Mánaskál

24.03.2008 20:54

Páskar 2008

Skírdagur fór í hestastúss hjá mér þar sem Atli var að vinna. Ég lagði á Byltingu og Lilja kom svo og aðstoðaði mig. Ég fór á bak og Lilja hafði taum í hryssunni til að byrja með en svo tók hún hann bara af mér og ég þurfti bara að redda mér









Þetta gekk bara eins og í sögu og það verður stutt þangað til hún verður orðin skröltfær. Að tamningum loknum mokaði ég og gaf.  Bylting fór síðust inn þar sem hún fór einn inn á annan gang, ég lokaði því á nefið á henni og hleypti henni ekki inn á sama gang og hin hrossin fóru inn á. Ég vissi ekki hvert hún ætlaði, æddi út í gerði, hljóp um í rassaköstum og hneggjaði. Það var greinilega voða erfitt að vera ein eftir úti. Ég hafði nú svo gaman af þessu að ég leyfði henni að hlaupa um aðeins áður en ég hleypti henni inn og vá hvað hún var flott á brokkinu! Það eru sko taktar í dömunni þegar henni misbýður



Á föstudaginn langa fórum við Atli af stað í Mánaskál. Veðrið var mjög fín, stillt og bjart. Þegar við komum "í hlað" á Mánaskál var sól og blíða, geggjað veður! Við vorum bara í góðum gír í sveitinni, ekkert stress og endalaust dunderí. Við kíktum á hrossin í nokkur skipti og gáfum auðvitað brauð.. það verður nú einhver að dekra þessi dýr 

Folarnir "mínir" heilsuðu báðir upp á mig. Drungi lítur mjög vel út og gengur úr hárum. Myrkvi kallinn er ekki í jafn góðu standi. Hann er of grannur. Ég held að hann sé of mikill auli til að sjá um sig sjálfan, hann er lágt settur í stóðinu og kannski vantar hann Byltingu sem sína hægri hlið.. þau voru svo mikið "team", fædd í sama stykkinu og saman alla ævi þangað til ég kom og tók hana frá honum hehe.. meiri vitleysan. Allavega þá held ég að það sé best að hann komi í bæinn í dekur og dúllerí. 




3 félagar, lítill stærri stæstur



Tófan var á ferð um dalinn eins og áður. Hún kom í heimsókn til okkar en þáði þó ekki ætið sem við settum út fyrir hana. Krummi lét þetta ekki framhjá sér fara og kom í veislu. Hann fékk svo meira að segja ábót en þáði hana ekki. Reyndar náði hann sér í eftirrétt á hlaðinu hjá okkur en það var músin sem við hirtum um músagildrunni.. hún hvarf allt í einu úr snjónum.

Atli mældi húsið á alla kanta og ætlar að teikna það upp fyrir okkur. Þá ætti að vera hægt að áætla t.d. kostnaðinn við að skipta um það og klæða það. Það er sko bara gaman að spá í svona hlutum, sérstaklega eftir okkur var boðið inn í bæ í Skrapatungu og sáum hvað var búið að gera þar! Það er ótrúlegt hvað bærinn er flottur og stór að innan! Ég hefði aldrei trúað að það væri svona mikið pláss þarna í þessu litla húsi.

Við notuðum aðeins gullið hans pabba.. nánar tiltekið fjórhjólið hans. Við fórum bæði aðeins um í skoðunarleiðangur og svo notuðum við það til að mæla út túnið við hliðina á Hyrnunni sem mig vantar nú eiginlega nafn á.. ég þarf að finna eitthvað út úr því. Við notuðum semsagt gps tæki til að taka punkta og hjólið til að spæna enda á milli, ótrúlega mikill tímasparnaður að gera þetta svona.



Við fórum á laugardeginum yfir á Sauðárkrók til að sækja hreindýraskinnið hans Alta sem var í meðferð þar. Þetta er ótrúlega flottur gripur, mjúkur og fínn og verður fínt veggskraut hjá honum.

Ég tók mig til og þreif duglega húsið og fór í gegn um kassana mína í kjallaranum. Þar fann ég eitt og annað sem ég gat hugsað mér að nota uppi. Svo er aldrei að vita nema ég fari að mála og dúllast fljótlega.

Núna eru páskarnir bara búnir að ný vinnuvika að hefjast. Reyndar er hún stutt sem er alltaf gleðilegt. Ég hlakka reyndar bara til að byrja vikuna því núna er Bylting búin að standa of lengi og þarf að fara að vinna fyrir matnum sínum. Svo er útlit fyrir að Myrkvi komi til okkar líka og þá fær hann líka einhverja sérmeðferð.



Flettingar í dag: 279
Gestir í dag: 38
Flettingar í gær: 885
Gestir í gær: 210
Samtals flettingar: 177792
Samtals gestir: 25075
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 01:11:10

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar