Mánaskál

Blogghistorik: 2011 Författad av

24.09.2011 12:08

Réttir og fleira skemmtilegt

Það er alltaf nóg að gera á haustin í sveitinni og það sama á við um okkur þó við séum ekki með neinn eiginlegan búskap.

Hérna voru réttir aðra helgina í september og við Þórdís Katla vorum einar heima í þetta skiptið. Við kíktum í réttirnar og sjáum fé og fólk.









Ég reið eins mikið út og ég gat fyrir réttir og milli rétta til að hafa reiðhrossin í einhverju formi fyrir stóðreksturinn í tengslum við stóðréttirnar í Skrapatungu. Ég fékk Alexöndru frá Njálsstöðum til að passa Þórdísi á meðan ég reið út og fékk dásamlega daga til útreiða. Greyjið Vaka mín fékk að vinna fyrir matnum sínum sem var stundum dálítið erfitt með öll þessi aukakíló. 

Sissi mætti til okkar á miðvikudegi fyrir stóðréttirnar og bardúsaði með Atla hérna heima á bæ. Ása María kom svo á fimmtudegi til okkar í smá upphitun fyrir helgina því við skelltum okkur í reiðtúr á föstudeginum. Ása fékk þá að prufa Rák sem ég hafði ætlaði henni í reiðina á laugardeginum. Hún reið hryssunni eins og herforingi og var eiginlega betur ríðandi en við Sissi á köflum. Rák er bæði rúm og viljug svo hún eiginlega skildi okkur Sissa eftir stundum emoticon Þó að Ása sé óvön og Rák viljug þá treysti ég henni fullkomlega. Ég get nú eiginlega ekki sleppt því að minnast á það þegar ég fór á kostum þennan föstudag. Mín var nefnilega að hjálpa Ásu að leggja á enda óvön manneskja á ferð. Það gekk ekki betur en svo að ég missti takið á móttakinu þegar ég var að reyna að girða og flaug afturfyrir mig og lá svo bara á bakinu emoticon Við gátum alveg hlegið svolítið af þessu! 

Á föstudagskvöldinu keyrðum við Drunga á kerru á Strúgsstaði í Langadal þar sem við vorum með þrjú reiðhross en aðeins tveggja hesta kerru. Við tókum svo Vöku og Rák með okkur á laugardagsmorgun. Allt gekk þetta eins og í sögu, við vorum tímanlega og veðrið með besta móti. Að vanda var vel mætt að Strjúgsstöðum enda er hópurinn alltaf að stækka sem tekur þátt í þessum viðburði. 


Þórdís Katla hestastelpa fékk að prufa öll hrossin áður en við lögðum af stað



Við Ása tilbúnar í slaginn


Sissi

Það var svo lagt af stað upp Strjúgsskarðið um tíu leitið. Upp skarðið er lengi vel ansi bratt fyrir hrossin og svo er brekkan líka bara endalaus. Þegar komið er upp mesta hallann heldur samt áfram aflíðandi brekka upp á við og manni finnst þetta ekki ætla að taka neinn enda.. allavega fannst Vöku minni það.. þó að ég hafi farið af baki og teymt hana hluta af brekkunni. 







Vaka svolítið móð eftir ferðina upp skarðið


Ása á Rák


Húsfreyjan á Mánaskál og Sissi í Kirkjuskarði


Séð frá Mánaskál

Við riðum bara heim að Mánaskál og létum það gott heita. Stóðið stoppar alltaf fyrir neðan bæ hjá okkur og það er svo stutt niður í rétt að mér finnst ekki taka því að fara lengra til þess að þurfa svo að ríða til baka. Í staðinn sprettum við bara af heima og njótum þess að horfa á stóðið og alla reiðmennina fara síðasta spölinn. Eins og sést örugglega á myndunum var sól og blíða, bara frábært veður!! Þessi ferð var bara frábær, allt gekk vel og veðrið toppaði þetta allt saman!


Komin í hlað. Sissi á Drunga


Sissi og Atli hafa það gott á hlaðinu og fylgjast með stóðinu


Gangnamenn


Njálsstaða fólk


Rúnar mættur í kaffi

Að þessu öllu loknu var auðvitað eldaður veislumatur en Sissi tók að sér að elda nautasteik ofan í okkur emoticon Svo fengum við barnapíu og bílstjóra frá Njálsstöðum og skelltum okkur á ball með Pöpunum á Blönduósi sem var stórgóð skemmtun.


Hjónaleysin á Mánaskál á balli.


Ása í góðum gír


Sissi og Dódó

Á sunnudeginum var réttað en fólk var eitthvað mis-hresst. Allavega fórum við Atli og Þórdís ein í réttirnar á meðan gestirnir sváfu. Við fengum svo góða heimsókn seinni partinn en Tryggvi sem vinnur hjá Icelandair kom í heimsókn. Hann er alltaf að smala í Svartárdal þessa helgi og kom nú og kíkti til okkar. Það er alltaf gaman að fá góða gesti en ég verð að nota tækifærið og minna á að það eru ansi margir sem enn eiga eftir að koma til okkar.. taki það til sín þeir sem eiga það emoticon Ég ætla nú ekki einu sinni að minnast á fólkið sem lét ekki sjá sig þrátt fyrir fögur fyrirheit alveg síðan á sama tíma á síðasta ári.. uss og svei emoticon

Að hrossunum er annars allt gott að frétta. Ég verð voða kát þegar ég lít út um gluggana og sé stóðið mitt.. ég á nefnilega allt í einu heilt stóð. Allavega lítur þetta út fyrir að vera orðið stóð, ég er með 9 hausa sem er það mesta sem ég hef haft held ég. Reyndar eru þarna tvö folöld og þar af eitt selt. Gríma fósturmamma hans Bratts er svo líka bara gestur en það er sama, stóðið er myndarlegt á að líta emoticon Í dag rifum við Atli undan reiðhestunum sem eru komnir í verðskuldaða pásu, Vaka var ekki svo heppin en hún á að koma inn fljótlega. Hún þarf ekki pásu núna þar sem hún er að koma úr óverðskulduðu árs fríi. Ég geri ráð fyrir að hún verði inni fram á vor en fær einhverja pásu samt í kring um áramót geri ég ráð fyrir. Svo þarf ég að velja fyrir hana einhvern fínan hest því ég ætla að gera aðra tilraun við að halda henni næsta vor. 


Vaka er búin að leggja heilmikið af en á samt langt í land!





Drungi minn er búinn að vera lengi á járnum og á svo sannanlega skilið að fá frí. Kannski tek ég hann bara seint inn meira að segja, en er farin að hlakka til að taka hann inn aftur.





Bylting er fylfull og verður úti í vetur. Ég geri svo ráð fyrir að taka hana undir hnakkinn eftir það ef hún verður ekki farin til nýrra eigenda.





Eðall er seldur og fer til nýs eiganda í kring um áramótin. Hún verður eflaust lukkuleg með hann.



Hugsýn er vonandi fylfull við Abraham frá Lundum II en hún var sónuð með fyli. Ég læt hugsanlega sóna hana aftur til að vera viss því mér fannst hún vera í hestalátum hérna heima rétt eftir að hún kom heim frá Abraham. Ég krossa putta og vona það besta!!

Við Þórdís Katla sóttum Grímu og Bratt á Þingeyrar fyrir stuttu þar sem hún var hjá Vita frá Kagaðarhóli. Það gekk eins og í sögu að koma þeim upp á kerru enda er Brattur svo spakur og meðfærilegur að hann var bara settur upp á kerruna til hennar. 
Það var rosalega gaman að fá Bratt litla heim og hrossin tóku vel á móti þeim. Það er bara gaman að fylgjast með þessum litla sæta hesti.









Þórdís Katla vex og dafnar og hefur það gott í sveitinni. Hún er dugleg á leikskólanum og fór meira að segja í gær í göngutúr með stóru deildinni. Hún er víst að stækka þessi elska.






Þórdís Katla er orðin rosalega dugleg að hjóla

Atli er á fullu að vinna í heima rafstöðinni. Hann er byrjaður að prufa og þetta virkar allt sem skyldi. Okkur til mæðu kom í ljós að gömlu rörin sem við erum að nota eru meira skemmd en við áttum von á og það þarf eitthvað að gera í því. Atli er þessa dagana að reyna að laga rörin svo við getum komið stöðinni af stað. Annars þarf að kaupa helling af rörum i viðbót og fara í framkvæmdir við að sjóða þau saman og koma þeim í jörðina. Versta er að það kostar ansi marga peninga!! Ég krossa putta og vona að Atli nái að laga gömlu rörin. Ég ætla að taka myndir af þessum framkvæmdum öllum á morgun því það er löngu kominn tími til að sýna myndir frá aðaláhugamáli húsbóndans, það hafa víst ekki allir áhuga á truntum á þesum bæ emoticon

Það er semsagt bara allt gott að frétta af litlu sveitafjölskyldunni. Ég er að reyna að komast af stað í lokaverkefninu mínu, það er bara eitthvað svo erfitt að byrja. Vonandi kemst ég svo á fljúgandi skrið og klára þetta fyrir áramót. 

Fullt af nýjum myndum í myndaalbumi!!

05.09.2011 22:21

Hundalíf

Núna hef ég tíðindi! Haldið þið að það sé ekki kominn hundur á heimilið. Núna er sko gaman hjá minni J Ég keyrði Atla suður á laugardaginn og sótti mér eitt stykki hund á bakaleiðinni. Þetta er enginn annar en Leiru Þórshamar Týri, gamall vinur okkar Skellu. Hann er orðinn 10 ára og sárvantaði heimili og mig "sárvantaði" hund. Týri lætur eins og heima hjá sér og virðist kunna vel við sig hérna. Mig minnir nú að hann hafi komið með mér hingað norður fyrir nokkrum árum en hann man nú varla eftir því.  Ég skellti mér í reiðtúr í gær og tók Týra með sem hafði bara gaman af því. Hann var stilltur og hlýddi vel. Eftir reiðtúrinn var hann látinn þorna niðri eins og alvöru sveitahundi sæmir áður en hann fékk að koma upp að skoða slotið. Týri svaf eins og engill i nótt, ekkert væl eða vesen á honum svo ég held að honum líði bara ágætlega hérna hjá okkur.  Svo finnst honum gott að borða og mér leiðist ekki að gefa matgæðingum að borða en ég lofa að passa mig. Hann er nefnilega nánast hringlóttur nú þegar J


Týri var svo einn heima í dag á meðan við Þórdís vorum í vinnu og leikskóla. Hann var því eðlilega mjög ánægður að sjá okkur þegar við komum heim. Þar sem Týri var búinn að vera einn allan daginn drifum við okkur út í girðingavinnu svo Týri gæti notið sín úti.  Svo stendur til að færa skjóttu hryssurnar í grasmeiri girðingu á morgun fyrst ég er búin að tjasla saman girðingunni
J Það eru næg verkefni hjá okkur Þórdísi og Týra um þessar mundir. Týri þyrfti bara að geta passað Þórdísi fyrir mig á meðan ég ríð út, þá væri þetta fullkomið.


Þórdís Katla fékk far í hjólbörunum


Þórdís vildi líka vera á myndinni!



Í dag var fyrsti vinnudagurinn þar sem ég var alein í nýja starfinu en nágrannakona mín frá Sturluhóli var að koma mér inn í ýmis mál áður en hún hverfur af landsfjórðunginum. Ég er mjög spennt fyrir vinnunni minni og hlakka til að takast á við þetta. Semsagt ef ég var ekki búin að minnast á þetta áður þá fékk ég semsagt áframhaldandi vinnu hjá Greiðslustofu á Skagaströnd og fékk ný og krefjandi verkefni.

Svo styttist bara í réttir og göngur.. ég er farin að telja niður dagana í stóðréttirnar en ég er búin að vera að bíða eftir þeim síðan á mánudegi eftir stóðréttirnar í fyrra! Mæli sko með þessari ferð fyrir alla sem hafa gaman af því að ríða út emoticon

  • 1
Antal sidvisningar idag: 494
Antal unika besökare idag: 184
Antal sidvisningar igår: 248
Antal unika besökare igår: 86
Totalt antal sidvisningar: 175488
Antal unika besökare totalt: 24400
Uppdaterat antal: 6.5.2024 12:41:35

Namn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Länkar