Mánaskál

Blogghistorik: 2009 Författad av

27.09.2009 19:08

Ég er ekki hætt að blogga!

Ég er ekki hætt að blogga en ég er viss um að margir hafi verið farnir að halda það! Tíminn líður bara eitthvað svo hratt hjá mér þessa dagana. Skólinn er kominn á fullt og allt að gerast! Ég ætla að reyna að stikla á stóru og gera grein fyrir síðustu vikum (get víst ekki lengur sagt dögum), eflaust gleymist eitthvað en ég bæti því þá við seinna.

Eins og ég sagði frá síðast þá komu Vaka og Birta á hús í heimsenda. Ég var með þær í húsinu hjá Ylfu og Konna í tvær vikur. Því miður tók skólinn of mikið af þeim tíma en ég náði þó að fara nokkrum sinnum á bak. Þórkatla frænka kom meira að segja með í eitt skiptið í alveg frábæru veðri! Ég lánaði henni Vöku en reið fröken Birtu sjálf, það var alveg kominn tími á brúkun fyrir hana þar sem hún hefur sloppið allt of vel í sumar. Birta er svo svakalega feit þó hún hafi farið þrjár ferðir yfir Kjöl í röð! Ég óska þess að einhver myndi vilja ríða henni í vetur, það þarf aðeins að rassskella hana en ekkert sem er mikið mál, ég myndi jafnvel borga hluta af uppihaldinu fyrir hana ef einhver vill taka hana til sín og brúka hana emoticon





Við Lilja fórum norður í Mánaskál í réttir. Við höfum ekki gert eitthvað svona saman svo rosalega lengi, ætli það séu ekki bara um 3 ár!! Hvað er málið með það! Særós og Hafþór komu með og voru rosalega dugleg að leika við Þórdísi og passa hana. Við fengum frábært veður þessa helgi, á réttardaginn var 17°C, bara æði! Við komum lítið að smalamennskunni en þó stukkum við af stað þegar við sáum að smalar í Langadalsfjalli misstu fé niður fyrir sig. Við Lilja og Hafþór spændum á bílnum og Særós varð eftir að passa Þórdísi. Rolluskjáturnar voru sko ekki skemmtilegar í smölun en þó hafðist þetta á endanum en eitt lamb slapp og ein rolla var dregin upp úr skurði þar sem hún neitaði að halda áfram. Við Hafþór hlupum út um móa og mela og úfff hvað ég var þreytt á eftir, ég dó! Særós og Hafþór voru svo rosalega dugleg að draga í réttunum fyrir hina og þessa bændur.





Fleiri myndir í myndaalbumi "Réttir 2009"

Stóðréttirnar voru svo síðustu helgi og þá fórum við Atli og Þórdís Katla auðvitað í sveitina. Samba kom með líka þar sem mamma og pabbi voru að fara í húsbílaferð. Sveinbjörg og Gunnar komu líka og hjálpuðu okkur mikið. Sveinbjörg sá um stelpuna og Gunnar var vinnumaður hjá Atla eins og vanalega emoticon Við Atli fórum á föstudagsmorgun af stað og þá með Birtu og Vöku á kerru. Núna var víst kominn tími á að sleppa reiðhestunum. Við sáum Myrkva og Drunga við ristarhliðið þegar við renndum inn í dal en þegar við fórum til að ath hvort við myndum ná þeim á múl voru þeir gufaðir upp. Enn var stóð við ristarhliðið en hvergi voru þeir. Við fundum þá svo í næturhólfinu við Skrapatungurétt svo við þurftum að "draga" í stóðréttunum í fyrsta skipti.

Á laugardeginum fór ég ríðandi með stóðrekstrinum í fyrsta skipti og skemmti mér rosalega vel. Ég ætla sko ekki að missa af þessu framar! Veðrið var æðislegt, sumarblíða og picknick fílingur við Kirkjuskarð. Njálsstaðafólk kom við hjá mér og við fórum í samfloti inn að Kirkjuskarði. Ég er búin að sjá að þetta er of stutt fyrir mig, næst ætla ég að gera meira úr þessu. Vaka stóð sig vel enda í æfingu eftir Kjalferðirnar. Hún vissi nú samt alveg hvenær var orðinn tími til að bruna á eftir stóðinu! Eftir langt og gott stopp við Kirkjuskarð riðum við á eftir stóðinu út dalinn og maður var sko mikið fljótari þá leiðina en í hina áttina. Það var sko ekkert slór og rosalega gaman emoticon Það var svo áð við Mánaskál eins og vanalega, ég ætlaði að lauma mér heim á bæ eftir veginum en þá var nú bara hvæst á mig. Það mátti víst ekki ríða nær stóðinu til að styggja það ekki.. iss viðkvæmni er þetta emoticon gerði nú ekkert til samt. Ég reið þá bara heim efri leiðina og í gegnum nýja fína hliðið fyrir ofan bæ. Ég er búin að leggja inn pöntun á hliði á suðurendanum á suðurtúninu en Atla leist ekki vel á það.. ætli ég verði þá ekki að setja upp WC og BAR skilti fyrir ofan til að vísa fólki leiðina heim á bæ. Ég kann svo vel við að fá heimsóknir í áningunni! Tengdó var búin að baka pönnsur og allt en svo komum við bara ekki heim.. þetta klikkar ekki aftur!





Á sunnudag var svo réttað. Við fórum að sjálfsögðu til að draga "stóðið" okkar. Bylting var með Signýjar hrossum á Balaskarði svo ég þurfti nú bara að sækja bræðurna. veðrið var ekki eins gott þennan daginn og fór að rigna vel á kafla. Ég var svo heppin að Myrkvi og Drungi komu frekar snemma inn í almenninginn og svo gekk glymrandi vel að "draga" þá, bara taka í kjálkabarðið, gefa þeim kúlu og teyma þá inn emoticon svona á ég nú mikið "stóð". Ég er dauðfegin að þetta gekk vel því mér fannst ég ansi lítil og varnarlaus þarna inni.. úfff! Við teymdum svo folana heim í samfloti með Signýju og Magnúsi. Samba stóð sig eins og "hetja" í réttunum, hringaði sig í dilknum hálfmóðguð enda var rigning! Hún fílar ekki svoleiðis! hehe


Þórdís Katla í stóðréttunum með Gunna afa

Þórdís Katla fór svo heim með ömmu og afa þar sem við Atli sáum fram á að vera seint á ferð heim. Það var nú eins gott þar sem við vorum að leggja af stað heim kl. 22. Við gengum frá húsinu og öllu sem því fylgir fyrir veturinn. Búið að setja tæki og tól undir þak og ég held að við séum bara í góðum málum fyrir vetur konung. Við rifum svo undan reiðhryssunum og snyrtum hófa, gáfum ormalyf, fluttum Birtu og Vöku yfir í Gerðið og settum Myrkva á kerru og brunuðum í bæinn.

Við stelpurnar hittumst hjá mér á fimmtudagskvöld sem var gaman eins og alltaf emoticon  Ég hef svo lítið hitt þær undanfarið, var auðvitað lítið sem ekkert heima í sumar og svo er september alltaf hrikalega upptekinn hjá mér. Þetta var því kærkominn hittingur! Við Þórkatla Eva vorum með smá kynningu fyrir stelpurnar enda er ég að reyna að koma öllum inn á heilbrigðan lífsstíl. Ég er semsagt orðin dreifingaraðili fyrir Herbalife í hjáverkum. Ég hef notað vörurnar dálítið lengi án þess að vera í einhverri megrun. Þetta er bara hollur matur sem allir hafa gott af emoticon  Þið vitið þá allavega hvert þið eigið að leita ef ykkur langar að breyta til.

Þórdís stækkar og stækkar eins og hún fái borgað fyrir það. Hún fer í 8. mán skoðun í næstu viku og ég hlakka til að sjá hvað hún viktar! Hún er að sprengja utan af sér ansi margar flíkur þessa dagana og í dag fóru hún í afmælisveislu til afa/langafa Simma sem er 75 ára í kjól sem er í stærð 12 mánaða og hann rétt passaði! Eins gott að maður fylgist með hvað hún á til af fötum svo maður missi ekki af að nota þau. Ég tók myndir af prinsessunni í fína kjólnum sem pabbi hennar keypti handa henni, þær koma inn eins fljótt og auðið er!




.. að kúra með besta pabba í heimi


.. fann býfluguhúfu í IKEA


.. á hestbaki í Lilju sveit


.. Ágúst og Sandra í heimsókn


.. komin heim úr afmælinu hans Simma langafa, í fína fína kjólnum sem pabbi gaf mér!



Atli var fyrir austan um helgina í stangveiði og skotveiði. Við Þórdís vorum bara heima yfir lærdómi á meðan. Ég fór svo í morgun og hjálpaði Lólý og Kidda eitthvað smávegis í húsinu þeirra sem þau eru að byggja. Þau eru nú að reyna að klára neðri hæðina til að geta flutt inn.

Við erum búin að fjárfesta í nýjum bíl. Keyptum okkur gamlan Benz fólksbíl, svona í stíl við jeppann. Lancerinn er enginn kaggi og fínt að fá sér aðeins skárri fjölskyldubíl. Við verðum örugglega fínar á þessum við Þórdís. Lancerinn okkar er því að leita að nýju heimili!

Það eru nú aldeilis fréttir úr bankanum sem ég var næstum búin að gleyma að segja frá! Útibúinu mínu verður lokað núna í byrjun október! Þrjú útibú verða sameinuð undir einn hatt í Smáratorgi, einhverjar uppsagnir hafa átt sér stað og einhverjar tilfærslur í starfi. Mér hefur ekki verið sagt upp ennþá en ég veit svosum ekkert hverju ég á von þegar ég ætla að koma aftur að vinna! Það eru 4 mánuðir þangað til fæðingarorlofinu lýkur og enginn veit hvort það verði til einhver staða fyrir mig þá! Verst finnst mér að vita ekki hvort ég hafi vinnu eða ekki, ég vil bara fá að vita það strax ef ég verð atvinnulaus eftir áramót!

Ég er með fullt af myndum í myndavélunum sem bíða birtingar. Ég finn ekki tölvusnúruna fyrir litlu vélina en þar eru allar myndirnar frá stóðréttunum t.d. en ég lofa að henda inn myndum úr stóru vélinni sem fyrst. Þar eru t.d. prinsessu myndir af Þórdísi í fína kjólnum frá pabba hennar og fleira skemmtilegt. Ég hendi núna inn örfáum myndum sem Lilja tók af Þórdísi í réttunum þarsíðustu helgi.

Tölvusnúran er fundin! og allar myndir komnar inn

Þangað til næst.. góðar stundir!

  • 1
Antal sidvisningar idag: 434
Antal unika besökare idag: 155
Antal sidvisningar igår: 248
Antal unika besökare igår: 86
Totalt antal sidvisningar: 175428
Antal unika besökare totalt: 24371
Uppdaterat antal: 6.5.2024 09:55:49

Namn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Länkar