Mánaskál

16.08.2011 20:04

Heyskapur, kvennareiðtúr og fleira

Það er svosum ekki margt að frétta héðan úr sveitnni annað en það að sumarið líður allt of hratt! 

Heyskapur hófst þarsíðasta sunnudag og var búið að hirða allt á mánudeginum (8. ágúst). Einar á Neðri-Mýrum kom og rúllaði fyrir okkur eins og í fyrra og með í ferð var líklegur næsti ábúandi á jörðinni en Einar og Sonja eru að öllum líkindum að hætta að búa í haust.  Við Atli slóum svo sjálf og rökuðum. Mamma og pabbi voru hérna á sunnudeginum svo þau sáu um Þórdísi á meðan við Atli vorum bæði í heyskap á sitt hvorri dráttarvélinni emoticon Ég sló meira að segja Suðurtúnið sjálf og var það í fyrsta skipti sem ég stýri sláttuvél. Ég stóð mig ágætlega held ég, allavega var túnið slegið og allar vélar heilar á eftir. Reyndar þótti ég víst fara heldur geyst en það varð semsagt smá misskilningur okkar Atla á milli þegar hann gaf mér bendingu um "2" með fingrunum og taldi ég auðvitað að ég ætti að fara í 2. gír en hann meinti víst að ég ætti að passa að halda mig í ca 2 þús snúningum. Það þurfti ekkert að minna mig á 2 þúsund snúningana því ég mundi eftir þeim fyrirmælum en fannst það heldur erfitt að fylgja eftir þegar ég var komin í 2. gír líka!! Enginn sagði neitt fyrr en eftir á svo ég sló bara túnið á fljútandi siglingu og fyrir þá sem vita hversu óslétt þetta tún er þá getið þið bara ímyndað ykkur hversu ljúf sú ferð var! emoticon  


Atli að byrja að slá á Nesinu/Þríhyrnuna

og túnið fyrir neðan veg


Suðurtúnið.. Atli á gamla Zetor og Einar á aðeins nýrri græju



Gamli rauði Zetorinn hans afa var notaður í heyskapinn og nú virka meira að segja flestir gírar, meira að segja bakkgírinn líka. Við Atli fórum nú t.d. á sunnudagskvöldið niður á Nesið fyrir neðan veiðihúsið til að snúa og slá meira og ég klæddi mig vel enda kalt úti og hvasst. Þegar við erum svo komin niður á tún bendir Atli mér í áttina að gamla Rauð, sem er jú opinn traktor, og ég var steinhissa.. ég ætlaði sko að sitja inni í Ferguson með húfuna mína og vetlingana en hefði klárlega farið í kuldagalla ef ég hefði vitað hann ætlaði að vera herramaður og láta mig snúa á húslausu dráttarvélinni! Þegar ég var orðin hálf kalin og farin að kvarta undan kulda fékk ég að fara inn í vél til Atla og viti menn.. það var meira að segja funheit miðstöð í traktornum hans!! Atla var sko hent út á gamla Zetor með það sama og ég fékk miðstöðina emoticon 

Gamli fíni Zetorinn


Við Atli fórum í heilmikla hrossasnúninga þar síðustu helgi áður en við fórum í heyskapinn því við keyrðum Drunga og Vöku í Skagafjörð. Þau eru síðan þá búin að vera í ferð um hálendið yfir Kjöl. Ég heyrði í Hjalta um helgina og Drungi var búinn að standa sig vel en Vaka fékk bara að hlaupa með suður þar sem hún var ekki í ástandi til að bera meira en sjálfa sig sem var vitað fyrirfram. Hún verður kannski notuð eitthvað á norðurleiðinni í þessari viku. Í sömu ferð fórum við alla leið í Eyjafjörðinn og sóttum Hugsýn sem er fengin við Abraham frá Lundum og Atli er búinn að panta brúnskjótta hryssu sem er hans uppáhaldslitur, nema að hann sé búinn að breyta því í brúna hryssu því hann er sammála mér að brún hross séu alltaf flottust á keppnisvellinum. Allavega þá óska ég innilega eftir hryssu, sérstaklega þar sem við keyrðum svo langt með hana undir hestinn og hún missti fylið sitt síðasta haust. Nú er kominn tími til að verða heppinn. Á heimleið úr Eyjafirðinum sóttum við svo Byltingu og Eðal en Bylting er fengin við Álfgrími frá Gullberastöðum og verður spennandi að sjá hvað hún gefur okkur á næsta ári. 


Álfgrímur, rauðskjóttur blesóttur 1. verðl. sonur Álfs frá Selfossi og 1. verðlauna hryssu.

Bylting er svo til sölu ef einhver hefur áhuga. Myndir og upplýsingar um hana eru á síðu hér til hægri sem heitir hrossin og svo í myndaalbumunum. Nú ef hún selst ekki þá bíðum við bara spennt eftir fallegri skjóttri hryssu undan henni á næsta ári emoticon

Ég tók mig til í vikunni og myndaði Eðal aðeins fyrir nýja eigandann og setti myndirnar inn í myndaalbumið. Þetta er myndarlegur hestur með lausan gang og virðist nota tölt jafn mikið og brokk. Auk þess er hann mjög skynsemislegur og forvitinn og hún verður örugglega alsæl með hann á húsi í vetur. Reynar er hann nú svo greinilega móálóttskjóttur en ekki bleikálóttskjóttur eins og ég hallaðist að síðast. 




Þórdís byrjaði í leikskólanum Barnabæ á Skagaströnd síðastliðinn þriðjudag og það gengur eins og í sögu. Hún er mjög spennt fyrir því að fara á leikskólann og er stundum að biðja um að fara á leikskólann á kvöldin. Hún virðist hafa tekið þessum breytingum mjög vel og hún varla lítur á mann þegar maður er að kveðja hana á leikskólanum á morgnana. Svo gengur líka vel að hætta með bleyjuna, þetta er allt á réttri leið hjá okkur. 



Þórdís Katla sveitastelpa í heyskap


Alvarleg með strá í munni emoticon
Síðustu helgi var kvennareiðtúr hestamannafélagsins Þyts í Vestur Húnavatnssýslu. Við Elsa og Svala skelltum okkur í ferðina ásamt fleiri skvísum úr Víðidalnum og þetta var mjög skemmtilegt. Það er alltaf búningaþema í þessum ferðum og í þetta skipti var það ævintýraþema. Ég valdi að vera pocahontas og meira að segja saumaði mér búning takk fyrir! Ég sem aldrei tek þátt í neinu svona búningadóti sat og saumaði mér búning, fyrst með gömlu antík singer saumavélinni minni og svo í höndunum þegar Singer hætti að sauma. Úr varð þessi líka ágæti indjánastelpu kjóll og fléttur í hárið til að kóróna dressið. 
Ég tók Rák með mér í ferðina þar sem Drungi var á fjöllum með Vöku. Rák stóð sig mjög vel og var bara þrælskemmtileg í ferðinni. Vel viljug áfram og rúm á tölti og gaf yngri hestum ekkert eftir. Bara fínasta ferðahross þessi hryssa og örugglega bestu "kaup" sem ég hef gert. 

Myndir úr ferðinni eru væntanlegar en Elsa var myndasmiðurinn í ferðinni og ég á eftir að fá myndirnar hjá henni. 

Núna er ansi haustlegt hér fyrir norðan. Rigningarsuddi, vindur og frekar kalt. Ég hálf finn til með hrossunum mínum sem eru á Kili núna miðað við verðurspána út vikuna en kannski ætti ég frekar að vorkenna ferðamönnunum sem eru búnir að borga fyrir ferðina og fá þetta veður alla vikuna. Vonandi er bara ekki endalaus þoka hjá þeim svo þeir sjái nú eitthvað af hálendinu á leiðinni. 

Atli er á kafi í virkjanasmíðum. Núna er vatn farið að renna í gegn um rafstöðvarhúsið og hann er að leggja lokahönd á smíðin í kring um þetta. Það styttist því í að hann fari að pússla þessu saman niður í rafstöðvarhúsinu og þá fara hlutirnir að gerast emoticon Vonandi verður stöðin komin í gagnið fyrir veturinn. 

Um helgina kom hingað hópur í hestaferð með Fannar járningamann með meiru í fararbroddi. Ég var akkúrat í kvennareiðinni og missti af þessari heimsókn. Eitthvað heyrðist mér að ég hafi boðið upp á óþarflega mikla beit fyrir ferðahrossin en þau hafa örugglega bara haft gott af því að fá vel að éta eftir langt ferðalag. Þetta sýnir nú bara að ég eigi ekki nóg af hrossum fyrst hólfin mín eru vel loðin seinnipart sumars emoticon Ég vona að hópurinn hafi svo ekki villst í þokunni sem beið þeirra á sunnudagsmorgninum. Ég hef allaveg ekki frétt af hópi villtum hér á afrétti svo líklega eru Fannar og co komin á leiðarenda. 

Annað er ekki fréttnæmt í þetta skiptið held ég. Ég þarf að vera duglegri að taka myndir og reyni að bæta úr því á næstunni.


Flettingar í dag: 476
Gestir í dag: 150
Flettingar í gær: 1634
Gestir í gær: 611
Samtals flettingar: 177104
Samtals gestir: 24977
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 12:35:12

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar