Mánaskál

13.11.2011 17:14

Haustið í öllu sínu veldi

Jæja núna er ég eiginlega farin að skammast mín fyrir fréttaleysið. Ég er búin að vera ferlega löt við að setja inn fréttir en það er aðallega því ég hef ekki verið nógu dugleg að setja inn myndir.. þá gerist ekkert á fréttasíðunni heldur.

Það er orðið svo langt síðan síðustu fréttir litu dagsins ljós að ég gleymi örugglega einhverju. Ég lofa að taka mig á og fara út með myndavélina á morgun og vera svo dugleg að hafa hana uppi við. Það hefur verið nóg að gera í vinnunni. Í síðustu viku fór ég til Reykjavíkur á fund og á námskeið. Í kjölfarið tók ég mér frí í vinnunni og stoppaði yfir helgi fyrir sunnan. Við Þórdís og Týri fengum gistingu hjá Dagnýju og Sigga og það fór ósköp vel um okkur. Þórdís fór svo í pössun í Hveragerði til ömmu og afa en ég nýtti helgina eins vel og ég gat í lokaritgerðina mína. Já mín er sko byrjuð að skrifa og gengur vel fyrir utan það að finna tíma í þetta. Það er að koma mynd á ritgerðina en það er ansi mikil vinna eftir í þetta.

Þegar við Þórdís komum heim á sunnudeginum var ég nú ákveðin í að halda áfram með skrifin fyrst ég var komin á gott skrið en þegar ég kom inn í hús tók á móti mér lykt sem ég kunni ekki við. Þegar ég fór niður til að athuga málið steig ég inn á parket sem dúaði undan mér.. frábært, hérna hafði allt farið á flot. Fremsta herbergið í kjallaranum var þakið vatni og það hafði komist fram á gang og eyðilagt parketið. Ég taldi mig nú samt frekar heppna því í herberginu var svosum ekkert sem ekki mátti blotna. Ég fór bara í það að ausa vatni í fötur og hlaupa með út því niðurfallið í kjallaranum virkaði ekki emoticon. Ég gat því ekki notað vatnið og eina sem mér fannst koma til greina var að frárennslið frá húsinu væri stíflað vegna snjós. Þetta kvöld var því pissað úti og ekkert uppvask.

Þegar ég kom heim úr vinnunni á mánudag var niðurfallið farið að virka.. ég var mjög glöð með það. Ég lét renna lengi úr krananum í eldhúsinu og viti menn, það kom ekkert vatn upp úr niðurfallinu. Til að halda upp á þetta skellti ég í þvottavél.. og viti menn.. kjallarinn fór á flot emoticon ohh vandamálið var semsagt ennþá til staðar. Ég tók því fram föturnar aftur og jós og jós vatni. Þvottavélin dældi af sér nokkrum sinnum og alltaf þurfti ég að fara niður og halda áfram að ausa vatni. Svo þegar þetta var nú allt saman liðið hjá kveikti ég á kertum og ætlaði að setjast niður og skrifa smá í ritgerðinni minni emoticon .. ég mundi þá eftir þvottinum í þvottavélinni og ákvað að fara niður með hann í þurrkarann. Mér til mikillar "hamingju" var kjallarinn aftur á floti!! Nú var ég búin að fá nóg, þetta var semsagt að koma að utan og kvöldið mitt var ekki búið! Ég hélt áfram að ausa og ausa og þegar ég horfði á vatnið koma jafnóðum upp um niðurfallið þá hringdi ég í nágranna minn og bað um aðstoð. Sindri á Neðri Mýrum kom til mín og hjálpaði mér að moka upp rörið frá húsinu. Sem betur fer hófst það og stíflan losnaði, ég hefði annars verið uppi alla nóttina að ausa vatni. 

Ég á nú svo mikið af góðum nágrönnum að Magnús á Syðri Hóli kom svo í vikunni og skipti um rafgeymi í jeppanum fyrir mig. Það var svosum ekki að spyrja að því að svona í tilefni af því að Atli væri að heiman þá gerði snjó og jeppinn stóð rafmagnslaus úti á hlaði.. frábært.. eintóm hamingja hjá mér emoticon

Við fórum svo aftur suður í vinnuferð í þessari viku, aftur var það fundur og svo námskeið. Við Þórdís og Týri vorum hjá mömmu og pabba í þetta skiptið en fröken Samba fjárhundur verður bara að venjast því að í fjölskylduna er kominn annar hundur og það má ekki drepa hann.. sama hversu mikið hana langar til þess. Mamma og pabbi komu svo norður núna yfir helgina og fröken Samba var með í för. Helgin gekk nú mikið betur en ég átti von á svo ég hef engar áhyggjur af þessu lengur. Þau verða ágæt saman einn daginn. Þessi tík þarf bara að komast niður af silkipúðanum sínum og átta sig á því að hún er ekki prinsessa emoticon Þórshamar Týri er sko kóngurinn í þessari sveit.

Bóklega námskeiðið í knapamerkjunum eru á fullu um þessar mundir. Ég hlakka orðið rosalega til að fara að byrja á verklega eftir áramót. Ég er búin að finna pláss á Blönduósi fyrir Vöku og Drunga og get ekki beðið eftir því að taka á hús emoticon Þórdís Katla ætlar að vera dugleg að koma með mér í hesthúsið og fara á hestbak. Útigangurinn hefur það gott hérna úti. Næg beit og veðrið frábært eins og er. Það var reyndar skítaveður hérna um daginn en það gleymist fljótt þegar veðrið skánar. Hrossin eru svo mjúk og fín þessa dagana og lyktin af þeim unaðsleg. Ég elska lykt af útigangshrossum.. ég er auðvitað bara svona klikkuð. Folöldin eru stór og spræk. Brattur er reyndar ekki jafn fallegur og Eðall, hann er samt ekki lítill og ræfilslegur en það þarf kannski að dekstra hann dálítið í vetur. Gríma mjólkar enn ofan í hann og þau eru eins og sönn mæðgin. Brattur er líka bara svo frábær karakter að ég held að ég muni ekki kynnast öðru eins folaldi, hann er bara æði emoticon Mér finnst svo frábært að hann kemur til mans og þiggur knús og klór og hreinlega elskar athyglina. Pabbi setti svo rúllugreipina á ámoksturstækin í gær svo núna erum við Þórdís Katla tilbúnar að byrja að gefa þegar tíðin gefur tilefni til þess. 

Ég er aðeins búin að fikta í hestahlutanum á síðunni, en ég mun gefa mér meiri tíma til breytinga síðar. Ég þarf nú að búa til pláss fyrir nýjustu hryssuna emoticon Við Elsa vorum aðeins að missa okkur á Skype um daginn og uppúr dúrnum komu smávegis hrossakaup. Þetta verður formlega kynnt síðar en það er bara gaman að þessari vitleysu. Ég er viss um að við Elsa verðum vel ríðandi hér í stóðréttunum eftir nokkur ár! 

Ég fékk óvæntan gest hingað áðan en bróðursonur afa frá Mánaskál, sem býr á Skagaströnd, kom í heimsókn og ætlaði að fá að sjá rafstöðina hans Atla. Þar sem Atli var ekki heima þá geymdi hann að skoða stöðina og kemur aftur síðar. Atli hefur sko bara gaman að því og ég held að mér sé óhætt að fullyrða að allir sem hafi áhuga á að sjá stöðina séu velkomnir í hemsókn.

En núna er best að fara að sinna einhverjum húsverkum og setjast svo niður og skrifa emoticon
Flettingar í dag: 454
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 838
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 189697
Samtals gestir: 25659
Tölur uppfærðar: 19.5.2024 08:30:39

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar