gengin 25 vikur á mánudag en ég er ekkert dómbær á það hvort ég stærri eða minni en flestir. Ég er örugglega bara eitthvað meðal hross. Ég veit bara að það er nóg eftir og það hlítur að koma gat á mig áður en þetta er yfirstaðið. 

Svo tók ég með myndavél í gær og ætlaði að taka myndir af okkur óléttu frænkunum. Ég, Ása og Linda vorum nefnilega allar þarna og við tókum myndir af okkur saman fyrri nokkrum vikum og það væri gaman að sjá muninn núna. Linda var svo eitthvað slöpp og fór heim snemma og svo nennti ég ekki að standa í myndatöku af okkur Ásu þegar við vorum að fara heim. Við verðum bara að muna að grípa tækifærið næst.

Birta er enn á húsi hjá Lilju og er í sjúkrgæslu. Ég átti tíma hjá Björgvini dýralækni eftir vinnu á föstudag en ég bara heinlega komst ekki úr vinnunni þar sem íslendingar töpuðu glórunni og fóru í bankana til að taka út spariféð og selja hlutabréfin sín, stofna reikninga og færa á milli. Ég hef bara ekki vitað annan eins dag og þennan. Sömu sögu var að segja í öðrum útibúum og svo verður fróðlegt að sjá hvernig mánudagurinn verður emoticon Ég vona nú að þessi ótti fólks fari að minnka, það eru margir sem hreinlega sofa ekki. En allavega þar sem ég missti af tímanum fyrir Birtu þá bjó ég um hana sjálf á föstudagskvöldið og held áfram að skipta á henni annan hvern dag. Björgvin skoðar hana svo eftir helgi. Líklega þarf að skera eitthvað í þetta og hún er ekki á leið út aftur alveg í bráð. Það er svo merkilegt hvað hún lætur þetta yfir sig ganga.. ég skil ekki hvað Lilja og Björgvin voru að kvarta undan henni um daginn.. alltaf stendur hún kyrr hjá mér emoticon þau hljóta bara eitthvað að hafa verið að pína elskuna mína.. hún er nefnilega svo stillt og fín emoticon Það gengur allavega furðuvel að skipta á sárinu, þó að ég þurfi að gera það ein þar sem Atli hefur ekki verið heima. Ég sit bara á bossanum eins og 5 ára krakki og næ að bjarga mér. Ég á nefnilega orðið svolítið erfitt með að bogra og beygja mig.


Svona leit sárið út á föstudaginn, þetta lokast ótrúlega hratt en líklega þarf að krukka eitthvað í þessu meira.

Atli er byrjaður að æfa sig fyrir væntanlegt feðrahlutverk emoticon hann fór nefnilega í bónus og keypti ungbarnableyjur í fyrsta skipti (geri ráð fyrir því). Björgvin dýralæknir mælti með því að við keyptum bara bleyjur til að pakka fætinum inn í og það svínvirkar! Mjög þægilegt bara, svo eru þær líka vatnsheldar emoticon Ég verð nú samt að viðurkenna að bleyjurnar voru minni en ég átti von á.. frekar sætar bara. Annars var ég ekki jafn pró og Atli í þessu bleyjustandi.. ég var í stökustu vandræðum með að opna blessaðann bleyjupakkann.. ein greinilega ekki vön emoticon

Samba var hjá mér um helgina sem var ósköp notalegt þar sem Atli fór austur og Svenni líka og ég var því bara alein eftir. Helgin var annars ekki merkileg, ég mætti í skólann kl.l 9 í gærmorgun og fór svo á þjóðarbókhlöðuna þar á eftir. Í dag er svo próf í bókfærslu og skilaverkefni í stærðfræði emoticon  En ég hitti frænkurnar mínar í gærkvöldi sem var ljósi punkturinn á helginni. Við elduðum saman.. tja.. eða Karen verslaði, undirbjó og eldaði og ég hrærði í einum potti emoticon allavega þá var maturinn mjög fínn. Ég verð nú samt að bauna aðeins á frænkur mínar emoticon .. mínar varðandi það að hittast og gera eitthvað saman.. það þýðir ekki að Karen eigi að elda og ganga frá eftir matinn. Ég stakk upp á því að þeir sem ekki hefðu eldað ættu að sjá um uppvaskið og ég var eiginlega skotin niður.. þetta væri nú ekkert til að vaska upp.. það væri uppþvottavél og hver færi bara með sitt.. en svo gerði samt enginn neitt! Svo var nú líka meira til að ganga frá en bara diskarnir okkar þar sem allt eldhúsið hafði verið undirlagt undir eldamennsku. Jæja nóg af tuði.. ég fæ örugglega eitthvað ömurlegt viðurnefni eftir að hafa látið þetta frá mér emoticon Við horfðum svo á Mama Mia sem allir nema Jenný og Ása voru búnar að sjá.. og við Karen fórum óvart í bíó á hana um daginn án þess að bjóða þeim með..sorry sorry.. algjör misskilingur! Við fengum okkur svo auðvitað vínber, popp og nammi enda laugrdagur. Það er nú reyndar hálf furðulegt frá því að segja að þetta blessaða nammi var keypt í sér sendiferð í Kópavogi þar sem að ekki var til nægilega góð sjoppa í Hafnarfirði.. hmm. Ég er nú sko enginn gikkur þegar kemur að nammi hehe.

Síðustu helgi var hundasýning HRFÍ og ég leyfði mér að kíkja á hana þrátt fyrir næg verkefni í lærdómnum. Linda Björk var líka komin til landsins og ég varð því að nýta tímann vel. Við fórum reynar út að borða og svona á föstudeginum svo ég fékk minn Lindutíma. Það var rosalega gaman að fara og hanga á hundasýningu, ég hafði ekki gert það lengi. Samba kom með mér þar sem ég var að ath hvernig hún myndi bregðast við öllum hundunum. Hún er með svo lítið hjarta blessunin, ég er ekki viss um að það sé hægt að sína hana svo vel fari. Kemur í ljós hvort það verði einhvern tímann látið á það reyna.

Fyrstu fjarnemadagarnir mínir á Akureyri eru að renna upp. Ég á að vera í skólanum á fimmtudag, föstudag og laugardag. Ég fer norður á miðvikudag eftir vinnu og kem líklega heim á sunnudag. Reyndar er ekki orðið alveg ljóst hvernig ég fer en ég er allavega komin með gistingu. Ég er ekkert svo spennt fyrir því að keyra alla leið í kannski óskemmtilegri færð.. og hvað þá ef ég þarf að fara ein á bíl alla leiðina.. en ég er heldur ekki spennt fyrir því að borga yfir 20 þús fyrir innanlandsflug í skólaferð þar að auki! Kannski getur Atli reddað mér hagstæðu flugi, það á eftir að koma í ljós samt.

Jæja ég þarf víst að halda áfram með lærdóminn.. þangað til næst.

  • 1
Antal sidvisningar idag: 330
Antal unika besökare idag: 85
Antal sidvisningar igår: 248
Antal unika besökare igår: 86
Totalt antal sidvisningar: 175324
Antal unika besökare totalt: 24301
Uppdaterat antal: 6.5.2024 03:54:19

Namn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Länkar