Mánaskál

30.05.2012 21:32

Hitt og þetta

Núna er sumarið klárlega komið og ég kann sko vel að meta það!

Síðasta vika var mjög annasöm hjá Atla en hann og Sindri og Neðri-Mýrum voru að tæta tún, bera á og fleira í þeim dúr. Atli sást varla heima svo dögum skipti en ekki kvarta ég þar sem ég fékk nýtt tún fyrir vikið. Núna er hann svo að girða í kring um nýræktina okkar.  Einnig er búið að bera á tvö tún hjá okkur en við erum að spá í að skella áburði á allavega eitt tún til viðbótar.




Á fimmtudag kom dýralæknirinn að gelda Bratt og ég lét hann líta á Hugsýn í leiðinni og taka DNA sýni úr henna og Össu frá Þóroddsstöðum.


Assa frá Þóroddsstöðum

Við fengum góða gesti hér um helgina en Aggi bróðir og fjölskyldan hans komu í heimsókn alla leið frá Vestmannaeyjum. Við áttum von öðrum næturgestum þessa helgi svo ég fékk veiðihúsið lánað og Aggi, Snæja, Guðrún Ósk og vinkona hennar hreiðruðu um sig þar. Týri minn kannaðist sko alveg við þetta góða fólk og hann fór sko með þeim út í veiðihús og gisti þar hjá þeim. Það var heldur ekki að spyrja að því að Aggi mætti með harðfisk handa Týra vini sínum sem kunni vel að meta það.  

Á laugardag fór ég á Blönduós en tók með mér kerru með rusli í leiðinni. Aggi keyrði á eftir mér sem reyndist vera ágætt þar sem ég keyrði greinilega eins og bavíani með kerruna og drefiði rusli um alla sveitina. Þau voru í fullu starfi að hirða upp rusl eftir mig!

Við fórum í hesthúsið og ég lagði á Drunga fyrir stelpurnar og þær fengu að dóla á honum inni í gerði. Hann er alveg lúsþægur í svona. Þórdís fékk svo auðvitað að fara á bak líka og fékk meira að segja að halda í tauminn og hún var alveg með á hreinu hvernig maður á að stoppa hest. Angela í Lækjardal kom svo og kíkti á Vöku fyrir mig í annað skipti. Vaka var greinilega betri á vissum stöðum en enn eitthvað bólgin á öðrum. Ég var voða spennt að prufa hana og sjá árangurinn því mér fannst augljóst að þetta hafði eitthvað að segja. Angela í raun staðfesti það sem ég þegar vissi að einhvern tímann hefur eitthvað komið fyrir hálsinn á henna. Drungi fékk líka smá meðhöndlun en það var ekkert að sjá að honum en það er aldrei verra að vera viss.

Á heimleiðinni úr hesthúsinu þurfti ég að stoppa fimm sinnum til að hirða upp rusl eftir sjálfa mig! Ég hef semsagt heldur betur dreift ruslinu.

Á laugardagskvöld grilluðum við og horfðum á Eurovision sem endaði eins og það endaði, mér fannst þetta nú ótrúlega lélegt gengi og lög eins og hjá Tyrkjum voru að meika það sem ég skil bara ekki. Þessi sjóræningi á bátnum sínum átti bara heima á barnaleikriti í leikhúsi fannst mér.  Bryce vinur Atla og tveir skólafélagar hans mættu á svæðið og fengu gistingu hjá okkur á ferðalagi sínu um landið.

Á sunnudag fóru Aggi og fjölskylda á Akureyri en ég fór á Blönduós með nýju fínu hestakerruna mína að sækja Drunga og Vöku. Það gekk eins og í sögu að setja þau á kerruna og ég var alveg himinlifandi þar sem ég var búin að sannfæra Atla að Drungi yrði ekki svona erfiður að fara á góða kerru, en við vorum búin að lenda í vandræðum með að koma honum á hestakerru oftar en einu sinni. Þetta bara gekk eins og í sögu og við lögðum af stað með bros á vör. Ferðinni var heitið í Lækjardal til Angelu en til stóð að leyfa Bretunum  að fara á hestbak. Ég fékk lánað eitt þægt hross frá Neðri Mýrum sem var í Lækjardal og við fórum fyrst á bak inni í skemmu en svo var lagt af stað í smá reiðtúr. Allir skiluðu sér heim svo ég var bara sátt.

Á mánudag fór Atli í smá bílaviðgerðir bæði fyrir okkur og Bryce. Kvöldið fór svo í að gefa ormalyf, klippa síðustu hófana og færa til hross.

Ekki er enn komið folald á þessum bæ en ég tel að það sé orðið ansi stutt í það. Hugsýn er kannski að bíða eftir afmælinu hans Atla en hann verður þrítugur um helgina


Týri er að standa sig vel sem smalahundur og sér til þess að fé haldi sig frá túnunum okkar. Gamla mínum finnst þetta nú frekar erfitt samt en hann kannski verður orðinn spengilegur eftir sumarið.

Ég sé nú að ég hef ekki verið nógu dugleg að taka myndir og þarf að bæta mig í því! Vonandi fylgja fleiri myndir næstu fréttum! 

Flettingar í dag: 83
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 838
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 189326
Samtals gestir: 25651
Tölur uppfærðar: 19.5.2024 06:17:21

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar