Mánaskál

18.12.2007 13:34

styttist í jólin..

Ég hef ekki reykt svo lengi núna að mér finnst varla taka því að telja dagana lengur. Ég er semsagt búin að vera reyklaus í 3 vikur og gengur glymrandi vel.  Ég fer nú alveg að hætta að tala um þetta. Um jólin verður kominn mánuður og mesta hættan yfirstaðin. Ég er alveg að spá í að kaupa mér 10 girðingastaura á mánuði eða eitthvað fyrst ég er ekki að spreða í sígarettur. Mér finnst dýrt að fara og kaupa 200 girðingastaura en ef ég fer nú og kaupi 10 á mánuði þá gerir það nú bara 120 staura á ári. Ég spái í þetta.. en ég held að pabbi yrði ekki kátur ef ég myndi smám saman hertaka bílskúrinn hans með girðingarstaurum haha! Kannski get ég líka samið við Lífland og fengið þetta í áskrift eins og ávaxtabílinn, heimsent einu sinni í viku :) Svo eru allir að væla um að þeir viti ekki hvað á að gefa mér í jólagjöf.. girðingastaura og net!! :) ég er ekki eins erfið og fólk heldur!

Ég er alltaf voðalega mikið að spá í sveitina. Mig dauðlangar að girða og slá og gera allan pakkann og vera hobbíbóndi með hestana mína. Það er bara erfitt að koma sér af stað í svona þegar maður á engar vélar eða neitt. Ég á líka of fá hross til að það borgi sig fyrir mig að standa í stórræðum með heyskap.. ætli málið sé þá ekki bara að fjölga hrossunum, þá borgar þetta sig! Ég veit að það er einhver sem tekur að sér heyskap fyrir norðan, ég er að reyna að grafa upp hvað hann heitir svo ég geti rætt við hann. Svo er ég svo clueless þegar kemur að ýmsu t.d. get ég eiginlega ekki gert mér grein fyrir því hvað kæmu margar rúllur af heimatúnunum í Mánaskál. Það eru til einhverjar gamlar tölur frá því að síðast var heyjað en þá vorum við með litlu þurrbaggana.. ekki veit ég hvað það eru margir þurrbaggar í einni rúllu svo það auðveldar mér ekkert. Ég taldi rúllurnar á Gerðinu fyrir 2 árum held ég, þær voru um 30. Ég er ekki viss hvað gerðið er stórt í samanburði við heimatúnin, né hvernig sprettan er á hvorum stað en að sjálfsögðu er ekki svona fínt hey af heimatúnunum þar sem ekki hefur verið borið á þau í mörg ár. Svo er líka spurning hvort það sé hægt að heyja meira en heimatúnin, það virðist vera nóg af grasi allavega. Það væri samt ótrúlega gaman að heyja túnin og sjá hvernig það kemur út en ekki tími ég að borga heyskapinn af öllu umframheyjinu sem ég hef ekki not fyrir ef þetta er eitthvað mikið meira en ég held.

Ég held að ég fari að biðja jólasveininn um traktor og sláttuvél í skóinn :) Vá hvað ég væri hamingjusöm þá. Ef ég gæti farið að heyja sjálf og svona.. þá gæti ég líka kannski farið að fjölga hrossnum.. og vá hvað ég er fljót á flug! Ég held að ég eigi bara að flytja í sveitina. Mig langar að hafa hesta, nokkrar kindur, mikið af hundum, geitur og hreindýr! Ég er í alvörunni að spá hvort ég geti ekki fengið að flytja hreindýr heim að Mánaskál. Ef ég má kaupa veiðileyfi til að drepa hreindýr.. má ég þá ekki veiða það lifandi og eiga það. Það væri ansi fínt að eiga tarf og kýr og fá hreindýrakjöt á hverju ári :) Ég sé nú engann eiginlegann tilgang með geitunum, þessi 5000 króna styrkur á ári er bara brandari.. en þær eru samt spennandi. Ég þarf eitthvað að reyna að sannfæra karlinn um að það sé langbest að búa fyrir norðan. Einhvern tímann var sagt við mig að maður ætti bara að fara.. karlarnir elti! úfff nei ég þori ekki svoleiðis.. hvað ef maður situr bara eftir einn og enginn elti :S 

Ég fór með pabba og mömmu norður í gær í jarðarförina hennar Elsu frá Balaskarði. Við lögðum af stað um átta og vorum komin heim tólf tímum seinna. Við stoppuðum örstutt í Mánaskál, aðallega til að sjá hvort það væri ekki allt með kyrrum kjörum eftir óveðrin undanfarið. Það leit allt vel út en þessar blessuðu járnplötur sem eru í stafla á hlaðinu fóru af stað eina ferðina enn og búnar að brjóta nokkra staura á girðingunni í kring um bæinn. Ég sver að ég skal ganga betur frá þessu í vor, ég ætla að bera þetta inn í skjól, það virðist ekkert halda þessum plötum í svona veðri. Ég nenni ekki að sækja þetta niður á tún og skipta um girðingarstaura á hverju ári. Annars var bara gott að koma "heim" eins og vanalega. Verst hvað maður gat stoppað stutt. Ég stefni á að fara norður fljótlega aftur. Ég keypti brauð á Blönduósi og var að vonast til að komast í færi við tryppin. Ég sá 3 hrossahópa í langadalsfjalli, enginn hross færi í þetta skiptið.

Í kvöld fer ég í hesthúsið og fæ eitthvað gott undir rassinn hjá Lilju. Það verður svo gaman að fá á sig smá hestalykt og komast í gírinn aftur. Ég hef enn ekki frétt neitt af plássi í heimsenda, mér bjóðast pláss í Gusti en ótrúlegt en satt þá ætla ég að reyna að vera frekar í Heimsenda í vetur.. þó að ég sé að sjálfsögðu Gustari!

Ég bíð spennt eftir því að fá Atla heim.. og tölvuna mína.. þá get ég farið að setja inn fleiri myndir :)

Flettingar í dag: 9
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 838
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 189252
Samtals gestir: 25637
Tölur uppfærðar: 19.5.2024 01:41:34

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar