Mánaskál

Blogghistorik: 2008 N/A Blog|Month_11

26.11.2008 09:53

Ferð í Mánaskál, próf og fleira

Nú eru öll verkefni og próf annarinnar búin og eftir þessa viku koma svo lokaprófin! Ég klára síðasta prófið 15. des og get ekki beðið! Eftir það ætla ég að einbeita mér að því að vera ólétt og hafa það gott og dunda mér í öllu því sem ég hef ekki getað gert hingað til. Jólaskrautið er komið í bæinn svo ég ætti að geta gert huggulegt fyrir jólin emoticon

Ég var í mæðraskoðun í morgun, enn lítur allt vel út og ég get ekkert kvartað að ráði. Auðvitað er lífið orðið eitthvað erfiðara en það er ekkert sem ég þarf að velta mér uppúr. Ég kemst enn fram úr rúminu óstudd, sef á nóttunni og get gengið án verkja. Ég er semsagt bara nokkuð sátt. Ég er nú samt hrædd um að prófin eigi eftir að taka toll, núna stend ég frammi fyrir mikilli lærdómstörn og ég á ekki endilega gott með að sitja lengi. Ég er búin að fá lengri próftíma svo ég geti staðið upp og teygt úr mér án þess að þurfa að skera það niður af eðlilegum próftíma. Svo mun ég sitja við bækunar allar stundir fram í miðjan des svo ég er hrædd um að þreyta fari að segja til sín. Núna á ég að fara í mæðraskoðun á tveggja vikna fresti og næst verður farið að skoða hvernig barnið snýr og svoleiðis. Ég er gengin rúmar 32 vikur svo það eru tæpar 8 eftir.. og þetta líður hratt!

Ég fór upp í kjós á laugardaginn að kíkja á Birtu, hún er bara sátt að vera komin út sýnist mér. Sárið lítur rosa vel út og ég fer bara að senda hana norður mjög fljótlega. Hún var ekkert endilega vinsælust í stóðinu eins og gerist alltaf þegar ný hross bætast í hópinn en það var samt ekki búið að éta hana emoticon

Atli og Siggi Vals fóru norður á fimmtudaginn og löbbuðu um alla landareignina í leit að rjúpum. Þeir sáu fáar en náðu þó 3 fuglum. Ég og Steffý hans Sigga fórum svo saman norður á laugardaginn til strákana. Þegar við vorum að komast heim á bæ sá ég tófu koma hlaupandi og æstist auðvitað öll upp enda vel upp alin í þessum veiðimálum emoticon Ég gólaði á Steffý að stoppa bílinn og bakka og hún skildi bara ekkert hvað var að mér. Ég var búin að rífa mig úr beltinu, komin fram í glugga og farin að berja í mælaborðið ef ég man rétt! Ekkert gerðist nógu hratt. Ég hringdi heim og skipaði strákunum að koma. Við bökkuðum og lýstum á tófuna sem lá í grasinu, hún fór svo af stað upp á veg og við eltum hana smá spotta áður en hún fór út af veginum hinum megin. Við stoppuðum bílinn við hana og lýstum á hana meira, hún lagðist niður en fór svo fljótlega af stað aftur. Á endanum hljóp hún í burtu og ólétta ég gat ekkert gert. Steffý skildi bara ekkert afhverju ég var með þessi læti, afhverju ég hringdi í strákana, afhverju þeir ætluðu eiginlega að koma eða bara hvað var að gerast! hehe.. svona er ég nú geðveik emoticon  svo var ég ótrúlega spæld að hafa misst af henni og ég er búin að panta byssu fyrir mig! Mér finnst auðvitað ekki ganga að ég hefði geta skotið hana oft sjálf þó að ég hafi enga reynslu því hún var bara alveg við tærnar á okkur.

Hrossin hafa það enn bara gott en þau verða nú komin á gjöf fyrir jól. Aldrei að vita nema að þau fái rúllu nú um helgina. Ég sé enga ástæðu til að spara heyjið ofan í þau ef það á að fara norður hvort sem er. Það þarf nú líka að passa að sparigrísirnir byrji ekki að léttast. Bylting er feitust sem kemur ekkert á óvart. Myrkvi og Drungi eru ekki jafn feitir en fínir samt, þó vil ég alls ekki að Myrkvi grennist neitt, mér finnst hann aldrei nógu feitur.

Atli stefnir á að fara norður um helgina og sjálfsagt fara einhverjir gaurar með honum. Núna er síðasta rjúpnahelgin og vonandi verða þeir eitthvað varir allavega. Svo myndi þeim ekki leiðast ef tófan kæmi í heimsókn emoticon Ég verð aftur á móti í bænum að læra undir próf en ég svindla samt á föstudaginn en þá fer ég á jólahlaðborð með bankanum.. nammi namm emoticon

Ég er aðeins búin að dunda mér í síðunni eins og sést, komið annað lúkk og svona. Ég bjó til ný myndaalbum af hrossunum og breytti hestahluta síðunnar líka. Ég geri ráð fyrir að fikta eitthvað meira í henni á næstunni en það verður ekkert fyrr en í janúar samt held ég.

Búin að blaðra nóg í bili..þangað til næst

20.11.2008 11:05

Draumatófan - Birta farin út

Þessi vika líður rosalega hratt, helgin er bara alveg að skella á!

Við Atli fórum í gærkvöldi með Birtu upp í Kjós. Hún var komin með grænt ljós frá Björgvini að mega fara út en þyrfti að vera undir eftirliti í einhvern tíma. Ég vona að ég fari bara norður með hana mjög fljótlega og þarf bara að kanna með ferðir. Ég held að hún hafi bara verið glöð með að vera sleppt, allavega fór hún beint á beit og ekkert vesen. Sársvöng örugglega þar sem ég tók hana úr kvöldgjöfinni. Við skildum hana bara eftir í myrkrinu aleina, það eru nú hross í girðingunni sem hún hefur sjálfsagt fundið þegar hún hefur gefið sér tíma í að taka kjaftinn upp úr jörðinni. Hún er alltaf jafn yfirveguð og meðfærileg, labbar upp á kerru eins og ekkert sé og er algjörlega til friðs.

Á heimleiðinni mættum við tófu.. nánar tiltekið stórri hvítri tófu í vetrarfeldi.. sem er einmitt draumurinn hans Atla! Til að gera langa sögu stutta þá hvílir tófugreyjið nú í frystikistunni okkar og bíður þess líklega að vera stoppuð upp. Atli er voða kátur með fenginn og náðist varla brosið af honum fyrir svefninn emoticon Það er ágætt að svona hestastúss ferð á mínum vegum getur verið skemmtileg líka. Sjáið nú hvað ég er ótrúlega góð og skilningsrík kona.. kerlurnar í vinnunni hefðu ekki sko sætt sig við tófu í kistunni! emoticon

Atli er svo á leið norður í Mánaskál í dag með Sigga Vals. Þeir ætla að reyna við rjúpu og veður spáin virðist vera þeim hliðholl. Svo kom líka upp úr krafsinu í gærkvöldi að jörðin okkar teygir anga sína lengra en ég vissi og því eru mögulega góðar rjúpnalendur í sigtinu hjá strákunum. Líklega hef ég verið búin að heyra þetta áður en bara búin að gleyma því. Vonandi förum við Stefanía hans Sigga svo saman norður á eftir þeim á laugardaginn.. og að sjálfsögðu er ég búin að panta að það verði búið að elda og alles handa okkur þegar við kæmum emoticon

En helgin er víst ekki komin.. og það er nóg annað að gera hjá mér. Ég þarf að skila stóru verkefni í kvöld og öðru á mánudag þannig að ég þarfa að klára það fyrir helgina líka. Svo er próf á sunnudag/mánudag og spurning hvort ég rembist við það á sunnudagskvöld eða eftir skóla á mánudaginn. Þá eru verkefni annarinnar upptalin og ekkert nema lokaprófin sem bíða eftir mér.. jú fyrir utan hefbundna kennslu sem er í næstu viku.. skólinn er ekki alveg búinn! Eftir helgina verður semsagt "bannað" að tala við mig, ég verð þá komin í prófundirbúning og tek ekki gleði mína á ný fyrr en eftir síðasta prófið þann 15. desember. Tja.. eða gleði.. sjáum fyrst hvernig prófin fara!

Núna á ég bara eftir þessa viku og svo næstu í vinnunni og er þá komin í 2 vikna "frí"! Ohh ég hlakka mikið til emoticon

Meira næst..

18.11.2008 10:20

Vika 32 - fengið að láni frá doktor.is


# Barnið vegur 1,9 kg og lengd þess nálgast 30 cm

# Þvermál höfuðsins er 8,2 cm.

# Fitulagið undir húðinni þykknar og því breytist húðlitur barnsins frá rauðum yfir í bleikan lit.

# Táneglur vaxa

# Í sérhverri mæðraskoðun er fyglst með blóðþrýstingnum og athugað hvort þú hafir eggjahvítu í þvagi eða vaxandi bjúg. Þá er m.a. verið að leita að einkennum um meðgöngueitrun.


Það virðist aðeins vera farið að minnka leikplássið!

16.11.2008 22:26

Allt of langt síðan síðast..

Jæja nú er sko kominn tími á blogg og vel það.. allt of langt síðan síðast.

Það er svosum ekkert ógurlega spennandi að frétta. Við Atli vorum að koma heim að norðan úr rjúpna/hestaleiðangri. Það var nú frekar mikið skítaveður um helgina og ekkert spennandi að vera úti. Ég átti nú svosum ekki mikið erindi út, fór auðvitað og heilsaði upp á "stóðið" mitt og kíkti á beitina hjá þeim. Að öðru leiti var ég ekki til stórræða. Var bara inni að læra og dunda mér. Atli kíkti í rjúpuleiðangur á laugardaginn en græddi ekkert á því. Stóri rjúpnahópurinn sem við mættum á föstudagskvöldið var allavega ekki sjáanlegur. Atli dundaði sér eitthvað í skemmunni, hengdi upp fleiri ljós og svona. Þetta verður stórgóð skemma einhvern daginn. Ég er allavega búin að sjá að þetta verður nú líklega aldrei hesthúsið sem mig langaði í.. ætli það verði ekki eitthvað bíladót og þannig í skemmunni frekar.

Mýsnar eru búnar að vera að stríða okkur smá í kjallaranum, í síðustu ferð lokaði Atli fyrir músagatið í kjallarahurðinni og töldum við okkur í góðum málum.. núna sáum við að einhverjar hafa lokast inni þar sem þær voru búnar að reyna að naga sig út aftur emoticon Atli föndraði músagildru svo kannski verður músin bara öll fyrir næstu ferð.

Við gáfum hrossunum ormalyf í dag, Myrkvi var sá eini sem lét plata á sig múl í fyrstu tilraun. Hann var svo spenntur fyrir brauðinu að hann lét sig bara hafa það að vera mýldur. Tók svo ormalyfinu bara vel líka og þáði meira brauð. Drungi og Bylting prímadonna voru ekki sömu skoðunar, þau létu ekki mýla sig svo Bylting fékk bara samloku með ormalyfi og Drungi fékk nokkurn veginn sömu meðferð. Hann var þó eiginlega hálf mataður og fékk tæplega sinn skammt, hann var ekkert hrifinn af þessu áleggi á brauðinu. Þegar ég verð komin með fína rétt þá verður svona bras sko ekkert mál emoticon
Hérna koma svo nokkrar myndir frá helginni:








Og nokkrar úr síðustu ferð..











Það er sko meira en nóg að gera í skólanum hjá mér, ég held að ég eigi "bara" 3 verkefni eftir fyrir annarlok og svo taka við prófin. Ég verð í fríi vegna próflesturs frá 1. -16. des og hlakka eiginlega bara til að geta einbeitt mér að náminu. Svo ætla ég auðvitað að ná öllum prófunum, það þýðir ekkert annað en að vera jákvæður.

Eftir próf eru svo ekki nema 8 dagar til jóla emoticon Ég er nú bara farin að hlakka verulega til aðventunnnar og bíð í ofvæni eftir að heyra jólalög með Bjögga og Helga Björns svo einhverjir séu nefndir. Ég á töluvert af jóladóti sem ég var búin að fara með norður í geymslu. Ég ætlaði sko að taka það með suður í þessari ferð en svo bara gleymdist allt jóladótið, ég kíkti ekki einu sinni á það! Það verða nú svosum fleiri ferðir norður fyrir jól því það styttist jú í að "stóðið" fari á gjöf. Hrossin eru voða bangsaleg núna og rosalega góð lykt af þeim mmmmm..

Af Birtu er allt gott að frétta. Lilja tók hana með sér í hópferð til Björgvins dýralæknis í síðustu viku og daman má bara fara út á guð og gaddinn! Frábært! Hún þarf þó að vera undir eftirliti í einhvern tíma, bara til að vera viss um að þetta fari ekki að opnast. Lilja er búin að semja við Sigurþór á Meðalfelli fyrir mig og Birta fær að fara til hans í gæslu áður en hún fer norður í "stóðið" okkar. Það er mjög hentugt fyrir okkur þar semþað er stutt að fara ok kíkja á hana og heppilega mikið í leiðinni þegar maður fer norður með hana.

Krílið okkar stækkar og dafnar og sparkar enn í mömmu sína eins og ekkert sé sjálfsagðara emoticon Ég er komin 31. viku á leið og þetta er bara allt að hafast. Nokkrir dagar í slétta 7 mánuði! Það fer nú bara að verða ekkert eftir! Tíminn á allavega eftir að líða mjög hratt áfram, það er svo mikið að gera akkúrat núna.. verkefni, svo próf, jól, áramót og svo er bara kominn janúar! Ég vona bara að við verðum tilbúin þegar allt fer að gerast! Það er nú búðið að kaupa svona það helsta en ég held að það sé nú samt drjúgt það sem maður á eftir að reka sig á að vanti.

Mig langar að skjóta því að að hún Ylfa vinkona er loksins komin með heimasíðu www.123.is/njalsgerdi svo endilega kíkið á hana. Hún verður vonandi dugleg að blogga og svona svo maður sjái hvað hún er að brasa í hrossunum.

Ég held að ég hafi fátt annað að segja en þó er örugglega eitthvað að gleymast.

  • 1
Antal sidvisningar idag: 434
Antal unika besökare idag: 155
Antal sidvisningar igår: 248
Antal unika besökare igår: 86
Totalt antal sidvisningar: 175428
Antal unika besökare totalt: 24371
Uppdaterat antal: 6.5.2024 09:55:49

Namn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Länkar