Mánaskál

05.02.2009 03:08

Fjölskyldan komin heim

Jæja þá er litla fjölskyldan komin heim og kominn tími til að koma með fréttir.

Eins og hefur komið fram þá fæddist lítil prinsessa á afmælisdaginn hans pabba 2. febrúar sem jafnframt er brúðkaupsdagur mömmu og pabba emoticon Reyndar á Jenný frænka mín líka afmæli 2. febrúar og lítill frændi hans Atla svo þetta hlítur að vera góður dagur.

Við Atli mættum á meðgöngudeildina að kvöldi 1. febrúar í gangsetningu. Ég fékk töflu til að koma mér af stað sem virkaði líka svona glymrandi vel. Ég fékk mjög fljótlega verki en var nú ekkert mikið að kvarta framan af þar sem þetta átti jú að vera vont. Við horfðum á smá sjónvarp framan af en mjög fljótlega eftir að ég fékk aðra töflu varð ég viðþolslaus. Ég fór yfir á fæðingarganginn kl. 2 og allt var komið á fullt. Ferlið gekk allt mjög hratt fyrir sig með tilheyrandi verkjum og allt það en það þýðir ekkert að kvarta núna, þetta er löngu gleymt! Daman fæddist kl. 8.59, 17 merkur - 4270 gr og 53 cm. Það þurfti aðeins að grípa inní í lokin þegar mamman var orðin uppgefin og litla daman sýndi þreytumerki á mónitornum. Prinsessan kom því í heiminn með aðstoð tanga en var voða hress og spræk emoticon og mamma og pabbi dauðfegin að þetta væri búið. Ég hélt á tímabili að þetta ætlaði aldrei að taka enda.

Nýbakaður faðir stóð sig eins og HETJA í öllum hamaganginum. Fyrir honum leið þetta örugglega mikið hægar en í mínum huga. Ég gat bara hugsað um sjálfa mig og varla það og hann hélt þessu öllu saman. Ég hefði ekki getað þetta án hans!

Við erum auðvitað bara eins og allir nýbakaðir foreldrar að rifna úr monti. Okkur finnst stelpan okkar svooooo sæt að við erum að kafna. Ég vissi að lítil börn væru sæt en ég held í alvöru að sætara barn finnist hverngi emoticon Þetta er semsagt ekki þjóðsaga að öllum foreldrum þyki sitt barn fallegast í öllum heiminum.

Við fengum að fara heim af fæðingardeildinni í fyrradag og lífið er bara yndislegt. Það gengur allt svo vel, hún er svo vær, brjóstagjöfin er öll að koma til og við getum bara ekki kvartað undan neinu held ég. Hún er bara fullkomin emoticon  Fyrstu nóttina heima enduðum við á að gefa henni smá ábót úr sprautu um kl. 2 þar sem hún var bara ekki að fá nóg hjá mér. Hún sofnaði eftir það og svaf til morguns takk fyrir! Ég vaknaði kl. 8 og þá var bara öll fjölskyldan enn steinsofandi! Ég fór svo bara á fætur og skipti um bleyju og svo lögðum við okkur bara upp í hjá pabba og héldum áfram að sofa! Gærdagurinn var mjög góður líka, bara vaknað til að drekka smá og svo sofið áfram. Nóttin í nótt var svo glæsileg. Daman fékk að drekka um tólf - hálf eitt og fékk svo eina gjöf í nótt og svaf til 9. Þetta getur ekki verið betra!

Og jæja.. það er kominn tími á myndir!!


4270 gr og 53 cm










Pabbi að klæða mig í fyrsta skipti




með för á hausnum eftir tangirnar




Heimferðin




orðin dúðuð og fín


Við mamma "gamla" að leggja í´ann






Komin heim




ohhhh svvooo sæt!


02.02.2009 14:28

Stelpa fædd

Ég sé að þetta var komið inn í kommentin við seinustu færslu en ákvað samt að skella þessu hér inn eins og um var samið emoticon

Kolla og Atli eignuðust "litla" stelpu í morgun. Hún fæddist kl. 8:59 og var 17 merkur og 53 cm emoticon Stærðarstelpa á ferð greinilega. Öllum heilsast vel emoticon

Hér kemur mynd af skvísunni en Kolla bætir svo við fleiri myndum ásamt frekari upplýsingum emoticon



Til hamingju elsku Kolla og Atli emoticon

-Karen.

01.02.2009 17:34

Gangsetning, fædd frænka

Petra frænka átti stelpu í dag, ég hef ekki fengið myndir eða fregnir af stærð en öllum heilsast vel og þetta gekk vel fyrir sig. Til hamingju Petra, Leifur og Sóldís stóra systir emoticon

Jæja núna fer líklega að líða að tíðindum hjá okkur. Ég á að mæta kl. 21 á Landspítalann í gangsetningu svo væntanlega kemur erfinginn í heiminn á morgun. Hér eru allir þokkalega rólegir, búið að taka til það sem þarf að hafa meðferðis og gera síðustu handtökin heima fyrir. Núna á bara eftir að snæða kvöldmat og tía sig af stað! Jii þetta er nú svolítið spes.. að mæta bara klukkan eitthvað ákveðið til að eiga barn! ..og það er ég sem er að fara að eiga barn!

Jæja svona að tilefni þess að þetta er væntanlega síðasti dagurinn minn með ofurbumbu.. á morgun verð ég líklega með eitthvað minni bumbu emoticon þá tók ég bumbumyndir! Ég hef ekki verið dugleg við það og á eiginlega engar.. en hérna kemur eitthvað.. 41 vika + 6 dagar og á leið á fæðingardeildina!








.. þangað til næst
..

31.01.2009 11:11

Engar fréttir

Það eru engar fréttir frá þessum bæ, allt með kyrrum kjörum. Ég er núna að fara á MORGUN á spítalann.. svolítið sérstakt að hugsa til þess.. ég vona bara að ég fari ekki að byggja upp einhvern kvíða. Maður á alltaf von á að fara bara af stað allt í einu og þá bara gerast hlutirnir.. það er ekki eins aðlaðandi að eiga að mæta á einhverjum fyrirfram ákveðnum tíma til að láta ýta á "on" emoticon og sitja svo og bíða eftir sársauka.. úff ekki spennandi. Annars þarf ekkert að hafa áhyggjur af mér.. ég ætla ætla ætla að vera jákvæð og þetta verður ekkert mál emoticon Það eina sem mér finnst leiðinlegt er að þar sem ég á að mæta að kvöldi þá eru góðar líkur á að Atli fái ekki að vera með mér um nóttina, hann verður líklega sendur heim og má svo koma um morguninn eða fyrr ef eitthvað gerist. Hver sefur við svona aðstæður! Hann á bara eftir að sitja heima og naga neglurnar greyjið drengurinn og verður svo þreyttur og ómögulegur þegar ég þarf að hafa hann til taks. Það má nú kannski lauma að honum svefntöflum eða eitthvað.. sjáum til þetta reddast allavega. Nú og ef við erum heppin þá er rólegt á fæðingardeildinni og hann fær að gista emoticon

Ég ætla að njóta þessa síðustu stunda áður en maður verður foreldri.. líklega er morgundagurinn síðasti séns til að sofa út í langann langann tíma og ég ætla mér að nýta hann vel! Núna hef ég líka þessa fínu afsökun fyrir letinni.. ég þarf að safna kröftum hehe

Petra frænka er ekki farin af stað enn, þó er eitthvað að gerast hjá henni eftir belglosunina í gær. Maður bíður bara rosa spenntur eftir fréttum að vestan!

30.01.2009 14:56

Ekkert að gerast

Jæja búin í þessari fínu "belglosun" það var bara ekkert hægt að gera, allt lok og læs. Ég á að mæta í gangsetningu á Lansann á sunnudagskvöld 1. febrúar.

Það er ekki skrítið að ég hafi enga verki og sé svona hress og spræk.. það er bara nákvæmlega ekkert að gerast emoticon

Ég held bara áfram að bíða.. enda þolinmóð með eindæmum hehe.. þetta styttist nú samt!

Kannski að pabba mínum verði bara að ósk sinni og hann fái þetta barn í afmælisgjöf þann 2. febrúar emoticon

30.01.2009 08:24

41. vika + 4 dagar

Óþarfi að halda niður í sér andanum.. 11 dagar framyfir og enn ekkert að gerast.

Ég var á flakki í gær en ekki dugði það til að krílið léti sjá sig. Ég þrammaði í Smáralind, kíkti í Húsasmiðjuna og fór svo í hesthúsið til Lilju til að ná mér í smá skítalykt.. mmmm love it emoticon

Ég fer aftur í mæðraskoðun í dag og nú á að losa um belginn emoticon ég vona innilega að þetta sé ekkert vont. Það verður spennandi að sjá hvort eitthvað gerist við þetta en það er ekkert víst. Ég gæti farið af stað en ég gæti líka bara fengið endalausa gagnslausa verki emoticon Ég á ekki von á að þetta verði fyrr en seinnipartinn svo það er bara tölfræði-maraþon þangað til. Ég þarf að vera búin með sem mest af þessu námsefni áður en fæðingin skellur á.. svona bara svo ég geti verið rólegri fyrstu dagana eftir heimkomu krílisins.

Jii hvað þetta er nú allt að verða spennandi.. en á sama tíma óraunverulegt!

Sjáum til hvað gerist í dag.. allir að krossa fingur emoticon

29.01.2009 11:28

41 vika + 3 dagar

Ekkert að gerast enn.. ég ætla að fara út og finna mér eitthvað að gera í dag emoticon ..koma aðeins blóðrásinni af stað.

28.01.2009 11:14

41 vika + 2 dagar

.. allt með kyrrum kjörum enn.. þetta kríli hefur það greinilega bara fínt í bumbunni emoticon

Ég fer í mæðraskoðun eftir hádegi og þá verður jafnvel losað um belginn svo þetta bara hlýtur að vera að styttast! Reyndar er það staðreynd.. ekki er þetta að lengjast allavega emoticon

.. meira um þetta í næsta fréttatíma emoticon

27.01.2009 11:31

41 vika + 1 dagur

.. og enn gerist ekkert.

Ég trúi ekki að ég ætli að ganga með eins og fíllinn.. ég var viss um að ég myndi ekki gera það. Ég er svosum að nýta tímann, er að koma mér almennilega af stað í skólanum og svona.. en þetta má nú alveg fara að koma samt. Ég hlakka svo til þegar allt er farið að detta í rútínu og ég get farið á stjá með litla orminn emoticon  Það er sko alveg nauðsynlegt að kynnast sveitinni sem fyrst!

26.01.2009 12:10

41 vika

Jæja! Komin 41 vika í dag! .. og ekkert að gerast enn emoticon Ég vaknaði í nótt með alveg e-h rosalega samdráttarverki og hugsaði jæja núna er ég að fara af stað og svona eru þessir verkir þá. Þetta var sko fanta vont.. en svo eftir að ég komst loks á fætur þá var bara ekkert að mér frekar en fyrri daginn hehe. Ég vakna alltaf milli hálf sex og sex á morgnana og fæ rosalega verki við það að reyna að komast á fætur en svo um leið og ég er komin upp úr bælinu þá líður mér betur og ég sef svo eins og steinn það sem eftir er nætur.. og meira til emoticon

Ég er orðin svo spennt að vita hvernig þetta fæðingardót allt virkar.. hvernig eru þessir verkir og hversu vont er þetta og allt það.. en svo er bara ekkert að gerast. Svo er maður svo clueless, veit sko ekkert hvað maður er að fara út í.. Petra frænka er t.d. búin að vera með rosalega fyrirvaraverki lengi lengi en ég fæ bara eitthvað sem mér finnst vera smá verkir (örugglega persónubundið samt hvernig fólk flokkar verki) og ekki oft heldur. Er hún kannski bara orðin vel undirbúin fyrir átökin á meðan það er allt enn lok lok og læs hjá mér, engin útvíkkun og ekki neitt og ég þarf að taka þetta allt saman í maraþoni þegar ég fer loksins af stað! Þetta verður spennandi.. ég er allavega farin að hlakka rosalega til emoticon það er sko enginn kvíði hér á bæ. Atli má alveg sjá um þá deild ef hann vill, annars veit ég að hann mun standa sig eins og hetja og þetta verður sko ekkert mál emoticon

En jæja.. ég þarf víst að læra líka.. skólinn bíður ekkert með öndina í hálsinum þó að ég sé að fara að fæða.. life goes on..

25.01.2009 15:20

40 vikur + 6 dagar

Enn gerist ekkert merkilegt.. annað en að það var fjárfest í sófa í gær emoticon  Samkomulag náðist um alveg rosalega flottann ljósann leðursófa sem vonandi þolir vel gubb og slef hehe

Ég er að fá einhverjar pílur eins og bara verður að teljast eðlilegt.. en kannski dreg ég þetta bara framyfir mánaðarmót. Pabba myndi nú ekki leiðast það þar sem hann á afmæli 2. febrúar emoticon

Þangað til næst..

24.01.2009 11:04

40 vikur + 5 dagar

Allt með kyrrum kjörum enn.. erum farin út að skoða sófa..

23.01.2009 09:47

40 vikur + 4 dagar

Ég er enn óköstuð ef ég má orða það þannig. Ég er alveg með smá pílur og svona.. eitthvað er að malla. Svo er þetta greinilega að styttast skv. væntanlegu mjólkurbrúsunum mínum. Ég fer nefnilega ekki ofan af því að við erum bara ekkert öðruvísi en dýrin, þetta virkar allt eins! Eins og hestamenn vita þá fylgist maður með júgrinu á hryssunum til að sjá hvað er stutt í köstun.. og ég held að við séum bara alveg eins. Hlæjið bara, ég sé bara lífið og tilveruna út frá hestum og hundum og það er bara ekkert við því að gera emoticon Þetta er sko ekkert verri fílósófía en hvað annað.

Ég fór ekki af stað í gærkvöldi eins og ég var búin að panta en það gerir ekkert til.. þetta er að koma.

Ég fór á fætur með Atla í morgun og var bara ótrúlega dugleg hérna fyrir allar aldir, búin að setja í þvottavél og taka úr uppþvottavélinni og fleira.. og byrjuð að læra fyrir klukkan átta líka.. úfff hvað er að gerast! Ég hélt að ég væri kannski orðin veik en það virðist vera almenn skoðun að þetta heiti hreiðurgerð og krílið mitt sé bara alveg að koma! Ég held að það sé nú alveg rétt enda þarf engann geimvísindamann til að átta sig á því.. ég er gengin 40 vikur plús emoticon Þetta er allt að koma.

Petra frænka er sett í dag og er loksins búin að ná 40 vikunum sínum.. ég veit ekki hvað þetta gerir við spenninginn hjá henni! Hún er sko að fara á taugum þarna fyrir vestan hehe. Ég sendi hríðarstrauma á Súganda Petra mín emoticon

Jæja það er víst komið að enn einni mæðraskoðuninni. Ég á ekki von á öðru en að allt sé enn í góðum gír, þessi meðganga hefur gengið eins og í sögu. Ég vona þó að þetta sé mín síðasta mæðraskoðun í bili.

Ég er enn keyrandi og get farið allra minna ferða sjálf.. ætli ég endi ekki á að keyra mig á fæðingardeildina líka! Það kæmi mér sko bara ekkert á óvart þó ég gæti það.. á meðan ég næ enn í stýrið þá eru mér flestir vegir færir emoticon

Íbúðin er alveg að fara að smella í samt horf. Atli er að verða búinn að lakka hurðina fram á gang og ég held barasta að gangurinn sé alveg að verða tilbúinn líka. Ég hugsa að þeir leggi lokahönd á þetta í kvöld strákarnir. Svo er bara að fara að "bíða" eftir stelpunni/stráknum emoticon

Jæja það er svosum ekki fleira í fréttum í bili.. adios

22.01.2009 08:46

40 vikur + 3 dagar

Allt með kyrrum kjörum enn, var með smá verki í skólanum í gærkvöldi og smá seiðing núna í morgun en enn allt rólegt emoticon Ég er samt búin að panta að fá að fara af stað eftir skóla í kvöld en við sjáum til hvort það rætist.

Ég er farin að vakna snemma á morgnana, yfirleitt milli hálf sex og sex! Í morgun sofnaði ég bara ekkert aftur og fór svo bara á fætur eftir að Atli fór í vinnuna. Klukkan er ekki orðin níu og ég er búin að snyrta til og taka úr uppþvottavélinni, búa um rúmið og er að byrja að læra.. sjit! Þetta er ólíkt mér! Ekki það að mér finnst snilld ef ég yrði nú allt í einu bara morgunmanneskja emoticon

Ég varð að smella af mynd af fínu vöggunni


Einu sinni var hann Atli svo lítill að hann svaf í þessari emoticon

Það er allt að verða tilbúið fyrir heimkomuna. Svefnherbergið er allavega farið að bera þess glögg merki að von sé á litlum orm þó svo að íbúðin sé enn eins og verkstæði enda miklar framkvæmdir í gangi. Þetta fer nú að verða allt búið og verður eflaust allt tilbúið þegar á reynir.

21.01.2009 19:08

40 vikur + 2d

Jæja ég vona að ég hafi ekki platað einhverja.. enn er ekkert að gerast. Ég blogga þetta seint þar sem ég fékk í hausinn og hef bara legið fyrir í dag. Ég er þó komin á ról og mætt í skólann.. en ekki hvað! hehe

Það er ekki að spyrja að því að þeir sem hringdu í morgun og fengu ekki svar fóru alveg á fullt og töldu að það væri kannski eitthvað að gerast.. nei nei.. og það verða allir látnir vita emoticon

Vaggan kom í hús í gærkvöldi og jesús hvað hún er fín, ég set inn mynd af henni á morgun. Núna er allt að smella og krílið má fara að koma.. sérstaklega þar sem ég fann í gærkvöldi slit á bumbunni og hér með er ég semsagt orðin óþolinmóð emoticon  Ég átti nú ekki von á að sleppa alveg við slit en þetta var að ganga svo vel að það mátti halda í vonina. Svo ætla ég að reyna að fá eina bumbumynd í kvöld líka, ég er alveg búin að klikka á þessu og á nánast bara engar bumbumyndir og enga núna síðustu 2 mán. held ég.

Það eru enn framkvæmdir heima, Atli og Svenni eru rosa duglegir að mála og tengdó eru enn á fullu líka. Það er rosalega gott að hafa allt þetta góða fólk með sér, ég geri ekki mikið sjálf það er nokkuð ljóst. Ég get alveg enn sinnt heimili en ég fer kannski ekki í stórhreingerningarnar samt. Ég reyni að þvælast sem minnst fyrir. Ég á nú von á að það sé allt að fara að detta í logn á heimilinu og ég er viss um að krílið komi um leið og síðasti pensilinn er lagður niður.. þetta er allt búið að ganga svo vel svo það hlítur að koma bara akkúrat þegar allt er orðið tilbúið emoticon  Ég vona bara að Atli leggi einhvern tímann frá sér pensilinn svo að ég fái að klára þetta emoticon

.. þangað til næst

Flettingar í dag: 89
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 303
Gestir í gær: 66
Samtals flettingar: 300768
Samtals gestir: 37197
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:26:41

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar