Mánaskál

06.10.2011 22:13

Haustið er komið

Ég held að haustið sé bara mætt til mín í Laxárdalinn. Allavega eru fjöllin grá dag eftir dag, rigningar og rok.. já ég held að ég geti sagt að haustið sé komið. Atli hefur verið að heiman, og það er ekki að spyrja að því.. alltaf er hann þar sem veðrið er töluvert betra. Við Þórdís erfum það nú ekki við hann lengi þar sem það verður nú gott að fá kallinn heim.

Þórdís Katla er búin að vera lasin en þetta byrjaði í síðustu viku þegar hún fékk einhverja flensu, hún varð eiginlega aldrei alveg góð og var svo komin með eyrnabólgu um helgina. Hún er þó orðin spræk núna og er farin að fara aftur í leikskólann. Í dag var leikskólinn reyndar lokaður eftir hádegi og þá voru góð ráð dýr! Ég er búin að vera með móral yfir því að þurfa að vera fjarverandi frá vinnunni á meðan Þórdís Katla var lasin þar sem þetta þurfti akkúrat að hitta á sama tíma og Atli var að heiman. Svo þegar leikskólinn var með lokað í dag var ég orðin í klípu. Eftir nokkur símtöl og tilraunir til að redda deginum þá bjargaðist þetta í dag. Ein sem vinnur með mér er nefnilega amma bestu vinkonu hennar Þórdísar í leikskólanum og því var bara reddað að Þórdís Katla fékk að fara heim með Birgittu vinkonu sinni og leika við hana emoticon Þegar ég sótti Þórdísi eftir vinnu þá vildi hún auðvitað ekkert smá mömmu sína og vildi bara vera áfram hjá Birgittu. Eftir miklar fortölur var ljóst að þessi slagur yrði ekki unninn og var barnið því borið út argandi hehe. Það var greinilega rosalega gaman að hjá Birgittu emoticon   Þessar stelpurófur fá nú alveg örugglega að leika sér eitthvað meira saman síðar.

Við Þórdís Katla erum á leið suður á morgun til að sækja Atla. Við munum nú nýta ferðina í eitthvað skemmtilegt og gagnlegt og förum þar á meðal í smá hestaleiðangur í Grímsnesið. Týri kemur að sjálfsögðu með og fær eflaust að hitta einhverja fjölskyldumeðlimi. Týri hittir reyndar ekki Sömbu fjárhund í þessari ferð því mamma og pabbi verða ekki heima.. en í staðinn þá getur hann legið í bælinu hennar, étið nagbeinin og leikið með dótið hennar.. allt án þess að hún geti neitt við því gert! Greyjið Samban mín.

Af hestamálum er það helst að frétta að við erum búin að selja Byltingu. Hún er á leið til Þýskalands þessi dama og ætlar að eiga folaldið sitt á þýskri grund í vor. Ég sem var akkúrat farin að monta mig yfir "stóðinu" mínu sem var farið að stækka. En ég efast ekki um að ég verði fljót að fylla í skarðið og fá mér eitthvað annað í staðinn! Nú styttist líka í að Eðall litli fari til síns heima, rosalega líður tíminn hratt. Hann er ferlega sætur og forvitinn þessi kappi og ég efast ekki um að eigandinn verði ánægð með hann. Ég fór út í dag og tók myndir af Byltingu og hinum hrossunum en ég get ekki sett neinar myndir inn fyrr en Atli er kominn til baka með fartölvuna okkar.

Ég fór líka í smá leiðangur í dag á Neðri Mýrar en ég myndaði folöldin hans Einars. Hann fékk í ár nokkur fallega skjótt folöld undan Álfasteinssyninum Gimsteini frá Garðsá. Ég mun hjálpa honum að auglýsa þau á næstu dögum. Myndir koma eftir helgina!

Hestamannafélagið á Blönduósi er að auglýsa knapamerkin sem ég er búin að bíða eftir í 3 ár að geta tekið! Ég er búin að skrá mig til leiks og viti menn.. ég skráði Atla líka! emoticon  Núna fær strákurinn bara eitthvað gott undir hnakkinn og er sendur á reiðnámskeið takk fyrir. Mér finnst eiginlega verst að hvert námskeið sé kennt allan veturinn. Ég hefði nefnilega viljað ná tveimur námskeiðum á einum vetri. Fyrir mig hefði verið betra að taka þetta hraðar og koma tveimur námskeiðum að. Ég er auðvitað búin að vera að bíða í 3 ár eftir að geta komist af stað aftur og núna á sko að gera allan heiminn! hehe

Síðustu helgi skellti ég mér í næstu sýslu í stóðréttir og á ball. Ég var að fara í fyrsta skipti í réttirnar í Víðidalnum og það var bara ansi gaman. Ég sá mikið af myndarlegum hrossum en ég heillaðist þó mest að tveimur folöldum frá Stórhóli en það var fyrst og fremst liturinn sem greip mig. Annað var rautt með hring í báðum augum, leit hálf geðveikislega út! og hitt brúnt með stórt vagl í báðum augum og smá leist. Mér finnst þessi augu alveg meiriháttar emoticon
Ása María mætti á sitt annað stóðréttarball þetta árið og geri aðrir "ekki-hestamenn" betur! Við Elsa og Ása kíktum í smá party á þarnæsta bæ eða eitthvað þannig og þaðan var svo farið á ball í Víðihlíð. Geirmundur lék fyrir dansi og ég verð nú alveg að segja að hann hefur nú einhvern tímann mátt sjá fífil sinn fegurri. Ég held að ég mæli nú með því að forsvarsmenn réttarballsins skoði það að yngja upp skemmtikraftana. Hann var auðvitað alveg ágætur og jafnvel góður inn á milli en heilt ball af þessu var eiginlega aðeins og fannst mér. Svo er ekki að spyrja að því að á sunnudegi var ég bara hress og spræk og fór snemma heim að taka við barninu mínu sem fékk ömmu Sveinbjörgu og afa Gunna í heimsókn til að leika við sig heila helgi! Ekkert smá heppin.

Þetta blogg er alveg myndalaust en ég bæti úr því fljótlega eftir helgina en þá get ég farið að tæma myndavélina mína. Nýtt blogg kemur von bráðar emoticon

24.09.2011 12:08

Réttir og fleira skemmtilegt

Það er alltaf nóg að gera á haustin í sveitinni og það sama á við um okkur þó við séum ekki með neinn eiginlegan búskap.

Hérna voru réttir aðra helgina í september og við Þórdís Katla vorum einar heima í þetta skiptið. Við kíktum í réttirnar og sjáum fé og fólk.









Ég reið eins mikið út og ég gat fyrir réttir og milli rétta til að hafa reiðhrossin í einhverju formi fyrir stóðreksturinn í tengslum við stóðréttirnar í Skrapatungu. Ég fékk Alexöndru frá Njálsstöðum til að passa Þórdísi á meðan ég reið út og fékk dásamlega daga til útreiða. Greyjið Vaka mín fékk að vinna fyrir matnum sínum sem var stundum dálítið erfitt með öll þessi aukakíló. 

Sissi mætti til okkar á miðvikudegi fyrir stóðréttirnar og bardúsaði með Atla hérna heima á bæ. Ása María kom svo á fimmtudegi til okkar í smá upphitun fyrir helgina því við skelltum okkur í reiðtúr á föstudeginum. Ása fékk þá að prufa Rák sem ég hafði ætlaði henni í reiðina á laugardeginum. Hún reið hryssunni eins og herforingi og var eiginlega betur ríðandi en við Sissi á köflum. Rák er bæði rúm og viljug svo hún eiginlega skildi okkur Sissa eftir stundum emoticon Þó að Ása sé óvön og Rák viljug þá treysti ég henni fullkomlega. Ég get nú eiginlega ekki sleppt því að minnast á það þegar ég fór á kostum þennan föstudag. Mín var nefnilega að hjálpa Ásu að leggja á enda óvön manneskja á ferð. Það gekk ekki betur en svo að ég missti takið á móttakinu þegar ég var að reyna að girða og flaug afturfyrir mig og lá svo bara á bakinu emoticon Við gátum alveg hlegið svolítið af þessu! 

Á föstudagskvöldinu keyrðum við Drunga á kerru á Strúgsstaði í Langadal þar sem við vorum með þrjú reiðhross en aðeins tveggja hesta kerru. Við tókum svo Vöku og Rák með okkur á laugardagsmorgun. Allt gekk þetta eins og í sögu, við vorum tímanlega og veðrið með besta móti. Að vanda var vel mætt að Strjúgsstöðum enda er hópurinn alltaf að stækka sem tekur þátt í þessum viðburði. 


Þórdís Katla hestastelpa fékk að prufa öll hrossin áður en við lögðum af stað



Við Ása tilbúnar í slaginn


Sissi

Það var svo lagt af stað upp Strjúgsskarðið um tíu leitið. Upp skarðið er lengi vel ansi bratt fyrir hrossin og svo er brekkan líka bara endalaus. Þegar komið er upp mesta hallann heldur samt áfram aflíðandi brekka upp á við og manni finnst þetta ekki ætla að taka neinn enda.. allavega fannst Vöku minni það.. þó að ég hafi farið af baki og teymt hana hluta af brekkunni. 







Vaka svolítið móð eftir ferðina upp skarðið


Ása á Rák


Húsfreyjan á Mánaskál og Sissi í Kirkjuskarði


Séð frá Mánaskál

Við riðum bara heim að Mánaskál og létum það gott heita. Stóðið stoppar alltaf fyrir neðan bæ hjá okkur og það er svo stutt niður í rétt að mér finnst ekki taka því að fara lengra til þess að þurfa svo að ríða til baka. Í staðinn sprettum við bara af heima og njótum þess að horfa á stóðið og alla reiðmennina fara síðasta spölinn. Eins og sést örugglega á myndunum var sól og blíða, bara frábært veður!! Þessi ferð var bara frábær, allt gekk vel og veðrið toppaði þetta allt saman!


Komin í hlað. Sissi á Drunga


Sissi og Atli hafa það gott á hlaðinu og fylgjast með stóðinu


Gangnamenn


Njálsstaða fólk


Rúnar mættur í kaffi

Að þessu öllu loknu var auðvitað eldaður veislumatur en Sissi tók að sér að elda nautasteik ofan í okkur emoticon Svo fengum við barnapíu og bílstjóra frá Njálsstöðum og skelltum okkur á ball með Pöpunum á Blönduósi sem var stórgóð skemmtun.


Hjónaleysin á Mánaskál á balli.


Ása í góðum gír


Sissi og Dódó

Á sunnudeginum var réttað en fólk var eitthvað mis-hresst. Allavega fórum við Atli og Þórdís ein í réttirnar á meðan gestirnir sváfu. Við fengum svo góða heimsókn seinni partinn en Tryggvi sem vinnur hjá Icelandair kom í heimsókn. Hann er alltaf að smala í Svartárdal þessa helgi og kom nú og kíkti til okkar. Það er alltaf gaman að fá góða gesti en ég verð að nota tækifærið og minna á að það eru ansi margir sem enn eiga eftir að koma til okkar.. taki það til sín þeir sem eiga það emoticon Ég ætla nú ekki einu sinni að minnast á fólkið sem lét ekki sjá sig þrátt fyrir fögur fyrirheit alveg síðan á sama tíma á síðasta ári.. uss og svei emoticon

Að hrossunum er annars allt gott að frétta. Ég verð voða kát þegar ég lít út um gluggana og sé stóðið mitt.. ég á nefnilega allt í einu heilt stóð. Allavega lítur þetta út fyrir að vera orðið stóð, ég er með 9 hausa sem er það mesta sem ég hef haft held ég. Reyndar eru þarna tvö folöld og þar af eitt selt. Gríma fósturmamma hans Bratts er svo líka bara gestur en það er sama, stóðið er myndarlegt á að líta emoticon Í dag rifum við Atli undan reiðhestunum sem eru komnir í verðskuldaða pásu, Vaka var ekki svo heppin en hún á að koma inn fljótlega. Hún þarf ekki pásu núna þar sem hún er að koma úr óverðskulduðu árs fríi. Ég geri ráð fyrir að hún verði inni fram á vor en fær einhverja pásu samt í kring um áramót geri ég ráð fyrir. Svo þarf ég að velja fyrir hana einhvern fínan hest því ég ætla að gera aðra tilraun við að halda henni næsta vor. 


Vaka er búin að leggja heilmikið af en á samt langt í land!





Drungi minn er búinn að vera lengi á járnum og á svo sannanlega skilið að fá frí. Kannski tek ég hann bara seint inn meira að segja, en er farin að hlakka til að taka hann inn aftur.





Bylting er fylfull og verður úti í vetur. Ég geri svo ráð fyrir að taka hana undir hnakkinn eftir það ef hún verður ekki farin til nýrra eigenda.





Eðall er seldur og fer til nýs eiganda í kring um áramótin. Hún verður eflaust lukkuleg með hann.



Hugsýn er vonandi fylfull við Abraham frá Lundum II en hún var sónuð með fyli. Ég læt hugsanlega sóna hana aftur til að vera viss því mér fannst hún vera í hestalátum hérna heima rétt eftir að hún kom heim frá Abraham. Ég krossa putta og vona það besta!!

Við Þórdís Katla sóttum Grímu og Bratt á Þingeyrar fyrir stuttu þar sem hún var hjá Vita frá Kagaðarhóli. Það gekk eins og í sögu að koma þeim upp á kerru enda er Brattur svo spakur og meðfærilegur að hann var bara settur upp á kerruna til hennar. 
Það var rosalega gaman að fá Bratt litla heim og hrossin tóku vel á móti þeim. Það er bara gaman að fylgjast með þessum litla sæta hesti.









Þórdís Katla vex og dafnar og hefur það gott í sveitinni. Hún er dugleg á leikskólanum og fór meira að segja í gær í göngutúr með stóru deildinni. Hún er víst að stækka þessi elska.






Þórdís Katla er orðin rosalega dugleg að hjóla

Atli er á fullu að vinna í heima rafstöðinni. Hann er byrjaður að prufa og þetta virkar allt sem skyldi. Okkur til mæðu kom í ljós að gömlu rörin sem við erum að nota eru meira skemmd en við áttum von á og það þarf eitthvað að gera í því. Atli er þessa dagana að reyna að laga rörin svo við getum komið stöðinni af stað. Annars þarf að kaupa helling af rörum i viðbót og fara í framkvæmdir við að sjóða þau saman og koma þeim í jörðina. Versta er að það kostar ansi marga peninga!! Ég krossa putta og vona að Atli nái að laga gömlu rörin. Ég ætla að taka myndir af þessum framkvæmdum öllum á morgun því það er löngu kominn tími til að sýna myndir frá aðaláhugamáli húsbóndans, það hafa víst ekki allir áhuga á truntum á þesum bæ emoticon

Það er semsagt bara allt gott að frétta af litlu sveitafjölskyldunni. Ég er að reyna að komast af stað í lokaverkefninu mínu, það er bara eitthvað svo erfitt að byrja. Vonandi kemst ég svo á fljúgandi skrið og klára þetta fyrir áramót. 

Fullt af nýjum myndum í myndaalbumi!!

05.09.2011 22:21

Hundalíf

Núna hef ég tíðindi! Haldið þið að það sé ekki kominn hundur á heimilið. Núna er sko gaman hjá minni J Ég keyrði Atla suður á laugardaginn og sótti mér eitt stykki hund á bakaleiðinni. Þetta er enginn annar en Leiru Þórshamar Týri, gamall vinur okkar Skellu. Hann er orðinn 10 ára og sárvantaði heimili og mig "sárvantaði" hund. Týri lætur eins og heima hjá sér og virðist kunna vel við sig hérna. Mig minnir nú að hann hafi komið með mér hingað norður fyrir nokkrum árum en hann man nú varla eftir því.  Ég skellti mér í reiðtúr í gær og tók Týra með sem hafði bara gaman af því. Hann var stilltur og hlýddi vel. Eftir reiðtúrinn var hann látinn þorna niðri eins og alvöru sveitahundi sæmir áður en hann fékk að koma upp að skoða slotið. Týri svaf eins og engill i nótt, ekkert væl eða vesen á honum svo ég held að honum líði bara ágætlega hérna hjá okkur.  Svo finnst honum gott að borða og mér leiðist ekki að gefa matgæðingum að borða en ég lofa að passa mig. Hann er nefnilega nánast hringlóttur nú þegar J


Týri var svo einn heima í dag á meðan við Þórdís vorum í vinnu og leikskóla. Hann var því eðlilega mjög ánægður að sjá okkur þegar við komum heim. Þar sem Týri var búinn að vera einn allan daginn drifum við okkur út í girðingavinnu svo Týri gæti notið sín úti.  Svo stendur til að færa skjóttu hryssurnar í grasmeiri girðingu á morgun fyrst ég er búin að tjasla saman girðingunni
J Það eru næg verkefni hjá okkur Þórdísi og Týra um þessar mundir. Týri þyrfti bara að geta passað Þórdísi fyrir mig á meðan ég ríð út, þá væri þetta fullkomið.


Þórdís Katla fékk far í hjólbörunum


Þórdís vildi líka vera á myndinni!



Í dag var fyrsti vinnudagurinn þar sem ég var alein í nýja starfinu en nágrannakona mín frá Sturluhóli var að koma mér inn í ýmis mál áður en hún hverfur af landsfjórðunginum. Ég er mjög spennt fyrir vinnunni minni og hlakka til að takast á við þetta. Semsagt ef ég var ekki búin að minnast á þetta áður þá fékk ég semsagt áframhaldandi vinnu hjá Greiðslustofu á Skagaströnd og fékk ný og krefjandi verkefni.

Svo styttist bara í réttir og göngur.. ég er farin að telja niður dagana í stóðréttirnar en ég er búin að vera að bíða eftir þeim síðan á mánudegi eftir stóðréttirnar í fyrra! Mæli sko með þessari ferð fyrir alla sem hafa gaman af því að ríða út emoticon

31.08.2011 21:18

Haustið er að skella á

Jæja þá er þetta sumar nú eiginlega á enda þó að haustið sé nú ekki alveg komið samt. Það er nú bara allt í lagi þar sem sumarið var gott að það er margt að hlakka til haustsins líka. 

Þórdís er alsæl á leikskólanum þó að það sé stundum erfitt að vakna á morgnana og sérstaklega erfitt fyrir mömmuna að þurfa að vekja hana. En við þurfum víst að mæta á ákveðnum tíma svo það er ekki í boði að kúra frameftir á morgnana. Atli fer líka snemma á fætur til að sinna störfunum hérna heima en þessa dagana er það rafstöðin sem á hug hans allan. Rafstöðin er orðin samsett í rafstöðvarhúsinu fyrir neðan bæ og framhaldið er mjög spennandi. Atli prufaði stöðina fyrir nokkrum dögum og gat notað hana til að kveikja á ljósaperu svo hún er allavega farin að skila rafmagni. Núna er unnið að því að koma rafmagninu inn í hús svo stöðin geti farið að kynda fyrir okkur emoticon Ég mun taka myndir af herlegheitunum og skella hér inn.




Þórdís Katla leikskólastelpa. 

Eins og flestir kannski vita þá kom tökulið frá sjónvarspsþættinum Landanum til okkar í þarsíðustu viku og fékk að vita aðeins meira um okkur og hvernig stóð á því að við fluttum af suðvesturhorninu og hingað í Laxárdal. Hér er auðvitað bara gott að vera og maður var farinn að eltast við að koma hingað í öllum frístundum og því var mjög freistandi að fara bara norður. Það er skemmtilegt frá því að segja að við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð við þættinum. Fólk hefur stoppað okkur á förnum vegi, hringt og sent póst. Fólki finnst þetta greinilega aðdáunarvert að ungt fólk taki svona ákvörðun og ansi marga hefur dreymt um að gera eitthvað í þessa veru. Atli er búinn að fá símhringingar um sjónvarpsskilyrði og rafstöðina og leiðist það nú ekki að fá fólk í heimsókn gagngert til að skoða rafstöðina hjá honum emoticon enda dálítið ánægður með gæluverkefnið sitt.

Hér er hægt að sjá þáttinn: http://www.ruv.is/frett/ungt-par-i-eydidal

Atli og Kolbrún flutt í vor og langar að koma sér upp smá bústofni.

Af hrossunum er allt gott að frétta. Drungi og Vaka eru komin heim eftir tvær ferðir yfir Kjöl. Drungi kom rosalega flottur til baka, ótrúlega spengilegur en Vaka auðvitað enn feit en þó var heilmikið farið af henni við hlaupin. Vaka var ekkert notuð en fékk bara að hlaupa með á meðan Drungi stóð sig víst vel í ferðinni. Núna styttist í göngur og stóðréttir svo ég tók mig til í dag og hreyfði öll reiðhrossin sem voru búin að fá smá pásu. Við þurfum að æfa okkur aðeins fyrir smölun svo ég geri mig ekki af fífli emoticon ég þvælist vonandi ekki mikið fyrir. Bylting, Eðall, Hugsýn, Rák og Fluga stungu af héðan um daginn en allt í einu var hliðið á girðingunni opið og þau nýttu tækifærið. Atli kom að þeim við Balaskarð en hryssurnar vildu ekki láta ná sér enda mjög gaman að spretta um dalinn. Daginn eftir voru svo Rák og Fluga mættar hér niður á veg og við stungum þeim inn í girðingu aftur. Hugsýn, Bylting og folaldið voru hinsvegar hvergi sjáanleg og ætluðu að njóta frelsins aðeins lengur. Tveim dögum síðar keyrði ég fram á Hugsýn og Byltingu og gat þá tekið múlinn af Byltingu en það var óþægilegt að vita af henni með múl á sér. Að því loknu ákvað ég að hafa ekki frekari áhyggjur af þeim og leyfa þeim að ganga frjáls fram á haust. Nokkrum dögum síðar voru þær svo bara mættar heim svo það var ekki annað hægt en að stinga þeim inn í girðingu aftur líka. Núna er semsagt "allt" stóðið á Mánskál heimavið, heil 6 hross plús eitt folald.Reyndar er Brattur Birtusonur enn að heiman með Grímu fósturmömmu og ég veit ekki alveg hvenær hann kemur til baka.

Síðustu helgi fengum við góðan hóp af fólki í heimsókn en það var búið að rukka ansi lengi um fjölskylduhátíð sem hingað til hefur verið nefnd Dalalíf innan fjölskyldunnar. Frænkurnar mínar komu í dalinn ásamt fríðu föruneyti og hér var slegið upp tjaldbúðum á hlaðinu, grillað, leikið og sungið og allir skemmtu sér frábærlega.











Mér heyrðist á hópnum að þetta yrði klárlega endurtekið enda var þetta bara gaman og veðrið var algjörlega á okkar bandi. 

Núna er ég farin að telja niður í stóðréttirnar sem verður örugglega rosalega gaman líka. Ég var að heyra að Paparnir myndu spila á balli aftur en ég hef ekki fengið það staðfest opinberlega, ég vona innilega að það sé rétt! Ballið í fyrra með Pöpunum var snilld emoticon Það verður örugglega fullt hús af fólki hjá okkur til að njóta helgarinnar með okkur og þar á meðal er Ása vinkona sem er algjörlega óvön en fór samt ríðandi með okkur í fyrra. Hún er svo kokhraust að hún ætlar að endurtaka leikinn! Hún er svo asskoti dugleg að leggja í þetta aftur! emoticon

Annars er allt gott að frétta af fjölskyldunni á Mánaskál.


16.08.2011 20:04

Heyskapur, kvennareiðtúr og fleira

Það er svosum ekki margt að frétta héðan úr sveitnni annað en það að sumarið líður allt of hratt! 

Heyskapur hófst þarsíðasta sunnudag og var búið að hirða allt á mánudeginum (8. ágúst). Einar á Neðri-Mýrum kom og rúllaði fyrir okkur eins og í fyrra og með í ferð var líklegur næsti ábúandi á jörðinni en Einar og Sonja eru að öllum líkindum að hætta að búa í haust.  Við Atli slóum svo sjálf og rökuðum. Mamma og pabbi voru hérna á sunnudeginum svo þau sáu um Þórdísi á meðan við Atli vorum bæði í heyskap á sitt hvorri dráttarvélinni emoticon Ég sló meira að segja Suðurtúnið sjálf og var það í fyrsta skipti sem ég stýri sláttuvél. Ég stóð mig ágætlega held ég, allavega var túnið slegið og allar vélar heilar á eftir. Reyndar þótti ég víst fara heldur geyst en það varð semsagt smá misskilningur okkar Atla á milli þegar hann gaf mér bendingu um "2" með fingrunum og taldi ég auðvitað að ég ætti að fara í 2. gír en hann meinti víst að ég ætti að passa að halda mig í ca 2 þús snúningum. Það þurfti ekkert að minna mig á 2 þúsund snúningana því ég mundi eftir þeim fyrirmælum en fannst það heldur erfitt að fylgja eftir þegar ég var komin í 2. gír líka!! Enginn sagði neitt fyrr en eftir á svo ég sló bara túnið á fljútandi siglingu og fyrir þá sem vita hversu óslétt þetta tún er þá getið þið bara ímyndað ykkur hversu ljúf sú ferð var! emoticon  


Atli að byrja að slá á Nesinu/Þríhyrnuna

og túnið fyrir neðan veg


Suðurtúnið.. Atli á gamla Zetor og Einar á aðeins nýrri græju



Gamli rauði Zetorinn hans afa var notaður í heyskapinn og nú virka meira að segja flestir gírar, meira að segja bakkgírinn líka. Við Atli fórum nú t.d. á sunnudagskvöldið niður á Nesið fyrir neðan veiðihúsið til að snúa og slá meira og ég klæddi mig vel enda kalt úti og hvasst. Þegar við erum svo komin niður á tún bendir Atli mér í áttina að gamla Rauð, sem er jú opinn traktor, og ég var steinhissa.. ég ætlaði sko að sitja inni í Ferguson með húfuna mína og vetlingana en hefði klárlega farið í kuldagalla ef ég hefði vitað hann ætlaði að vera herramaður og láta mig snúa á húslausu dráttarvélinni! Þegar ég var orðin hálf kalin og farin að kvarta undan kulda fékk ég að fara inn í vél til Atla og viti menn.. það var meira að segja funheit miðstöð í traktornum hans!! Atla var sko hent út á gamla Zetor með það sama og ég fékk miðstöðina emoticon 

Gamli fíni Zetorinn


Við Atli fórum í heilmikla hrossasnúninga þar síðustu helgi áður en við fórum í heyskapinn því við keyrðum Drunga og Vöku í Skagafjörð. Þau eru síðan þá búin að vera í ferð um hálendið yfir Kjöl. Ég heyrði í Hjalta um helgina og Drungi var búinn að standa sig vel en Vaka fékk bara að hlaupa með suður þar sem hún var ekki í ástandi til að bera meira en sjálfa sig sem var vitað fyrirfram. Hún verður kannski notuð eitthvað á norðurleiðinni í þessari viku. Í sömu ferð fórum við alla leið í Eyjafjörðinn og sóttum Hugsýn sem er fengin við Abraham frá Lundum og Atli er búinn að panta brúnskjótta hryssu sem er hans uppáhaldslitur, nema að hann sé búinn að breyta því í brúna hryssu því hann er sammála mér að brún hross séu alltaf flottust á keppnisvellinum. Allavega þá óska ég innilega eftir hryssu, sérstaklega þar sem við keyrðum svo langt með hana undir hestinn og hún missti fylið sitt síðasta haust. Nú er kominn tími til að verða heppinn. Á heimleið úr Eyjafirðinum sóttum við svo Byltingu og Eðal en Bylting er fengin við Álfgrími frá Gullberastöðum og verður spennandi að sjá hvað hún gefur okkur á næsta ári. 


Álfgrímur, rauðskjóttur blesóttur 1. verðl. sonur Álfs frá Selfossi og 1. verðlauna hryssu.

Bylting er svo til sölu ef einhver hefur áhuga. Myndir og upplýsingar um hana eru á síðu hér til hægri sem heitir hrossin og svo í myndaalbumunum. Nú ef hún selst ekki þá bíðum við bara spennt eftir fallegri skjóttri hryssu undan henni á næsta ári emoticon

Ég tók mig til í vikunni og myndaði Eðal aðeins fyrir nýja eigandann og setti myndirnar inn í myndaalbumið. Þetta er myndarlegur hestur með lausan gang og virðist nota tölt jafn mikið og brokk. Auk þess er hann mjög skynsemislegur og forvitinn og hún verður örugglega alsæl með hann á húsi í vetur. Reynar er hann nú svo greinilega móálóttskjóttur en ekki bleikálóttskjóttur eins og ég hallaðist að síðast. 




Þórdís byrjaði í leikskólanum Barnabæ á Skagaströnd síðastliðinn þriðjudag og það gengur eins og í sögu. Hún er mjög spennt fyrir því að fara á leikskólann og er stundum að biðja um að fara á leikskólann á kvöldin. Hún virðist hafa tekið þessum breytingum mjög vel og hún varla lítur á mann þegar maður er að kveðja hana á leikskólanum á morgnana. Svo gengur líka vel að hætta með bleyjuna, þetta er allt á réttri leið hjá okkur. 



Þórdís Katla sveitastelpa í heyskap


Alvarleg með strá í munni emoticon
Síðustu helgi var kvennareiðtúr hestamannafélagsins Þyts í Vestur Húnavatnssýslu. Við Elsa og Svala skelltum okkur í ferðina ásamt fleiri skvísum úr Víðidalnum og þetta var mjög skemmtilegt. Það er alltaf búningaþema í þessum ferðum og í þetta skipti var það ævintýraþema. Ég valdi að vera pocahontas og meira að segja saumaði mér búning takk fyrir! Ég sem aldrei tek þátt í neinu svona búningadóti sat og saumaði mér búning, fyrst með gömlu antík singer saumavélinni minni og svo í höndunum þegar Singer hætti að sauma. Úr varð þessi líka ágæti indjánastelpu kjóll og fléttur í hárið til að kóróna dressið. 
Ég tók Rák með mér í ferðina þar sem Drungi var á fjöllum með Vöku. Rák stóð sig mjög vel og var bara þrælskemmtileg í ferðinni. Vel viljug áfram og rúm á tölti og gaf yngri hestum ekkert eftir. Bara fínasta ferðahross þessi hryssa og örugglega bestu "kaup" sem ég hef gert. 

Myndir úr ferðinni eru væntanlegar en Elsa var myndasmiðurinn í ferðinni og ég á eftir að fá myndirnar hjá henni. 

Núna er ansi haustlegt hér fyrir norðan. Rigningarsuddi, vindur og frekar kalt. Ég hálf finn til með hrossunum mínum sem eru á Kili núna miðað við verðurspána út vikuna en kannski ætti ég frekar að vorkenna ferðamönnunum sem eru búnir að borga fyrir ferðina og fá þetta veður alla vikuna. Vonandi er bara ekki endalaus þoka hjá þeim svo þeir sjái nú eitthvað af hálendinu á leiðinni. 

Atli er á kafi í virkjanasmíðum. Núna er vatn farið að renna í gegn um rafstöðvarhúsið og hann er að leggja lokahönd á smíðin í kring um þetta. Það styttist því í að hann fari að pússla þessu saman niður í rafstöðvarhúsinu og þá fara hlutirnir að gerast emoticon Vonandi verður stöðin komin í gagnið fyrir veturinn. 

Um helgina kom hingað hópur í hestaferð með Fannar járningamann með meiru í fararbroddi. Ég var akkúrat í kvennareiðinni og missti af þessari heimsókn. Eitthvað heyrðist mér að ég hafi boðið upp á óþarflega mikla beit fyrir ferðahrossin en þau hafa örugglega bara haft gott af því að fá vel að éta eftir langt ferðalag. Þetta sýnir nú bara að ég eigi ekki nóg af hrossum fyrst hólfin mín eru vel loðin seinnipart sumars emoticon Ég vona að hópurinn hafi svo ekki villst í þokunni sem beið þeirra á sunnudagsmorgninum. Ég hef allaveg ekki frétt af hópi villtum hér á afrétti svo líklega eru Fannar og co komin á leiðarenda. 

Annað er ekki fréttnæmt í þetta skiptið held ég. Ég þarf að vera duglegri að taka myndir og reyni að bæta úr því á næstunni.


04.08.2011 19:15

Sumarið æðir áfram

Jæja, héðan er allt gott að frétta. Brattur og Gríma eru eins og blóðskyld mæðgin svo hér er tóm hamingja. Við keyrðum Grímu undir Vita frá Kagaðarhóli í fyrrakvöld fyrir hjónin á Lundum svo Brattur litli er farinn úr hreiðrinu. Hann hefur bara gott af því að víkka sjóndeildarhringinn. 

Atli er duglegur að dunda sér á daginn með Þórdísi Kötlu. Hún kemst svo vonandi fljótlega á leikskóla og þá getur Atli farið að demba sér í stærri verkefni. 

Atli er búinn að vera að keyra möl í hlaðið og taka til.






Við fengum Jóa frænda hans Atla og fjölskylduna hans í heimsókn um helgina. Það var mikið um að vera. Fjórhjólið hennar Þórdísar var sett í gang og Axel Hrafn fékk að fara eina bunu og Þórdís þar á eftir. Ekki er þetta nein rosa græja en krökkunum finnst þetta gaman.









Kartöflugarðurinn okkar er að verða myndarlegur þó lítill sé. Ég er farin að hlakka til að taka upp glænýjar og gómsætar kartöflur sem fara beint úr moldinni í pottinn eða á grillið! 


Heyskapur fer alveg að bresta á hérna, við sláum í seinna lagi þar sem okkur veitir ekki af allri sprettu. Vætan síðustu daga hefur gert mikið fyrir gróðurinn svo þetta lítur aðeins betur út nú en það gerði fyrr í sumar. Einar nágranni á Neðri Mýrum ætlar að binda fyrir okkur svo við erum líka að bíða eftir að hann komist í það verk fyrir okkur. Það verður spennandi að sjá hvað við fáum margar rúllur í ár. Atli er búin að vera að klappa gamla Zetor hans afa og líklega verður hann notaður í heyskapnum í ár! 


Hugsýn er fengin við Abraham frá Lundum, okkur til mikillar gleði þar sem hún lét fyli síðasta haust. Nú vona ég bara að hún haldið þessu fyli og kasti okkur hryssu á næsta ári í sárabætur. Bylting verður sónuð nú um helgina og vonandi er hún fengin. Ég er búin að fara aðeins á bak í þessari viku en þó aldrei eins mikið og maður ætlar sér. Rák, önnur gamla hryssan sem ég fékk í vor er að koma þrælvel út. Hún er ferlega skemmtileg í reið og maður fer eiginlega bara sparitúra á henni. Ég hef verið að teyma Vöku með þar sem hún er of feit og í engu formi eftir árs pásu. Rák skilur hin hrossin bara eftir, þau eiga ekki roð í hana. Ótrúlegur dugnaður í þessari gömlu hryssu sem mér skylst að sé 20 vetra. Svo er hún pínulítil og farin að grána í þokkabót, bara sæt. Vaka og Drungi eru að fara yfir Kjöl suður og aftur til baka. Þau leggja af stað næsta sunnudag en til stóð að þau færu þar síðustu helgi en þar sem vandræðin með Birtu stóðu yfir þá varð ekkert úr þeirri ferð. Þau verða því bæði á Kili þegar ég mæti í kvennaferðina í Vestur Hún þar næstu helgi. Ég tek bara Rák með mér í staðinn og það verður örugglega bara gaman. Myndavélin verður með í för!




27.07.2011 20:32

Myndir

Enn gengur vel hjá Grímu og Bratti. Ég var að setja myndir af þeim í myndaalbumið en ég læt nokkrar fylgja með hérna,


Gríma og Brattur komast út á tún í frelsið:


.. það var svo gott að komast út úr garðinum og finna sér stað til að velta sér




... og svo var hlaupið







Í kvöld fannst mér þau svo sæt saman hérna við lækinn að ég hljóp út með myndavélina og tók nokkrar af þeim saman. Það er gaman að þessari hryssu, hún er spök og þægileg í umengni en laus við frekju. Svo er hún líka hagaljómi, faxprúð og falleg og það er ekki laust við að mig langi bara ekkert að skila henni.

Brattur hvílir sig í öruggu skjóli Grímu







Annars er allt gott að frétta héðan úr Laxárdalnum. Verslunarmannahelgin fer að skella á og þar með kærkomin þriggja daga helgi þar sem síðasta helgi var alveg laus við það að geta talist frí. Ég vona að ég fái skemmtilegt útreiðaverður um helgina því til stendur að reyna að brúka reiðhrossin duglega. Ég hef ekkert farið á bak síðan Birta veiktist þar sem það hefur verið nóg að gera í því umstangi.

Þangað til næst.. bestu kveðjur úr dalnum


26.07.2011 16:20

Gríma og Brattur orðin sátt


Það gengur aldeilis vel að venja Bratt undir Grímu fósturmóður. Reyndar þurfti að venja Grímu við Bratt því hann vissi strax frá upphafi til hvers gagns þessi hryssa var, hún var bara ekki að skilja það emoticon

Aðfaranótt mánudags fór að draga til tíðinda þegar Gríma fór að sýna folaldinu blíðu á meðan það saug. Ég hélt niður í mér andanum til að skemma ekki fyrir og vonaði innilega að nú væri þetta að smella hjá þeim. Næst þegar ég fór á fætur til að koma folaldinu á spena ákvað ég að setjast aðeins við gluggann fyrst og fylgjast með þeim. Ég sá að folaldið reyndi að fá sér sopa eins og svo oft áður en hún var ekki alveg til í að leyfa það. Hann Brattur litli er nú bara svo ákveðinn að hann gerði bara strax aðra tilraun og fékk þá að fá sér sopa! Ég var þvílíkt spennt við gluggann að fylgjast með þessu. Ég fór ekki út þetta skiptið því núna var þetta að gerast, hryssan leyfði honum að fara á spena þrisvar sinnum á meðan ég horfði á. Ég ákvað að fara bara í bælið aftur og leyfa þeim að vera í friði. Næst þegar ég reif mig upp úr bælinu gerði ég það sama, fylgdist með út um gluggann og foldið var bara sí og æ á spena og Gríma bara sleikti hann emoticon Þessa nótt gat ég svo leyft mér að sofa aðeins.

Allur mánudagurinn gekk eins og í sögu. Hryssan leyfði folaldinu að drekka hjá sér og allir voru sáttir. Um kvöldið teymdi ég þau svo út á tún og sleppti þeim þar og það var ekki lítið gaman hjá þeim að komast úr garðinum í meira frelsi. Þau hlupu um og könnuðu svæðið og Gríma passaði vel upp á guttann. 

Þegar ég kom heim úr vinnunni í dag kom Brattur upp á hlað til mín, semsagt laumaði sér undir rafmagnsstrenginn og fór út úr girðingunni. Gríma var sko ekki sátt við það! Hún er greinilega búin að eigna sér þetta folald sem er frábært emoticon

24.07.2011 19:54

Birta fallin

Í þetta skiptið eru það engar gleðifréttir. Birta mín dó í gær eftir skyndileg veikindi. Aðdragandinn var stuttur þar sem hún virkaði eðlileg um kl 22 á föstudagskvöld. Um miðnætti fannst mér hún vera eitthvað undarleg ásýndar og fór að athuga með hana. Hún lá og var að reyna að velta sér og var eitthvað ómöguleg. Mér fannst hún vera eitthvað móð og ólík sér. Fyrsta sem mér datt í hug var hrossasótt og fór því heim og náði mér í múl og teymdi hana af stað. Hún fylgdi mér til að byrja með en svo var hún farin að veigra sér við að halda áfram. Hún lagðist svo á veginn og þá varð ég smeik um hana. Við Atli tókum ákvörðun um að hringja í dýralækninn á Blönduósi, hann reyndist vera í sumarfríi en ég náði svo loks sambandi við afleysingadýralækni sem var kominn til okkar. Þegar dýralæknirinn kom hafði Birta versnað að mér fannst, var greinilega mjög móð og hún skalf. Birta reyndist vera með háan hita sem benti til einhverrar sýkingar. Niðurstaðan var líka sú að hún væri stífluð. Hún hafði greinilega verið með drullu um kvöldið en dýralæknirinn var viss um að það væri eitthvað stíflað í meltingarveginum. Hann gaf henni verkjalyf og hitastillandi og svo þurfti bara að bíða og sjá til. Ef hún væri með hita á laugardagsmorgun þá hefði dýralæknirinn væntanlega rétt fyrir sér og sýkingin stafaði af því að gat væri komið á maga eða meltingarveg. 

Birta og Brattur voru sett í lítið hólf í garðinum, akkúrat undir eldhúsglugganum svo maður gæti haft auga með henni öllum stundum. Hún fékk teppi yfir sig en stóð bara og húkti og skalf. Það var lítill sem enginn nætursvefn þessa nóttina þar sem ég vaktaði hryssuna og fór á fætur á klukkutíma fresti þessa 2 og hálfan klukkutíma sem ég var í bælinu. Birta stóð allan tímann og húkti. Ég mældi hitann á henni um morguninn og það var eins og ég óttaðist, hún var enn með háan hita og því leit þetta illa út. 

Dýralæknirinn kom í aðra vitjun í hádeginu og gaf henni meiri lyf. Hún fékk sprautu til að slaka á meltingaveginum í þeirri von að eitthvað gæti komist af stað. Einnig var þrædd slanga í gegnum nefið á henni ofan í maga til að skoða magainnihaldið en það var ekkert óeðlilegt þar. Að lokum dældum við parafinolíu ofan í magann á henni til að reyna að smyrja meltingarveginn. Svo var það bara önnur bið.


elsku Birta mín sárlasin



Klukkan þrjú var Birta lögst og ekkert gekk að koma henni á fætur. Ég vildi þá fella hana þar sem ég átti von á að þetta væri töpuð barátta. Atli talaði við dýralækninn aftur en hann vildi bíða aðeins lengur og gefa henni meiri verkjalyf þar sem olían var hugsanlega ekki farin að skila sínu. Atli fór á Blönduós og sótti verkjalyf. Á meðan Atli var í burtu stóð Birta upp. Stuttu eftir að hann kom til baka og hafði gefið henni verkjalyfið datt hún og hún virtist ekki hafa mátt til að standa upp aftur. Birta stóð aldrei upp eftir það.

Brattur litli fékk að drekka hjá Birtu á meðan hún gat staðið en ég var að verða óróleg hans vegna þar sem ég var hrædd um að hún væri að mjólka lítið sem ekki neitt enda fárveik. Ég greip til þess ráðs að auglýsa eftir fósturmóður fyrir hann þar sem mér fannst engar líkur á því að Birta gæti hrist þetta af sér. Fljótlega eftir að ég auglýsti hringdi Ragna á Lundum II í Borgarfirði og bauð mér hryssu sem hafði misst folaldið sitt. Þetta fór svo þannig að um leið og Birta var farin þá fór ég af stað að sækja hryssuna en Atli fékk það erfiða hlutverk að jarða Birtu. Ég var mjög fengin að geta verið að heiman á þeim tíma. 

Hjónin á Lundum voru svo rosalega almennileg að þau keyrðu á móti mér með hryssuna. Hryssan heitir Gríma og er brún, 18. vetra myndarmeri. Hún leyfði Bratt ekki að sjúga sig svo við fórum út til þeirra eftir smá stund og héldum í múlinn á henni og stilltum Bratti upp við hana. Hann fór beint á spena og okkur var mjög létt. Hún var samt ekki alveg sátt við þetta en lét sig hafa það. Þau eru núna tvö saman í garðinum hjá okkur og við Atli förum út reglulega til að standa hjá Grímu á meðan Brattur fær sér sopa. Hann var ekki lengi að átta sig á því að um leið og við birtumst fengi hann að drekka svo hann fer vanalega bara beint á spenann um leið og við erum komin að hryssunni. 

Mér finnst Gríma vera að mildast gagnvart folaldinu og vonandi er það rétt. Hugsanlega þurfa þau nokkra daga saman svo hún taki hann alveg í sátt en hún leyfir honum ekki ennþá að sjúga sig þegar þau eru tvö ein. Hann gerir nú samt heiðarlegar tilraunir til að læðast að henni en hún sér við honum. Við allavega vonum það besta. Satt að segja þá verður þetta bara að ganga, ég höndla ekki að horfa á annað hross veslast upp. Þetta er með því erfiðara sem ég hef upplifað.




Brattur að fá sér sopa. 

Við þurfum ekki lengur að halda í hana, núna er nóg að vera hjá henni og við getum meira að segja farið frá henni og hann fær að halda áfram að drekka. Atli fór út áðan og fór svo inn aftur þegar Brattur var kominn á spena og hún leyfði honum að vera.



Ég verð örugglega með daglegar fréttir af gangi mála og vonandi verða þær bara jákvæðar. Eftir mjög mikla sorg í gær taka við ný verkefni við að halda lífi í folaldinu hennar Birtu. Ég get þá einbeitt mér að því og reynt að gleyma gærdeginum sem var ansi erfiður.

Fleiri myndir í myndaalbuminu


16.07.2011 23:18

Gestagangur og fleira

Það er alltaf nóg að gera í sveitinni hjá okkur emoticon Ég byrjaði í síðustu viku að vinna hjá Svæðismiðlun vinnumálastofnunar á Norðurlandi Vestra sem er á Skagaströnd. Mér líst bara vel á þennan vinnustað og það er gaman að fá tækifæri til að kynnast fólki hérna af svæðinu þar sem maður þekkir jú bara fólkið á allra nærstu bæjum hér í kring. Ég öfunda þó oft Atla og Þórdísi Kötlu að vera í bælinu þegar ég þarf að fara á fætur en að mörgu leiti finnst mér þægilegt að vera í rútínu. Þórdís er alltaf voðalega ánægð að smá mömmu sína seinnipartinn þegar ég kem heim og við reynum að gera eitthvað skemmtilegt saman.

Við Þórdís Katla að heilsa upp á Bratt

á hestbaki á Drunga

Við fengum gesti hingað síðustu helgi en Ása María vinkona kom í helgarferð ásamt frænku sinni Daníelu Dögg. Birta Huld frænka hans Atla sem býr í Svíþjóð kom einni á föstudaginn og svo komu börnin hennar Lilju vinkonu, Særós og Hafþór, snemma á laugardag. Ég held að allir hafi skellt sér vel hérna síðustu helgi. Veðrið var gott en aðeins vindur á laugardeginum samt. 


Allir að heilsa upp á folaldið


Allir að klappa Bratt, sem nýtur þess


Hafþór og Særós að prufa hrossin áður en ég teymdi undir Daníelu


Hafþór á Drunga



Hafþór á fjórhjólinu hennar Þórdísar.. aðeins og stór á það hehe


Þórdís komin á hjólið


Drungi 

Atli er alltaf að dunda sér eitthvað og hann er meðal annars búinn að smíða í kring um gluggana á framhliðinni. Húsið er alveg glæsilegt hjá honum, það verður sko frábært þegar við verðum búin að klæða það allan hringinn. Hann er búinn að vera í hreinsunarstarfi hérna í kring um bæinn og fleira sem kominn var tími til. Rafstöðvarundirbúningur er einnig í gangi og hann var einmitt að ganga frá þakinu á rafstöðvarhúsinu, þe. núna er komið torf á þakið. Þá er bara eftir að setja timburklæðninguna utan á það.


Fína húsið okkar.. já og glæsilegasti húsbíllinn á svæðinu!


fíni kofinn hans Atla!

Tinna, Garðar og Kormákur komu í heimsókn til okkar á miðvikudaginn og gistu eina nótt. Við Garðar fórum í smá reiðtúr og ég held að hann sé núna alveg veikur að fara að kaupa sér hest og byrja aftur í hestamennskunni. Mér líst bara vel á það enda heilbrigðasta og skemmtilegasta sportið sem maður getur valið emoticon Tinna labbaði með krökkunum alla leið upp í skálina fyrir ofan bæinn og viti menn.. Samba letidýr fór með þeim alla leið! Ég var varla að trúa því. Merkilegra er að hún hljóp svo líka á eftir okkur Garðari í reiðtúrnum.. ég hefði nú haldið að þessi hundur myndi nú deyja af svona áreynslu en nei það var sko ekki og hún var bara nokkuð spræk daginn eftir líka.

Atli er núna fyrir sunnan og var meðal annars að klára að smíða eitthvað fyrir rafstöðina. Núna held ég að hann fari að komast eitthvað áfram með það verk. Þetta er nú að mestu leiti komið hjá honum en það á eftir að pússla þessu saman inni í húsinu og svo auðvitað prufa græjurnar! Ég hlakka mjög mikið til að sjá hvernig þetta mun ganga því þessi rafstöð á eftir að mala "gull" fyrir okkur ef vel gengur. Svo kemur hann líka vonandi heim á jeppanum okkar sem var skilinn eftir fyrir sunnan í flutningunum.

Bylting og Hugsýn eru báðar að heiman hjá stóðhestum eins og áður kom fram. Ég hef ekki fengið neinar fréttir af þeim en er að spá í að fara að forvitanst hvort það sé búið að sóna eða hvort það sé að koma að fyrstu sónarskoðun í stóðunum. Ég vona innilega að Hugsýn mín haldi núna og það verði ekkert vesen. Ég ætla að hafa hana heima við fram á haust svo ég sjái ef hún gangi upp (sem vonandi gerist ekki). Ég er búin að selja folaldið hennar Byltingar en það er ekki áveðið hvað við gerum með Bratt Birtuson.

Ég reyni að vera dugleg að ríða út og ætla að nota tækifærið þegar mamma og pabbi koma til okkar að draga Atla með mér á bak! Við getum aldrei farið bæði nema við séum með gesti sem geti verið hjá Þórdísi á meðan. Það styttist í stóðréttirnar en ég er sko löngu farin að hlakka til! Ég fékk loksins myndirnar úr stóðréttunum í fyrra og er búin að setja þær í myndaalbumið en hérna er sýnishorn líka:




Kolla, Ása María, Sissi, Elsa og Siggi


Sjálf húsfreyjan á Mánskál


Kirkuskarð


Fengum æðislegt veður! Við stelpurnar bíðum eftir grillinu


Grillþjónusta Atla mætt á svæðið

Allar myndirnar og fleiri til eru í myndaalbuminu.

Bestu kveðjur úr sveitinni
Kolla og Samba "fjár"hundur


06.07.2011 22:06

Allt gott í sveitinni

Við Atli skelltum okkur á landsmót hestamanna síðustu helgi og skemmtum okkur konunglega. Gamli kamper klikkar ekki og það fór vel um okkur á tjaldstæðinu. Við vorum í góðra vina hópi og er ég sérstaklega ánægð með að hafa afrekað það að draga Elsu mina með á landsmót! Maður fer sko ekki að sleppa svona viðburður, bara nauðsynlegt að mæta og láta sjá sig og sjá aðra. Veðrið lék við okkur yfir helgina þó svo að það hafi ringt eitthvað aðeins, það er bara ekki hægt að kvarta, þetta var frábært! Það er svo æðislegt að sjá þessu flottu hross og hæfileikaríku knapa á landsmóti. Maður half skammast sín þegar maður sér barnaflokkinn þó við ræðum ekki um hina! Ekkert smá duglegir og vel ríðandi krakkar þarna á ferð á fyrstu verðlauna hrossum og yfirburða keppnisgæðingum. Ég tók örfáar myndir á LM og þær voru flestar úr barnaflokki, ég var alveg heilluð af þessum duglegu krökkum! Það er alveg ljóst að maður þarf að fara að leggja fyrir ef maður ætlar að eiga svona góð hross undir börnin sín.

 

Brattur Birtusonur braggast vel og það er bara ferlega gaman að hafa hann hérna heima við. Hann er farinn að þiggja klapp og knús og mér leiðist það sko ekki!! .. bara yndislegt að fara út í girðingu og kljást við hann.

 




Fleiri myndir í myndaalbumi

 

Ég var að ráða mig í vinnu og mætti bara daginn eftir galvösk í fyrsta vinnudaginn. Ég er farin að vinna hjá svæðisskrifstofu vinnumálastofnunar á Skagaströnd og aldrei að vita nema mér standi til boða áframhaldandi vinna þar eftir sumarið, svona ef við verðum ekki farin á vit ævintýra. Það var frekar sérstök tilfinning að fara á fætur í morgun (fyrir allar aldir að mér fannst!) og mæta í vinnu!.. jahá.. núna leið mér eins og ég væri í alvörunni flutt í sveitina því ég var á leiðinni í vinnu!

 

Greyjið ég sem að þurfa að vinna heilan vinnudag kom svo bara heim og sofnaði hehe.. maður er greinilega orðinn frekar góðu vanur þessa dagana! Ég reif mig svo af stað og fór í reiðtúr í blíðunni og naut þess í botn. Ég er nefnilega að "þjálfa" fyrir hestaferðinar sem við Elsa ætlum í núna í sumar.. svona ef hún drífur sig einhvern tímann í sumarfrí stelpan! Allavega er ég búin að frátaka aðra helgina í ágúst en þá er kvennaferð í Víðidalnum og við Elsa ætlum að mæta og mála þúfurnar rauðar (segir maður annars ekki þannig í sveitinni).

 

Samba "fjár"hundur er í pössun hjá okkur á meðan mamma og pabbi eru að húsbílast. Ég get nú ekki sagt að það sé mikið gagn af þessum hundi.. hún gat ekki einu sinni rekið rolluna í burtu sem labbaði yfir hlaðið fyrir framan nefið  á henni hehe. Skella mín hefði nú ekki látið bjóða sér það án þess að láta í sér heyra. Samba er líka óttarlega hrædd við hrossin en hún hefur svosum ástæðu til því Birta og Vaka eru búnar að gera fleiri en eina tilraun til að drepa hana síðustu daga.. vúps! Samba kann sem betur fer að hlaupa og lætur sig hafa það að hlaupa ofan í skurð ef það er það sem þarf hehe

 

 

Þórdís Katla hefur það gott eins og sveitaprinsessum sæmir. Hún er að verða bleyjulaus, þetta er svona allt í áttina allavega.. þó að ég geti ekki alveg sagt að hún sé orðin húshrein. Allavega fann ég stykki í sjónvarpsherberginu sem ég er nokkuð viss um að kom ekki úr hundinum!! Hún er nefnilega úrræða góð hún Þórdís Katla, hún hefur væntanlega gert nr. 2 í buxurnar.. og svo bara sturtað úr þeim og haldið áfram að horfa á Dóru sína.. smekklegt! Það verður opinn gæsluvöllur á Skagaströnd núna í nokkrar vikur og ég ætla að leyfa henni að fara þangað í nokkra daga og leika sér við önnur börn. Ég hugsa að það verði kærkomi þó svo að hún unni sér ótrúlega vel með okkur Atla í okkar daglega lífi. Hún er svo frábær þessi stelpa, við getum ekki sagt að við þurfum að hafa mikið fyrir henni. Þar sem það er að ganga erfiðlega að fá hana til að gera nr. 2 í salernið hefur ýmislegt verið reynt.. s.s. bíósýning á Dóru á kamrinum!

 

 

Skyggnir minn Byltingarsonur hefur verið endurnefndur og fær nafnið Eðall og er seldur. Ég er svo með á sölusíðunni myndarlegann gelding sem fæst í skiptum fyrir hryssu, má vera ung eða gömul. Endilega hafa samband ef þið hafið eitthvað í skiptum eða vitið um einhvern sem gæti mögulega haft eitthvað.


Fleiri myndir áttu að fylgja blogginu en netið er frekar hægt svo þetta gengur hægt fyrir sig. Restin af myndunum skilar sér inn á morgun en annars eru þær allar að detta inn í myndaalbumið núna. 

 

Góðar stundir kæru vinir

 

 

 

 

28.06.2011 10:43

Birta köstuð

Allt gott að frétta úr sveitinni þrátt fyrir að veðrið sé ekkert spes. Sissi kom í heimsókn til okkar á föstudaginn og ætlar að vera hjá okkur fram að landsmóti. Kamperinn er orðinn tilbúinn undir landsmótið svo ég er ekki frá því að maður sé að verða smá spenntur. Mamma og pabbi koma í Mánaskál fyrir helgina og verða með Þórdísi fyrir okkur svo við verðum barnlaus og alles emoticon

Birta mín kastaði i fyrrakvöld rauðstjörnóttum hesti. Við horfðum á hana kasta og þurftum að grípa inn í þegar annar framfóturinn kom ekki með. Hinn fóturinn var kominn alveg út og hausinn líka en enn hékk folaldið fast. Það kom sér vel hvað hún Birta mín er spök og fín því það var ekki einu sinni settur á hana múll þegar við hjálpuðum folaldinu út.








Þessi sæti foli hefur fengið nafnið Brattur

Fleiri myndir í myndaalbumi

Ég bætti inn á sölusíðuna einum myndarlegum 4. vetra hesti sem er til sölu. Hann fæst einnig í skiptum fyrir hryssu. Gott tækifæri til að láta frá sér eina unga eða gamla hryssu í staðinn fyrir skemmtilegt verkefni í vetur. 



Enn er netlaust hjá okkur svo þetta verður bara stutt. Fleiri fréttir von bráðar.

20.06.2011 19:47

Komið folald en ekkert internet

Við erum í netleysi ennþá hérna fyrir norðan og getum ekki sagt að við séum mjög ánægð með þjónustu Símans.. þetta er nú meira þjónustufyrirtækið hnuss! Innanríkisráðuneytið greiðir fyrir allan þann búnað sem þeir þurfa að setja upp hjá okkur til að við getum haft netaðgang.. þeir þurfa bara að koma hingað og setja þetta upp en það virðist ekki vera áhugi fyrir því að selja þennan búnað, þó að þeir fái þetta allt greitt í topp. Aular segi ég nú bara. Við komumst rétt svo örlítið á netið í símanum hans Atla þegar hann liggur úti í glugga en það svona rétt dugar til þess að opna póstinn sinn.

 

Það er aðeins að hlýna hérna þó það teljist kannski ekki endilega hlýtt. Við erum þó búin að sjá 10 gráður á mælinum oftar en einu sinni núna síðustu daga sem telst gott miðað við alla hina dagana í júní! Í þar síðustu viku snjóaði nú bara á okkur og hér varð allt grátt.. ég var fegin að vera ekki komin með folöld þá! Þetta var bara grátlegt. Sumarið hlítur þó að koma á endanum svo við bíðum bara spent emoticon

 

 

Við erum búin að fá nokkra gesti til okkar síðustu daga. Kristjana skólavinkona kom ásamt nýja kærastanum í heimsókn í síðustu viku en hún og Stebbi voru á ferðalagi á leið til Neskaupsstaðar þar sem hann býr. Þau stoppa vonandi lengur næst en ég held að þau séu alveg svona "úti" fólk sem hefur gaman af því að gralla eitthvað í sveitinni.

 

Ylfa og Konni komu við hjá okkur á heimleið frá Akureyri með Örvar Þór og Stefaníu systir Ylfu. Það var rosalega gaman að fá þau í heimsókn því þau búa í Landeyjunum svo fjarlægðin er frekar mikil á milli okkar. Drungi minn var tekinn undir hnakkinn þar sem það er engin miskunn hjá henni Ylfu. Ég var ekkert farin að fara á bak ennþá því það hafði ekki verið neitt veður í það og hnakkurinn minn auk þess í viðgerð fyrir sunnan. Ylfu fannst hnakkleysið nú bara ekkert mál og bað bara um beisli og hjálm, hún þurfti ekki meira. Við lánuðum henni þó samt gamla hnakkinn hans afa sem var kannski aðeins skárra en enginn hnakkur.. eða hvað? Ylfa fór allavega af stað og reið nokkrar montferðir hér eftir veginum en endaði svo á því að rífa hnakkinn af klárnum og ríða honum berbakt frekar. Semsagt.. mig vantar fleiri hnakka!

 


Örvar Þór var alveg með þetta á hreinu.. fjórhjól er meira spennandi en hestar!





Ylfa lagði á Drunga



.. og gafst upp á hnakkinum og reið berbakt frekar










 

Berglind Anna frænka mín og fjölskyldan hennar komu svo í helgarheimsókn síðustu helgi og ég held að það hafi allir skemmt sér vel. Viktoría og Þórdís Katla voru mjög duglegar að leika sér saman bæði úti og inni. Trampólínið sem tengdó gáfu Þórdísi hefur sko komið að góðum notum og verið mjög vinsælt undanfarna daga. Við Berglind vorum að hestast saman og fórum á bak bæði á laugardag og svo góðan túr á sunnudag. Hnakkurinn minn er kominn úr viðgerð og svo notaði ég gamla hnakkinn líka með misgóðum árangri hehe.. það er bara ekki hægt að ríða í hnakk með engum hnépúðum, allavega kann ég við það! Ég reið Drunga en lánaði Berglindi Flugu sem er ný hryssa hjá okkur. Þeim samdi vel og Fluga stóð sig eins og hetja. Við teymdum líka undir krökkunum á Flugu sem var mjög vinsælt hjá smáfólkinu. Þórdís Katla ljómaði eins og sól í heiði þegar ég teymdi undir henni. Vonandi verður hún hestasjúk eins og mamma sín.

 



 


Frænkur að teyma Flugu


Elsa vinkona kom í heimsókn á föstudaginn ásamt Svölu og "stjúpa". Við kíktum á hrossin og viti menn, það voru komnir dropar á spenana á Byltingu.. loksins!! Ég var búin að bíða eftir folaldi síðan um mánaðarmótin, semsagt í 17 daga og fannst það heldur mikið af því góða! Þetta passaði allt saman, því Berglind frænka var á leiðinni og var búin að panta að sjá folald. Elsa og co fóru heim með gömlu sláttuvélina okkar og ætla að nota hana í Víðidalnum í sumar, það var bara flott, semsagt einu færra fyrir okkur að henda hér í sveitinni. Við fengum nefnilega nýja sláttuvél síðasta sumar svo sú gamla var orðin verkefnalaus.

 

Ég fylgdist með Byltingu fram á kvöld og tók ákvörðun um að vaka aðeins eftir henni, það var stutt í köstun.  Við horfðum svo á Byltingu út um gluggann og sáum þegar hún lagðist og byrjaði að rembast. Við Berglind Anna drifum okkur í vetrarfötin (veitti sko ekki af) og út á hól til að fylgjast með. Ég hefði aldrei trúað því að köstun tæki jafn langann tíma og raun bar vitni. Mér var alveg hætt að standa á sama og Atli var kominn út því honum stóð ekki á sama heldur, hann fór svo inn til að hringja í dýralækni því okkur leist ekki á blikuna. Ég var orðin handviss um að folaldið væri orðið dautt  því hún virtist bara ekki ætla að koma því frá sér. Loksins hafðist þetta þó hjá henni og álótt skjótt folald leit dagsins ljós og sem betur fer lifandi. Við sátum svo úti í skítakulda að fylgjast með folaldinu brölta á fætur og finna spenann, það er fátt sætara en nýkarað folald held ég. Ég var alveg viss um að þarna væri lítil hryssa því aldrei sá ég neitt dinglum dangl undir því á bröltinu en það var ekki svo gott þegar ég lyfti upp taglinu. Hestur var það heillin. Hann er nú samt alveg ógurlega sætur og mjúkur og ég hlakka til að fylgjast með honum stækka.

 


Ég er ekki alveg viss hvort hann er móálóttur eða bleikálóttur, í gær hallaðist ég að móálóttu en í dag að bleikálóttu.. hann er allavega álóttur :)







 


svo sæturemoticon


Bylting á að fara undir hest aftur en svo var bara óvænt fullbókað undir hestinn sem ég ætlaði að nota. Ég þarf því að finna einhvern annan hest til að nota, helst ekki bara brúnan og draumurinn er að setja hana undir hest sem er beri fyrir slettuskjóttu. Ég er alvarlega að spá í Glám "mínum" en finnst hann leiðinlega langt frá mér en þó er aldrei að vita hvað ég geri. Núna er hún allavega köstuð svo ég þarf að fara að ákveða þetta. Birtu verðu ekki haldið í ár, ég ætla að senda hana í smá endurmenntun til Ylfu og Konna í vetur og Vaka og Drungi verða svo tekin á hús, þe. ef ég finn eitthvað pláss hérna. Hugsýn er svo farin undir Abraham frá Lundum II, ég krossa fingur og vonast til að hún haldi og kasti brúnskjóttri hryssu því Atla finnst það flottasti liturinn 



Hugsýn 18. vetra

 

Í síðustu viku komu hingað tvær nýjar hryssur en þær voru í húsinu hjá honum Tryggva vinnufélaga. Eigandinn var að hætta í hestamennskunni og ég fékk að eiga þessar heldri dömur. Ég prufaði þær báðar í bænum og leist bara vel á þær, traustar en viljugar og veraldarvanar. Ég er því mjög spent fyrir því að komast í einhverja hestaferð í sumar fyrst ég er orðin með 3 reiðhross, svo get ég núna líka boðið gestum á hestbak sem er frábært.

 


Þórdís Katla á Flugu

 

Við vorum aðeins í girðingavinnu í síðustu viku en girðingin á Gerðinu við veiðihúsið var orðin ansi ljót eftir veturinn.  Atli er búinn að setja niður alla staurana og strengja gaddavírinn en svo á bara eftir að hengja netið á. Þá ætti sú túngirðing að halda fé. Okkar bíður svo einhver girðingavinna í viðbót.

 

Atli er alltaf í einhverjum verkefnum. Hann er búinn að gera stýflu fyrir ofan bæinn til að mynda smá lón fyrir heimarafstöðina. Hann er líka búinn að vera að dunda í rafstöðvarhúsinu og núna þessa dagana er hann að laga pallinn á pick-upinum svo hann verði í standi fyrir Landsmót. Við stefnum allavega á að fara þangað. Þórdís unnir sér vel í sveitinni og það er bara ekki eins leiðinlegt og einhæft að vera með foreldrum sínum alla daga eins og ég hélt. Við skemmtum okkur allavega vel saman hérna.

 


á leiðinni upp í stýflugerð



 

 

Núna bíðum við spennt eftir hinum folöldunum en enn er allt með kyrrum kjörum hjá Birtu og Vöku, þó getur ekki verið langt í þær




Annars er bara allt ljómandi að frétta úr sveitinni.. blogga vonandi fljótlega aftur!

18.05.2011 20:42

prófin búin og komið sumar!

Jæja þá er síðasta próftíðin liðin sem betur fer! Þetta var nú ferlega erfitt og ég var farin að sjá sumarið og skilaverkefnalausa daga í hyllingum! Þetta hafðist nú allt saman og sumarið er rétt handan við hornið. Ég er búin að fá tvær einkunnir en ég náði semsagt stærðfræðáfanganum sem ég kveið svo fyrr og svo gerði ég mér lítið fyrir og varð hæst í lögfræðinni emoticon sem ég er voða ánægð með. Ég bíð svo "spennt" eftir síðustu einkununum. 

Við erum nú farin að huga að flutningum fyrir alvöru. Atli var fyrir norðan alla síðustu viku og nokkra daga til viðbótar og gerði kraftaverk fyrir norðan, allavega ansi mikið. Við Þórdís Katla fórum svo með kerrufarm norður á föstudaginn eftir síðasta prófið mitt og lángþráð frí hófst. 

Ég skulda einhverjar myndir frá því í apríl sem eru teknar af hryssunum og svo framkvæmdunum fyrir norðan, þær eru nú komnar í myndaalbum og hér eru nokkar:


Þórdís Katla með bíður spennt eftir sumrinu með hestahjálminn á hausnum


kamínan sem við vorum að kaupa svo mér verði hlýtt í vetur emoticon






Þórdís Katla á leiðinni að gefa útiganginum með pabba




Framkvæmdir á neðri hæðinni


Þórdís Katla vel búin í smíðunum með pabba


.. og réttir pabba skrúfurnar

Atli fór norður í apríl en ég komst ekki með þar sem ég var upptekin af skólanum. Þau Þórdís voru send í myndaleiðangur en ég vildi fá bumbumyndir af hryssunum. Ég er búin að vera óviss um það hvort það sé folald í Hugsýn þrátt fyrir að hún hafi verið sónuð með fyli síðasta sumar. Hinar hryssurnar eru klárlega allar með folald innaborðs enda orðnar ansi sverar, Hugsýn er eitthvað nettari en hvalirnir og því hefur læðst að mér sá grunur að kannski hafi hún látið. Ég er samt alltaf að skipta um skoðun og vona að það sé folald í henni. 


Birta gæti alveg eins verið með tvö miðað við hvað hún er sver Hugsýn hér til hægri er mikið nettari þó hún sé kviðmikil eins og stóðmeri sæmir


Þórdís Katla æfir sig





Eins og áður sagði þá skelltum við okkur norður strax eftir prófin. Atli var þegar fyrir norðan að vinna í húsinu okkar og gera fínt. Það var rosalega gaman að koma norður í hlýtt og fínt hús emoticon HEIM í sveitina sína! Sandra Diljá kom með okkur í sveitina og þær Þórdís voru voðalega duglegar að leika sér saman emoticon


Byrjað að grænka


Nýju herbergin á neðri hæðinni






Þvottahúsið orðið málað og fínt



Sætar frænkur

Við tókum til hendinni þessa helgina og reyndum að undirbúa sem mest fyrir flutningana. Atli var auðvitað búinn að gera mjög mikið niðri en þá var komið að því að búa til pláss á efri hæðinni fyrir búslóðina okkar.


.. aðeins búið að bera út!



.. teppið var látið fjúka! Sandra Diljá stendur í dyrunum á herberginu hennar Þórdísar


herbergið gjörbreyttist


Frænkunum fannst draslið á hlaðinu sko ekkert leiðinlegt! .. trampólín hvað!




bakað


Atli skiptir um þjalir í stofugólfinu




stofan að verða fín emoticon


Þessi gamli skápur er fyrir mér ef einhvern langar að eiga hann

Við stelpurnar kíktum að Syðra Hóli og fengum að kíkja í fjárhúsið. Sauðburður er alltaf jafn spennandi enda eru þessu litlu lömb alveg ómótstæðileg emoticon





Hryssurnar fengu heimsóknir á hverjum degi og stundum oft á dag. Það var mjög spennandi að gefa þeim brauð enda kunna þær vel að meta þannig félagsskap og láta ekki segja sér tvisvar að það sé brauð á boðstólnum. Bumburnar fara stækkandi og eftirvæntingin eykst að sama skapi. Ég hlakka svo til að hafa lítil folöld hlaupandi i kring um bæinn emoticon

Þórdís Katla borðar brauðið á leiðinni til hestanna!

Stóðið... feit, feitari, feitust


Bylting virðist vera orðin þreytt á þessari meðgöngu hehe.. hún á að kasta um mánaðarmótin


Hugsýn




er farþegi þarna inni?


Birta er ansi sver


Vaka

Fullt af myndum í myndaalbumi!! 

Núna er ég bara að telja niður dagana í flutningana og folöldin mín emoticon Ég verð örugglega duglegri að blogga héðan í frá þar sem nú er enginn skóli að trufla sósíal lífið. Ég á allt í einu kvöldin í eitthvað sem mig langar að gera, nú eða til að gera ekkert ef því er að skipta.. vá hvað það er notaleg tilfinning emoticon En jæja.. ég á svosum eftir að pakka fullt en ég ætla bara að vera snögg að því og koma mér í sveitasæluna

Þangað til næst!


30.04.2011 20:38

Vorið er að skella á!

Ég ætlaði ekki að blogga fyrr en eftir prófin en þar sem ég er orðin sprungin á próflestrinum ákvað ég að nota pásuna í að skrifa inn smá fréttir. Það er orðið svo langt síðan ég skrifaði fréttir síðast svo það getur vel verið að ég gleymi einhverju.

Við erum á fullu að undirbúa búferlaflutninga en fyrir þá sem ekki vissu þá erum við að flytja norður í Mánskál emoticon  Ég hlakka mjög mikið til og get ekki beðið eftir að klára skólann svo við getum drifið okkur af stað. Við flytjum í síðasta lagi 1. júní og væntanlega verðum við farin norður aðeins fyrr en það.

Atli er búinn að vera duglegur undanfarið í framkvæmdum, bæði hér heima í bílskúrnum og svo fyrir norðan. Allir nýju gluggarnir eru komnir í húsið og búið að smíða í kring um þá innan frá.  Hann er þessa stundina í Mánaskál með Þórdísi  Kötlu og foreldrum sínum. Sveinbjörg og Gunnar eru svo dugleg að hjálpa okkur fyrir norðan, þau voru til dæmis ein þar alla páskana í púl vinnu. Verið er að gera íbúðarhæf herbergin á neðri hæðinni og eyddu þau páskunum í að steypa gólf, klæða loft og fleira. Þau eru svo öll núna í þessu og vonandi komast þau sem lengst. Ég hlakka orðið mjög til að komast norður að sjá hvernig þetta lítur orðið út emoticon

Ég á orðið töluvert af óbirtum myndum á vélinni minni en Atli er með myndavélina með sér fyrir norðan svo ég get ekki skellt þeim inn núna. Atli fékk nefnilega það hlutverk að mynda hryssurnar mínar í bak og fyrir, svona bumbumyndir, svo ég geti metið það hvort það sé folald í þeim öllum. Ég hef nefnilega haft áhyggjur af því að Hugsýn hafi látið því mér hefur þótt hún það mikið nettari en hinar hryssurnar en ég bíð spennt eftir myndunum sem Atli tekur fyrir mig emoticon

Af hestafréttum er annars helst að Drungi er enn að gera garðinn frægann í Landeyjunum. Ylfa og Konni eru alltaf jafn ánægð með hann og Örvar litli líka en Ylfa reiðir hann fyrir framan sig á Drunga. Ég er að verða rosa spennt fyrir því að fá hann afhentann og geta farið að ríða út sjálf! Ó já eftir þrjá hestlausa vetur er minn tími kominn! Ég fór með Elsu vinkonu og Svölu austur í heimsókn fyrir stuttu síðan.. tja.. væntanlega eru orðnir 2 mánuðir síðan!! þetta er nú bara ekki hægt! og ég tók þar eh myndir af Drunga sem eru löngu komnar inn í myndaalbumið en ég ætla að pósta nokkrum inn hér samt sem áður.






og svo ein af mér í lokin þar sem það eru yfirleitt ekki til myndir af mér á baki.. ég er alltaf á bak við myndavélina

Það styttist í folöldin mín emoticon  og ég get ekki beðið! Ef þær eru allar fylfullar og ganga allar jafn langt með á ætti Bylting að ríða á vaðið í byrjun júní svo Hugsýn, Birta og Vaka síðust. Væntanlega eru þær að kasta frá 1. til 15. júní þessar elskur. Svo er bara að sjá hvað maður fær!! Spennó spennó. Ég er svo búin að panta pláss undir hest fyrir Hugsýn en hún á að fara undir Abraham frá Lundum II sem er fyrir norðan á vegum Hrossaræktarsambands Eyfirðinga og Þingeyina. Ég held að ég sé nokkuð ákveðin með hest fyrir Birtu en ég held Vöku ekki og held að ég haldi Byltingu ekki þetta árið heldur.


Bylting Hjálmarsdóttir - fylfull og kastar snemma í júní - verður ekki haldið í ár


Hugsýn Kjarvalsdóttir - vonandi fylfull -  fer yndir Abraham frá Lundum II nú í sumar


Birta undan Háfeta frá Hvolsvelli - fylfull og kastar snemma í júní - fer undir hest í sumar


Vaka undan Svarti frá Unalæk - kastar í júní - verður ekki haldið í ár

Svo þegar folöldin eru fædd.. hvað eiga þau þá að heita!! Ég hlakka til að liggja yfir því! Reyndar eru einhver nöfn tilbúin en ég er alveg strand með önnur.. kemur allt í ljós emoticon

Núna eru prófin mín að skella á.. síðustu prófin!! Ég verð rosalega glöð þegar þetta verður yfirstaðið. Síðasta prófið mitt er 13. maí og eftir það er sko sumarið komið!! Ég skrifa svo lokaverkefnið í haust emoticon
Ég hendi inn glóðvolgum myndum eftir helgina þegar myndavélin og fjölskyldan mín eru komin heim. Vonandi eru bumbumyndirnar góðs viti emoticon

Flettingar í dag: 191
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 627
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 190061
Samtals gestir: 25687
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 15:47:40

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar