Mánaskál

24.10.2015 21:03

Meira af kindum

Ég lét ekki verða að því um daginn að taka rúnt á Strandirnar til að kaupa mér nokkrar gimbrar. Mér fannst ég ekki vera í ástandi til þess að fara í slíkt ferðalag, gengin eins langt og ég var þá. Nema hvað að svo frétti ég af því í síðustu viku að Jón Heiðar væri á leið á Smáhamra að sækja tvo hrúta og þá langaði mig voðalega að nýta ferðina til að fá 2-3 gimbrar í leiðinni. Því meira sem ég spáði í þetta þá bara varð ég að fara með til að velja sjálf.. og viti menn, ég skellti mér á Strandirnar emoticon Við fórum á hans fræga Subaru Impreza sem hefur farið nokkra hrútaleiðangrana í gegn um árin. Á leiðinni vestur sagði hann mér að hann hafi áður tekið 7 lömb í bílinn svo mér væri óhætt að velja mér 5 gimbrar í þessari ferð.

Þegar á Smáhamra var komið leitaði Jón Heiðar að góðum gimbrum fyrir mig á meðan ég fletti í bókhaldinu. Úr varð að ég keypti 6 gimbrar og þær ásamt hans 2 hrútum voru öll sett í Subaru. Ég bjóst nú ekki við að þetta kæmist allt í bílinn en í bílinn fóru öll þessi lömb og ég þurfti ekki að labba heim.



Af þessum 6 gimbrum sem ég valdi voru 4 með 18 í læri, 2 með 30 í ómvöðva, 3 með 9 fyrir frampart og 3 með 4,5 í lögun. Ein var botnótt og önnur svarflekkótt emoticon og allar kollóttar. Tvær af þeim eru undan hrút sem mér hefur verið sagt að hann sér nýr hrútur á leið á sæðingarstöð í haust en það voru einmitt afkvæmarannsóknir á Smáhömrum þetta haustið fyrir sæðingarstöðvarnar.

Sama dag fékk ég svo nýja kollótta hrútinn minn frá Hraunhálsi heimsendan alla leið á Sturluhól emoticon Aldeilis þjónusta það! Mér líst voðalega vel á hann og hlakka til að sjá hvað hann gefur mér á næsta ári.

Við tókum gimbrarnar á hús 16. okt en þær eldri eiga að vera áfram úti þeim til mikillar undrunar. Þær eru búnar að koma inn og fá smjörþefinn úr gjafagrindinni og skilja ekki alveg afhverju þeim er svo úthýst. Gimbrarnar eiga að fá að vera einar um góssið og hafa það gott þar til þessar eldri koma inn.




Stefán dýralæknir kom á föstudaginn og bólusettið lömbin við garnaveiki. Sjálf erum við búin að bólusetja við öðru sem þarf og merkja lömbin. Atli og Jón Heiðar græjuðu líka réttina í einum grænum svo við gátum nýtt ferðina hjá Stefáni. Við smöluðum hrossunum saman og létum sprauta allt með orma- og lúsalyfi. Einnig var litið yfir hófa. Hér er því allt að verða komið í stand fyrir veturinn og þetta litla barn sem ég geng með getur farið að koma í heiminn. 


Ég tók því miður engar myndir af hrossunum en bæti úr því flljótlega eftir að ég verð búin að létta á mér. Ég var nú samt glöð að sjá að Hugulsemi mín er enn jarpvindskjótt og þú hún sé ekki sú fallegasta þá allavega töltir hún voða fínt emoticon

Fröken Brá frá Hraunhálsi er reyndar inni og fékk líka tékk hjá Stefáni í þessari ferð en hún var með eitthvað ógeðslegt kýli í andlitinu sem við stungum á um daginn. Hún er núna í sýklalyfjameðferð.



Atli er enn á fullu í húsinu á Sturluhóli og keppist við að klára áður en barnið fæðist og veturinn skellur á. Járnið og efnið í þakkantinn kom í síðustu viku og við erum farin að sjá fyrir endann á þessu.



Smiðurinn kemst ekki fyrr en eftir helgina til að byrja að setja járnið á húsið svo Atli notar tímann til að undirbúa þakkantinn. Hesthúsið lítur því út eins og smíðaverkstæði um þessar mundir.





Ég er núna gengin rúmar 39 vikur og settur dagur er næsta miðvikudag (28.október). Ef allt verður samkvæmt áætlun þá förum við suður á fimmdudaginn (og ég ætla að fæða á föstudaginn). Á meðan ég næ að halda í mér lítur út fyrir að járnið komist á húsið áður en  nýja prinsessan mætir á svæðið emoticon Ég hlakka rosalega til að sjá útkomuna.. já og létta á Atla í þessu öllu saman. Hann hamast og hamast við að klára þetta og vill örugglega gjarnan fara að slaka á.

Á meðan við dveljum í Reykjavík fær Þórdís Katla að vera gestanemandi í bekk hjá Sigríði vinkonu sinni sem var í Höfðaskóla en byrjaði í Hvassaleitisskóla í Reykjavík í haust. Þetta verða eflaust skemmtilegir dagar hjá þeim vinkonunum og mikið sport emoticon Íris Björg getur því miður ekki fengið að vera gestur á Hjallaleikskóla í Reykjavík svo við foreldrarnir verðum að hafa ofan fyrir henni þessa daga emoticon Það verður reyndar bara gaman líka.
Flettingar í dag: 205
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 152
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 174596
Samtals gestir: 24099
Tölur uppfærðar: 3.5.2024 20:11:09

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar