Mánaskál

04.08.2009 17:29

Nokkurra daga gamalt blogg.. fyrst að koma inn núna

Tíminn líður sko áfram, þetta frí verður búið áður en við vitum af. Hugsanlega fer Atli erlendis í næstu viku sem myndi stytta fríið helling.


Framkvæmdir ganga vel. Síðustu helgi komu Sveinbjörg og Gunnar og Tinna systir Atla líka. Karlarnir smíðuðu glugga í kjallarann og kláruðu að klæða suðurgaflinn. Sveinbjörg dúllaðist með Þórdísi Kötlu og meira að segja var slegist um að fá að fara á fætur með henni á morgnana.. merkilegt!

Við Tinna skelltum okkur yfir á Sauðárkrók á föstudagskvöldinu þar sem það var ball á Króknum. Fullt af leikurum voru þar við tökur á bíómynd svo Tinnu langaði að kíkja á stemmninguna þar. Atli afþakkaði ballferð þar sem hann væri kominn með vinnumann og mætti engann tíma missa, við fórum því bara tvær.


Á laugardeginum fórum við Tinna á hestbak. Ég lagði á Vöku fyrir hana en fór sjálf á Birtu. Þetta var frekar skrautleg ferð gekk nú allt vel samt en þetta byrjaði nú t.d. á basli við að koma gjörð utan um Birtu.. hún er nú meira stykkið! Þetta endaði svo þannig að gamli hnakkurinn fór á Vöku og minn á Birtu en ég ætlaði að vera svo almennileg að lána Tinnu góða hnakkinn en hinn bara komst ekki yfir bumbuna á Birtu minni þrátt fyrir aðstoð Atla og Gunna. Eina gjörðin sem var þá á lausu var einföld gjörð fyrir Birtu. Tengdapabbi furðaði sig á því að ég notaði ekki reiða en ég sagði honum að ég væri eiginlega hætt að nota svoleiðis, hefði ekkert við hann að gera. Nema hvað að ég þurfti sko aldeilis á honum að halda í þessari ferð! Ég þurfti að fara mörgum sinnum af baki til að laga hnakkinn, hann rann alltaf fram á haus! Þetta var eiginlega hálf fáránlegt, ég man ekki eftir að hafa lent í svona rosa vandræðum áður. Við fengum svo á okkur ausandi rigningu og til að toppa þetta allt þá þurftum við að hitta bíl, svona til að það hafi örugglega einhver séð til mín fram á hálsi á hryssunni haha! Ég hefði eiginlega viljað eiga mynd af þessu. En það voru nú samt allir sáttir eftir þessa ferð. Birta mín stóð sig bara vel og Vaka eins og engill með Tinnu.


Ég fór svo á Birtu aftur í vikunni og teymdi þá Vöku með. Birta var ekkert rosa spennt fyrir því að hafa hross svona nálægt sér en svona er bara lífið. Þetta gekk samt bara ágætlega. Birta er svo ótrúlega feit, ég veit ekki hvernig hún væri ef hún fengi að ganga laus um dalinn núna.. hún yrði eins og kúla held ég bara. Ég vil endilega koma henni í brúkun í vetur til að hún fái ekki frí annan vetur þannig að ef einhvern vantar auka reiðhross þá er hún á lausu.. tekur frekar mikið pláss en þarf lítið sem ekkert að borða hehe. Hún er rosalega gæf og skemmtilegur karakter finnst mér, góður fótaburður og falleg á litinn.. hvað er hægt að biðja um meira :o)

Hér á bæ er allt á fullu í virkjana framkvæmdum. Rörin fyrir rafstöðina komu hingað heim á hlað í vikunni á flutningabíl. Bílstjórinn var nú ekki nema ca tvítug stelpa.. ég skammaðist mín nú eiginlega fyrir að geta varla bakkað station bíl þegar ég sá hvað þessi var flink á bílnum. Ég þarf greinilega að fara að æfa mig hehe. Hingað er svo mætt fólk til að sjóða saman rörin og grafa þau niður. Gaman gaman allt að gerast!


Petra og Leifur komu hér í heimsókn á mánudaginn með stelpurnar sínar. Það var rosalega gaman að sjá frænkurnar Þórdísi Kötlu og Vigdísi Evu saman. Þær eru ótrúlega svipaðar í þroska og getu þó að þær séu ótrúlega ólíkar. Við tókum helling af myndum af þeim saman og ég hlakka til að sjá hverju Petra náði á filmu. Mínar myndir verða ekki public fyrr en ég kem heim úr fríinu, það er bara ekki hægt að gera neitt hérna með þessa nettengingu.


Signý og Magnús komu á saman tíma í heimsókn með Björn Elvar og Stefaníu Dúfu með sér. Það er alltaf gaman að fá sveitunga sína í heimsókn og alltaf nóg að spjalla um. Við Atli vorum á kafi í að tæma háaloftið þegar gestirnir fóru að streyma. Eitt af því sem kom niður af lofti var hestur! Já, afi hefur greinilega látið súta skinnið af einhverju hrossi en Signý heldur að þetta sé hann Bleikur hans afa. Nú er ég að reyna að finna stað fyrir skinnið og fá samþykki fyrir því veggjaskrauti. Atli er nú ekki spenntur en við erum nú með hreindýr uppi á vegg heima í Reykjavík.. er þá eitthvað að því að vera með hest á vegg í sveitinni.. mér finnst það bara flott :o)


Ég kíkti á Byltingu í tamninguna í dag. Tamningunni miðar vel áfram og daman er bara í fínum gír. Ekkert óvænt og enginn vitleysisgangur. Víði líst bara ágætlega á hana og hún er bæði að bæta brokk og tölt. Merkilegt nokk að hún brokkar núna ekki nema utanvega, svona koma þessar sparimerar á óvart, ég sem var hrædd um að hún yrði rosalega klárgeng.., nei takk mín vill helst tölta.


Annars er að sjálfsögðu bara allt gott að frétta af okkur, lífið í sveitinni er yndislegt. Hér á ég heima.. mig langar ekkert aftur í bæinn. Gestir eru alltaf velkomnir! Ég á enn von á Lilju og co og Ylfu og Konna og ég get lengi bætt við :o)

Flettingar í dag: 202
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 129
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 174948
Samtals gestir: 24177
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 17:18:33

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar