Mánaskál

24.07.2011 19:54

Birta fallin

Í þetta skiptið eru það engar gleðifréttir. Birta mín dó í gær eftir skyndileg veikindi. Aðdragandinn var stuttur þar sem hún virkaði eðlileg um kl 22 á föstudagskvöld. Um miðnætti fannst mér hún vera eitthvað undarleg ásýndar og fór að athuga með hana. Hún lá og var að reyna að velta sér og var eitthvað ómöguleg. Mér fannst hún vera eitthvað móð og ólík sér. Fyrsta sem mér datt í hug var hrossasótt og fór því heim og náði mér í múl og teymdi hana af stað. Hún fylgdi mér til að byrja með en svo var hún farin að veigra sér við að halda áfram. Hún lagðist svo á veginn og þá varð ég smeik um hana. Við Atli tókum ákvörðun um að hringja í dýralækninn á Blönduósi, hann reyndist vera í sumarfríi en ég náði svo loks sambandi við afleysingadýralækni sem var kominn til okkar. Þegar dýralæknirinn kom hafði Birta versnað að mér fannst, var greinilega mjög móð og hún skalf. Birta reyndist vera með háan hita sem benti til einhverrar sýkingar. Niðurstaðan var líka sú að hún væri stífluð. Hún hafði greinilega verið með drullu um kvöldið en dýralæknirinn var viss um að það væri eitthvað stíflað í meltingarveginum. Hann gaf henni verkjalyf og hitastillandi og svo þurfti bara að bíða og sjá til. Ef hún væri með hita á laugardagsmorgun þá hefði dýralæknirinn væntanlega rétt fyrir sér og sýkingin stafaði af því að gat væri komið á maga eða meltingarveg. 

Birta og Brattur voru sett í lítið hólf í garðinum, akkúrat undir eldhúsglugganum svo maður gæti haft auga með henni öllum stundum. Hún fékk teppi yfir sig en stóð bara og húkti og skalf. Það var lítill sem enginn nætursvefn þessa nóttina þar sem ég vaktaði hryssuna og fór á fætur á klukkutíma fresti þessa 2 og hálfan klukkutíma sem ég var í bælinu. Birta stóð allan tímann og húkti. Ég mældi hitann á henni um morguninn og það var eins og ég óttaðist, hún var enn með háan hita og því leit þetta illa út. 

Dýralæknirinn kom í aðra vitjun í hádeginu og gaf henni meiri lyf. Hún fékk sprautu til að slaka á meltingaveginum í þeirri von að eitthvað gæti komist af stað. Einnig var þrædd slanga í gegnum nefið á henni ofan í maga til að skoða magainnihaldið en það var ekkert óeðlilegt þar. Að lokum dældum við parafinolíu ofan í magann á henni til að reyna að smyrja meltingarveginn. Svo var það bara önnur bið.


elsku Birta mín sárlasin



Klukkan þrjú var Birta lögst og ekkert gekk að koma henni á fætur. Ég vildi þá fella hana þar sem ég átti von á að þetta væri töpuð barátta. Atli talaði við dýralækninn aftur en hann vildi bíða aðeins lengur og gefa henni meiri verkjalyf þar sem olían var hugsanlega ekki farin að skila sínu. Atli fór á Blönduós og sótti verkjalyf. Á meðan Atli var í burtu stóð Birta upp. Stuttu eftir að hann kom til baka og hafði gefið henni verkjalyfið datt hún og hún virtist ekki hafa mátt til að standa upp aftur. Birta stóð aldrei upp eftir það.

Brattur litli fékk að drekka hjá Birtu á meðan hún gat staðið en ég var að verða óróleg hans vegna þar sem ég var hrædd um að hún væri að mjólka lítið sem ekki neitt enda fárveik. Ég greip til þess ráðs að auglýsa eftir fósturmóður fyrir hann þar sem mér fannst engar líkur á því að Birta gæti hrist þetta af sér. Fljótlega eftir að ég auglýsti hringdi Ragna á Lundum II í Borgarfirði og bauð mér hryssu sem hafði misst folaldið sitt. Þetta fór svo þannig að um leið og Birta var farin þá fór ég af stað að sækja hryssuna en Atli fékk það erfiða hlutverk að jarða Birtu. Ég var mjög fengin að geta verið að heiman á þeim tíma. 

Hjónin á Lundum voru svo rosalega almennileg að þau keyrðu á móti mér með hryssuna. Hryssan heitir Gríma og er brún, 18. vetra myndarmeri. Hún leyfði Bratt ekki að sjúga sig svo við fórum út til þeirra eftir smá stund og héldum í múlinn á henni og stilltum Bratti upp við hana. Hann fór beint á spena og okkur var mjög létt. Hún var samt ekki alveg sátt við þetta en lét sig hafa það. Þau eru núna tvö saman í garðinum hjá okkur og við Atli förum út reglulega til að standa hjá Grímu á meðan Brattur fær sér sopa. Hann var ekki lengi að átta sig á því að um leið og við birtumst fengi hann að drekka svo hann fer vanalega bara beint á spenann um leið og við erum komin að hryssunni. 

Mér finnst Gríma vera að mildast gagnvart folaldinu og vonandi er það rétt. Hugsanlega þurfa þau nokkra daga saman svo hún taki hann alveg í sátt en hún leyfir honum ekki ennþá að sjúga sig þegar þau eru tvö ein. Hann gerir nú samt heiðarlegar tilraunir til að læðast að henni en hún sér við honum. Við allavega vonum það besta. Satt að segja þá verður þetta bara að ganga, ég höndla ekki að horfa á annað hross veslast upp. Þetta er með því erfiðara sem ég hef upplifað.




Brattur að fá sér sopa. 

Við þurfum ekki lengur að halda í hana, núna er nóg að vera hjá henni og við getum meira að segja farið frá henni og hann fær að halda áfram að drekka. Atli fór út áðan og fór svo inn aftur þegar Brattur var kominn á spena og hún leyfði honum að vera.



Ég verð örugglega með daglegar fréttir af gangi mála og vonandi verða þær bara jákvæðar. Eftir mjög mikla sorg í gær taka við ný verkefni við að halda lífi í folaldinu hennar Birtu. Ég get þá einbeitt mér að því og reynt að gleyma gærdeginum sem var ansi erfiður.

Fleiri myndir í myndaalbuminu


Flettingar í dag: 46
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 838
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 189289
Samtals gestir: 25644
Tölur uppfærðar: 19.5.2024 03:48:28

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar