Mánaskál

18.03.2008 09:20

Árshátíðin búin, að koma páskar

Jæja nú hef ég ekki bloggað í nokkra daga.

Í síðustu viku dundaði ég bara áfram í hryssunni, steig í ístöðin og djöflaðist. Ég hafði það nú aldrei að setjast alveg í hnakkinn þó ég væri komin á bak. Hrossin í næsta gerði voru úti og þau eru svo uppáþrengjandi að ég hef bara ekki kynnst öðru eins! Þau hamast endalaust í snýkjugangi og frekju, naga reiðtygin og hamast í merinni.. bara óþolandi hross.. og það er ekki einu sinni hægt að hrekja þau í burtu.. urrr Á miðvikudaginn lét ég það allavega vera að setjast í hnakkinn þar sem hrossin voru að gera hryssuna mjög pirraða, hún var auðvitað bundin mjög stutt á gerðið og svo fékk hún engann frið. Svanur var í hesthúsinu á sama tíma í þetta skiptið og var að baða hrossin sín. Mér fannst fínt að Bylting sæi slönguna áður en ég færi að baða hana og henni var alveg sama eftir smá stund.. þangað til Svanur byrjaði að baða hana! Hún flogaði eitthvað smá en svo stóð hún þetta bara af sér þó henni væri alls ekki sama!

Ég gerði svo ekkert um helgina í hrossamálum. Á fimmtudaginn var Bingó í Gusti og ég mætti með Ágúst og Söndru.. og hin börnin.. mömmu og Önnu frænku hehe. Við fengum smá vinninga en krakkarnir fengu samt ekki páskaegg. Ég var búin að gera samning við alla, ef þau fengju hestavinning myndi ég skipta við þau á páskaeggi. Ég taldi mig eiga hesthúsið á fimmtudögum en þegar ég kom uppeftir eftir Bingó þá var Vilhjálmur búinn að gera allt.

Ég þurfti að vinna óvænt á föstudag þó ég hefði verið búin að fá frí, það var því ekkert hrossast það kvöldið. Á laugardag var auðvitað árshátíð Kaupþings. Ég mætti í klippingu kl. hálf ellefu. Það eina sem ég bað um væri að ég myndi halda síddinni! Eftir klippinguna fékk ég einhverjar ofur krulllur fyrir árshátíðina en ég sá í raun aldrei hárið á mér eftir að það var klippt. Ég fór svo bara eins og hálfviti í Smáralind og sótti það sem mig vantaði fyrir árshátíðina, greiðslan átti auðvitað eftir að síga og verða eðlilegri.. en vá hvað mér leið illa í smáranum! Ég fór svo bara heim og tók mig til og fór til Elísabetar í bjór áður en við mættum í fyrirpartyið.

Árshátíðin var fín og fyrirpartyið líka. Sveppi og Auddi voru veislustjórar.. mér finnst þeir nú svolítið skemmtielgir. Skemmtiatriðin voru góð, maturinn líka og allt eins og það á að vera. Við fórum heim af árshátíðinni en ekkert í bæinn í þetta skipti en við gerum bara betur næst.

Sunnudagur var algjör letidagur! Við sváfum framyfir hádegi og fórum ekki framúr heldur sofnuðum aftur og sváfum framyfir kvöldmat! Við gerðum heldur ekkert um kvöldið nema að sækja bílana og fá okkur að borða, meiri letihaugarnir! Svona er þetta bara daginn eftir árshátíð.. allt leyfilegt!

Hárið mitt.. já blessað hárið mitt!! Hvað getur maður gert! Fólk tók strax eftir því að ég hefði farið í klippingu.. ég var virkilega að vona að það virkaði svona stutt út af krullunum.. en svo þegar ég fór í sturtu kom í ljós að hárið á mér er bara svona stutt!! ARG.. hún stytti hárið á mér helling!! .. og ég má alveg tuða yfir því!!!! Mér finnst þetta hræðilegt, eina sem ég bað um var að halda síddinni!!! og ofan á allt annað þá klíndi hún hárlit yfir hálft andlitið á mér svo ég gat ekki breytt hárgreiðslunni því ég gat ekki sýnt ennið eða eyrun.. kreist!! Svo borgar maður helling fyrir þetta.. vá hvað ég er reið yfir hárinu. Ég er búin að vera að safna síðan ég var 18 ára og ekkert gengur!! Litla frænka mín sem er ekki orðin 4 ára er með síðara hár en ég 

En jæja.. nóg um hárið.. Í gær var víst komin ný vinnuvika. Ég fór í Bónus eftir vinnu og keypti páskaegg handa börnunum.. þar með Atla og Svenna . Ég fór nú til að kaupa egg handa Ágústi og Söndru en Svenni bað mig svo fallega um daginn að ég bara varð að kaupa egg handa honum líka... "Kolla viltu kaupa handa mér páskaegg með íþróttastrump".. hehe ég fann 1 íþróttastrump.. og hann var í fýlu á varamannabekknum haha mér fannst það svo fyndið að ég keypti handa honum eggið og auðvitað annað egg handa Atla líka 

Eftir Bónus fór ég í hesthúsið núna hafði Bylting sloppið í marga daga í röð og það er nú ekki alveg að ganga. Ég lagði á hana úti á stétt og lagði við hana líka. Rölti svo út í gerði og lónseraði hana með hnakkinn sem henni er nú bara alveg sama um held ég. Þegar við komum til baka þá batt á hana við gerðið og hnoðaðist á bak. Vilhjálmur bauðst til að teyma undir mér á stéttinni sem ég auðvitað bara þáði og þetta gekk bara rosalega vel. Hún sá ekkert endilega tilganginn með því að ganga í hringi á eftir Villa en hún lét sig hafa það samt. Ég hlakka bara til að fara að gera meira og ath hvort það komi einhverjir stælar í ljós.

Svo eru bara páskarnir að fara að skella á. Við Atli förum norður ef veður og færð leyfa.. núna þarf bara að fylgjast með verðurfréttunum. Ég sá brot af þeim í gær og það leit illa út fyrir skírdag.. en sjáum til.
Flettingar í dag: 862
Gestir í dag: 203
Flettingar í gær: 1634
Gestir í gær: 611
Samtals flettingar: 177490
Samtals gestir: 25030
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 22:05:13

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar