Mánaskál

20.01.2009 15:12

40 v + 1d

Bara að láta vita að það er ekkert að gerast.. ég og krílið erum bara að læra saman og mætum galvösk í skólann í kvöld.

Við hentum líka í eina köku áðan og bíðum spennt eftir að gæða okkur á henni emoticon þegar mann langar rosalega í eitthvað og ekkert "eitthvað" er til og maður nennir ekki út í búð.. þá bakar maður! og það má líka þar sem ég er ólétt og gengin framyfir svo núna má ég sko allt! Hlusta ekki á annað og fólk má bara passa sig ef það ætlar að fá eitthvað af þessari köku með mér! emoticon

Gulla í Hörgsdal bjallaði í mig í morgun.. sem minnti mig á það að ég hef ekki komið austur síðan í september sem bara gengur ekki! Litli ormurinn minn verður tekinn með á flakk um leið og hann verður skröltfær í sveitina. Vaka hefur það fínt, gengur úti með "stóðinu" og er gefið inni svo þau geta valsað inn og út eins og þau vilja. Ég átti nú svosum aldrei von á að það myndi væsa um hana
Það eru líka til þorrablótsmiðar.. ohh mig langar! En þar sem þorrablótið er 31. jan þá verð ég víst að játa mig sigraða held ég.. svona fyrst ég er ekki búin að unga út fyrir nokkrum dögum allavega. Ég vona að ég verði búin að þessu fyrir þorrablót.. en ég verð víst ekki ballfær þrátt fyrir það emoticon Ég verð bara að biðja Jenný að stinga smá hangikjöti í vasann handa mér! Mmmm..

.. ekki fleira í bili

19.01.2009 15:11

40 vikur

Jæja þá er þessi langþráði áætlaði fæðingardagur runninn upp emoticon Ég og ormurinn erum þó bara í rólyndisgír ennþá, ætlum ekkert að flýta okkur um of.. enda þolinmæðisfólk hér á ferð! hehe

Ég er aðeins farin að finna fyrir fyrirvaraverkjum. Ég var með svolítið duglega reglulega samdrætti í gærkvöldi og fannst alveg ástæða til að biðja Atla að hinkra með að fara að sofa allavega. Ég vildi fyrst sjá hvort það væri að styttast tíminn á milli samdráttanna. Æi svo var þetta bara allt eins svo við fórum bara að sofa, ég hef enga trú á að ég myndi sofa af mér fæðinguna svo það er alveg í lagi að fara bara að sofa, ég vakna ef eitthvað er að gerast í alvörunni. Ég er búin að vera bara spræk í dag, búin að sækja felgurnar hans Atla á enn eitt verkstæðið emoticon fara í Bónus, 10-11 og apótek og núna er ég hætt í bili held ég. Ég held að ég sé búin að kaupa allt sem mig vantar í bili.

Ég fór ásamt Lólý systir og mömmu í heimsókn til Ásu frænku í gær að skoða prinsana. Við fengum að gefa þeim pela og allt emoticon Þetta eru nú meiri stubbarnir, ógurlega sætir auðvitað og ég get ekki beðið eftir að fá mitt eigið barn til að dúllast í.

Við Atli fórum svo í gær pönnsukaffi til Sigga Vals og Steffí. Þetta var alveg rosa flott hjá þeim, eiginlega bara veisla. Ég og maginn minn vorum allavega rosalega sátt eftir þessa heimsókn. Þau koma svo bara næst til okkar að kíkja á krílið.

Skólinn er að byrja í dag og vonandi næ ég að sitja alla tímana í þessari viku til að ég viti nú hvernig áherslurnar eru fyrir þessa önn. Það er voða leiðinlegt að missa af fyrstu tímunum. Þessa önnina er ég í skólanum mán - fim svo það er einum degi meira en á síðustu önn en á móti er ég bara í einu fagi á þri, mið og fim svo það eru styttri fjarverur að heiman.. svona ef Atli verður heima til að hleypa mér í skólann þessa daga. Það er víst ansi hætt við að ég lendi æði oft í því að komast ekki í skólann þar sem Atli er fastur í vinnunni emoticon

Nóg slúður í bili.. læt vita af mér aftur á morgun

18.01.2009 12:35

39v6d

Ekkert að gerast enn.. allir geta verið rólegir áfram emoticon
Á morgun er 19. janúar semsagt dagurinn sem ég er sett. Eitthvað mun ég ganga framyfir sem er  bara allt í góðu. Krílið hefur það ofur gott, blóðþrýstingurinn og allt í góðum málum hjá mér. Ég á svo tíma í mæðraskoðun aftur næsta föstudag og það kemur bara í ljós hvort ég mæti í þann tíma eða ekki.

Ása frænka fékk að fara heim með prinsana sína á föstudaginn og hún og Konni eru að finna nýja taktinn í lífinu. Það er auðvitað engin smá breyting að vera allt í einu með tvo nýbura á sínum höndum allan sólarhringinn. Þetta gengur samt bara rosa vel og allir eru í skýjunum.

Petra frænka er enn ósprungin eins og ég og er að deyja úr spenningi. Mig grunar að hún sé farin að prufa allra handa húsráð til að koma sér af stað og verður spennandi að sjá hvenær allt gerist hjá henni emoticon

Atli og tengdó eru að fínisera íbúðina okkar. Það er allt að verða voða fínt. Verið að mála og hengja upp hillur og dót og þrífa. Allt er að smella á sinn stað og orðið rosa kósí inní svefnherbergi emoticon

Annars er fátt í fréttum.. þangað til næst..

13.01.2009 15:52

Tvíburarnir fæddir

Jæja tilkynningarskyldan hér..

Ég er enn ósprungin og allt við það sama en Ása frænka var sett af stað í gærmorgun. Ekki gekk þetta þó betur en það að prinsarnir voru teknir með keisara í gærkvöldin en öllum heilsast vel emoticon
Strákarnir komu í heiminn rúmlega tíu í gærkvöldi og vóu 11 og 11.5 merkur (man ekki alveg lengdina en mig minnir 46.5 og 48 cm).

Ég fór á spítalann í dag að heimsækja Ásu og nýjustu fjölskyldumeðlimina og smellti af nokkrum myndum í leiðinni.. það er líka búið að nefna strákana og þeir eiga þessi líka fínu nöfn..


Hér er Christian Arnþór







og svo Alexander Jens







meiri dúllurnar þessir guttar, rosalega duglegir strákar emoticon

Til hamingju Ása og Konni! .. og auðvitað ömmur og afar og allir hinir líka

.. þangað til næst..

11.01.2009 19:09

Styttist í krílið

Jæja ég er nú bara svona að láta vita að það er ekkert að gerast hjá mér. Ég er bara í rólegheitunum að sinna mér og heimilinu og krílið er alveg rólegt. Í dag eru 8 dagar í settan dag sem þýðir svosum ekki annað en að þetta er að styttast. Ég er alveg salíróleg og liggur ekkert á.

Síðasta mæðraskoðun kom vel út eins og alltaf og ég á að mæta aftur þann 16. janúar. Ása frænka verður gangsett í fyrramálið! Vá þetta er alveg að skella á! Að öllum líkum verður hún komin með prinsana sína tvo í fangið á morgun!! Ji hvað þetta er spennandi. Petra frænka bíður spennt fyrir vestan en hún er sett 23. jan og aldrei að vita hvenær hún fer af stað.

Skólinn er enn ekki farinn af stað en ég er búin að tryggja mér flestar bækur og bíð nú bara eftir fyrirmælum til að geta byrjað spretthlaupið. Það kemur sér vel að ég er búin að kynnast góðu fólki í skólanum og veit að ég er í góðum málum með aðstoð og glósur og svoleiðis þegar á þarf að halda. Ég geri ráð fyrir að fæðing erfingjans hægi aðeins á lærdómnum en þetta mun allt reddast emoticon

Við Atli fórum á smá fjölskyldu hitting með fjölskyldunni hans í gærkvöldi og skemmtum okkur mjög vel. Við komum heim undir morgun og kúrðum svo lengi frameftir emoticon  Atli fór svo upp í Kot með Svenna og Gulla að rífa sólpallinn. Við ætlum að fara norður með efnið og nýta það ma. í skemmuna fínu.

Á döfinni eru hreingerningar og meiri hreingerningar, norðurferð, lærdómur og fleira skemmtilegt. Einhversstaðar í röðinni mun krílið auðvitað koma í heiminn og það verður bara þegar það vill koma emoticon  Við verðum allavega tilbúin.

Ég ætla að vera dugleg að láta vita af mér á næstu dögum svo endilega fylgist með emoticon

05.01.2009 21:30

Kominn tími á blogg

Jæja núna er ég farin að slóra í blogginu...

Ég náði öllum prófunum! og þarf því ekki fara í nein endurtektarpróf í janúar. Ég verð nú bara að segja að ég er ansi stolt af mér fyrir að hafa náð að klára heila önn í fullu námi með fullri vinnu og kasólétt emoticon  Ég ætla bara að vera ansi ánægð lengi lengi hehe

Atli kom heim á þorláksmessu eins og til stóð og við áttum róleg og fín jól. Hann þurfti reyndar að fara út aftur á annan í jólum svo við fórum ekki austur í jólaboðið sem við ætluðum í. Í staðinn fór ég í mitt jólaboð í Flúðaselinu og fjölskyldan mín var bara mjög glöð með það emoticon  Alltaf gott að borða og blessað heita súkkulaðið hennar Önnu frænku.. mmmmmmm! Jólaboðið var með þessu hefbundna sniði, krónuleik og bingó.. þetta er sko bingósjúk fjölskylda!

Ég fór í sónar á aðfangadag þar sem krílið sat á bossanum í stað þess að vera komið í höfuðstöðu. Sónarinn staðfesti það sem við ljósan vissum og ég fékk tíma í vendingu á þriðja í jólum. Lólý systir fór með mér á spítalann þar sem Atli var í Miami að vinna. Merkilegt nokk þá gekk vendingin þrátt fyrir litlar líkur. Nú vona ég bara að ormurinn sé enn í höfuðstöðu og hafi ekki farið á eitthvað flakk í bumbunni.

Ég gerði mest lítið milli jóla og nýárs. Fékk einhverja flensudruslu með hálsbólgu og kvefi.. rosa gaman. Ég var voða mikið hjá mömmu í dekri og hún sá að mestu um að þvo barnafötin fyrir mig. Ég fór með allt til hennar þar sem við erum ekki enn búin að kaupa okkur þurrkara sem verður víst eiginlega nauðsynlegur þegar við verðum með lítinn orm á heimilinu.

Talandi um orminn þá er ég gengin 38 vikur svo þetta gæti farið að gerast hvenær sem er. Það er allavega víst að það eru hámark 4 vikur í erfingjann en vonandi eitthvað styttra en það samt. Ása frænka er ekki enn sprungin en verður sett af stað næsta mánudag ef prinsarnir verða ekki fæddir fyrir þann tíma. Petra frænka á Suðureyri er líka enn kasólétt og bara bíður eins og ég... ja eða við Atli.. ég veit ekki hvort okkar bíður meira emoticon

Atli kom svo heim á gamlársdag og við áttum fín áramót með tengdó og Tinnu og Garðari. Við spiluðum póker upp á Machintosh mola fram á nótt. Ég tapaði reyndar.. en það var samt ekki afþví að ég hefði étið alla molana mína!

Á nýársdag slepptum við matarboðinu hjá Siggu og Jóni og fórum norður í Mánaskál þar sem hrossin voru orðin heylaus. Það er alltaf jafn notalegt að vera í sveitinni og hrossin hafa gaman af okkur líka held ég. Sérstaklega erum við áhugaverð þegar við færum þeim rúllur emoticon  Atli dundaði í skemmunni sinni sem verður orðinn fínasti bílskúr áður en ég veit af. Hann er búinn að hengja upp fullt af ljósum og einhverjar pælingar eru í gangi með milliloft. Ég held að það séu allir sáttir á meðan hann finnur sér eitthvað til dundurs. Hann er líka duglegur á músaveiðunum en ég held að við þurfum að redda okkur einhverju almennilegu eitri til að klára þetta í eitt skipti fyrir öll.

Atli fór beint í vinnuna í gærkvöldi þegar við komum heim að norðan og kom svo heim í morgun. Ég er nú loksins hætt að vinna og gat því kúrt með honum í morgun í stað þess að þurfa að rjúka í vinnuna þegar hann er að koma heim emoticon Ég get þó ekki sofið jafn lengi og hann og læddist því um húsið eins og ég gat til að vekja hann ekki of snemma. Ég forðaði mér bara út á endanum þar sem þetta gat bara endað með því að þyrnirós vaknaði. Allt sem mig langaði að gera þýddi einhver óhljóð. Ég er búin að gera langann lista yfir það sem ég þarf/vil/ætla að gera en svo geri ég svo lítið í einu að ég verð að sjá til hvernig gengur með að klára listann. Ég er allavega næstum því búin að þvo allt sem viðkemur barninu. Það vantar aðallega að þvo og þrífa allt hitt!!

Ég náði að snattast svolítið í dag en maður líður fyrir það eftir á. Ég get eiginlega ekkert gengið.. nema að þetta tengist Smáralindinni beint frekar en röltinu emoticon Ég stunda þetta sem betur fer ekki alla daga svo þetta sleppur alveg. Reyndar ætlum við Ása í smá barnafataleiðangur á morgun en það verður bara gaman.

Ég á svo tíma í mæðraskoðun á morgun.. kannski þeirri síðustu úlala emoticon

Ég er svo að bíða eftir að skólinn byrji aftur en það eru nokkrir dagar í það enn. Ég þarf að vera extra dugleg og skipulögð til að eiga eitthvað inni þegar ég unga út erfingjanum. Ég geri ráð fyrir að það fari einhverjir dagar alfarið í það stúss svo skólinn mun sitja á hakanum á meðan. Þetta verður allt í lagi samt, sérstaklega þar sem þetta er svo snemma á önninni, ég fæ góðann tíma til að vinna upp efnið.

Annars er bara allt gott að frétta af okkur. Ég reyni að vera dugleg að blogga núna síðustu dagana svo fólk viti allavega hvort eitthvað er að gerast eða ekki. Ég skammast í öðrum fyrir að blogga ekki nóg og verð því að standa mig sjálf.

Þangað til næst..

23.12.2008 09:13

Jólin alveg að skella á

Jæja núna er Atli minn loksins kominn heim emoticon ohh það er svo notalegt. Hann er reyndar hálfslappur greyjið sem er ekki nógu gott en hann jafnar sig vonandi fljótlega.

Ég var rosa dugleg um helgina í jólageðveikinni, kláraði allar jólagjafirnar og pakkaði inn og alles! Þetta er örugglega í fyrsa skipti sem ég á enga gjöf eftir á þorláksmessu emoticon Mikið rosalega taka svona verslunartúarar samt á, ég er ekki búin að þrífa eða skreyta einu sinni. Maður liggur bara hálfdáinn í sófanum eftir svona leiðangra. Kraðak allstaðar, engin bílastæði, snjór og slapp og biðraðir á kassa.. iss þetta er ekki fyrir mig! En þetta er allt búið svo það er óþarfi að kvarta núna.

Ég fór í tékk á heilsugæslunni í gærmorgun. Ég fór í blóðprufur sem ég á von á að ekkert sé að, hitti ljósmóður og svo lækni. Ég er víst komin það langt að ég þarf extra eftirlit. Litla krílið okkar situr enn á rassinum og virðist ekki vera á því að snúa sér neitt. Ljósan hefur áhyggjur af því og við erum því á leið í sónar í fyrramálið og svo í framhaldinu á að reyna vendingu á mándaginn eftir jól þe. ef því dettur ekki bara allt í einu í hug að snúa sér. Spáið í þessu.. barnið er ekki fætt og maður er strax kominn í þann pakka að þurfa að vakna á morgnana.. meira að segja á aðfangadag! iss hvað er maður nú búinn að koma sér út í emoticon Við erum á leið á tónleikana hans Bubba í kvöld og svo þarf maður að vakna snemma í fyrramálið til að fara upp á spítala.. þetta er nú hálf ósanngjarnt. Ég slepp nú samt betur en Atli hugsa ég.. ég er ekki að fara að fá mér bjór emoticon Það verður bara flott jólagjöf að komast í sónar á aðfangadag held ég.. og hver veit nema að maður sjái óvart inn í "pakkann" emoticon 

Ég er enn ekki búin að þvo barnafötin sem ég tók frá til að hafa tilbúin. Það verður enga stund gert. Ég er nú líka ekki frá því að þau hafi brætt Atla dálítið emoticon enda ekki annað hægt! Sumt af þessu er svo pínulítið og endalaust sætt!

Ég er búin að fá út úr 2 prófum í viðbót og er bara sátt. Ég hef ekkert til að skammast mín fyrir. Núna er bara ein einkunn eftir en ég veit að hún verður ekki glæsileg, en ég ætla ekkert að hafa áhyggjur af því.. ég kem mér í reiknigírinn aftur á no-time og klára þetta í janúar!

Núna er ég bara að reyna að fá jólaandann yfir mig.. mér finnst nefnilega svo ótrúlegt að það sé þorláksmessa í dag og aðfangadagur á morgun. Ég vona að þetta komi allt í kvöld þegar við förum í þorláksmessugírinn emoticon

19.12.2008 22:23

komin helgi og jólin nálgast

Mikið er ég fegin að það er komin helgi.. það er bara erfitt að vera komin aftur í vinnuna. Ég á eftir að gera jólagjafainnkaupin og þrífa og fleira svo helgin er mjög kærkomin. Í gærkvöldi gerði ég huggulegt inni í svefnherbergi, breytti pínkulítið og er alveg farin að sjá fyrir mér barnarúmið. Ég held að það sé um að gera að breyta sem mest á meðan Atli er ekki á landinu svo ég fái nú að ráða einhverju hehe emoticon

Annars hef ég ekki heyrt í honum síðan hann var í London snemma í dag. Ég vona að allt gangi vel hjá honum. Flugfélagið týndi auðvitað töskunni hans með varahlutunum fyrir vélina en það má vona að hún skili sér til hans nægilega snemma svo hann nái að gera við flugvélina. Ég verð sko ekki sátt ef hann strandar þarna úti. Nákvæmlega það sama gerðist í fyrra og á sama tíma líka! Hann kom heim daginn fyrir þorláksmessu í fyrra og hafði þá tafist þar sem flugfélagið týndi töskunni með varahlutnunum! Merkilegt hvað það er hægt að vera óheppinn. Allir að senda góða strauma til hans emoticon

Í kvöld fór ég í gegn um barnafötin frá Lólý systir. Ég held að ég sé bara í ótrúlega góðum málum, það er örugglega ekki margt sem mig vantar. Ég er svo líka auðvitað með bæði stráka og stelpuföt sem gerir þetta enn betra emoticon  Nú þarf ég bara að koma þessu í þvott og strauja það sem þarf og hafa allt tilbúið í kommóðunni. Það eru einhverjir pokar og kassar uppi á lofti sem ég á eftir að fara í gegn um en ég gríp tækifærið næst þegar einhver er heima til að láta bera þetta niður fyrir mig.

Einkunn nr. 2 var að detta inn. Ég fékk 7 sem ég var ekki nógu sátt við en svo ákvað ég að það væri ekkert hægt að vera í fýlu yfir því. Ég get örugglega ekkert þrætt við kennarann og ég nenni því heldur ekki þar sem hún er bresk og er farin af landinu. Ég ætla bara að vera sátt við að vera búin að ná þessu fagi og þakka fyrir að þurfa aldrei að spá í þessu rugli aftur emoticon Þetta var með tilgangslausari áföngum sem ég hef setið. Svo á ég að fá út úr 2 fögum í næstu viku og þá er það bara bókfærslan sem bíður framyfir áramót.

Jæja núna ætla ég að henda mér fyrir framan sjónvarpið og setja tærnar upp í loft.. ahh já og kannski skrifa jólakortin sem ég gleymdi að skrifa í gær.. ég er víst orðin aðeins of sein með þau eins og alltaf emoticon  Adios

17.12.2008 09:19

Jólafrí

Jæja þá er kominn tími á smá fréttir af mér og mínum.

Ég kláraði síðasta prófið á mánudag og er bara mjög glöð að vera komin í jólafrí. Mér gekk í heildina mjög vel í prófunum þó svo að ég geri ráð fyrir að þurfa að taka endurtektarpróf í stærðfræði í janúar. Það var mjög mikil óánægja með þetta próf og það á eftir að koma í ljós hvort væginu á prófinu verði breytt til að hífa nemendur upp. Það þýðir þó ekkert að spá í það og ég bara stefni á að taka prófið aftur.

Fyrsta einkun er dottin inn og ég er bara mjög ánægð með hana. Svo vona ég bara að ég verði glöð með framhaldið líka. Líklega verða komnar 2 einkunnir í viðbót fyrir jól.

Við Atli fórum með Tinnu systur hans á Frostrósa tónleikana í Laugardalshöll síðustu helgi. Garðar var að syngja svo við fengum að fljóta með. Þetta voru rosa fínir tónleikar og sum lögin alveg ótrúlega flott emoticon

Linda Bergdís átti gullfallegann dreng þann 10. desember. Núna er sko allt farið af stað. Ása bíður spennt þar sem hún er næst í röðinni.. þar á eftir komum við Petra emoticon
Fæðingin hjá Lindu gekk rosalega vel fyrir sig, hún stóð sig eins og hetja stelpan og allt gengur eins og í sögu heima fyrir. Ég verð að láta fylgja með eina mynd af prinsinum. Hann er fæddur 16 merkur og 51,5 cm.


drengur Harðarson

Í hestafréttum er helst að Birta er farin norður. Ég fór síðustu helgi með Sissa að handsama Birtu og koma henni heim á bæ til að bílinn gæti sótt hana. Ég er nú ekki til mikilla afreka sjálf og Atli var að vinna svo Sissi bjargaði mér alveg. Ég er ekkert í standi til að labba langt, hvað þá í snjó. Við vorum voða heppin þar sem við gengum beint fram á hrossin við hlið meira að segja. Birta kom auðvitað og þáði smá brauð og lét mýla sig. Sissi gekk svo með hana heim á bæ.

Hestabílstjórinn var ótrúlega ragur að sækja hana upp í Kjós, það mætti halda að ég hafi beðið um að hún yrði sótt inn á hálendið! Svo hafði hann einhverjar áhyggjur af hálkunni.. bíddu.. var maðurinn ekki á leiðinni norður í land.. og er hann hræddur við smá hálku? Birta fékk allavega far norður enda ekki eftir neinu að bíða, hún er spræk og fín og lítið orðið eftir af sárinu, ég veit ekki hvort það koma hár yfir þetta eða hvort hún verði bara með smá ör á fætinum. Ég hef allavega engar áhyggjur af þessu.

Á sunnudagskvöld hringir Signý í mig og spyr hvort það geti verið að Birta mín sé komin norður. Jú jú það passaði allt. Þá stóð blessað hrossið við ristarhliðið við Skrapatungu, alein og yfirgefin! Hún átti að sjálfsögðu að fara inn í girðingu hjá mér til hinna hrossanna! Það er auðvitað alltaf möguleiki að hross fari út úr girðingum, Bylting hefði svosum geta verið vond við hana eða eitthvað svo ég hringdi bara í bílstjórann og spurði hann hvar hann hefði skilið við hryssuna. Svarið var mjög einfalt.. við ristarhliðið! Ég átti ekki orð! Afhverju í ósköpunum skildi maðurinn hana eftir þar?? Ég var auðvitað alls ekki sátt og krafði manninn um svör. Hann sagði að honum hefði fundist hann vera búinn að keyra svo langt, ég hefði talað um að þetta væri ekki mjög langt og hann taldi bara að hann hlyti að vera kominn! Halló halló, hann bara keyrði þangað til honum fannst nóg og henti henni út! Hann sagði að hann hefði verið seint á ferðinni og orðið dimmt, hann hefði séð ljós á einum bæ og talið að það hlyti að vera rétti bærinn og setti hryssuna út við ristarhliðið! Ég spurði afhverju hann hefði ekki hringt í mig ef hann væri eitthvað óviss með staðsetninguna og þá var hann víst með rafmagnslausann síma. Hann hefði þá átt að fara heim að einhverjum bæ og spyrja hvar hann væri og hversu langt væri að Mánaskál. Maður getur ekkert bara haldið að maður sé búinn að keyra það lengi að maður sé örugglega kominn á réttan stað.. og hvað þá að sleppa hryssunni út á veg! Ég átti bara ekki orð yfir því að maðurinn væri ekki búinn að sjá bæjarnafnið til að vera viss um að hann væri á réttum stað! Hann staulaðist eitthvað á því að ég hefði talað um ristarhlið og ó nei.. ég talaði um að setja hana inn fyrir rafmagnshliðið á afleggjaranum hjá mér! Urr.. ég var svo hoppandi ill að ég hélt að fæðingin færi af stað! Ég gerði manninum það sko ljóst að hann væri búinn að gera mér óleik þar sem ég væri í Reykjavík og það væri heldur betur mikið mál fyrir mig að fara norður til að leita að hryssunni og koma henni heim á bæ! Guð mætti nú vita hvert hún færi og hversu gott væri að komast að stóðinu væri heldur aldrei að vita! Greyjið maðurinn var akkúrat á ferð í Langadal þegar ég hringdi og hann skellti sér inn í Laxárdal til að skoða aðstæður.. þegar hann kom þangað var farið að dimma en hann hann vildi freista þess að ná henni og koma henni heim á bæ. Hann hitti einhvern sem var að vesenast í hrossum og fékk lánað beisli eða múl. Mér til mikillar gleði þá fann hann hryssuna þar sem hana bar við himinn á einhverri hæð og náði henni. Birta var svo bara teymd út um gluggann á bílnum heim að Mánaskál og ætti því nú að vera hjá stóðinu mínu í góðu atlæti. Þetta fór því allt vel á endanum en ég held að ég hafi sjaldan orðið svona reið! Ég er sko að skrifa þetta 3 dögum eftir að þetta var í aksjón svo það er kannski hægt að ímynda sér hvernig frásögnin hefði verið ef ég hefði skrifað þetta strax.

Pabbi fór líka norður síðustu helgi að gefa hrossunum fyrir mig. Þau voru smá stund að fara í rúllurnar samt. Bylting elti slóðina eftir pabba að rúllunum en svo gekk hún bara hringinn voða tortryggin og þorði ekki að láta til skara skríða. Bræðurnir voru ekkert að þessu veseni og fóru bara beint í kvöldmat þegar þeir áttuðu sig á því hvað biði eftir þeim. Bylting þorði þá auðvitað að fara líka. Ég held að það séu því bara allir sáttir í Mánaskál núna, Birta komin heim og nóg af heyi fyrir alla emoticon

Atli var að leggja af stað til útlanda í morgun. Hann var einmitt úti á nákvæmlega sama tíma í fyrra. Hann flýgur fyrst til London, þaðan til Prag þar sem hann á að vinna og svo þaðan til Miami til að vinna meira. Hann er svo væntanlegur heim að morgni 22. des emoticon  Það verður ósköp gott að fá hann heim aftur. Vonandi verð ég búin að græja allt fyrir jólin, þrífa og kaupa gjafir og pakka inn og allt það. Við erum búin að kaupa miða á þorláksmessutónleika Bubba og svo detta jólin bara inn þar strax á eftir. Við ætlum að vera í Hveragerði hjá tengdó á aðfangadag, svo er jólaboð hjá mömmu á jóladag og jólahittingur í Vík hjá fjölskyldunni hans Atla á annan í jólum. Ég er nú reyndar ekki búin að tilkynna fjölskyldunni þetta formlega, þe. að ég komi ekki í jólaboðið okkar á annan í jólum.. en svona áður en allir fara að æsa sig og hringja í mig.. þá kom Atli með mér í jólaboð í Flúðasel í fyrra á annan í jólum svo núna fer ég með honum austur emoticon

Í kvöld verða litlu jól hjá okkur frænkunum. Við ætlum að skiptast á pökkum og borða saman. Það er auðvitað alltaf gaman emoticon Ég hitti einmitt stelpurnar síðast á mánudagskvöld þegar Petra kom í heimsókn. Við erum nú meiri bumbulínurnar.. og auðvitað voru teknar myndir af okkur saman. Ég skelli kannski einhverju inn þegar ég fæ myndir sendar.
Ása bíður og bíður eftir dregjunum sínum. Ég er viss um að hún verði búin að fæða fyrir jól svo þetta eru bara einhverjir dagar í viðbót. Ég veit að hún fór í skoðun í gær en ég hef ekkert heyrt enn, svo ég geri ráð fyrir að það sé enn allt í orden hjá þeim.

Annars er fátt að frétta held ég.. núna þarf ég bara að skipuleggja mig til að klára jólasnúningana. Ég fór einmitt í smá leiðangur eftir vinnu í gær.. og það sem ég græddi á því voru grindarverkir, bakverkir og höfuðverkur.. æðisleg blanda emoticon Ég þarf greinilega að fara í skottúr á hverjum degi til að klára þetta, ég get ekki þrammað nema smá í einu.

Þangað til næst..

08.12.2008 22:28

Próftörn

Jæja þá ætla ég að leyfa mér að líta aðeins upp úr bókunum og blogga smá. Ég var í fríi alla síðustu viku og verð í fríi þessa viku og fram á þriðjudag vegna prófanna. Próftörnin byrjaði á fimmtudag í þarsíðustu viku og hefur verið stanslaus síðan þá. Ég tók 2 próf í síðustu viku, markaðsfræði og aðferðarfræði. Mér gekk mjög vel í báðum prófunum enda varla annað hægt miðað við undirbúninginn sem var lagður í þetta. Við vorum alltaf 3-5 saman að læra og skiptum með okkur köflum til að glósa og fleira í þeim dúr. Við stóðum vaktina frá morgni og fram á nótt flesta daga. Ég er búin að búa í skólanum í allan þennan tíma, hef réttsvo komið heim til að sofa. Strax eftir markaðsfræðiprófið voru næstu bækur opnaðar og undirbúningi fyrir næsta próf skellt í gír. Helgin fór svo öll í stærðfræðilærdóm. Ég fór ásamt fleirum í einkakennslu í stærðfræði á laugardags- og sunnudagsmorgun og svo var setið fram á kvöld yfir skruddunum. Í gærdag var ég svo slæm í skrokknum, með samdrætti og bakverki, að ég fór bara heim um sexleitið og lagði mig. Ég var farin að halda að ég færi af stað í stressinu. Ég ákvað því að fara heim og ná að slaka smá á og læra heima í rólegheitum til að ná mér niður. Atli sat svo með mér yfir stærðfræðinni til að verða 2 í nótt og hjálpaði mér. Alveg yndislegur þessi drengur emoticon  Í morgun fór ég svo upp í skóla og hélt áfram að læra fyrir prófið sem var kl. 2. Jáhh.. get ekki sagt að prófið hafi farið vel. Ég er fallin nema að prófið verði kært og allir hækkaðir um eitthvað í einkunn. Það er mikil óánægja með þetta próf, bæði þung og mjög langt. Ég held að það hafi bara 2 verið farnir þegar að próftíminn var búinn. Við vorum eitthvað um 40 í prófinu. Ég átti nú von á að mér gengi ekkert sérstaklega vel en ég átti ekki von á að engum gengi vel. Miðað við það sem ég hef heyrt þá verða endurtektarprófin í janúar ansi þéttsetin. Næsta próf er á fimmtudag og svo bókfærslan á mánudag. Eftir það ætti ég að geta slakað pínu á.. en þá bíður auðvitað blessaða stærðfræðiprófið ennþá emoticon Ég verð bara að krossleggja fætur og vona að ég nái að taka prófið í janúar.

Ég fór í gærmorgun eftir stærðfræðitímann í skottúr í Kjósina að kíkja á Birtu þar sem við komumst ekki inn í skólann strax. Hún lítur vel út og ég hef engar áhyggjur af sárinu hennar, þetta hverfur á endanum. Núna þarf ég bara að fá flutning fyrir hana norður.


"Ertu komin að kíkja á bágtið??"


Svo sæt hún Birta mín

Atli ætlar að fara noður næstu helgi og starta vetrargjöfinni fyrir "stóðið" okkar, þau verða örugglega rosa glöð emoticon  Atli hefði farið síðustu helgi ef hann hefði ekki þurft að vinna. Verst að ég kemst ekki með til að "hjálpa". Ég get reyndar ekki verið meira en félagsskapur eins og er en það er betra en ekki neitt emoticon

Það er allt með kyrrum kjörum hjá krílinu okkar. Ég er gengin 34 vikur í dag og þetta gengur enn fínt þó svo að síðustu dagar séu greinilega erfiðari en þeir hafa verið hingað til. Ég næ samt að sofa vel og hvílast, það er alveg að bjarga mér. Svo datt ég líka í hálku í dag við skólann.. slapp bara helvíti vel.. ekkert nema egóið sem slasaðist emoticon  Ég get nú ekki sagt að það sé alltaf vinnufriður fyrir krílinu enda er að verða ansi þröngt í bumbunni.

Á föstudag í þarsíðustu viku hittumst við kerlurnar í familíunni og borðuðum góðann mat. Fyrst við vorum þarna saman þá voru teknar myndir af okkur óléttu frænknunum.

Ég stal þessari mynd af síðunni hennar Ásu og ætla að birta hana án leyfis. Ása er fremst, gengur með eineggja tvíbura stráka og er sett 24. janúar. Linda Bergdís var sett 5. des og er að bíða og svo er ég sett 19. janúar. Petra frænka býr á Suðureyri og var því ekki með, hún er sett 20. jan.. við erum nú meiri frænkurnar.. þegar ein þarf að míga þá..



Ég skelli í leiðinni inn link á barnalands-síðunna hennar Ásu.



26.11.2008 09:53

Ferð í Mánaskál, próf og fleira

Nú eru öll verkefni og próf annarinnar búin og eftir þessa viku koma svo lokaprófin! Ég klára síðasta prófið 15. des og get ekki beðið! Eftir það ætla ég að einbeita mér að því að vera ólétt og hafa það gott og dunda mér í öllu því sem ég hef ekki getað gert hingað til. Jólaskrautið er komið í bæinn svo ég ætti að geta gert huggulegt fyrir jólin emoticon

Ég var í mæðraskoðun í morgun, enn lítur allt vel út og ég get ekkert kvartað að ráði. Auðvitað er lífið orðið eitthvað erfiðara en það er ekkert sem ég þarf að velta mér uppúr. Ég kemst enn fram úr rúminu óstudd, sef á nóttunni og get gengið án verkja. Ég er semsagt bara nokkuð sátt. Ég er nú samt hrædd um að prófin eigi eftir að taka toll, núna stend ég frammi fyrir mikilli lærdómstörn og ég á ekki endilega gott með að sitja lengi. Ég er búin að fá lengri próftíma svo ég geti staðið upp og teygt úr mér án þess að þurfa að skera það niður af eðlilegum próftíma. Svo mun ég sitja við bækunar allar stundir fram í miðjan des svo ég er hrædd um að þreyta fari að segja til sín. Núna á ég að fara í mæðraskoðun á tveggja vikna fresti og næst verður farið að skoða hvernig barnið snýr og svoleiðis. Ég er gengin rúmar 32 vikur svo það eru tæpar 8 eftir.. og þetta líður hratt!

Ég fór upp í kjós á laugardaginn að kíkja á Birtu, hún er bara sátt að vera komin út sýnist mér. Sárið lítur rosa vel út og ég fer bara að senda hana norður mjög fljótlega. Hún var ekkert endilega vinsælust í stóðinu eins og gerist alltaf þegar ný hross bætast í hópinn en það var samt ekki búið að éta hana emoticon

Atli og Siggi Vals fóru norður á fimmtudaginn og löbbuðu um alla landareignina í leit að rjúpum. Þeir sáu fáar en náðu þó 3 fuglum. Ég og Steffý hans Sigga fórum svo saman norður á laugardaginn til strákana. Þegar við vorum að komast heim á bæ sá ég tófu koma hlaupandi og æstist auðvitað öll upp enda vel upp alin í þessum veiðimálum emoticon Ég gólaði á Steffý að stoppa bílinn og bakka og hún skildi bara ekkert hvað var að mér. Ég var búin að rífa mig úr beltinu, komin fram í glugga og farin að berja í mælaborðið ef ég man rétt! Ekkert gerðist nógu hratt. Ég hringdi heim og skipaði strákunum að koma. Við bökkuðum og lýstum á tófuna sem lá í grasinu, hún fór svo af stað upp á veg og við eltum hana smá spotta áður en hún fór út af veginum hinum megin. Við stoppuðum bílinn við hana og lýstum á hana meira, hún lagðist niður en fór svo fljótlega af stað aftur. Á endanum hljóp hún í burtu og ólétta ég gat ekkert gert. Steffý skildi bara ekkert afhverju ég var með þessi læti, afhverju ég hringdi í strákana, afhverju þeir ætluðu eiginlega að koma eða bara hvað var að gerast! hehe.. svona er ég nú geðveik emoticon  svo var ég ótrúlega spæld að hafa misst af henni og ég er búin að panta byssu fyrir mig! Mér finnst auðvitað ekki ganga að ég hefði geta skotið hana oft sjálf þó að ég hafi enga reynslu því hún var bara alveg við tærnar á okkur.

Hrossin hafa það enn bara gott en þau verða nú komin á gjöf fyrir jól. Aldrei að vita nema að þau fái rúllu nú um helgina. Ég sé enga ástæðu til að spara heyjið ofan í þau ef það á að fara norður hvort sem er. Það þarf nú líka að passa að sparigrísirnir byrji ekki að léttast. Bylting er feitust sem kemur ekkert á óvart. Myrkvi og Drungi eru ekki jafn feitir en fínir samt, þó vil ég alls ekki að Myrkvi grennist neitt, mér finnst hann aldrei nógu feitur.

Atli stefnir á að fara norður um helgina og sjálfsagt fara einhverjir gaurar með honum. Núna er síðasta rjúpnahelgin og vonandi verða þeir eitthvað varir allavega. Svo myndi þeim ekki leiðast ef tófan kæmi í heimsókn emoticon Ég verð aftur á móti í bænum að læra undir próf en ég svindla samt á föstudaginn en þá fer ég á jólahlaðborð með bankanum.. nammi namm emoticon

Ég er aðeins búin að dunda mér í síðunni eins og sést, komið annað lúkk og svona. Ég bjó til ný myndaalbum af hrossunum og breytti hestahluta síðunnar líka. Ég geri ráð fyrir að fikta eitthvað meira í henni á næstunni en það verður ekkert fyrr en í janúar samt held ég.

Búin að blaðra nóg í bili..þangað til næst

20.11.2008 11:05

Draumatófan - Birta farin út

Þessi vika líður rosalega hratt, helgin er bara alveg að skella á!

Við Atli fórum í gærkvöldi með Birtu upp í Kjós. Hún var komin með grænt ljós frá Björgvini að mega fara út en þyrfti að vera undir eftirliti í einhvern tíma. Ég vona að ég fari bara norður með hana mjög fljótlega og þarf bara að kanna með ferðir. Ég held að hún hafi bara verið glöð með að vera sleppt, allavega fór hún beint á beit og ekkert vesen. Sársvöng örugglega þar sem ég tók hana úr kvöldgjöfinni. Við skildum hana bara eftir í myrkrinu aleina, það eru nú hross í girðingunni sem hún hefur sjálfsagt fundið þegar hún hefur gefið sér tíma í að taka kjaftinn upp úr jörðinni. Hún er alltaf jafn yfirveguð og meðfærileg, labbar upp á kerru eins og ekkert sé og er algjörlega til friðs.

Á heimleiðinni mættum við tófu.. nánar tiltekið stórri hvítri tófu í vetrarfeldi.. sem er einmitt draumurinn hans Atla! Til að gera langa sögu stutta þá hvílir tófugreyjið nú í frystikistunni okkar og bíður þess líklega að vera stoppuð upp. Atli er voða kátur með fenginn og náðist varla brosið af honum fyrir svefninn emoticon Það er ágætt að svona hestastúss ferð á mínum vegum getur verið skemmtileg líka. Sjáið nú hvað ég er ótrúlega góð og skilningsrík kona.. kerlurnar í vinnunni hefðu ekki sko sætt sig við tófu í kistunni! emoticon

Atli er svo á leið norður í Mánaskál í dag með Sigga Vals. Þeir ætla að reyna við rjúpu og veður spáin virðist vera þeim hliðholl. Svo kom líka upp úr krafsinu í gærkvöldi að jörðin okkar teygir anga sína lengra en ég vissi og því eru mögulega góðar rjúpnalendur í sigtinu hjá strákunum. Líklega hef ég verið búin að heyra þetta áður en bara búin að gleyma því. Vonandi förum við Stefanía hans Sigga svo saman norður á eftir þeim á laugardaginn.. og að sjálfsögðu er ég búin að panta að það verði búið að elda og alles handa okkur þegar við kæmum emoticon

En helgin er víst ekki komin.. og það er nóg annað að gera hjá mér. Ég þarf að skila stóru verkefni í kvöld og öðru á mánudag þannig að ég þarfa að klára það fyrir helgina líka. Svo er próf á sunnudag/mánudag og spurning hvort ég rembist við það á sunnudagskvöld eða eftir skóla á mánudaginn. Þá eru verkefni annarinnar upptalin og ekkert nema lokaprófin sem bíða eftir mér.. jú fyrir utan hefbundna kennslu sem er í næstu viku.. skólinn er ekki alveg búinn! Eftir helgina verður semsagt "bannað" að tala við mig, ég verð þá komin í prófundirbúning og tek ekki gleði mína á ný fyrr en eftir síðasta prófið þann 15. desember. Tja.. eða gleði.. sjáum fyrst hvernig prófin fara!

Núna á ég bara eftir þessa viku og svo næstu í vinnunni og er þá komin í 2 vikna "frí"! Ohh ég hlakka mikið til emoticon

Meira næst..

18.11.2008 10:20

Vika 32 - fengið að láni frá doktor.is


# Barnið vegur 1,9 kg og lengd þess nálgast 30 cm

# Þvermál höfuðsins er 8,2 cm.

# Fitulagið undir húðinni þykknar og því breytist húðlitur barnsins frá rauðum yfir í bleikan lit.

# Táneglur vaxa

# Í sérhverri mæðraskoðun er fyglst með blóðþrýstingnum og athugað hvort þú hafir eggjahvítu í þvagi eða vaxandi bjúg. Þá er m.a. verið að leita að einkennum um meðgöngueitrun.


Það virðist aðeins vera farið að minnka leikplássið!

16.11.2008 22:26

Allt of langt síðan síðast..

Jæja nú er sko kominn tími á blogg og vel það.. allt of langt síðan síðast.

Það er svosum ekkert ógurlega spennandi að frétta. Við Atli vorum að koma heim að norðan úr rjúpna/hestaleiðangri. Það var nú frekar mikið skítaveður um helgina og ekkert spennandi að vera úti. Ég átti nú svosum ekki mikið erindi út, fór auðvitað og heilsaði upp á "stóðið" mitt og kíkti á beitina hjá þeim. Að öðru leiti var ég ekki til stórræða. Var bara inni að læra og dunda mér. Atli kíkti í rjúpuleiðangur á laugardaginn en græddi ekkert á því. Stóri rjúpnahópurinn sem við mættum á föstudagskvöldið var allavega ekki sjáanlegur. Atli dundaði sér eitthvað í skemmunni, hengdi upp fleiri ljós og svona. Þetta verður stórgóð skemma einhvern daginn. Ég er allavega búin að sjá að þetta verður nú líklega aldrei hesthúsið sem mig langaði í.. ætli það verði ekki eitthvað bíladót og þannig í skemmunni frekar.

Mýsnar eru búnar að vera að stríða okkur smá í kjallaranum, í síðustu ferð lokaði Atli fyrir músagatið í kjallarahurðinni og töldum við okkur í góðum málum.. núna sáum við að einhverjar hafa lokast inni þar sem þær voru búnar að reyna að naga sig út aftur emoticon Atli föndraði músagildru svo kannski verður músin bara öll fyrir næstu ferð.

Við gáfum hrossunum ormalyf í dag, Myrkvi var sá eini sem lét plata á sig múl í fyrstu tilraun. Hann var svo spenntur fyrir brauðinu að hann lét sig bara hafa það að vera mýldur. Tók svo ormalyfinu bara vel líka og þáði meira brauð. Drungi og Bylting prímadonna voru ekki sömu skoðunar, þau létu ekki mýla sig svo Bylting fékk bara samloku með ormalyfi og Drungi fékk nokkurn veginn sömu meðferð. Hann var þó eiginlega hálf mataður og fékk tæplega sinn skammt, hann var ekkert hrifinn af þessu áleggi á brauðinu. Þegar ég verð komin með fína rétt þá verður svona bras sko ekkert mál emoticon
Hérna koma svo nokkrar myndir frá helginni:








Og nokkrar úr síðustu ferð..











Það er sko meira en nóg að gera í skólanum hjá mér, ég held að ég eigi "bara" 3 verkefni eftir fyrir annarlok og svo taka við prófin. Ég verð í fríi vegna próflesturs frá 1. -16. des og hlakka eiginlega bara til að geta einbeitt mér að náminu. Svo ætla ég auðvitað að ná öllum prófunum, það þýðir ekkert annað en að vera jákvæður.

Eftir próf eru svo ekki nema 8 dagar til jóla emoticon Ég er nú bara farin að hlakka verulega til aðventunnnar og bíð í ofvæni eftir að heyra jólalög með Bjögga og Helga Björns svo einhverjir séu nefndir. Ég á töluvert af jóladóti sem ég var búin að fara með norður í geymslu. Ég ætlaði sko að taka það með suður í þessari ferð en svo bara gleymdist allt jóladótið, ég kíkti ekki einu sinni á það! Það verða nú svosum fleiri ferðir norður fyrir jól því það styttist jú í að "stóðið" fari á gjöf. Hrossin eru voða bangsaleg núna og rosalega góð lykt af þeim mmmmm..

Af Birtu er allt gott að frétta. Lilja tók hana með sér í hópferð til Björgvins dýralæknis í síðustu viku og daman má bara fara út á guð og gaddinn! Frábært! Hún þarf þó að vera undir eftirliti í einhvern tíma, bara til að vera viss um að þetta fari ekki að opnast. Lilja er búin að semja við Sigurþór á Meðalfelli fyrir mig og Birta fær að fara til hans í gæslu áður en hún fer norður í "stóðið" okkar. Það er mjög hentugt fyrir okkur þar semþað er stutt að fara ok kíkja á hana og heppilega mikið í leiðinni þegar maður fer norður með hana.

Krílið okkar stækkar og dafnar og sparkar enn í mömmu sína eins og ekkert sé sjálfsagðara emoticon Ég er komin 31. viku á leið og þetta er bara allt að hafast. Nokkrir dagar í slétta 7 mánuði! Það fer nú bara að verða ekkert eftir! Tíminn á allavega eftir að líða mjög hratt áfram, það er svo mikið að gera akkúrat núna.. verkefni, svo próf, jól, áramót og svo er bara kominn janúar! Ég vona bara að við verðum tilbúin þegar allt fer að gerast! Það er nú búðið að kaupa svona það helsta en ég held að það sé nú samt drjúgt það sem maður á eftir að reka sig á að vanti.

Mig langar að skjóta því að að hún Ylfa vinkona er loksins komin með heimasíðu www.123.is/njalsgerdi svo endilega kíkið á hana. Hún verður vonandi dugleg að blogga og svona svo maður sjái hvað hún er að brasa í hrossunum.

Ég held að ég hafi fátt annað að segja en þó er örugglega eitthvað að gleymast.

28.10.2008 11:04

Ferð í Mánaskál og fleira

Jæja tíminn flýgur áfram.. núna er október að verða búinn! Ég er komin rúmar 28 vikur á leið, rúmlega 6 mán. svo þetta er allt að styttast. Litla krílið mitt er ansi fyrirferðarmikið á köflum og minnir reglulega á sig í bumbunni emoticon Mér líður bara ósköp vel þrátt fyrir auka þyngslin og allt það. Ég er alveg fær í flestan sjó ennþá og læt ekkert stoppa mig sem þarf ekki að gera það. Atli er líka voða voða góður við mig og passar upp á að ég fari mér ekki að voða. Ég fæ svo mikla athygli þessa dagana og endalaus knús að ég verð örugglega bara abbó út í litla barnið þegar það fer að stela athyglinni frá mér emoticon Mér finnst svo ósköp notalegt að fá alla þessa hlýju.  

Við Atli fórum norður í Mánaskál á föstudaginn þrátt fyrir frekar slæma verðurspá. Við vorum viss um að við yrðum á undan veðrinu og svo var óveðrið líka alveg á mörkunum að ná okkur í Mánaskál. Fyrst það var ekki útlit fyrir að það yrði ófært inn í dal ef það snjóaði þá fórum við bara alla leið og ferðin gekk vel. Við fórum meira að segja upp á bæjarhólinn sem ég sá ekki fyrir mér í fyrstu! Það var ótrúlega mikill snjór í lautinni og því átti ég ekki von á að við færum upp. En svona er nú nýji fíni jeppinn duglegur emoticon og ökumaðurinn auðvitað líka. Það er allavega ljóst að ég geri ekki mikið gagn hangandi á innréttingnum í skelfingu hehe. Ég er sko ekki mikil jeppamanneskja, það er nokkuð ljóst emoticon 

Það var skítaveður á laugardag, kalt og hvasst og skafrenningur. Við vorum samt aðeins úti og Atli setti niður nokkra staura. Já.. einmitt.. við vorum að girða í snjó og skafrenningi! Það sem hann gerir ekki fyrir mig og trunturnar! Alveg hreint yndislegur!! Hrossin þáðu brauð með þökkum og röltu með mér inn í nýtt hólf þar sem beitin er meiri. Það var misdjúpt niður á gras en grasið var meira að segja nokkuð grænt ennþá emoticon Hrossin líta vel út og hafa það ágætt enn sem komið er. Við opnuðum fyrir þau inn á suðurtúnið svo þau hefðu þar sjól fyrir kaldri norðanáttinni. Veðrið var mikið skárra á sunnudag, eiginlega bara ágætt. Atli kláraði þá að girða en rúllustæðan var girt af, svo verður bara að koma í ljós hvort sú girðing standi eitthvað upp úr eða hvort hún hverfur alveg. Það er allavega blússandi straumur á girðingunni svo ég efast um að hrossin fari viljandi að fara of nálægt henni.

Atli gat auðvitað ekki gert "ekki neitt" svo hann málaði líka ganginn uppi og reif fatahengið niður. Þetta er því bara orðið voða huggó, kominn nýr skenkur á ganginn og svo á ég öruggl. eftir að hengja upp eitthvað punt, myndir eða svoleiðis. Verst að það er mjög áberandi hvað gólfið er dapurt þegar það er búið að mála veggi og loft og gera fínt. Ég held að við hljótum að henda einhverju þarna á gólfið fljótlega. Ég held að það sé þó búið að ákveða að næst á dagskrá sé að steypa gólfið í kjallaranum.

Við komumst með þokkalega góðu móti út úr dalnum aftur en það hefði geta verið búið að skafa í erfiða kafla.. það reyndist nú vera ekkert sem við kæmumst ekki yfir í fyrstu tilraun emoticon

Atli er enn að skipta á Birtu fyrir mig.. enn og aftur gerir drengurinn allt fyrir mig og trunturnar! Ég var í skólanum í gærkvöldi og Atli fór því og sá um þetta. Hún er á batavegi og vonandi erum við að sjá fyrir endann á þessu. Það stendur til að selja hana þegar hún er búin að ná sér að fullu.

Atli var að vinna í alla nótt og kom ekki heim fyrr en eftir að ég var byrjuð að snooza emoticon það var auvðitað rosa gott að fá hann heim þó að ég hefði auðvitað kosið að fá hann mikið fyrr.
 
Ég fer til ljósunnar í fyrramálið, bara þetta standard tjekk. Ég á ekki von á öðru en að allt sé í orden. Ég á reyndar að fara í smá auka blóðprufur en ekkert stórmál samt. Svo var ég búin að ákv. að fara á eitthvað fæðingarnámskeið.. það hlítur að fara að styttast í svoleiðis emoticon jább.. alveg rétt það er víst ekki bara að styttast í krílið.. heldur í fæðinguna sjálfa! hehe Þetta verður ekkert mál, ég er ekkert kvíðin. Atli á eftir að standa sig eins og hetja og svo verður litla fjölskyldan saman heima í einhvern tíma.. bara notalegt emoticon

Ég er svolítið farin að spá í barnadót, hvað vantar og svona. Amma í Torfó kom þessu eininlega öllu af stað.. það er þá kannski bara henni að kenna ef ég næ ekki jólaprófunum sökum einbeitingarkorts hehe. Málið er að amma og afi í Torfó hafa gefið fínar gjafir þegar barnabörnin hafa átt sín fyrstu börn. Þau ákáðu að láta okkur bara hafa pening núna og leyfa okkur alfarið að velja eitthvað sjálf. Þetta varð til þess að ég fór að spá í það hvað ég ætti nú að kaupa sem væri þá frá þeim og boltinn fór að rúlla. Ég er allavega allt í einu orðinn fastagestur á auglýsingasíðunni á barnalandi og rata inn á heimasíður allra barnabúðanna í bænum emoticon Inni á stofugólfi hjá mér er kominn barnabílstóll og barnakerra og margt annað í býgerð. Ég frétti svo af því að Svenni og nokkrir aðrir hafi meira að segja verið að skoða og dáðst að nýju græjunni okkar um helgina.. kerran er víst með bjórhaldara og alles.. hehe.. meiri bjánarnir.

Annars er bara allt nokkuð við það sama. Brjálað að gera í skólanum og úff hvað ég hlakka til þegar þessi önn klárast. Þetta hefur verið rosa törn og ég hreinlega veit ekki hvernig jólaprófin mín fara. Ég er þó bara jákvæð og tek þá prófn bara aftur í ágúst ef ég þarf. Ég er allavega búin að panta prófafrí frá vinnunni og hlakka mikið til.. bara 4 vikur og 3 dagar þangað til ég verð komin í "skóla-orlof" en já vá.. hvað það er lítið eftir af önninni emoticon

Ég tók nokkrar myndir fyrir norðan sem ég reyni að henda inn í kvöld, annars er ekkert hægt að mynda þessi hross mín.. þau setja samasem merki á milli myndavélar og brauðpoka og koma um leið og þau sjá myndavél. Þau standa svo ofan í manni að maður getur ekkert myndað nema snoppuna á þeim.. Ég set samt örugglega eitthvað hér inn.

Þangað til næst..





Flettingar í dag: 89
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 303
Gestir í gær: 66
Samtals flettingar: 300768
Samtals gestir: 37197
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:26:41

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar