Mánaskál

Blogghistorik: 2011 Mer >>

28.06.2011 10:43

Birta köstuð

Allt gott að frétta úr sveitinni þrátt fyrir að veðrið sé ekkert spes. Sissi kom í heimsókn til okkar á föstudaginn og ætlar að vera hjá okkur fram að landsmóti. Kamperinn er orðinn tilbúinn undir landsmótið svo ég er ekki frá því að maður sé að verða smá spenntur. Mamma og pabbi koma í Mánaskál fyrir helgina og verða með Þórdísi fyrir okkur svo við verðum barnlaus og alles emoticon

Birta mín kastaði i fyrrakvöld rauðstjörnóttum hesti. Við horfðum á hana kasta og þurftum að grípa inn í þegar annar framfóturinn kom ekki með. Hinn fóturinn var kominn alveg út og hausinn líka en enn hékk folaldið fast. Það kom sér vel hvað hún Birta mín er spök og fín því það var ekki einu sinni settur á hana múll þegar við hjálpuðum folaldinu út.








Þessi sæti foli hefur fengið nafnið Brattur

Fleiri myndir í myndaalbumi

Ég bætti inn á sölusíðuna einum myndarlegum 4. vetra hesti sem er til sölu. Hann fæst einnig í skiptum fyrir hryssu. Gott tækifæri til að láta frá sér eina unga eða gamla hryssu í staðinn fyrir skemmtilegt verkefni í vetur. 



Enn er netlaust hjá okkur svo þetta verður bara stutt. Fleiri fréttir von bráðar.

20.06.2011 19:47

Komið folald en ekkert internet

Við erum í netleysi ennþá hérna fyrir norðan og getum ekki sagt að við séum mjög ánægð með þjónustu Símans.. þetta er nú meira þjónustufyrirtækið hnuss! Innanríkisráðuneytið greiðir fyrir allan þann búnað sem þeir þurfa að setja upp hjá okkur til að við getum haft netaðgang.. þeir þurfa bara að koma hingað og setja þetta upp en það virðist ekki vera áhugi fyrir því að selja þennan búnað, þó að þeir fái þetta allt greitt í topp. Aular segi ég nú bara. Við komumst rétt svo örlítið á netið í símanum hans Atla þegar hann liggur úti í glugga en það svona rétt dugar til þess að opna póstinn sinn.

 

Það er aðeins að hlýna hérna þó það teljist kannski ekki endilega hlýtt. Við erum þó búin að sjá 10 gráður á mælinum oftar en einu sinni núna síðustu daga sem telst gott miðað við alla hina dagana í júní! Í þar síðustu viku snjóaði nú bara á okkur og hér varð allt grátt.. ég var fegin að vera ekki komin með folöld þá! Þetta var bara grátlegt. Sumarið hlítur þó að koma á endanum svo við bíðum bara spent emoticon

 

 

Við erum búin að fá nokkra gesti til okkar síðustu daga. Kristjana skólavinkona kom ásamt nýja kærastanum í heimsókn í síðustu viku en hún og Stebbi voru á ferðalagi á leið til Neskaupsstaðar þar sem hann býr. Þau stoppa vonandi lengur næst en ég held að þau séu alveg svona "úti" fólk sem hefur gaman af því að gralla eitthvað í sveitinni.

 

Ylfa og Konni komu við hjá okkur á heimleið frá Akureyri með Örvar Þór og Stefaníu systir Ylfu. Það var rosalega gaman að fá þau í heimsókn því þau búa í Landeyjunum svo fjarlægðin er frekar mikil á milli okkar. Drungi minn var tekinn undir hnakkinn þar sem það er engin miskunn hjá henni Ylfu. Ég var ekkert farin að fara á bak ennþá því það hafði ekki verið neitt veður í það og hnakkurinn minn auk þess í viðgerð fyrir sunnan. Ylfu fannst hnakkleysið nú bara ekkert mál og bað bara um beisli og hjálm, hún þurfti ekki meira. Við lánuðum henni þó samt gamla hnakkinn hans afa sem var kannski aðeins skárra en enginn hnakkur.. eða hvað? Ylfa fór allavega af stað og reið nokkrar montferðir hér eftir veginum en endaði svo á því að rífa hnakkinn af klárnum og ríða honum berbakt frekar. Semsagt.. mig vantar fleiri hnakka!

 


Örvar Þór var alveg með þetta á hreinu.. fjórhjól er meira spennandi en hestar!





Ylfa lagði á Drunga



.. og gafst upp á hnakkinum og reið berbakt frekar










 

Berglind Anna frænka mín og fjölskyldan hennar komu svo í helgarheimsókn síðustu helgi og ég held að það hafi allir skemmt sér vel. Viktoría og Þórdís Katla voru mjög duglegar að leika sér saman bæði úti og inni. Trampólínið sem tengdó gáfu Þórdísi hefur sko komið að góðum notum og verið mjög vinsælt undanfarna daga. Við Berglind vorum að hestast saman og fórum á bak bæði á laugardag og svo góðan túr á sunnudag. Hnakkurinn minn er kominn úr viðgerð og svo notaði ég gamla hnakkinn líka með misgóðum árangri hehe.. það er bara ekki hægt að ríða í hnakk með engum hnépúðum, allavega kann ég við það! Ég reið Drunga en lánaði Berglindi Flugu sem er ný hryssa hjá okkur. Þeim samdi vel og Fluga stóð sig eins og hetja. Við teymdum líka undir krökkunum á Flugu sem var mjög vinsælt hjá smáfólkinu. Þórdís Katla ljómaði eins og sól í heiði þegar ég teymdi undir henni. Vonandi verður hún hestasjúk eins og mamma sín.

 



 


Frænkur að teyma Flugu


Elsa vinkona kom í heimsókn á föstudaginn ásamt Svölu og "stjúpa". Við kíktum á hrossin og viti menn, það voru komnir dropar á spenana á Byltingu.. loksins!! Ég var búin að bíða eftir folaldi síðan um mánaðarmótin, semsagt í 17 daga og fannst það heldur mikið af því góða! Þetta passaði allt saman, því Berglind frænka var á leiðinni og var búin að panta að sjá folald. Elsa og co fóru heim með gömlu sláttuvélina okkar og ætla að nota hana í Víðidalnum í sumar, það var bara flott, semsagt einu færra fyrir okkur að henda hér í sveitinni. Við fengum nefnilega nýja sláttuvél síðasta sumar svo sú gamla var orðin verkefnalaus.

 

Ég fylgdist með Byltingu fram á kvöld og tók ákvörðun um að vaka aðeins eftir henni, það var stutt í köstun.  Við horfðum svo á Byltingu út um gluggann og sáum þegar hún lagðist og byrjaði að rembast. Við Berglind Anna drifum okkur í vetrarfötin (veitti sko ekki af) og út á hól til að fylgjast með. Ég hefði aldrei trúað því að köstun tæki jafn langann tíma og raun bar vitni. Mér var alveg hætt að standa á sama og Atli var kominn út því honum stóð ekki á sama heldur, hann fór svo inn til að hringja í dýralækni því okkur leist ekki á blikuna. Ég var orðin handviss um að folaldið væri orðið dautt  því hún virtist bara ekki ætla að koma því frá sér. Loksins hafðist þetta þó hjá henni og álótt skjótt folald leit dagsins ljós og sem betur fer lifandi. Við sátum svo úti í skítakulda að fylgjast með folaldinu brölta á fætur og finna spenann, það er fátt sætara en nýkarað folald held ég. Ég var alveg viss um að þarna væri lítil hryssa því aldrei sá ég neitt dinglum dangl undir því á bröltinu en það var ekki svo gott þegar ég lyfti upp taglinu. Hestur var það heillin. Hann er nú samt alveg ógurlega sætur og mjúkur og ég hlakka til að fylgjast með honum stækka.

 


Ég er ekki alveg viss hvort hann er móálóttur eða bleikálóttur, í gær hallaðist ég að móálóttu en í dag að bleikálóttu.. hann er allavega álóttur :)







 


svo sæturemoticon


Bylting á að fara undir hest aftur en svo var bara óvænt fullbókað undir hestinn sem ég ætlaði að nota. Ég þarf því að finna einhvern annan hest til að nota, helst ekki bara brúnan og draumurinn er að setja hana undir hest sem er beri fyrir slettuskjóttu. Ég er alvarlega að spá í Glám "mínum" en finnst hann leiðinlega langt frá mér en þó er aldrei að vita hvað ég geri. Núna er hún allavega köstuð svo ég þarf að fara að ákveða þetta. Birtu verðu ekki haldið í ár, ég ætla að senda hana í smá endurmenntun til Ylfu og Konna í vetur og Vaka og Drungi verða svo tekin á hús, þe. ef ég finn eitthvað pláss hérna. Hugsýn er svo farin undir Abraham frá Lundum II, ég krossa fingur og vonast til að hún haldi og kasti brúnskjóttri hryssu því Atla finnst það flottasti liturinn 



Hugsýn 18. vetra

 

Í síðustu viku komu hingað tvær nýjar hryssur en þær voru í húsinu hjá honum Tryggva vinnufélaga. Eigandinn var að hætta í hestamennskunni og ég fékk að eiga þessar heldri dömur. Ég prufaði þær báðar í bænum og leist bara vel á þær, traustar en viljugar og veraldarvanar. Ég er því mjög spent fyrir því að komast í einhverja hestaferð í sumar fyrst ég er orðin með 3 reiðhross, svo get ég núna líka boðið gestum á hestbak sem er frábært.

 


Þórdís Katla á Flugu

 

Við vorum aðeins í girðingavinnu í síðustu viku en girðingin á Gerðinu við veiðihúsið var orðin ansi ljót eftir veturinn.  Atli er búinn að setja niður alla staurana og strengja gaddavírinn en svo á bara eftir að hengja netið á. Þá ætti sú túngirðing að halda fé. Okkar bíður svo einhver girðingavinna í viðbót.

 

Atli er alltaf í einhverjum verkefnum. Hann er búinn að gera stýflu fyrir ofan bæinn til að mynda smá lón fyrir heimarafstöðina. Hann er líka búinn að vera að dunda í rafstöðvarhúsinu og núna þessa dagana er hann að laga pallinn á pick-upinum svo hann verði í standi fyrir Landsmót. Við stefnum allavega á að fara þangað. Þórdís unnir sér vel í sveitinni og það er bara ekki eins leiðinlegt og einhæft að vera með foreldrum sínum alla daga eins og ég hélt. Við skemmtum okkur allavega vel saman hérna.

 


á leiðinni upp í stýflugerð



 

 

Núna bíðum við spennt eftir hinum folöldunum en enn er allt með kyrrum kjörum hjá Birtu og Vöku, þó getur ekki verið langt í þær




Annars er bara allt ljómandi að frétta úr sveitinni.. blogga vonandi fljótlega aftur!

  • 1
Antal sidvisningar idag: 479
Antal unika besökare idag: 177
Antal sidvisningar igår: 248
Antal unika besökare igår: 86
Totalt antal sidvisningar: 175473
Antal unika besökare totalt: 24393
Uppdaterat antal: 6.5.2024 12:13:23

Namn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Länkar