Mánaskál

06.07.2011 22:06

Allt gott í sveitinni

Við Atli skelltum okkur á landsmót hestamanna síðustu helgi og skemmtum okkur konunglega. Gamli kamper klikkar ekki og það fór vel um okkur á tjaldstæðinu. Við vorum í góðra vina hópi og er ég sérstaklega ánægð með að hafa afrekað það að draga Elsu mina með á landsmót! Maður fer sko ekki að sleppa svona viðburður, bara nauðsynlegt að mæta og láta sjá sig og sjá aðra. Veðrið lék við okkur yfir helgina þó svo að það hafi ringt eitthvað aðeins, það er bara ekki hægt að kvarta, þetta var frábært! Það er svo æðislegt að sjá þessu flottu hross og hæfileikaríku knapa á landsmóti. Maður half skammast sín þegar maður sér barnaflokkinn þó við ræðum ekki um hina! Ekkert smá duglegir og vel ríðandi krakkar þarna á ferð á fyrstu verðlauna hrossum og yfirburða keppnisgæðingum. Ég tók örfáar myndir á LM og þær voru flestar úr barnaflokki, ég var alveg heilluð af þessum duglegu krökkum! Það er alveg ljóst að maður þarf að fara að leggja fyrir ef maður ætlar að eiga svona góð hross undir börnin sín.

 

Brattur Birtusonur braggast vel og það er bara ferlega gaman að hafa hann hérna heima við. Hann er farinn að þiggja klapp og knús og mér leiðist það sko ekki!! .. bara yndislegt að fara út í girðingu og kljást við hann.

 




Fleiri myndir í myndaalbumi

 

Ég var að ráða mig í vinnu og mætti bara daginn eftir galvösk í fyrsta vinnudaginn. Ég er farin að vinna hjá svæðisskrifstofu vinnumálastofnunar á Skagaströnd og aldrei að vita nema mér standi til boða áframhaldandi vinna þar eftir sumarið, svona ef við verðum ekki farin á vit ævintýra. Það var frekar sérstök tilfinning að fara á fætur í morgun (fyrir allar aldir að mér fannst!) og mæta í vinnu!.. jahá.. núna leið mér eins og ég væri í alvörunni flutt í sveitina því ég var á leiðinni í vinnu!

 

Greyjið ég sem að þurfa að vinna heilan vinnudag kom svo bara heim og sofnaði hehe.. maður er greinilega orðinn frekar góðu vanur þessa dagana! Ég reif mig svo af stað og fór í reiðtúr í blíðunni og naut þess í botn. Ég er nefnilega að "þjálfa" fyrir hestaferðinar sem við Elsa ætlum í núna í sumar.. svona ef hún drífur sig einhvern tímann í sumarfrí stelpan! Allavega er ég búin að frátaka aðra helgina í ágúst en þá er kvennaferð í Víðidalnum og við Elsa ætlum að mæta og mála þúfurnar rauðar (segir maður annars ekki þannig í sveitinni).

 

Samba "fjár"hundur er í pössun hjá okkur á meðan mamma og pabbi eru að húsbílast. Ég get nú ekki sagt að það sé mikið gagn af þessum hundi.. hún gat ekki einu sinni rekið rolluna í burtu sem labbaði yfir hlaðið fyrir framan nefið  á henni hehe. Skella mín hefði nú ekki látið bjóða sér það án þess að láta í sér heyra. Samba er líka óttarlega hrædd við hrossin en hún hefur svosum ástæðu til því Birta og Vaka eru búnar að gera fleiri en eina tilraun til að drepa hana síðustu daga.. vúps! Samba kann sem betur fer að hlaupa og lætur sig hafa það að hlaupa ofan í skurð ef það er það sem þarf hehe

 

 

Þórdís Katla hefur það gott eins og sveitaprinsessum sæmir. Hún er að verða bleyjulaus, þetta er svona allt í áttina allavega.. þó að ég geti ekki alveg sagt að hún sé orðin húshrein. Allavega fann ég stykki í sjónvarpsherberginu sem ég er nokkuð viss um að kom ekki úr hundinum!! Hún er nefnilega úrræða góð hún Þórdís Katla, hún hefur væntanlega gert nr. 2 í buxurnar.. og svo bara sturtað úr þeim og haldið áfram að horfa á Dóru sína.. smekklegt! Það verður opinn gæsluvöllur á Skagaströnd núna í nokkrar vikur og ég ætla að leyfa henni að fara þangað í nokkra daga og leika sér við önnur börn. Ég hugsa að það verði kærkomi þó svo að hún unni sér ótrúlega vel með okkur Atla í okkar daglega lífi. Hún er svo frábær þessi stelpa, við getum ekki sagt að við þurfum að hafa mikið fyrir henni. Þar sem það er að ganga erfiðlega að fá hana til að gera nr. 2 í salernið hefur ýmislegt verið reynt.. s.s. bíósýning á Dóru á kamrinum!

 

 

Skyggnir minn Byltingarsonur hefur verið endurnefndur og fær nafnið Eðall og er seldur. Ég er svo með á sölusíðunni myndarlegann gelding sem fæst í skiptum fyrir hryssu, má vera ung eða gömul. Endilega hafa samband ef þið hafið eitthvað í skiptum eða vitið um einhvern sem gæti mögulega haft eitthvað.


Fleiri myndir áttu að fylgja blogginu en netið er frekar hægt svo þetta gengur hægt fyrir sig. Restin af myndunum skilar sér inn á morgun en annars eru þær allar að detta inn í myndaalbumið núna. 

 

Góðar stundir kæru vinir

 

 

 

 

Flettingar í dag: 9
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 838
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 189252
Samtals gestir: 25637
Tölur uppfærðar: 19.5.2024 01:41:34

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar