Mánaskál

01.12.2007 23:01

Kominn tími til..

Jæja gott fólk.. nú skal byrja að blogga

Ég hef ekkert gert í þessari síðu minni í marga mánuði og ætla að reyna að bæta fyrir það.

Það er ekki mikið að frétta af mér. Ég virðist hafa lítið frá að segja þegar ég er ekki með Skellu mína og þar af leiðandi engar sögur af okkar ævintýrum. Hestaheimurinn er líka fátæklegur, ég á engann reiðhest lengur og tryppin ganga úti. Ég var á jólahlaðborði á vegum Smáraútibús í gær. Rosalega fínt og flott og mjög skemmtilegt í alla staði. Ég er svo fyndin.. ég var svo ákveðin að fara í pæjuspariskónum sem ég keypti í Boston um daginn en þeir eru opnir og það var svo ótrúlega kalt í gær að ég tók með sokka og stígvél ef ég skyldi gefast upp á nýju fínu skónum. Ég gleymdi líka alveg að ganga þá til. En ótrúlegt en satt, mér varð ekki kalt eða illt, datt ekki eða neitt og báðir hælarnir á sínum stað þegar ég kom heim. Jenný frænka fékk þá svo lánaða í dag því hún fór á jólahlaðborð í kvöld. Þetta eru sko bara the official jólahlaðborðsskór, pantanir í síma 699-0456. Það er bara svo ótrúlega gott að eiga frænku í sama skónúmeri ef mann langar að fá eitthvað lánað :)

Úr hestaheiminum er þó það að frétta að Máni minn var felldur fyrir stuttu. Helti hráði hann um langt skeið og því var ekkert annað að gera í stöðunni. Hann var felldur fyrir norðan og hvílir þar á góðum stað. Það er rosalega sárt að þurfa að fella fyrsta hestinn sinn, sérstaklega þar sem hann var svo mikill karakter. Máni verður alltaf í uppáhaldi hjá mér þó hann geti ekki hafa talist sem mikill gæðingur. En hann var góður sem Máni. Ég nota þetta nafn svolítið til að flokka hesta. Ef hann er dauðþægur og traustur.. nennir svosum ekkert að leggja of mikið á sig en lætur sko ekki skilja sig eftir í reiðtúrum og auk þess alltaf vel í holdum þá er hann á minn mælikvarða svona "Máni".  Ég vona svo innilega að ég eigi eftir að eignast annan "Mána". Það er svo gott að eiga svona hest sem alltaf er hægt að ná, allir geta riðið.. í hvaða ásigkomulagi sem er.. og er alltaf skotheldur. Máni minn var nú kallaður nokkrum nöfnum, ég hef t.d. kallað hann "Gamla" alla tíð, hann var bara svo gömul sál og svo var hann alltaf elsti hesturinn minn. Lilja vinkona fann líka út að hann væri Lukku láki þar sem hann kastaði toppi með stæl á fetinu. Ótrúlegar hreyfingar hjá honum.. það var stundum eins og það væri svo erfitt að ganga að hann þyrfti að nota hausinn til að hjálpa sér í hverju skrefi. Máni var ekki nema 13 vetra og undir eðlilegum kringumstæðum hefði hann átt nokkur góð ár í viðbót. Svona er lífið bara. Ég er viss um að honum líður mikið betur núna.

Ég ætla að setja inn myndir af Gamla mínum þegar tölvan mín kemur heim frá Kanda.

Myrkvi, Bylting og Drungi eru fyrir norðan og ganga á dalinn. Ótti Eiðssonur gengur enn undir Dimmu fyrir austan en ég er bara að bíða eftir að hann komi í bæinn. Ég er búin að hringja í eiganda Dimmu og hann ætlaði að kanna fyrir mig hvenær folöldin yrðu tekin undan en ég hef ekkert heyrt. Það hlítur eitthvað að fara að gerast í þessum málum enda kominn desember. Ótti ætlar að fara í Gust til Lilju og vera með folaldastóðinu hennar.

Ég stefni á að temja Byltingu þegar líður á veturinn og verður gaman að sjá hvort primadonnan stendur undir væntingum. Svo veit ég ekki hvernig framhaldið verður, kannski fer hún undir hest næsta sumar. Ég stefni á skóla næsta haust og sé ekki fram á að hafa tíma fyrir hestamennskuna þann veturinn. Ég held að hún sé bara nógu góð til að ganga með folald fyrir mig, hún hefur ekkert með það að gera að standa bara úti og éta. Ég segi nú bara svona, það er ekkert ákveðið í þessum efnum. Mig langar frekar að eiga hana sem reiðhest en það er bara ekki nóg að senda í tamningu.. svo þarf að hafa tíma til að halda áfram með hrossin. Mér finnst leiðinlegt ef hún mun svo bara standa. Mig dreymir um að eiga reiðhest aftur. Sérstaklega væri gaman að eiga fulltamið hross sem hægt væri að grípa til á sumrin þar sem ég sé ekki fram á að hafa tíma til að vera með hross inni yfir veturinn. Þó er aldrei að vita..kannski finn ég tíma til að sinna einu hrossi á kostnað skólabókanna. Ég þekki mig samt alveg.. um leið og ég er búin að taka inn þá vil ég hvergi annars staðar vera en í hesthúsinu.

Tölvan mín er eitthvað biluð og það er nú aðalástæðan fyrir bloggleysinu. Ég er í vandræðum með að nota myndir og fleira og því gerist bara ekkert. Við Atli vorum t.d. fyrir norðan fyrir stuttu og ég tók myndir þar sem ég mun setja inn við tækifæri. Við "fórum á rjúpu" þó að enga hafi ég séð rjúpuna. Þetta var samt mjög gaman og við gengum meira að segja upp í skálina. Ég hef aldrei farið þangað upp en alltaf ætlað mér. Núna veit ég að ég get þetta sko bara alveg og ég stefni að því að ganga þetta aftur í sumar og þá ætla ég upp á topp! Hrossin voru ekki í færi þessa helgina. Tryppin mín halda hópinn með hryssum frá Magnúsi á Syðra Hóli en þau voru saman í girðingu á Þverá í sumar. Sá hópur var á vestan við ána þegar ég litaðist eftir þeim.

Svo eru það kannski einu góðu fréttirnar.. ég er hætt að reykja!! Ég segi sko ekki ég er að reyna að hætta að reykja heldur ég er hætt! Það þarf að gera þetta með réttu hugarfari. Ég hvatti Karenu frænku (www.123.is/ior) til að byrja að blogga í átakinu sínu til að halda henni við efnið og ég held að ég ætti bara að gera það sama. Ég hélt upp á væntanlegt reykleysi með pompi og prakt á mánudaginn síðasta. Við stelpurnar fórum út að borða og í Keiluhöllina í pool og mjög eftirminnilegt þythokkí tournament. Síðustu sígarettuna reykti ég svo á tröppunum hjá Atla áður en ég fór að sofa. Það var mjög skrítið að drepa í síðustu sígarettunni.. þessi tilfinning.. þetta er sú síðasta.. úff. Það er erfitt að hugsa sér að hætta að reykja og það er ekki hægt nema að maður sér virkilega ákveðinn. Í dag er laugardagskvöld sem þýðir að ég er að klára 5. reyklausa daginn. Ég tók ákvörðun um að hætta fyrir nokkru síðan, auðvitað ætlar maður sér alltaf að hætta.. en maður ætlar það samt ekki.. það er aldrei rétti tíminn. Ég ákvað núna að hætta og það sem dreif mig í þetta var að Ása frænka hætti og ég hélt að hún myndi aldrei gera það. Ég fékk champix hjá heimilislækninum og byrjaði með hálfsmánaðar skammt. Ég verð nú að segja að þessi lyf gerðu ekkert fyrir mig nema að skapa vanlíðan. Ég varð samt allaf ákveðnari og ákveðnari að ég myndi hætta því mér leið svo illa af þessum lyfjum en aldrei minnkaði löngunin í tóbakið. Svo kom dagurinn sem ég hafði valið mér.. nú var að hætta eða vera aumingi. Ég var svo fúl út í það að hafa verið á lyfjum í hálfan mánuð og líða mjög illa af þeim, þreytt og illa sofin en missa samt ekki löngun í sígarettuna að ég varð eiginlega að hætta samt til að réttlæta það að hafa pínt mig til að taka þess lyf. Í dag er ég með nikótínplástur og svo tyggjó til að grípa í þegar foreldrar mínir púa framan í mig (mamma taktu þetta til þín). Þetta gengur vel og ég er enn ákveðin að ég er hætt! Ég er ekki að hætta að reykja.. ég er hætt!

Svo er bara að sjá hvað ég verð dugleg að blogga í framhaldinu. Ég ætti að hafa einhvern tíma í desember til að blogga og halda áfram með síðuna.

.. to be continued

Flettingar í dag: 9
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 838
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 189252
Samtals gestir: 25637
Tölur uppfærðar: 19.5.2024 01:41:34

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar