Mánaskál

12.10.2012 22:03

Sauðfé og fleira

Tíminn líður svo hratt hérna í sveitinni að allt í einu eru bara tveir mánuðir liðnir frá síðustu fréttum.

Veturinn minnti á sig heldur betur snemma í ár því svona var umhorfs hjá okkur þann 10. september.


á heimleið úr vinnunni


komin inn í dal - Atli þurfti að sækja mig að Neðri-Mýrum


Nýræktin var óslegin ennþá..






Við sóttum Hugsýn og folaldið sem hún fóstrar að Lundum til Abrahams í september. Hugsýn er fengin og kastar líklega snemma í júní. Í sömu ferð var Assa sótt til Kvists frá Skagaströnd. Hún var líka fengin og kastar líklega seint í júní eða í byrjun júlí. Eftir þessa ferð er ég búin að ákveða að drífa í að frostmerkja hrossin mín. Assa er auðvitað bara brúnt meðalhross og ég lenti í vandræðum því þegar ég sótti hana var gjörsamlega ausandi rigning og hrossin voru öll rennandi blaut og húktu inni í gerði. Allar brúnar hryssur voru eins! Eina ráðið var að grípa eitthvað sem var líklegt og fara með það þar sem sónarskoðun fór fram og láta lesa af örmerkinu.. en viti menn.. ég átti fyrstu hryssuna emoticon Ég verð samt að viðurkenna að þetta var frekar neyðarlegt en sem betur fer var ég ekki sú eina sem var í þessum vandræðum þarna. Það ringdi svo svakalega að Assa bókstaflega hljóp upp á hestkerruna og ég þurfti að rífa mig úr fötunum þegar ég kom inn í bíl. Gallabuxurnar voru orðnar 20 kg og þetta var ekki rétti dagurinn til að gleyma úlpunni! .. í raun hefði 66 pollagallinn verið málið!

Atli getur semsagt látið sér hlakka til vorsins því hann á folaldið í Hugsýn og Össu!


Assa frá Þóroddsstöðum - fylfull við Kvist frá Skagaströnd


Hugsýn og fóstursonurinn - Vaka á bakvið

Göngur og réttir og allt það var á sínum stað í september. Stóðréttarhelgin var auðvitað frábær eins og alltaf áður. Enn á ný tók ég eiginlega engar myndir nema á myndavélina hans Sissa og ætli ég verði ekki heilt ár að komast yfir þær eins og síðast. Ég skal gera mitt besta til að fá einhverjar myndir frá honum til að geta sýnt frá reiðinni á laugardeginum. Ég fékk auðvitað góða gesti en Sissi kom alla leið frá Kirkjubæjarklaustri með hryssu á hestakerru. Siggi Fúsi, Þorbergur og Konný komu líka alla leiðina að austan. Eyþór vinnufélagi minn fékk lánaða hryssu á Efri Mýrum og komst því með í stóðreksturinn. Svo voru auðvitað sveitungarnir á sínum stað. 

Þetta árið var ekki hægt að fara ríðandi frá Strjúgsskarði eins og hefur verið gert í áratugi en vegna snjóa og bleytu var dalurinn og sérstaklega skarðið erfitt yfirferðar. Í staðinn var auglýst ferð frá Skrapatungurétt í Kirkjuskarð og svo var riðin sama leið til baka. Veðrið slapp ótrúlega vel þrátt fyrir blauta spá og frekar lítil hlýjindi. Það ringdi aðeins á okkur á bakaleiðinni en annars var þetta bara frábært. Atli mætti líka í Kirkjuskarð með heita kjötsúpu svo það væsti ekki um okkur. Um kvöldið var svo skundað á ball með Pöpunum og trallað fram á rauða nótt.

Það var svo réttað á sunnudegi og hrossin mín skiluðu sér til byggða. Þau hafa því verið komin framfyrir afréttargirðingu eins og mig grunaði. Ég hafði ekki séð litla stóðið mitt í nálægt tvo mánuði svo það hlaut eiginlega að vera. Tryppin mín vöktu mikla lukku hjá ferðamönnum sem voru þarna á vegum Íshesta. Þau eru svo spök að þau tóku sig út úr stóðinu sem var í hólfinu fyrir utan réttina og hreinlega böðuðu sig í athygli og þáðu klapp og knús. Það gekk eins og í sögu að sækja hrossin mín inn í almenning og koma þeim inn í dilk. Svo voru þau bara sett á kerru og skutlað heim.


Orða og Brattur komin af fjalli


Orða

Við Atli erum búin að klippa hófa og gefa ormalyf þetta haustið og eru hrossin komin í hausthagann. Ég er reyndar enn með Vöku og Drunga á járnum en þau verða væntanlega ekki notuð meira samt þetta árið.

Merkisviðburður átti sér einnig stað í september en þá fórum við á Snæfellsnes og keyptum okkur gimbrar. Við eigum semsagt orðið fé núna og bíðum spennt eftir þeim ævintýrum sem bíða okkur í sauðfjárræktinni. Við fórum á Hraunháls á Snæfellsnesi og gátum þar valið okkur þær gimbrar sem okkur leist vel á. Ráðunautur var búinn að dæma þær svo við gátum dálítið valið þær eftir því (ekki veitir af fyrir okkur sem kunnum ekkert á þetta). Sindri á Neðri-Mýrum kom með okkur og sá til þess að við keyptum ekki einhverja vitleysu.


Atli minn bóndalegur


Sindri lítur yfir og er sjálfsagt að undra sig á því hvað hann er hrifinn af þessum kollóttu


og svo þurfti að þreyfa og káfa og finna vænstu gimbrarnar


.. og líta á dómana og sjá hvort þetta er ekki allt með besta móti


Hér eru gimbrarnar loksins komnar "heim". Hér fremst er Afríka


Ein falleg hyrnd sem á eftir að fá nafn


Þessi fékk nafnið Alþýða


Sú svarta er Arabía


tvær kollóttar stöllur


Þórdís Katla mætt í fjárhúsið að gefa kindunum okkar


Ég er voðalega ánægð með gimbrarnar okkar og hlakka til að hefja okkar sauðfjárrækt. Hérna eru dómar gimbranna. 

kg Ómvöðvi Ómfita Lögun Frampartur Læri Ull
47 28 4.2 4 8.5 17.5 8
45 28 2.3 4.5 8.5 17.5 7.5
42 30 2.3 4.5 8.5 18 8
55 33 4.3 4.5 8.5 17.5 8
50 28 4 4 8.5 17.5 8.5
53 29 5 4 9 17.5 8
46 30 3.3 4 8.5 17 8.5
47 29 2.5 4 8.5 17.5 8
46 31 5.4 4 8.5 18 8
48 32 4.3 4 9 18 8.5
50 31 3.4 4.5 9 17.5 8
50 29 4.7 4 8.5 17.5 8
53 27 4.2 4 9 18 7.5
55 31 3.2 5 8.5 18 8

Sú efsta á listanum er þrílembingur og var hérumbil skilin eftir á Hrauntúni. Þegar ég skoðaði dómablaðið við kaffiborðið inni í bæ taldi ég að mig vantaði eina gimbur á kerruna sem ég hefði ætlað að fá. Þegar við fórum svo út í hús að sækja hana var hún hvergi sjáanleg og fannst á kerrunni.. en þá kom í ljós að það var búið að merkja við þrílembinginn á blaðinu en hún var ekki komin á kerruna. Þarna var ég heppin að glata ekki verðandi sparikind emoticon

Svo þegar maður er orðinn sauðfjárbóndi.. þarf maður þá ekki að eiga fjárhund? Þórshamar Týri er á þrettánda ári og því ekki hægt að taka hann með sér í göngur. Ég er því alvarlega farin að spá í að fá okkur annan hund en spurningin er bara hvernig fjárhund á að fá sér? .. ég er þessa stundin að stúdera Ástralska fjárhundinn (Aussie) og ég er bara ansi hrifin af þeirri tegund. Þetta á allt eftir að koma í ljós og það eru væntanlega nokkrir mánuðir í að það dragi til tíðinda í þessari deild!
Flettingar í dag: 467
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 838
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 189710
Samtals gestir: 25659
Tölur uppfærðar: 19.5.2024 09:38:55

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar