Mánaskál

23.07.2009 04:47

Netsambandið er lélegt.. erfitt að blogga

Jæja litla fjölskyldan er enn í sveitasælunni. Við fengum heimsókn síðustu helgi en þá komu frænku mínar, Ása og Jenný með Konnunum sínum og tvíburasonum Ásu. Það var því margt um manninn í kotinu og kemur sér vel að hafa húsbílinn, hann verður eins og auka svíta úti á hlaði! Við fórum á Húnavöku á laugardagskvöld en vorum svo of sein á staðinn svo við misstum af bakkasöngnum. Við sátum góða stund hjá Jóni Víkingi og Siggu á tjaldstæðinu í staðinn. 


Við fengum líka fullt af heimsóknum um helgina. Fyrst komu Skrapatungufólk með fríðu föruneyti, það er alltaf svo gestkvæmt hjá þeim og hópurinn skellti sér allur í heimsókn að kíkja á framkvæmdir. Eins gott að ég var búin að standa á haus í að baka pönnukökur og átti nóg með kaffinu :o) Þegar þau voru að fara birtist hér annar bíll en það voru Alla Rúna sem vinnur með Sveinbjörgu og maðurinn hennar sem er frá Núpi hér fyrir innan okkur. Það var gaman að fá þessa óvæntu heimsókn þar sem hann þekkti afa heitinn svo vel. Á sunnudag fengum við svo aðra óvænta heimsókn en það voru þau Ásdís og Ragnar frá Dal (Klaustri). Ragnar spjallaði við Atla um rafstöðvarmál enda er hann á kafi í félagi raforkubænda. Ég held að hann hafi náð að kveikja ansi vel í Atla sem var vel heitur fyrir.

Þórdís Katla stækkar og dafnar vel í sveitinni. Hún er farin að sitja alein eins og herforingi :o) og komin með 2 tennur og fleiri á leiðinni.. sko bara að verða stór stelpa held ég! Ég reyni að vera dugleg að taka myndir af henni núna en svo gengur bara ekkert að koma þeim á netið.

Af framkvæmdum er helst að frétta að hér verða smíðaðir gluggar um helgina og Atli er búinn að steypa undirstöður fyrir rafstöðvarhúsið! Já.. alveg rét.. það verður líklega komin rafstöð fyrir veturinn! bara frábært! Sveinbjörg og Gunnar (tengdó) og jafnvel Tinna systir Atla koma um helgina í heimsókn og þrælavinnu. Gunnar ætlar að hjálpa Atla í smíðunum og Sveinbjörg og Tinna verða líklega mest að dúllast með Þórdísi Kötlu. Ég ætti því að fá dágóðann tíma í að gera eitthvað skemmtilegt.. verst að það er spáð leiðindaveðri um helgina og ég verð því kannski ekki til stórræða. Það gæti meira að segja snjóað hjá okkur í dag og á morgun.. iss þetta er nú ekki vinsælt svona seinnipart sumars!

Ylfa og Konni eru búin að boða komu sína en það er enn aðeins óljóst hvenær þau koma.. ég skil það nú vel enda spáir slyddu eða snjókomu hjá okkur.. ekki alveg mest spennandi staðurinn á landinu þessa dagana! En við kvörtum ekki þar sem við erum búin að vera rosalega heppin með veður hingað til.

Ég fór á bak í gær og í fyrradag. Í fyrradag reið ég vöku út dalinn (vona að þetta sé rétt sagt) en snéri svo við þegar ég var að koma að hrossastóði. Ég er ekkert rosalega spennt fyrir því að ríða beint í fangið á tryppakjánum en svo er það kannski bara ekkert til að vera smeikur við. Ég móðgaðist nú pínu þegar ég reið framhjá veiðihúsinu þar sem þar sat stór hundur á pallinum sem gelti á mig.. isss hann vissi greinilega ekki að ég er drottning í ríki mínu hérna hehe.. maður geltir sko ekki á hvern sem er. Nei en svona í alvöru.. þá er ég bara glöð að hann fór ekki af stað á eftir mér líka hehe.

Í gærkvöldi lagði ég á Birtu og prufukeyrði hana hérna heima. Þetta gekk bara ótrúlega vel og eiginlega betur en þegar ég var að prufa hana inni í gerðinu. Ég ætlaði að teyma Vöku með en hún virtist ekki alveg fíla það svo Vaka slapp það skiptið. Það gerist nú flest frekar hægt hérna en góðir hlutir gerast hægt eins og einhver sagði. Ég reyni að nýta tímann í hestana en það er ekki alltaf tími eða spennandi veður.

Ég er í vandræðum með nettenginguna hérna, netið er alltaf að detta út og mér gengur ekkert að koma inn myndum. Það eru komnar örfáar nýjar í myndaalbumið en ég er að reyna að koma fleirum inn.

Flettingar í dag: 693
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 1019
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 189098
Samtals gestir: 25626
Tölur uppfærðar: 18.5.2024 21:37:34

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar