Mánaskál

14.02.2011 22:32

Janúar - febrúar

Það er alltaf nóg að gera á þessum bæ og vikurnar fljúga áfram.

Atli kom heim frá Californiu í enda janúar. Það var ósköp gott að fá hann heima enda búinn að vera mikið erlendis sl. vikur. Þórdís Katla tók pabba sinn sko alveg í fyrsta og annað sætið til að byrja með og mamman varð að láta sér lynda það þriðja emoticon  Svoleiðis mál skipta bara engu máli, við vorum báðar glaðar að fá hann heim.


.. pabbi minn er bestur!


duddu stelpa



Þórdís Katla átti 2 ára afmæli þann 2. febrúar og deilir því afmælisdegi með pabba gamla. Mamma og pabbi eiga líka brúðkaupsafmæli þann 2. febrúar og svo á Jenný frænka mín líka afmæli þennan dag emoticon  Það var hérna tvöföld afmælisveisla með öllu tilheyrandi. Þórdís var ekki lengi að átta sig á að gestirnir komu allir með pakka og tók því vel á móti öllum strax í forstofunni. Hún var voða lukkuleg með þennan dag stelpan og glöð með allt sem hún fékk. Myndavélin var á lofti en því miður finn ég ekki snúruna af stóru myndavélinni svo myndirnar koma ekki inn núna. Ég skelli þeim inn um leið og ég finn hana.


bakar fyrir afmælið sitt

Afmælisdagurinn sjálfur var rosa skemmtilegur. Mamman skrópaði í skólanum til að leika við hana úti í snjónum og auðvitað fékk hún líka pakka þegar hún kom heim af leikskólanum emoticon


afmælisdagurinn runninn upp
















Skólinn minn er byrjaður á fullum karfti og nú er ég farin að vinna hálfan daginn til að geta sinnt skólanum betur. Ég verð því vonandi í góðu standi fyrir vorprófin emoticon sem eru líka síðustu prófin mín í bili. Eftir þessa önn á ég bara lokaverkefnið mitt eftir sem ég skrifa þá næsta haust. Þar á eftir tekur vonandi eitthvað spennandi við.

Ég var svo mikill klaufi að klessa Benzinn okkar í janúar en við Þórdís Katla sluppum ómeiddar sem er svosum það eina sem skiptir einhverju máli. Hitt er jú bara bíll þó mér hafi þótt hann ansi góður. Við erum búin að fjárfesta í öðru farartæki en erum að bíða eftir að fá bílinn afhentann frá umboðinu en þeir eru aðeins að yfirfara hann fyrir okkur. Fyrir valinu varð fjórhjóladrifin Skoda Octavia, það þýðir nú varla minna fyrir okkur flökkukindurnar, nóg pláss í skottinu og drífur yfir snjóföl.

Við fórum norður í Mánaskál síðustu helgi eftir langa bið (að minni hálfu). Mamma og pabbi komu líka og við fórum því á einum bíl þar sem við Atli erum enn bíllaus. Hestakerran var með í för og fyllt af dóti úr bílskúrnum svo það má segja að búslóðaflutningar séu hafnir! Þórdís Katla varð veik á laugardaginn en stóð sig eins og hetja á ferðalaginu heim.

Ég færði stóðið mitt á milli hólfa með astoð pabba. Ég lét hrossin elta mig og ætlaði að færa þau þannig á milli sem var svosum ekkert stórmál nema að þau vildu ekki fara yfir skurðinn yfir á túnið. Við pabbi höfðum það að teyma Birtu yfir í von um að hin færu á eftir en það var ekki svo gott. Þar stóð eiginlega hnífurinn í kúnni og því varð ég að grípa til plans B sem var að hleypa hrossunum út í hinum endanum og láta þau skokka með mér eftir veginum í engu aðhaldi. Auðvitað gekk það eins og í sögu, ég teymdi Birtu og hin trítluðu með okkur.


Hrossin létu ekki plata sig lengra (lækurinn er grunnur)

Á sunnudag setti ég hrossin inn í hringgerðið áður en við fórum að ganga frá og pakka niður. Folaldið hennar Hugsýnar átti nefnilega að fara suður til Gumma og Sjafnar á Baugsstöðum. Þegar búið var að ferma bílinn gengum við til verks að koma folaldinu upp á kerruna. Til að gera langa sögu stutta þá gekk þá en það tók dágóðan tíma. Því miður voru ekki teknar neinar myndir af þessum tilfæringum eða af hryssunum yfir höfuð þó að næg tækifæri hefðu gefist. Birta stóð t.d. á tímabili eins og hundur í bandi, með stóra lykkju um hálsinn og hinn endann lausann en stóð samt áfram á sama stað af gömlum vana þó það væri búið að taka af henni múlinn og nýta í annað emoticon hún er yndi þessi meri! Hryssurnar voru notaðar sem fyrirstaða og fleira ég held að Bylting mín hafi bara tamist heilmikið af þessu veseni öllu saman. Hún er líka að verða svo spök. Hún hefur alltaf átt sig sjálf en hún er að verða brauðdýr eins og þau hin og lætur sig hafa það að fá knús og kjass að launum.

Atli varð eftir í Mánaskál og ætlar að dunda sér við smíðar og fleira í þessari viku. Hann skipti um glugga í stærra herberginu í vesturkjallaranum um helgina og er að undirbúa kjallaraherbergin undir flotun, svo á að klæða veggina og loftin. Hann fær líklega smið til sín næstu helgi og þá á að drífa af að smíða rafstöðvarhúsið. Hann er sko endalaust duglegur þessi maður.


Nýji glugginn í kjallaraherberginu.. annars verða þessi herbergi svo fín að ég held að ég hætti að tala um kjallara og fari að tala um neðri hæðina emoticon




Við hin lögðum af stað suður um kaffileyti með folaldið á kerrunni. Mamma og Þórdís Katla voru skildar eftir í Reykjavík en við pabbi héldum áleiðis á Baugsstaði til að skila folaldinu. Greyjið litla var örugglega dauðfegin að komast af kerrunni og á fast land eftir þetta langa ferðalag.

Drungi er kominn í framhaldsnám hjá Ylfu og Konna. Hann er mikið sprækari núna eftir fríið og vonandi gengur vel í framhaldinu. Mér er allavega sagt að ég þurfi ekki að hafa áhyggjur af neinu, þetta sé góður hestur. Ég fæ vonandi einhverjar myndir af honum fljótlega annars verð ég bara að fara og taka myndir af honum sjálf. Elsa vinkona sendi hross til Ylfu um helgina frá sér og öðrum. Ég held að Ylfa hafi þarna fengið alls 4 frumtamningartryppi á einu bretti, ég má nú til með að stríða henni á því að nú sé eins gott að hún standi sig því ég heyri annars allt kvartið emoticon  Ég vona bara að það gangi jafn vel með þessi tryppi og með Drunga minn og svo förum við örugglega í road trip saman að kíkja á gæðingana okkar.

Nóg blaður í bili..

Myndirnar úr afmælinu hennar Þórdísar Kötlu, heimsókn í hesthúsið til Elsu og fleira kemur inn þegar ég finn snúruna við Canon vélina emoticon
Flettingar í dag: 104
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 226
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 174721
Samtals gestir: 24125
Tölur uppfærðar: 4.5.2024 14:01:39

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar