Mánaskál

16.06.2012 12:14

Útskrift og fleira

Það gengur illa í hrossaræktinni á Mánaskál um þessar mundir en við misstum eina folaldið sem fæddist okkur í ár. Hugsýn kastaði myndarlegum brúnstjörnóttum hesti undan Abraham frá Lundum II sem er undan gæðingamóðurinni Auðnu frá Höfða og Vilmundi frá Feti. Abraham er bróðir Auðs, Arðs, Als og Asa frá Lundum sem allir hafa staðið sig vel á kynbótabrautinni og/eða í keppni. Atli dreymdi um að fá brúnt tvístjörnótt undan Hugsýn og Abraham og fékk brúnstjörnótt sem var bara nokkuð nálægt væntingum. Litli folinn var ekki kominn með nafn þegar hann drapst 6. júní aðeins tveggja daga gamall. 

Atli varð var við það að Hugsýn var orðin folaldslaus og strax var farið að leita að folaldinu, það var ekki í girðingunni og því var leitað á dalnum þar sem hugsanlega hefði hann getað farið út úr girðingunni og slæðst í burtu með nærliggjandi stóði. Svo urðu hann og Sindri, sem aðstoðaði við leitina, varir við að Hugsýn var að slást við hryssurnar í hólfinu. Fundu þeir þá litla folann og hafði hryssan verið að verja hann. Hann hafði horfið ofan í jörðina í gegn um smá holu og þar undir var mikið holrúm blaut leðja. Hann átti því aldrei séns litli folinn fyrst hann féll þarna ofan í. Við vorum auðvitað miður okkar yfir þessu enda áttum við ekki von á að þessi hætta leyndist í hólfinu. Hugsanlega er um að ræða vatnsuppsprettu sem okkur var ekki kunnugt um. 





Það var algjör martröð að lenda í þessu og það var mikil sog á heimilinu. Við misstum hryssu frá folaldi í fyrra og maður taldi að við værum búin með þennan kvóta í bili. Ég auglýsti strax á netinu að ég væri með mjólkandi hryssu ef folaldi vantaði fósturmóður. Ég náði sjálf að venja Bratt undir Grímu frá Lundum í fyrra og ég gat ekki annað en boðist til að aðstoða aðra fyrst ég var búin að upplifa það að fá svona góða aðstoð í fyrra.

Daginn eftir fór Hugsýn í lán á Narfastaði í Skagafirði en þar var folald sem var móðurlaust og tilraunir til að venja það undir hryssu voru ekki að bera árangur. Svo fór að Hugsýn gekkst við folaldinu og er nú að mjólka ofan í lítinn fola. Í dag verður hún svo sótt ásamt folaldinu og þau fara svo saman til móts við stóðhest fljótlega.

Á föstudag í síðustu viku fann Atli lambræfil sem hann kom með heim. Lambið var undanvillingur, vanært og með skitu. Svo fór að við fóstruðum litlu gimbrina sem náði sér svo aldrei almennilega á strik þrátt fyrir góða tilraun. Hún drapst svo eftir helgina og þá var maður orðinn feginn að hún fékk að fara því það var orðið ljóst að þetta var töpuð barátta, hún bara veslaðist upp.




Þórdís Katla og Alexíus aðstoða við að gefa lambinu

Síðustu helgi útskrifaðist ég svo sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri emoticon Þetta var oft á tíðum erfitt en nú er ég búin að uppskera gráðuna og fjölskyldan mín á þakkir skilið fyrir þolinmæði og aðstoð í gegn um námið.


Mamma og pabbi komu norður til að vera viðstödd útskriftina og svo fékk ég góða gesti líka en frænkurnar mínar fjölmenntu með mökum og áttum við góða helgi saman.


Það voru ekki allir að þekkja Atla svona skeggjaðann en jú ég er enn með sama karlinn, er ekkert búin að endurnýja emoticon

Alexíus frændi kom með í sveitina yfir þessa helgi og það var rosalega gaman hjá honum og Þórdísi. Þau fengu meðal annars að kúra saman í veiðihúsinu sem var mikið sport.


Alexíus og Þórdís Katla



Amma Sveinbjörg og afi Gunni keyptu sundlaug handa skvísunni og sem betur fer átti Atli einhverja loftdælu til að blása í gripinn því við hefðum aldrei getað það með lungunum.


Þórdís og Alexíus fengu að prufa sundlaugina sem var mjög gaman



Á mánudagsmorgun fengum við góðan gest en hún Lína litla frá Sturluhóli kom í heimsókn eina nótt. Hún og Þórdís voru miklar vinkonur og var Þórdís ansi hrifin af þessum litla gormi. Hún er bara hvolpur og gauragangurinn eftir því emoticon Hún fékk samt að fara með Atla í girðingavinnu og er orðin útskrifuð sem sveitahundur.



Ég varð vitni að því þegar Týri stal af henni nagbeini en þá greip hún til sinna ráða og kom inn með alvörubein sem Týri hafði væntanlega sett á góðan stað til að geyma til mögru áranna emoticon




Flettingar í dag: 230
Gestir í dag: 70
Flettingar í gær: 129
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 174976
Samtals gestir: 24200
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 23:07:55

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar