Mánaskál

04.08.2011 19:15

Sumarið æðir áfram

Jæja, héðan er allt gott að frétta. Brattur og Gríma eru eins og blóðskyld mæðgin svo hér er tóm hamingja. Við keyrðum Grímu undir Vita frá Kagaðarhóli í fyrrakvöld fyrir hjónin á Lundum svo Brattur litli er farinn úr hreiðrinu. Hann hefur bara gott af því að víkka sjóndeildarhringinn. 

Atli er duglegur að dunda sér á daginn með Þórdísi Kötlu. Hún kemst svo vonandi fljótlega á leikskóla og þá getur Atli farið að demba sér í stærri verkefni. 

Atli er búinn að vera að keyra möl í hlaðið og taka til.






Við fengum Jóa frænda hans Atla og fjölskylduna hans í heimsókn um helgina. Það var mikið um að vera. Fjórhjólið hennar Þórdísar var sett í gang og Axel Hrafn fékk að fara eina bunu og Þórdís þar á eftir. Ekki er þetta nein rosa græja en krökkunum finnst þetta gaman.









Kartöflugarðurinn okkar er að verða myndarlegur þó lítill sé. Ég er farin að hlakka til að taka upp glænýjar og gómsætar kartöflur sem fara beint úr moldinni í pottinn eða á grillið! 


Heyskapur fer alveg að bresta á hérna, við sláum í seinna lagi þar sem okkur veitir ekki af allri sprettu. Vætan síðustu daga hefur gert mikið fyrir gróðurinn svo þetta lítur aðeins betur út nú en það gerði fyrr í sumar. Einar nágranni á Neðri Mýrum ætlar að binda fyrir okkur svo við erum líka að bíða eftir að hann komist í það verk fyrir okkur. Það verður spennandi að sjá hvað við fáum margar rúllur í ár. Atli er búin að vera að klappa gamla Zetor hans afa og líklega verður hann notaður í heyskapnum í ár! 


Hugsýn er fengin við Abraham frá Lundum, okkur til mikillar gleði þar sem hún lét fyli síðasta haust. Nú vona ég bara að hún haldið þessu fyli og kasti okkur hryssu á næsta ári í sárabætur. Bylting verður sónuð nú um helgina og vonandi er hún fengin. Ég er búin að fara aðeins á bak í þessari viku en þó aldrei eins mikið og maður ætlar sér. Rák, önnur gamla hryssan sem ég fékk í vor er að koma þrælvel út. Hún er ferlega skemmtileg í reið og maður fer eiginlega bara sparitúra á henni. Ég hef verið að teyma Vöku með þar sem hún er of feit og í engu formi eftir árs pásu. Rák skilur hin hrossin bara eftir, þau eiga ekki roð í hana. Ótrúlegur dugnaður í þessari gömlu hryssu sem mér skylst að sé 20 vetra. Svo er hún pínulítil og farin að grána í þokkabót, bara sæt. Vaka og Drungi eru að fara yfir Kjöl suður og aftur til baka. Þau leggja af stað næsta sunnudag en til stóð að þau færu þar síðustu helgi en þar sem vandræðin með Birtu stóðu yfir þá varð ekkert úr þeirri ferð. Þau verða því bæði á Kili þegar ég mæti í kvennaferðina í Vestur Hún þar næstu helgi. Ég tek bara Rák með mér í staðinn og það verður örugglega bara gaman. Myndavélin verður með í för!




Flettingar í dag: 585
Gestir í dag: 196
Flettingar í gær: 1634
Gestir í gær: 611
Samtals flettingar: 177213
Samtals gestir: 25023
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 20:28:45

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar