Mánaskál

27.06.2007 09:16

Sveitaferð

Við Skella fórum norður í Mánaskál á föstudagskvöld. Fyrir hádegi á laugardaginn keyrði ég milli skurða og dró upp úr þeim rusl. Ég fyllti kerruna af tunnum, járni og öðru rusli og fór í ruslaferð á Blönduós. Mamma dundaði sér við að bera á gluggana og pabbi var einnig í tiltektum. Eftir hádegi rukum við af stað til að smala hrossunum út í rétt. Stóðið var akkúrat á svo fínum stað fyrir neðan bæ hjá Signýju. Í grófum dráttum gekk þetta bara mjög vel þó svo að hrossin hafi tekið strikið yfir ána í stað þess að fara beint í átt að réttinni. Við Signý erum auðvitað svo liprar í snúningum að við skelltum okkur bara yfir ána og björguðum þessu. Enginn er verri þó hann vökni ekki satt? Við flokkuðum hrossin í réttinni, settum folaldshryssurnar sér, tryppi sér, reiðhestana sér og svo annara manna hross sér. Stebbi á Njálsstöðum kom svo og sótti hryssurnar en þær voru að fara í girðingu til Flipa frá Njálsstöðum. Tryppin okkar Signýjar urðu áfram í réttinni þar sem það á eftir að gelda einn í hópnum.

Á sunnudag var haldið áfram að hrossastússast. Signý og Magnús sóttu 4 hryssur í Norðurárdal sem voru farnar úr stóðinu. Þar kom meira að segja lítil brúnblesótt hryssa með leist á öðrum afturfæti, hringeygð og alles.. rosalega flottur litur. Stebbi sótti svo hryssurnar í réttina og fór með þær í hólfið. Magnús snyrti hófa fyrir mig á tryppunum mínum sem gekk bara ágætlega, ef einhver var með leiðindi þá var það hún Bylting. Hún var svosum ekkert erfið en hún vildi örugglega að við værum með það á hreinu að hún væri ekki hrifin af þessari meðferð. Við settum svo tvö tryppi og folald á kerru og vötnuðum hrossunum.

Ég tók heilann helling af myndum. Ég er búin að gera myndaalbum fyrir folöldin frá Balaskarði og er hægt að skoða það hér til vinstri. Myndirnar eru ekki allar komnar inn en restin kemur vonandi í kvöld. Svo þurfum við Signý líka að bera saman bækur okkar, ég er ekki með alveg á hreinu hver er hvað, hvað var hryssa og hvað var hestur og svo framv. Ég held nú samt að ég sé með á hreinu hvaða hryssa á hvaða folald.. en hvað sú hryssa svo heitir veit ég ekki endilega. Ég vona líka að ég hafi tekið myndir af öllum folöldunum en reyndar veit ég að eitt gleymdist. Bleikálóttskjótta hryssan hennar Signýjar var með brúnskjóttum hesti en þar sem hún var höfð sér og átti ekki að fara undir Flipa aftur þá gleymdi ég alveg að taka myndir af hennar folaldi.  Einnig er ég bara með eina mynd af brúnni hryssu með brúnt folald. Ég hef greinilega verið orðin ansi rugluð á því hvað ég var búin að mynda og hvað ekki.

Faðir folaldanna er Flipi frá Njálsstöðum undan Þokka frá Bjarnanesi og Frekju frá Enni. Flipi er Jarpnösóttur en ég ætla að reyna að nálgast mynd af kappanum. Flipi hefur verið að gefa auðtamin og góð reiðhross en nánari lýsing kemur seinna. Ég geri ráð fyrir að flest folöldin séu til sölu en nánar um það síðar.

Ég tók auðvitað myndir af tryppunum mínum líka og þær koma inn fljótlega. Reyndar var ekki jafn gaman að mynda þau eins og folöldin sem stilltu sér upp hvert af öðru. Máni minn var sóttur á laugardag og settur í girðingu með reiðhestunum hennar Signýjar. Hann er víst haltur en ég þarf greinilega að skoða hans mál eitthvað nánar. Það lítur út fyrir að þetta verði síðasta sumarið hans gamla míns.

Ég er búin að auglýsa Dimmusoninn minn til sölu. Hann hefur fengið nafnið Ótti sem mér finnst bara ógurlega flott. Ég á eftir að gera almennilega sölusíðu hérna og þá skelli ég honum inn þar líka.
Flettingar í dag: 693
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 1019
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 189098
Samtals gestir: 25626
Tölur uppfærðar: 18.5.2024 21:37:34

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar