Mánaskál

30.08.2015 08:05

Ágúst að verða búinn

Framkvæmdir á Sturluhóli voru settar á smá bið á meðan Atli fór í burtu í vinnuferð til Bandaríkjanna. Hann hefur aftur á mót ekki stoppað síðan hann kom heim aftur þar sem hann verður ekki heima nema til ca 10 september. Aftur á móti þýðir það að hann á að vera heima í réttunum sem er mjög ánægjulegt fyrir mig emoticon

Tengdapabbi kom síðustu helgi til okkar og eyddi henni í að þétta glugga á Sturluhóli en þeir voru orðnir ansi margir sem láku þrátt fyrir að vera ekki gamlir.





Taka þyrfti rúðurnar úr og skipta um þéttikant, á svona dögum er maður ekki alveg jafn þakklátur fyrir það hvað gluggarnir eru stórir og rúðurnar margar emoticon

Atli kom svo heim á miðvikudaginn og strax á fimmtudag mættu girðingaverktakar á svæðið. Verktakarnir tveir og Atli girtu 1000 m langa girðingu á einum degi og þó Atli minn sé duglegur þá hefði hann nú verið töluvert mikið lengur að þessu ef hann hefði verið einn. Þessir verktakar eru þrælduglegir og ég held að Atli ætli sér að girða aldrei framar sjáflur! 


Nýja fína túngirðingin mín emoticon



Smiðirnir koma aftur í næstu viku til að halda áfram með íbúðarhúsið en þá ætti drenið að vera orðið alveg klárt. Atli, Gunni og Gísli voru ansi duglegir í gær í drenvinnunni og munar svakalega um það að við fengum lánaða smágröfu hjá Bjarka smið og svo er Gísli alvanur gröfukarl.





Grindin er komin á húsið að hluta og ég hef trú á að þetta muni ganga hratt fyrir sig þegar sökkulvinnan verður búin og smiðirnir geta haldið áfram. Ég er sko farin að hlakka rosalega til að sjá útkomuna emoticon

En það eru fleiri verk á dagskrá en framkvæmdirnar á Sturluhóli, heyskapur er t.d. ekki búinn. Atli lagði af stað að slá eftir kvöldmat í gærkvöldi en heppnin var ekki með okkur þann daginn því sláttuvélin bilaði. Atli var eitthvað fram á nótt í viðgerðun á henni en ég er ekki viss hvort það hafðist að laga hana eða hvort við verðum að fara aðrar leiðir til að klára heyskap. Heyskapurinn ætti að klárast í þessari viku. Þá getur maður haldið áfram að láta sér hlakka til lambadóma og haustverkanna.

Skólinn hjá Þórdísi Kötlu byrjaði í síðustu viku og núna er það sko 2. bekkur. Ótrúlegt hvað tíminn líður, sumarið búið og skólinn byrjaður.



Ég tók að gamni mynd af henni á sama stað og þegar hún mætti fyrsta daginn sinn í 1. bekk. Hver veit nema að þetta verði árlegur viðburður sem gaman verður að skoða síðar meir. Myndir af henni teknar með ársmillibili alla skólagönguna emoticon



Íris Björg stækkar líka og dafnar og varð 2 ára þann 16. ágúst. Hún fékk örlitla afmælisveislu hérna heima daginn áður því Atli var að fara í burtu að vinna. 




.. og ís klikkar ekki! Hún elskar ís emoticon

Í dag stendur svo til að tína loksins saman rúllurnar en trakstorinn okkar bilaði um daginn svo það tafðist að hirða þær. Atli fór svo út strax á eftir líka svo þetta þurfti því miður að bíða. Ég harkaði það nú samt af mér í gær að fara og ganga frá endum og merkja rúllurnar svo ég geti sérvalið heyjið ofan í sparikindurnar í vetur. Við erum búin að ná fínum heyfeng í kindurnar og erum að vonandi að klára heyskapinn í hrossinn um þessar mundir emoticon Það verður ljúft.

Sandra Diljá systurdóttir mín er búin að vera staðráðin í því að koma í réttir í haust og finna gimbrina sem hún sá fæðast í sauðburðinum í vor. Við vorum nefnilega svo heppnar að akkúrat á meðan Þórhildur systir og fölskylda komu í heimsókn í sauðburð í vor bar ein tvævetla tveimur gimbrum og önnur þeirra var grábotnótt. Sandra ætlaði að finna þessa gimbur í réttunum og eigna sér hana. Sú grábotnótta hefur sést af og til í sumar og er eins og stendur að stelast í nýræktina okkar. Vonandi verður hún orðin nógu þung í haust til að fá að verða sparigimbur á Mánaskál/Sturluhóli. Þá verður Sandra Diljá sko að finna flott nafn á hana.



Við fengum örfá lömb í lit þetta árið þrátt fyrir að hafa sett á tvo litaða lambhrúta. Ég vona að ég geti leyft mér að kaupa nokkrar góðar lífgimbrar og þá helst í einhverjum lit. Ég er með bæi í huga fyrir þessi kaup en svo er spurning hvernig mér gengur að komast vestur á firði þegar Atli er ekki heima. Ég legg ekki í að fara með stelpurnar í svona flakk, svo er ég heldur ekkert að fara að ragast sjálf í fé eða eitthvað þannig. 

Ég fékk aðstoð við að klippa hófa á hluta af hrossunum um daginn, restin verður klippt aðeins seinna. Jón Heiðar kom og þeir Gísli ráku hrossin heim fyrir mig. 



Hugsýn fær fóstnyrtingu



Ég ætla enn að halda því fram að Hugulsemi sé jarpvindskjótt, ég skoðaði ofan í faxið og þar er grátt. Jón Heiðar er þó ekki sammála mér með litinn því hann segir að þetta heiti rauðvindótt. Ég segi að það sé ekki til, rauður verði ekki vindóttur. Að þessu tilefni var ég spurð spjörunum úr með liti og ég held að ég hafi nú alltaf svarað rétt.. nema að þessu leyti að hans viti.. hann segir rauðvindótt en ég segi jarpvindótt emoticon Hann þekkir mig ekki mikið ef hann heldur að hann geti fengið mig til að skipta um skoðun emoticon


BBQ rauður er þrælmyndarlegur, undan Össu Númadóttur og Byr frá Borgarnesi.



Glóð fékk líka fótsnyrtingu og var svo sónarskoðuð í síðustu viku. Hún reyndist vera með stóru fyli og kastar væntanlega í lok maí á næsta ári. Ég er búin að panta rauðblesótta hryssu emoticon



Orða fékk sömu meðferð og aðrir sem komu inn í réttina þennan dag. Núna styttist í að hún fari í tamningu sem verður bara spennandi að sjá. Ætli það verði ekki fljótlega eftir áramót svona þegar hún er búin að fá tíma til að geldast upp og jafna sig. 

Flettingar í dag: 119
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 152
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 174510
Samtals gestir: 24091
Tölur uppfærðar: 3.5.2024 17:18:16

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar