Jæja þá er kominn tími á smá fréttir af mér og mínum.
Ég kláraði síðasta prófið á mánudag og er bara mjög glöð að vera komin í jólafrí. Mér gekk í heildina mjög vel í prófunum þó svo að ég geri ráð fyrir að þurfa að taka endurtektarpróf í stærðfræði í janúar. Það var mjög mikil óánægja með þetta próf og það á eftir að koma í ljós hvort væginu á prófinu verði breytt til að hífa nemendur upp. Það þýðir þó ekkert að spá í það og ég bara stefni á að taka prófið aftur.
Fyrsta einkun er dottin inn og ég er bara mjög ánægð með hana. Svo vona ég bara að ég verði glöð með framhaldið líka. Líklega verða komnar 2 einkunnir í viðbót fyrir jól.
Við Atli fórum með Tinnu systur hans á Frostrósa tónleikana í Laugardalshöll síðustu helgi. Garðar var að syngja svo við fengum að fljóta með. Þetta voru rosa fínir tónleikar og sum lögin alveg ótrúlega flott
Linda Bergdís átti gullfallegann dreng þann 10. desember. Núna er sko allt farið af stað. Ása bíður spennt þar sem hún er næst í röðinni.. þar á eftir komum við Petra
Fæðingin hjá Lindu gekk rosalega vel fyrir sig, hún stóð sig eins og hetja stelpan og allt gengur eins og í sögu heima fyrir. Ég verð að láta fylgja með eina mynd af prinsinum. Hann er fæddur 16 merkur og 51,5 cm.
drengur Harðarson
Í hestafréttum er helst að Birta er farin norður. Ég fór síðustu helgi með Sissa að handsama Birtu og koma henni heim á bæ til að bílinn gæti sótt hana. Ég er nú ekki til mikilla afreka sjálf og Atli var að vinna svo Sissi bjargaði mér alveg. Ég er ekkert í standi til að labba langt, hvað þá í snjó. Við vorum voða heppin þar sem við gengum beint fram á hrossin við hlið meira að segja. Birta kom auðvitað og þáði smá brauð og lét mýla sig. Sissi gekk svo með hana heim á bæ.
Hestabílstjórinn var ótrúlega ragur að sækja hana upp í Kjós, það mætti halda að ég hafi beðið um að hún yrði sótt inn á hálendið! Svo hafði hann einhverjar áhyggjur af hálkunni.. bíddu.. var maðurinn ekki á leiðinni norður í land.. og er hann hræddur við smá hálku? Birta fékk allavega far norður enda ekki eftir neinu að bíða, hún er spræk og fín og lítið orðið eftir af sárinu, ég veit ekki hvort það koma hár yfir þetta eða hvort hún verði bara með smá ör á fætinum. Ég hef allavega engar áhyggjur af þessu.
Á sunnudagskvöld hringir Signý í mig og spyr hvort það geti verið að Birta mín sé komin norður. Jú jú það passaði allt. Þá stóð blessað hrossið við ristarhliðið við Skrapatungu, alein og yfirgefin! Hún átti að sjálfsögðu að fara inn í girðingu hjá mér til hinna hrossanna! Það er auðvitað alltaf möguleiki að hross fari út úr girðingum, Bylting hefði svosum geta verið vond við hana eða eitthvað svo ég hringdi bara í bílstjórann og spurði hann hvar hann hefði skilið við hryssuna. Svarið var mjög einfalt.. við ristarhliðið! Ég átti ekki orð! Afhverju í ósköpunum skildi maðurinn hana eftir þar?? Ég var auðvitað alls ekki sátt og krafði manninn um svör. Hann sagði að honum hefði fundist hann vera búinn að keyra svo langt, ég hefði talað um að þetta væri ekki mjög langt og hann taldi bara að hann hlyti að vera kominn! Halló halló, hann bara keyrði þangað til honum fannst nóg og henti henni út! Hann sagði að hann hefði verið seint á ferðinni og orðið dimmt, hann hefði séð ljós á einum bæ og talið að það hlyti að vera rétti bærinn og setti hryssuna út við ristarhliðið! Ég spurði afhverju hann hefði ekki hringt í mig ef hann væri eitthvað óviss með staðsetninguna og þá var hann víst með rafmagnslausann síma. Hann hefði þá átt að fara heim að einhverjum bæ og spyrja hvar hann væri og hversu langt væri að Mánaskál. Maður getur ekkert bara haldið að maður sé búinn að keyra það lengi að maður sé örugglega kominn á réttan stað.. og hvað þá að sleppa hryssunni út á veg! Ég átti bara ekki orð yfir því að maðurinn væri ekki búinn að sjá bæjarnafnið til að vera viss um að hann væri á réttum stað! Hann staulaðist eitthvað á því að ég hefði talað um ristarhlið og ó nei.. ég talaði um að setja hana inn fyrir rafmagnshliðið á afleggjaranum hjá mér! Urr.. ég var svo hoppandi ill að ég hélt að fæðingin færi af stað! Ég gerði manninum það sko ljóst að hann væri búinn að gera mér óleik þar sem ég væri í Reykjavík og það væri heldur betur mikið mál fyrir mig að fara norður til að leita að hryssunni og koma henni heim á bæ! Guð mætti nú vita hvert hún færi og hversu gott væri að komast að stóðinu væri heldur aldrei að vita! Greyjið maðurinn var akkúrat á ferð í Langadal þegar ég hringdi og hann skellti sér inn í Laxárdal til að skoða aðstæður.. þegar hann kom þangað var farið að dimma en hann hann vildi freista þess að ná henni og koma henni heim á bæ. Hann hitti einhvern sem var að vesenast í hrossum og fékk lánað beisli eða múl. Mér til mikillar gleði þá fann hann hryssuna þar sem hana bar við himinn á einhverri hæð og náði henni. Birta var svo bara teymd út um gluggann á bílnum heim að Mánaskál og ætti því nú að vera hjá stóðinu mínu í góðu atlæti. Þetta fór því allt vel á endanum en ég held að ég hafi sjaldan orðið svona reið! Ég er sko að skrifa þetta 3 dögum eftir að þetta var í aksjón svo það er kannski hægt að ímynda sér hvernig frásögnin hefði verið ef ég hefði skrifað þetta strax.
Pabbi fór líka norður síðustu helgi að gefa hrossunum fyrir mig. Þau voru smá stund að fara í rúllurnar samt. Bylting elti slóðina eftir pabba að rúllunum en svo gekk hún bara hringinn voða tortryggin og þorði ekki að láta til skara skríða. Bræðurnir voru ekkert að þessu veseni og fóru bara beint í kvöldmat þegar þeir áttuðu sig á því hvað biði eftir þeim. Bylting þorði þá auðvitað að fara líka. Ég held að það séu því bara allir sáttir í Mánaskál núna, Birta komin heim og nóg af heyi fyrir alla
Atli var að leggja af stað til útlanda í morgun. Hann var einmitt úti á nákvæmlega sama tíma í fyrra. Hann flýgur fyrst til London, þaðan til Prag þar sem hann á að vinna og svo þaðan til Miami til að vinna meira. Hann er svo væntanlegur heim að morgni 22. des Það verður ósköp gott að fá hann heim aftur. Vonandi verð ég búin að græja allt fyrir jólin, þrífa og kaupa gjafir og pakka inn og allt það. Við erum búin að kaupa miða á þorláksmessutónleika Bubba og svo detta jólin bara inn þar strax á eftir. Við ætlum að vera í Hveragerði hjá tengdó á aðfangadag, svo er jólaboð hjá mömmu á jóladag og jólahittingur í Vík hjá fjölskyldunni hans Atla á annan í jólum. Ég er nú reyndar ekki búin að tilkynna fjölskyldunni þetta formlega, þe. að ég komi ekki í jólaboðið okkar á annan í jólum.. en svona áður en allir fara að æsa sig og hringja í mig.. þá kom Atli með mér í jólaboð í Flúðasel í fyrra á annan í jólum svo núna fer ég með honum austur
Í kvöld verða litlu jól hjá okkur frænkunum. Við ætlum að skiptast á pökkum og borða saman. Það er auðvitað alltaf gaman Ég hitti einmitt stelpurnar síðast á mánudagskvöld þegar Petra kom í heimsókn. Við erum nú meiri bumbulínurnar.. og auðvitað voru teknar myndir af okkur saman. Ég skelli kannski einhverju inn þegar ég fæ myndir sendar.
Ása bíður og bíður eftir dregjunum sínum. Ég er viss um að hún verði búin að fæða fyrir jól svo þetta eru bara einhverjir dagar í viðbót. Ég veit að hún fór í skoðun í gær en ég hef ekkert heyrt enn, svo ég geri ráð fyrir að það sé enn allt í orden hjá þeim.
Annars er fátt að frétta held ég.. núna þarf ég bara að skipuleggja mig til að klára jólasnúningana. Ég fór einmitt í smá leiðangur eftir vinnu í gær.. og það sem ég græddi á því voru grindarverkir, bakverkir og höfuðverkur.. æðisleg blanda Ég þarf greinilega að fara í skottúr á hverjum degi til að klára þetta, ég get ekki þrammað nema smá í einu.
Þangað til næst..