Mánaskál

28.11.2011 17:58

Veðurblogg

Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að búa í sveit emoticon 

Það var búið að vara mig við slæmu veðri hérna á þriðjudag.. einfalda ég tók því bara sem heilögum sannleik og því kom veðrið mér á óvart sem blasti við mér í morgun. Ég lagði ekki í að fara á fólksbílnum í vinnuna svo jeppinn fékk hreyfingu. Veðrið var vægast sagt ógeðslegt og á leiðinni í vinnuna var ég farin að spá í því hvort ég væri sú eina sem hefði farið út úr húsi í morgun. Veðrið var nú alveg þess legt á Skagastrandarveginum emoticon svo fór ég nú að mæta bílum svo það voru þá allavega fleiri bjánar á ferð en ég emoticon Við Þórdís komumst loks í vinnuna, vorum meira en tvöfalt lengur en vanalega en komumst þó. 

Mér stóð ekki alveg á sama með allt þetta veður, það var bara alveg blint í morgun og ekki gæfulegt að þurfa að stoppa margsinnis úti á vegi því maður sá ekki húddið á bílnum.

Ég ákvað að fara snemma heim úr vinnunni, fór rúmlega þrú, þar sem mér var sagt að það væri nú meiri hálka og ég ætti að reyna að drífa mig heim áður en það færi að hvessa en það á að auka mikið í vind. Ferðin um Skagastrandarveginn var mikið betri á heimleiðinni, því það var ekki svona blint eins og í morgun.

Það var dálítill þæfingur á Mýrarbrautinni en ekkert mál samt en Skodi hefði átt í smá vandræðum með þetta held ég. Ég hitti Sindra á Neðri Mýrum við afleggjarann hans þar sem hann var að moka snjó af veginum með traktornum. Það var ágætt að vita að hann var með símann í vasanum ef ég myndi lenda í vandræðum.
 
Þegar ég kom að afleggjaranum okkar var semi þokkalegt veður og ég sá að Bylting, folaldið og Vaka voru undir hólnum beint á móti afleggjaranum okkar. Þær voru orðnar innlygsa þar á milli skurða þar sem ég held að þær fari ekki yfir þessa skurði þegar það er búið að skafa svona mikið. Þau stóðu í mjög djúpum snjó og ég hafði áhyggjur af því að það færi allt á kaf þarna undir hólnum og þau kæmust ekki í burtu. Ég var með múl í bílnum svo ég sótti hann og ákvað að freista gæfunnar að ná annari merinni og teyma þær yfir girðinguna. Viti menn ég náði Byltingu sem ég hef aldrei náð úti fyrr. Það er eins og hún hafi viljað láta bjarga sér. Ég tók strauminn af í gær svo ég gat losað vírana úr einangrurunum og trampað vírinn niður undir snjóinn sem var nógu þéttur til að halda vírunum. Ég náði svo að teyma Byltingu yfir girðinguna og Vaka og folaldið eltu. Þau eru semsagt komin á gjöf líka þó að það hafi ekki verið ætlunin að Vaka færi á gjöf!  Hin reiðhrossin og Hugsýn eru á betri stað í girðingunni en þau eru í skurðstykkinu við veginn svo ég hef engar áhyggjur af þeim. En ég vil nú samt fá Hugsýn á gjöf líka þar sem hún er jú vonandi fylfull. Um leið og ég sleppti hryssunum varð veðrið vitlaust aftur! 

Þá var að koma sér heim! Ég keyrði upp afleggjarann en komst ekki nema að gamla hliðinu. Ég var að vona að ég kæmist nógu langt til að geta snúið við og haft bílinn í réttri aksturstefnu fyrir morgundaginn en það var ekki svo gott. Ég þurfti því að bakka allan afleggjarann til baka sem tók langann tíma með mig hálfa út úr bílnum því ég sá ekki neitt. Ég skildi semsagt bílinn eftir niður við hlið. Þá var að koma sér uppeftir. Þórdís var sofandi allan þennan tíma en var núna að rumska. Hún fór að gráta og það gekk ekkert að hugga hana. Ég var með matvörur með mér sem ég setti á snjóþotu og ætlaði að draga á eftir mér þar sem ég vissi að Þórdís gæti ekki verið á snjóþotunni í þessu veðri, ég yrði að halda á henni.Þórdís var mjög hrædd í þessum byl og það var mjög erfitt að halda á henni og draga snjóþotuna í þessari færð því snjórinn var ansi djúpur. Ég varð því að skilja þotuna eftir með matnum og halda á barninu heim. Ég kom gjörsamlega andlaus heim á hlað og klofaði yfir skaflinn við útidyrahurðina. Týri minn var rosalega glaður að sjá okkur eins og alltaf! Síminn hringdi og hringdi og það var Sindri að gá að okkur. Það er flott að eiga góða nágranna emoticonÉg fór svo út að ná í þotuna með vasaljós því það var farið að dimma töluvert. Þegar ég kom upp var komið að því að fara aftur út, í þetta skipti að kíkja á rafstöðina. 

Núna er ég bara dauðfegin að vera komin heim og inn! :) Hér er hlýtt og gott og nóg til af mat ef illa fer hehe.

Flettingar í dag: 467
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 838
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 189710
Samtals gestir: 25659
Tölur uppfærðar: 19.5.2024 09:38:55

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar