Mánaskál

Blogghistorik: 2012 Länk

30.05.2012 21:32

Hitt og þetta

Núna er sumarið klárlega komið og ég kann sko vel að meta það!

Síðasta vika var mjög annasöm hjá Atla en hann og Sindri og Neðri-Mýrum voru að tæta tún, bera á og fleira í þeim dúr. Atli sást varla heima svo dögum skipti en ekki kvarta ég þar sem ég fékk nýtt tún fyrir vikið. Núna er hann svo að girða í kring um nýræktina okkar.  Einnig er búið að bera á tvö tún hjá okkur en við erum að spá í að skella áburði á allavega eitt tún til viðbótar.




Á fimmtudag kom dýralæknirinn að gelda Bratt og ég lét hann líta á Hugsýn í leiðinni og taka DNA sýni úr henna og Össu frá Þóroddsstöðum.


Assa frá Þóroddsstöðum

Við fengum góða gesti hér um helgina en Aggi bróðir og fjölskyldan hans komu í heimsókn alla leið frá Vestmannaeyjum. Við áttum von öðrum næturgestum þessa helgi svo ég fékk veiðihúsið lánað og Aggi, Snæja, Guðrún Ósk og vinkona hennar hreiðruðu um sig þar. Týri minn kannaðist sko alveg við þetta góða fólk og hann fór sko með þeim út í veiðihús og gisti þar hjá þeim. Það var heldur ekki að spyrja að því að Aggi mætti með harðfisk handa Týra vini sínum sem kunni vel að meta það.  

Á laugardag fór ég á Blönduós en tók með mér kerru með rusli í leiðinni. Aggi keyrði á eftir mér sem reyndist vera ágætt þar sem ég keyrði greinilega eins og bavíani með kerruna og drefiði rusli um alla sveitina. Þau voru í fullu starfi að hirða upp rusl eftir mig!

Við fórum í hesthúsið og ég lagði á Drunga fyrir stelpurnar og þær fengu að dóla á honum inni í gerði. Hann er alveg lúsþægur í svona. Þórdís fékk svo auðvitað að fara á bak líka og fékk meira að segja að halda í tauminn og hún var alveg með á hreinu hvernig maður á að stoppa hest. Angela í Lækjardal kom svo og kíkti á Vöku fyrir mig í annað skipti. Vaka var greinilega betri á vissum stöðum en enn eitthvað bólgin á öðrum. Ég var voða spennt að prufa hana og sjá árangurinn því mér fannst augljóst að þetta hafði eitthvað að segja. Angela í raun staðfesti það sem ég þegar vissi að einhvern tímann hefur eitthvað komið fyrir hálsinn á henna. Drungi fékk líka smá meðhöndlun en það var ekkert að sjá að honum en það er aldrei verra að vera viss.

Á heimleiðinni úr hesthúsinu þurfti ég að stoppa fimm sinnum til að hirða upp rusl eftir sjálfa mig! Ég hef semsagt heldur betur dreift ruslinu.

Á laugardagskvöld grilluðum við og horfðum á Eurovision sem endaði eins og það endaði, mér fannst þetta nú ótrúlega lélegt gengi og lög eins og hjá Tyrkjum voru að meika það sem ég skil bara ekki. Þessi sjóræningi á bátnum sínum átti bara heima á barnaleikriti í leikhúsi fannst mér.  Bryce vinur Atla og tveir skólafélagar hans mættu á svæðið og fengu gistingu hjá okkur á ferðalagi sínu um landið.

Á sunnudag fóru Aggi og fjölskylda á Akureyri en ég fór á Blönduós með nýju fínu hestakerruna mína að sækja Drunga og Vöku. Það gekk eins og í sögu að setja þau á kerruna og ég var alveg himinlifandi þar sem ég var búin að sannfæra Atla að Drungi yrði ekki svona erfiður að fara á góða kerru, en við vorum búin að lenda í vandræðum með að koma honum á hestakerru oftar en einu sinni. Þetta bara gekk eins og í sögu og við lögðum af stað með bros á vör. Ferðinni var heitið í Lækjardal til Angelu en til stóð að leyfa Bretunum  að fara á hestbak. Ég fékk lánað eitt þægt hross frá Neðri Mýrum sem var í Lækjardal og við fórum fyrst á bak inni í skemmu en svo var lagt af stað í smá reiðtúr. Allir skiluðu sér heim svo ég var bara sátt.

Á mánudag fór Atli í smá bílaviðgerðir bæði fyrir okkur og Bryce. Kvöldið fór svo í að gefa ormalyf, klippa síðustu hófana og færa til hross.

Ekki er enn komið folald á þessum bæ en ég tel að það sé orðið ansi stutt í það. Hugsýn er kannski að bíða eftir afmælinu hans Atla en hann verður þrítugur um helgina


Týri er að standa sig vel sem smalahundur og sér til þess að fé haldi sig frá túnunum okkar. Gamla mínum finnst þetta nú frekar erfitt samt en hann kannski verður orðinn spengilegur eftir sumarið.

Ég sé nú að ég hef ekki verið nógu dugleg að taka myndir og þarf að bæta mig í því! Vonandi fylgja fleiri myndir næstu fréttum! 

20.05.2012 20:46

Sumarið er vonandi komið

Jæja núna er sko löngu kominn tími á fréttir! 

Þar sem að svo langt er síðan ég skrifaði fréttir síðast þá verður hellingur útundan en ég ætla að reyna að stikla á því helsta. Ég kom heim um miðjan apríl eftir dvöl í Ungverjalandi, Þýskalandi og loks Svíþjóð. Lokaverkefnið mitt sem ég er búin að vera að vinna að síðan í haust var ekki enn tilbúið en þetta var sem betur fer allt að smella. Fleiri vikna vinna að baki í þessu verkefni og því lauk loksins núna í maí og er farið í dóm. Ég verð nú samt að segja að þetta tók ótrúlega á, sérstaklega á lokasprettinum og til að gera langa sögu stutta þá er ég ein af fáum ef ekki bara sú eina sem mætti með lokaverkefnið á pósthúsið grátandi! Ég sem man svo greinilega eftir því þegar ég var stödd á pósthúsi síðastliðið vor og sá stelpu póstleggja lokaverkefni. Ég öfundaði hana svo rosalega og hlakkaði svo til að standa í hennar sporum, en nei ég var bara miður mín. Var ekki 100% sátt við fráganginn á verkefninu og varð að senda það frá mér samt sem áður. Ég er viss um að starfsfólkinu á pósthúsinu hafi þótt þetta frekar skrítið emoticon Ég var svo ósátt við útlitið á verkefninu að ég sóttist eftir því að fá að skila nýjum eintökum, sem ég fékk, og þau eru nú á leið í pósti emoticon Reyndar týndist verkefnið líka í Reykjavík, bara svona til að bæta ástandið, en ég hef fulla trú á að það sé á leiðinni núna. Einkunn skilar sér svo um mánaðarmótin og útkskriftin er 9. júní emoticon .. ég er strax farin að gjóa augunum að öðru B.S. námi en ætli ég verði ekki að hemja mig um sinn.

Við Þórdís eyddum nokkrum dögum í Svíþjóð hjá systur hans Atla og fjölskyldu. Það var kominn tími til að fara þangað í heimsókn og það verður sko pottþétt farið þangað aftur. Þórdís Katla á svo frábæran frænda, hann Kára, sem var endalaust duglegur að leika við hana. Þórdís fékk líka að fara með Kára á fótboltaæfingu og ætli ég hafi ekki þar með tapað henni úr hestunum í fótboltann, allavega var áhuginn gýfurlegur! 


Hún fékk sko líka lánaðann fótboltabúning sem hún fór ekki úr í tvo daga! Algjör fótboltastelpa hér á ferð emoticon og taktarnir sko alveg á hreinu... 



Eftir dvölina í Svíþjóð ókum við mæðgur yfir til Kaupmannahafnar í flug en frændi hans Atla hitti okkur á flugvellinum og tók bílinn. Hann fór svo með Norrænu heim til íslands með bílinn okkar og hestakerruna. 

Þegar við komum heim var allt autt og heldur vorlegt á að líta en það átti eftir að breytast. Í síðustu viku gerði hér snjó, ís og ógeðis veður svo mönnum og hestum var nóg boðið. Ég hafði flutt Vöku og Drunga á Blönduós um leið og ég kom heim að utan og setti veturgömlu tryppin út í staðinn. Þetta veður sem skall á var ekki alveg það sem tryppagreyjin þurftu. Þetta endaði þannig að fyrst Atli var ekki heima þá hertók ég skemmuna hans og gerði þar stíu fyrir tryppin og Hugsýn. Þetta var sko ekki vandamálið, tvær spítur og eldhúsborð er allt sem þarf emoticon .. svona þangað til gamla mín losnaði og hrakti tryppin út úr stíunni og yfir allt dótið hans Atla í skemmunn! vúps þá var mín ekki vinsæl! Þetta fór nú samt allt vel og enginn slasaðist. Það var bara ekki hægt að horfa á tryppin í þessu veðri, þegar fullorðnu hrossin sem voru búin að vera úti í allan vetur skulfu, þá gat maður bara rétt ímyndað sér hvernig tryppunum leið svona ísilögðum. Núna eru auðvitað allir komnir út aftur og hafa það gott.


Orða



Brattur


Gamla mín, Hugsýn


Gleði

Af hryssumálum er helst að frétta að Gleði er seld og fer erlendis eftir áramót. Henni verður haldið í sumar áður en hún fer til nýs eiganda. Ég er ekki viss hvort það er folald í Hugsýn, ég skipti um skoðun nær daglega, suma daga er ég mjög svartsýn en aðra finnst mér vera einhver von. Dýralæknirinn mætir væntanlega í næstu viku að gelda Bratt og þá verður hann fenginn til að skera úr um þetta. 

Reiðhestarnir eru semsagt búnir að vera á húsi síðan ég kom heim en þar sem ritgerðin var ekki búin hefur lítill tími verið til útreiða og við Þórdís líka oft einar í kotinu. Við erum samt búnar að fara saman í heimsókn í hesthúsið og Þórdís fékk að æfa sig aðeins á Drunga.



Nú þegar ritgerðin er búin á að koma sér í grírinn og ég fór á bak í gær og átti ágætis túr á Vöku minni en hún er ekki eins og hún á að sér að vera. Hún er stíf og viðkvæm fyrir taumi. Ég varð vör við þetta sl. haust og til stóð að láta líta á hana um leið og hún kæmi inn um áramót, það dróst svo alveg þangað til í apríl. Í dag kom hún Angela í Lækjardal til okkar í hesthúsið til að líta á dömuna og það var eins og við héldum, hún er stíf í hálsi og með vöðvabólgur bæði í hálsi og baki. Hún var nudduð í bak og fyrir og það sást alveg á henni hvernig spennan rann af henni. Hún var hálf ósátt fyrst en svo sá maður hana lygna aftur augunum og henni fannst þetta greinilega orðið gott. Hún fékk svo líka nálastungur. Nú er spennandi að sjá hvernig hún bregst við þessu öllu saman en meðferðin er ekki búin, það þarf að meðhöndla hana í nokkur skipti í viðbót. 

Til stendur að halda Vöku, Hugsýn og Össu þetta árið plús Gleði en það fer eftir því hvort Hugsýn sé með folaldi núna undir hvern henni verði haldið. 

Atli er iðinn eins og alltaf og þessa dagana er verið að vinna í litla Benz, rafstöðin er komin í gagnið aftur og ný varmadæla komin í gang. Girðingaefnið er komið á staðinn og nú stendur til að girða og rækta upp emoticon

Þetta er nú hálf snubbótt fréttafærsla en svona er þetta þegar of langt um líður, þá gleymist bara svo margt. Ég stefni á að vera duglegri héðan í frá.

  • 1
Antal sidvisningar idag: 420
Antal unika besökare idag: 148
Antal sidvisningar igår: 248
Antal unika besökare igår: 86
Totalt antal sidvisningar: 175414
Antal unika besökare totalt: 24364
Uppdaterat antal: 6.5.2024 09:08:41

Namn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Länkar