Mánaskál

10.12.2007 11:04

Dagur 14. - fyrsti sveinki kemur til byggða.

Í dag er 14. reyklausi dagurinn minn, ótrúlega er þetta fljótt að líða! Ég er þvílík hetja.. og geðheilsan er að verða ok líka. Allir að segja já.. þú ert hetja!

Ég var að vinna um helgina í blómabúðinni, þetta var bara ágætis helgi enda liggur yfirleitt vel á fólki þegar það verslar jólaskreytingar og er greinilega að dunda í heimilinu. Ég fór eiginlega í fíling líka og langar að gera skreytingar fyrir mig. Fjölskyldan er hætt að föndra saman fyrir jólin eins og var. Keramik var mjög heitt í nokkur ár og öll heimili innan fjölskyldunnar bera þess greinileg merki. Mamma er búin að vera í öllu held ég, allskonar körfuskreytingar (hver man ekki tímabilið þegar ég var send upp í tré að sækja köngla), keramik, leir, gler, tré..  Ég trúi því auðvitað að ég sé voðalega góð í þessu öllu þar sem ég á svo flinka mömmu. Ég hlít að vera með svolítið græna fingur líka.. og nei Ása.. enga Kermit brandara!!

Annars eru jólin svo greinilega á næsta leyti.. úff hvað tíminn líður. Ég byrjaði snemma í jólagjöfunum þetta árið en svo eru allt í einu að koma jól og ég er ekkert komin lengra með gjafakaupin en fyrir þremur vikum. Svona er þetta þegar maður er svo ánægður með hvað maður er búinn með mikið að maður þarf ekki að flýta sér lengur.. og situr svo í sömu súpunni og hin árin þegar jólin eru alveg að koma. Ég er meira að segja eiginlega komin styttra en fyrir þremur vikum því ég er búin að ákv. að skila hluta af gjöfunum og kaupa eitthvað annað í staðinn. Það er voðalega erfitt að vera svona óákveðinn!

Ég skrópaði í ræktinni í morgun.. en það var svooo þess virði! Ég var svo þreytt og það var svo hlýtt og gott undir sænginni.. svo fékk maður knús líka og það var bara til að toppa það! Í staðinn fer ég víst í ræktina eftir vinnu, ég má ekki svindla mikið í reykleysinu. Ég ætla sko ekki að hlaupa í spik.

Þessi vika verður örugglega mjög fljót að líða. Ég er svo í fríi næstu helgi en það er ekki alveg ákv. hvernig þeirri helgi verður ráðstafað.

Fyrsti jólasveinninn kemur í heimsókn í nótt. Ég er reyndar hætt að fá í skóinn en kannski fæ ég bara heimsókn í staðinn. Jólasveinninn gæti nefnilega átt leið hjá, allavega fékk Svenni enn í skóinn í fyrra þó að ég hafi ekki alveg skilið hvað jólasveinnin vildi að Svenni gerði við þennan upprúllaða latex-sokk sem hann fékk :)
Flettingar í dag: 69
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 838
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 189312
Samtals gestir: 25649
Tölur uppfærðar: 19.5.2024 05:01:40

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar