Mánaskál

10.10.2015 21:39

Kindablogg

Á fimmtudag fórum við með féð heim að Sturluhóli en það var búið með nýræktina á Mánaskál og meira til. Planið var að fá Bjarka á Breiðavaði með smalahundana sína til að smala þessu á kerrur eða fjárvagn en svo ákváðu Atli og Jón Heiðar að þeir gætu alveg smalað þessu sjálfir út í Balaskarðsrétt. Ég verð að viðurkenna að ég var með smá fiðring í maganum þegar þeir fóru af stað með féð á milli. Ég var pínu smeik um að þetta færi allt út um allt og þeir misstu þetta frá sér. Þetta gekk nú samt (auðvitað) mjög vel en það var samt merkilegt að þrjár ær hálf gáfust upp á þessari stuttu vegalengd. Það segir mér kannski að þær hafi haft dálítið mikið að éta á Mánaskál og væru kannski orðnar hálf þungar á sér! Við keyrðum svo fénu úr réttinni á hestakerrum emoticon

Atli og Jón Heiðar voru búnir að græja hlöðuna undir vigtun og flokkun en nýja fjárvogin mín var einmitt prufkeyrð þarna. Mér hálf brá þegar fyrsta kind inn í boxið ætlaði eiginlega ekki að passa inn í hana. Það þurfti allavega að ýta duglega á eftir henni! .. en flestar runnu nú ágætlega í gegn. Bæði ær og lömb voru vigtuð og nú á að vigta reglulega til að fylgjast með fóðrun og vexti þeirra emoticon Maður verður nú að vera duglegur að nota græjuna fyrst það er búið að fjárfesta (já þetta er eiginlega fjárfesting) í svona græju fyrir örfáar kindur.





Á föstudag mætti Anna Magga með sónargræjuna og stigaði lömbin. Ég er svo furðuleg að ég læt dæma allt, bara svona til að hafa fleiri tölur í fjárvís til að grúska í emoticon Mér finnst allt í lagi að leyfa sér svona sérviskur þegar maður á ekki fleira fé en þetta, ráðunautinum fannst samt dálítið skondið að dæma fleiri hrúta en gimbrar, yfirleitt er það öfugt og munar líklega heilmiklu á fjölda.

Við dæmdum 24 hrúta og fengum úr því 5 hrúta með 85-85,5 stig. 6 hrútar fengu 18 í læri og 8 hrútar mældust með bakvöðva frá 30-34mm.

Við völdum hrúta undan Saum og Kölska til ásetnings. Saumsonurinn er gemlingslamb, undan Garradóttur sem ég keypti frá Fáskrúðarbakka síðasta haust.

Hann fær nafnið Nagli og hans dómur var
 50 kg - fót. 101, ómv. 34, ómf. 2,4, lögun 4,0. 8-8,5-9-9-8,5-18-8-8-8,5 alls 85,5 stig.

Kölskasonurinn er undan ær frá Hraunhálsi sem við keyptum 2012 þegar við byrjuðum sauðfjárbúskapinn. Þetta er í annað skipti sem við setjum á hrút undan þessari ær en hún átti ásetningshrút í fyrra líka undan Salamon. Kölskasonurinn fær nafnið Satan og hans dómur var

46 kg - fót. 103, ómv. 30, ómf 3,4, lögun 4,0. 8-8,5-9-9-9-18-7,5-8-8,5 alls 85,5 stig.



Hér eru nýju lambhrútarnir. Satan hægra megin og Nagli vinstra megin. Á bað við þá er svo Órói Salamonsson, stóri bróðir Satans. 

Svo er ég búin að festa kaup á einum kollóttum hrút frá Hraunhálsi á Snæfellsnesi. Ég á eftir að sjá hann en hans dómur er 51 kg, fót. 110, ómv. 30, ómf. 3,0, lögun 5,0. 8-8,5-8,5-9-9-18,5-8-8-8,5 alls 86 stig. Hann er undan Kroppsyni og Sigurfaradóttur.

Við létum svo dæma allar 20 gimbrarnar okkar þrátt fyrir að sumar væru nú ansi litlar og léttar emoticon  Það var t.d. búið að lofa einni frænku að fá að eiga eina grábotnótta gimbur sem hún sá fæðast hér í lok sauðburðar. Sú gimbur var svo ekki nema 28 kg en fékk samt dóm eins og hinar og verður sett á sem smálamb. Maður verður víst að standa við stóru orðin. Gimbrin á móti þessari títlu var líka lítil, vigtaði 32 kg en hún mældist samt með 27 í ómvöðva sem mér þykir bara ótrúlega vel gert fyrir svona lítið dýr.

Svo kom að því að slátra og keyrði Atli lömbin á Blönduós til slátrunar á föstudagsmorgun. Allan daginn beið ég svo eftir vigtarseðlinum eins og smákrakki að bíða eftir jólunum emoticon Um kvöldið kom svo loksins niðurstaðan og hún var bara fín. Við sendum 25 lömb (26 með hrútnum sem fór um daginn) og var meðalvigtin 17 kg - fita 6,77 og gerðin 10,88. Alls fóru 5 lömb í E flokk, 17 lömb í U flokk, 2 í R flokk og 2 í O flokk.

Við sendum 3 ræfla sem voru 29 og 30 kg. Tvö af þeim voru litlir seinbornir þrílembingar og það þriðja var líklega undanvillingur með lungnabólgu í þokkabót. Tvö af þeim flokkuðust í O og eitt í R. Svo fór einn hrútur undan Aþenu hennar Þórdisar og Drífanda í R flokk. Mér finnst Drífandi ekki hafa verið að gera sig hjá okkur þetta árið. Aftur á móti var ég ánægð með Kölska. Ég fékk undan honum 4 hrúta og fengu 3 þeirra 18 í læri. Ég var líka ánægð með Saumslömbin mín. Hrúturinn sem var settur á undan honum og var með þykkasta bakvöðvann og einnig var gimbrin með þykkasta bakvöðvann (og 18 í læri) undan honum. Ég fékk tvær aðrar gimbrar undan honum undan frekar lakri kind og þær stiguðust líka ágætlega emoticon

Það var nú smá metingur á milli okkar Atla núna um það hvort hrúturinn hans eða minn hefði gert betri hluti þetta árið. Hrúturinn "minn" (reyndar Þórdísar) var settur á sem aðalhrútur en Atli valdi svo flekkóttan Salamonsson sem varahrút. Hann fékk svo notkun líka. Atli má bara vera sáttur við sinn hrút en hann skilaði tveimur E hrútum en minn bara einum E hrút. Mér sýnist líka í fljótu bragði að hans hrútur hafi líka skilað betri lærum og baki en minn emoticon Ég held að Atli ætli að nota hann eitthvað í ár líka.

Framkvæmdir við íbúðarhúsið á Sturluhóli ganga vel. Atli og Jói frændi hans eru að vinna í því að klára að setja járn utan um glugga og horn og allt það sem þarf áður en hægt er að setja járnið utan á kofann. Vonandi verður hægt að mæla fyrir járninu í byrjun vikunnar og svo raða því á nokkrum dögum síðar! emoticon




Allt að gerast emoticon

Veðrið í dag var alveg dásamlegt. Stelpurnar komu með mér á Sturluhól og Íris Björg var í essinu sínu að sulla í pollum! og stóra systir náði alveg að bleyta sig líka!







Brynja Pála og Guðrún Árný komu norður um helgina með mömmu og pabba. Þær voru settar í að spekja hrútana emoticon Það verður að hafa þá spaka emoticon



Nú er ég hætt að vinna enda ekki nema rúmar tvær vikur í setta dag. Næstu daga verður væntanlega farið í gegn um barnaföt og eitthvað þannig sniðugt en sjálfsagt verður líka hangið áfram í fjárvís! .. nú þarf að fara að skipuleggja fengitímann! emoticon Það er nú meira hvað maður getur verið jarmandi.

Flettingar í dag: 218
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 152
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 174609
Samtals gestir: 24106
Tölur uppfærðar: 3.5.2024 22:21:17

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar