Mánaskál

04.04.2008 10:03

Bloggið var bilað.. ég er alveg að standa mig

Jæja núna var bloggkerfið að stíða mér, það var verið að setja upp nýja útgáfu og ég bara komst ekki inn til að blogga. Ég er búin að finna út úr þessu núna, þarf víst að fara inn í gegn um aðra síðu.

Síðasta færsla var um Ótta Eiðsson, hann er á Baugsstöðum og hefur það gott. Sjöfn.. ef þú ert að fylgjast með þá ertu ekki enn búin að senda mér reikningsnúmer í sms svo ég geti greitt fyrir fóðrunina  Ég er í fríi um helgina og ætla að reyna að fara austur að kíkja á hann á sunnudaginn. Það þarf að sýna honum spottann góða og snerta fætur og svona. Eins þarf hann að fá ormalyf.

Af tamningum er allt gott að frétta, það gengur vel með Byltingu. Lilja teymdi hana með sér í fyrradag og það gekk eins og í sögu. Lilja kom svo og leiðbeindi okkur aðeins í gær við hesthúsið. Þetta gengur vel, hryssan er sko ekki vitlaus. Hún er að byrja að átta sig á beygjunum og hvernig þetta allt virkar. Það var ótrúlega skemmtilegt í gær þegar ég gat stýrt henni þangað sem ég ætlaði að fara og hún aktaði það vel, hún var að skilja til hvers var ætlast af henni og framkvæmdi það. Þetta var í augnablik eins og ég væri á tömdu hrossi  Það er nú gott að hafa svona Lilju sér til aðstoðar sem gefur manni fínar leiðbeiningar. Ég tími nefnilega ekki að láta hryssuna frá mér, ég get gert þetta sjálf þar sem hún er svo stabíl, ég þarf bara smá aðstoð. Það styttist í það að maður fari að ríða henni fyrir alvöru.. vá hvað ég hlakka til!

Myrkvi Kjalarsson stóri bróðir Ótta og Drunga kom í bæinn á sunnudaginn síðasta. Ég vildi fá hann suður og var svo heppin að fá auka pláss í húsinu hjá okkur Byltingu. Ég bað Kristján að láta mig vita með ferð suður, sem hann gerði, en með mjög litlum fyrirvara! Ég hringdi í Signýju og hún og Magnús gátu reddað þessu fyrir mig. Þau sóttu folann út í Laxárdal og keyrðu hann heim að Syðra Hóli þar sem hann beið eina nótt á húsi. Mikið er gott að hafa fólk að sem er tilbúið að hlaupa undir með manni þegar manni vantar aðstoð. Ég vona svo sannanlega að ég geti aðstoðað þau sjálf seinna. Takk fyrir mig!

Mín vandræði með Myrkva voru fleiri. Ég var að vinna síðustu helgi og gat því ekki tekið á móti honum þegar hann kom í bæinn. Atli ætlaði að bjarga þessu en var svo kallaður út í vinnu, þá vandaðist málið. Lilja var í Víðidal með krakkana á æskunni og hestinum og hver átti að taka á móti honum. Nú var kominn tími til að Raggi hugsaði um folann sinn! Ég hringdi í Ragga og bað hann að redda þessu sem var ekkert mál en hann vissi ekki einu sinni hvar hesthúsið mitt var. Bíllinn kom svo rétt fyrir níu og Raggi tók á móti Myrkva og henti honum út í gerði og sótti mig svo í vinnuna. Þegar við komum að hesthúsinu var fólk í gerðinu mínu að skoða folann. Þau vorkenndu honum svo mikið að vera aleinn úti og slökkt í húsinu og enginn við. Það er gott að vita til þess að fólk spáir í aðra í kring um sig. Ég gekk beint að folanum og heilsaði upp á hann. Hann er alltaf jafn ljúfur. Ég fór svo inn í hús til að sækja múl á hann en hann kom bara á eftir mér inn í hús! Ég opnaði stíuna hennar Byltingar og hann labbaði inn og byrjaði að éta! Merkilegur foli, bara alveg eins og taminn!

Bylting er auðvitað prinsessa og hefur átt sína stíu út af fyrir sig. Hún hefur greinilega haft það of gott því Myrkvi fékk ekki fínar móttökur hjá dömunni! Hún var sko ekki sátt við að það kæmi einhver inn til hennar og hvað þá að hann ætlaði að fá sér hey og vatn! Hún var ótrúlega leiðinleg við hann svo ég þorði ekki annað en að koma aftur í hesthúsið fyrir svefninn og kíkja á stemmninguna. Þetta endaði svo að ég batt Byltingu og með vatn í fóðurdallinum og Myrkvi fékk hinn stallinn og nóg að éta. Fýlusvipurinn á hryssunni var algjört met! Hún var svo hneyksluð að það stóð utan á henni! Hún var búin að éta heila kvöldgjöf og var því ekkert að deyja úr hungri. Svona erum "við" eins og Atli segir alltaf.. baneitraðar!

Í dag eru þau perluvinir þó svo að Bylting sé ákveðnari og stjórni. Þau hneggjast á milli ef annað er tekið út.. voðalega sætir vinir. Þau halda hópinn í gerðinu og Myrkvi getur bara ekki verið án hennar held ég. Ég tók Byltingu upp á stétt í gær og lagði á hana, á meðan hékk Myrkvi við hliðið. Hann ætlaði að fylgja henni inn en fékk ekki svo hann bara beið og fylgdist með.

Ég er byrjuð að taka upp fætur á Myrkva og núna fer ég að dunda meira í honum. Hann verður járnaður og svo er það bara skóli lífsins. Ég stefni nú ekki á að gera hann reiðfærann en ég ætla að fara á bak og kenna honum eitthvað áður en hann fer út aftur. Bylting er aftur á móti mun þroskaðri og vöðvafylltari og ég treysti henni í mikið meira. Hún er nú líka bara að fitna í góðærinu í hesthúsinu. Það fær nú kannski að renna af henni aftur þegar ég fer að ríða henni fyrir alvöru.

... í vinnslu
Flettingar í dag: 460
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 838
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 189703
Samtals gestir: 25659
Tölur uppfærðar: 19.5.2024 09:04:20

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar