Mánaskál

14.01.2015 21:14

Nýtt ár

Nýtt ár er mætt og nóg að gera í sveitinni. Haustið hefur liðið ótrúlega hratt og mér finnst örstutt síðan kindurnar fóru upp á Sturluhól. Atli hefur verið mjög duglegur að vinna á Sturluhóli og aðstaðan í hlöðunni fyrir kindurnar er orðin ansi góð. Við erum með eina stóra gjafagrind fyrir allar ærnar en skiptum þeim upp í tvo hópa þar sem gimbrarnar fá að vera öðrum megin og eldri ærnar á móti. Það er mjög rúmt á báðum hópum og þær hafa það fínt. Hrútarnir eru svo með stóra kró í hesthúsinu. Við fengum eina litla óvænta gimbur í heim haust sem ekki tók að lóga og svo settum við á eina sem var heldur smá til að setja í hrút svo þær tvær hafa haft sína sér stíu líka í hesthúsinu þar sem þær fá nægt fóður og fóðurbæti.

Atli er búinn að koma rafmagninu í stand í útihúsinu en það var algjör skortur á því. Núna er nóg af inni og úti ljósum og meira að segja næturlýsing fyrir skeppnur og menn. Atli er svo nýbúinn að ganga frá vatninu í hesthúsinu svo nú eru komar vatnsskálar í báðar krær í hlöðunni og í allar stíur í hesthúsinu sem er mikill munur.



Í haust tók ég að mér nokkrar hryssur í fóðrun sem eru á leið í útflutning til Þýskalands. Þær eru á Sturluhóli ásamt mínum hrossum og hafa það gott þar á gjöf. Reyndar fór svo að ein af þessum hryssum hefur verið seld til ábúandans á Sturluhóli svo hún fer ekki út.





Nótt mín fór á hundasýningu í haust á meðan ég sat heima með lungnabólgu og sárt ennið. Ég er svo heppin að hafa góða að því ég gat fundið far fyrir prinsessuna og fengið samastað fyrir hana í Reykjavík, bað og blástur, sýnanda og allan pakkann! emoticon Nótt fékk 1. sæti í unghundaflokki með Excellent og meistaraefni og áframhaldandi keppnisrétt um bestu tík tegundar. Hún landaði þar þriðja sæti í annað skipti og fékk vara alþjóðlegt meistarastig og frábæra umsögn! Ég var alveg í skýjunum yfir þessum árangri. Hún er enn ung og á eftir að taka út þroska en ég vona að hún eigi bara eftir að halda áfram að blómstra.


Heimsenda Sumar Nótt
Þriðja besta tík tegundar, meistaraefni og vara alþjóðlegt meistarastig emoticon

Þó að Nóttin sé fín á hundasýningu þá er þessi drottning bara flottust heima í sveitinni.



Við samstilltum allar ærnar okkar með svömpum til að stýra sauðburðinum og vonandi fá fullt af fínum gimbrum undan sæðisstöðvahrútum. Við ætlum að halda áfram að fjölga fénu svo við verðum endilega að fá mikið af góðum gimbrum í ásetning.

Ég skellti mér svo á námskeið í sauðfjársæðingum í haust og það var mjög skemmtilegt, ekki síst að fá að koma á sauðfjárræktarbúið að Hesti í Borgarfirði og sjá aðstöðuna þar. 





Við sæddum svo 15-18. desember og bíðum spennt eftir fósturvísatalningu! Þetta var fyrsta sæðingin okkar og maður er reynslunni ríkari fyrir næsta ár. Við fylgdumst með ánum þegar kominn var tími á næsta gangmál og því miður gengu of margar upp, en endanleg niðurstaða er ekki ljós ennþá. Við krossum allavega putta um að frjósemin verði fín og svo óska ég auðvitað eftir extra háu hlutfalli af gimbrum svo ég eigi nóg í ásetning í haust. Ég er allavega þakklát fyrir það að ég á nokkrar sparikindur sem ég ef ekki orðið vör við að hafi beitt upp svo ég krossa putta! 



Jól og áramót voru ósköp yndisleg en við vorum heima í þetta skiptið og nutum þess að hafa allt afslappað og rólegt. Hin þýska Merle sem kom til okkar í október var með okkur yfir jólin og átti góðar stundir með okkur. Jólin okkar eru töluvert frábrugðin hennar hefðum en ég held að hún hafi haft gaman af þessu öllu saman. Pakkaflóðið klikkaði auðvitað ekki og fengu stelpurnar margar og góðar gjafir sem við erum þakklát fyrir. Spenningurinn var auðvitað mikill en stelpurnar stóðu sig svo vel í biðinni. 


Jólaljósin á aðventunni voru dálítið spennandi


Þórdís Katla tilbúin með bjúgu fyrir bjúgnakræki. Ketkrókur fékk líka hangilæri!







Milli jóla og nýárs voru svo hross tekin á hús. Vaka og Kóngur voru tekin inn ásamt 5 hrossum frá Gísla og Hafdísi á Sturluhóli. Ég og Merle eru búnar að fara nokkrar ferðir á bak og það er voða ljúft að vera komin með hross á hús.. en þó verður að viðurkennast að það vantar dálítið upp á tímann í þetta. Ég skráði mig nú samt á reiðnámskeið á Blönduósi í vetur og ætla að vera þar með Kóng í knapamerkjum. 



Merle er vön að ríða pólóhestum og vill bara ríða berbakt, ég kýs hnakkinn emoticon



Ég hef nú alltaf verið dýrasjúk og fæ reglulega einhverjar flugur í hausinn. Sú nýjasta eru kanínur. Ég er búin að kaupa tvær holdakanínukerlingar og ætla að sjá hvernig mér líst á að eiga kanínur. Ég hef nóg af plássi og eins og er þá eru þessar tvær í allaveg 10 fm stíu í hesthúsinu. Ég er reyndar nú þegar búin að panta eina kanínu í viðbót og lofa að taka að mér eina kanínu í heimilisleit en það er nóg pláss enn emoticon










19.10.2014 23:05

Fé komið á hús

Nýju gimbrarnar mínar mættu á norðurlandið fyrir rúmri viku síðan. Þær fengu far með gimbrum sem voru að fá nýtt heimili að Fremsta-gili og ég verð að viðurkenna að þeirra gimbrar voru dálítið mikið flottari á litinn en mínar en jæja, mínar eru samt alveg fínar emoticon þó þær séu allar hvítar.







Við fluttum svo kindurnar að Sturluhóli á miðvikudaginn en þá var kominn tími til að bólusetja kaupagimbrarnar öðru sinni, þá var alveg eins gott að taka þetta allt heim. Bjarki á Breiðavaði aðstoðaði okkur að koma fénu á kerrur og ég verð að segja að það er snilld að eiga svona hörkuduglega og vel þjálfaða Border Collie hunda (þið getið rétt ýmindað ykkur hvað ég er að hugsa!). Enginn þurfti að hlaupa og missa andann! Love it!





Atli vinnur eins og herforingi á Sturluhóli og eyðir öllum sínum tíma þar að undirbúa fyrir veturinn. Útihúsin eru í forgangi ennþá en við förum að sjá fyrir endann á því helsta sem liggur á þar.


Hurðin er komin upp


Komið gler í alla glugga á hlöðunni


Mörg járn í eldinum! 

Kindurnar eiga að fá að ganga við opið og fá það besta úr báðum heimum (endalaust dekraðar þessar elskur). Þær voru settar í hólfið við hlöðuna og eiga að vera hamingjusamar þar. Ég mætti með fóðurbætistunnuna og uppskar smá vinsældir við það.




Aska hans Kormáks


Tvenna Sparikolludóttir

Kindurnar voru ekki hamingjusamari en það að þær gerðu mjög svo heiðarlega tilraun til að strúka úr hólfinu. Atli kom sem betur fer auga á þær í gærkvöldi og gat fengið aðstoð við að koma þeim aftur heim. Þær voru því settar inn og verða þar þangað til búið verður að yfirfara girðinguna og styrkja hana. Þær virðast geta farið í gegn um allt ef þær vilja. Þar sem hlaðan er ekki tilbúin voru þær settar inn í hesthús en þar er nóg pláss líka svo það fer ekkert illa um þær.

Í dag tengdi Atli svo fyrstu vatnsskálina í hlöðunni og fleiri eru væntanlegar emoticon Gjafagrindin ætti svo að vera tilbúin eftir nokkra daga. Allt að gerast emoticon 

Ég er búin að vera að bíða eftir fínu móflekkóttu forystugimburinni frá Hafrafellstungu sem ég festi mér í vor. Hún hefur svo bara ekki skilað sér af fjalli blessunin svo líklega gerir hún það ekki úr þessu emoticon



Það hefur ekki farið framhjá neinum á þessu heimili að haustið sé gengið í garð. Pestir hafa lagst óvanalega þungt á fjölskylduna og eiginlega bara á stelpurnar. Íris er búin að vera lasin af og til síðastliðinn mánuð og lagðist enn eina ferðina í flensu á fimmtudagskvöld (auðvitað akkúrat þegar Atli fór suður að vinna). Við mæðgur vorum því heima á föstudaginn og vorum líka innandyra allan gærdag. 







Íris var hraustari í dag svo við kíktum á Sturluhól og kíktum á kindurnar en henni finnst það sko ekkert leiðinlegra en mér! Hún er algjör kindakerling emoticon



Þórdis Katla fékk ný íþróttaföt þegar Atli kom að sunnan og hún hefur ekki farið úr þeim alla helgina! Hún er alsæl með nýja fótboltaskó, stuttbuxur og bol. Svo hefur verið spilaður fótbolti hér innandyra og á Sturluhóli alla helgina.





Svo er hún lika orðin svo stór að hún er búin að missa fyrstu tönnina!



Svo eru fleiri nýjar myndir í myndaalbumunum emoticon

05.10.2014 23:47

Lítið kindablogg

Það er alltaf nóg að gera í sveitinni og okkur leiðist það sko ekki. Ég hef reyndar hangið yfir bókhaldinu alla helgina við mikinn ófögnuð en í dag fór ég aðeins út því ég bara varð að komast ÚT. Ég kíkti við það tækifæri á nokkrar góðar vinkonur hér niður á túni.

Þegar við fóðurbætistunnan gerðum vart við okkur komu þessar hlaupandi.


Algebra frá Hraunhálsi fremst í flokki

Algebra er skemmtilega spök og ein af þessum uppáhalds kollóttu (þær eru nú samt næstum því allar uppáhalds). Hún átti áberandi besta gemlingslambið í fyrra og í ár átti hún líka þyngsta lambið. Algebra er undan Lagði.

Fóðurbætirinn er rosa góður emoticon


Veturgamla Mökk er komin í heimsókn líka


Svo bættist Aþena hennar Þórdísar í hópinn

Hrúturinn hennar Aþenu var settur á Þórdísi til mikillar gleði. Hann er svarbotnóttur Grámannssonur og vonandi fáum við einhver botnótt lömb undan honum í vor. Ég gaf honum nafnið Hraunar en Þórdís Katla er víst búin að nefna hann allt öðru nafni, einhverju sem hún sá í Börnunum í Ólátagarði. Kannski ætti hann bara að heita Ólátabelgur.





Mökk fékk dálítla atygli í vor því hún átti mjög erfiðan burð. Hún átti gríðar stóran hrút og var smá stund að jafna sig og gekk illa að ná upp mjólk. Við brugðum á það ráð að gefa lambinu pela í nokkra daga en fljótlega var Mökk sjálf farin að spekjast og farin að líta hýru auga á pelann. Ég fór því að gefa henni mjólk líka. Þegar lambið hafði klárað sinn sopa fékk hún restina í skál og svo gekk ég alla leið og blandaði tvær blöndur, eina fyrir lambið og aðra fyrir Mökk. Ég var aðeins rög við að sleppa þeim út og setti þau því í garðinn í einn eða tvo daga. Það var æðislegt að fara út til þeirra með mjólk því ég veit eki hvort jarmaði meira á móti mér, lambið eða ærin emoticon Frameftir sumri var ég svo að rekast á þau og þá komu þau jarmandi á móti manni.


Mökk hefur engu gleymt og er mjög spök og forvitin

Hrúturinn hennar Makkar reyndist svo 43 kg í haust og viktaði 17,9 kg í SAH svo hún hefur alveg mjólkað nóg eftir þetta.

Ekki eru nú allir háir eða þungir í túninu hjá mér. Þessi litla gimbur er væntanlega fædd í lok ágúst. Ég vona að hún braggist í vetur með stóru gibbunum. 



Mamma hennar var sónuð með tvo fósturvísa í vetur en Ásta í Veðramóti taldi að hún væri búin að láta. Hún var því sett út í vor sem geld enda var ekki annað að sjá en að hún væri tóm. Það kom því dálítið á óvart þegar þessar mæðgur mættu í réttirnar. Hún hefur því fundið sér hrút eftir fóturvísatalninguna. Það er nú svolítið merkilegt með þessa kind að sama gerðist gemlingsárið hennar. Í henni voru taldir tveir fósturvísar en svo urðum við vör við að hún væri að láta í mars/apríl. Þessi heitir Afþreying og er undan Lagði eins og Algebra en móðir hennar er undan Grábotna.




Algebra var kjössuð í bak og fyrir og kunni vel við athyglina.




Útsýnið úr stofunni minni er líka bara frábært.. kindur og hestar. Svona á lífið að vera 
emoticon



Atli setti upp járnstoðir í hlöðuna til að halda uppi þakinu. Við létum burðarþolsreikna þetta og það þurfti ekki nema tæp 800 kg af járni til að halda þessu uppi en það hafa engar stoðir verið undir þakinu í fleiri ár. Næstu dagar og vikur fara líklega í að halda áfram að gera tilbúið á Sturluhóli fyrir kindurnar okkar.



Það stóð ekki til að kaupa fé í ár en svo frétti ég af sveitungum sem voru að fara á Snæfellsnesið að sækja sér gimbrar. Þá var nú ansi freistandi að kaupa sér nokkrar og fá þær heimsendar emoticon Ég meina það er nú ekki hægt að láta fólk fara í svona ferð nema að kerran sé fullnýtt emoticon  Ég hafði samband við Hraunháls en við höfum keypt fé þaðan síðastliðin tvö ár en ég var of sein, allar álitlegar gimbrar voru þegar seldar. Til að fyrirbyggja svona að ári, lagði ég strax inn pöntun fyrir næsta haust! Eftir nokkrar fyrirspurnir fann ég gimbrar til sölu sem hægt var að nálgast nú um helgina en það var á bænum Fáskrúðarbakka. Ég fékk upplýsingar um nokkrar gimbrar sem ég gat valið úr og úff, þetta er meira en að segja það. Eftir marga hringi og langann umhugsunartíma gat ég loks ákveðið mig.. en gimbrarnar sem áttu að vera 3-4 urðu 6.  Svo er bara að vona að þessar skjátur standi sig og ég lendi ekki í sömu hremmingum og síðasta vetur þegar 2 af 5 gimbrum sem ég keypti voru dauðar fyrir áramót og svo misstum við 2 ær til viðbótar á sauðburði. 

Gimbrarnar eru allar hvítar og hyrndar (engar kollóttar til), ein er undan Guðna (og fær nafnið Systir), ein undan Garra, tvær undan Snævarssyni, ein undan Grábotnasyni og ein undan Prúðssyni. Ég bíð spennt eftir að sjá þessar skjátur mínar emoticon

26.09.2014 23:08

Kominn tími á færslu!!

Jæja núna gengur þetta ekki lengur! Ég hef ekki komið með færslu síðan í júlí í fyrra og ætla hér með að bæta úr því. Ég geri samt ráð fyrir að ansi margt "fréttnæmt" gleymist í þessari yfirferð en ég ætla allavega að reyna að stikla á því sem helst hefur á daga okkar drifið síðastliðið rúmt ár! 

Svona að tilefni þess að síðusta færsla er síðan í júlí í fyrra þá er væntanlega mál málanna að ég fæddi stúlku þann 16. ágúst (í fyrra!) Þessi prinsessa er nú orðin rúmlega ársgömul og eins og eflaust allir vita nú þegar heitir hún Íris Björg og er algjör gaur emoticon

Á fæðingardeildinni


Systur að kynnast


Hún var ekki lengi að stækka..











Þórdís Katla stækkar líka hratt og er komin í skóla 




Skólasetning


Fyrsti skóladagurinn 

Lífið í sveitinni hefur verið ljúft í sumar. Veiðin í Laxá á Refasveit hefur gengið vel og Atli fór aðeins í hana sjálfur. Ég ætlaði að setja hér inn myndir af Atla í veiðinni en finn engar myndir í tölvunni minni svo ég vísa bara á heimasíðu árinnar www.refasveit.is þangað til ég kemst í myndirnar sem allar virðast vera í Atla tölvu. 

Í vor fengum við tvö folöld, bæði undan Hvítserk frá Sauðárkróki sem er 1. verðlauna hestur undan Álfi og Smáradóttur. Assa kastaði 31. maí brúnni hryssu sem fékk nafnið Aldrei.



Ég sá út um eldhúsgluggann þegar Assa var lögst til að kasta og rauk af stað og rétt missti af því þegar hryssan kom í heiminn en við náðum henni samt svona glænýrri emoticon  Assa verður stygg þegar hún er köstuð og var ekki til í að sýna okkur folaldið sitt neitt of mikið. Fljótlega rákum við hana því í aðhald og tókum folaldið hennar til að handfjatla það. Aldrei litla fékk þar allskonar klapp og klór.



Hugsýn kastaði svo 23. júní eftir mikla bið! .. ég var alveg farin að velta fyrir mér hvort það væri ekki örugglega folald í henni eftir allt. Ég var búin að vakta hana og fylgjast með henni svo lengi að ég var eiginlega hætt að nenna því. Það var auðvitað þá sem hún kastaði. Atli hringdi í mig í vinnuna og sagði mér að nú yrði ég glöð þegar ég kæmi heim! Þegar ég kom heim blasti svo við mér þessi líka fína skjótta, blesótta hryssa emoticon




Þessi sæta hryssa fékk nafnið Hófsemi.. svona bara því hún er svo "hóflega" skjótt emoticon

Bæði Assa og Hugsýn fóru svo undir Byr frá Borgarnesi sem er ungur, jarpvindóttur 1. verðlauna hestur. Ég er að sjálfsögðu búin að leggja inn beiðni um tvær vindóttar hryssur. 



Orða frá Stórhóli er loksins orðin 3. vetra og til stendur að hefja tamningu í vetur. Hún stakk mig af blessunin í sumar og fannst svo síðar í hólfi á næsta bæ.. og já auðvitað hjá stóðhesti emoticon mér til mikillar "gleði". Ég geri því fastlega ráð fyrir að fá eitt aukafolald á næsta ári. Ég ætla samt að reyna að byrja á tamningunni í vetur, en það fer aðallega eftir því hvað mér tekst að búa til mikinn tíma fyrir hrossin í haust/vetur.



Í vor fengum við þrigga fasta rafmagn og ljósleiðara emoticon Nýja nettengingin er algjörlega ástæða þess að ég legg í að blogga á ný. Nýja netið er algjör bylting og svo fengum við líka Rúv snjólaust og fullt af öðrum stöðvum í kaupbæti, algjör lúxus. Fyrst við vorum hérna með gröfuverktaka á hlaðinu þá sömdum við við hann um að taka grunninn að nýja fjárhúsinu okkar. Grunnurinn var tekinn og vatnslagnir og rafmagn plægt að grunninum.  Síðan þá hefur ekkert gerst þar sem við tókum skyndilega U-beygju og settum fjárhúsbygginguna á bið og fjárfestum í annari jörð í staðinn. Jörðin heitir Sturluhóll og er í næsta nágreni við okkur, ca. 5 km frá okkur og um ca 2 km frá Skagastrandarvegi. Á jörðinni er íbúðarhús með bílskúr og eldri útihús. Hvort tveggja þarf viðhald og erum við komin af stað í allskonar framkvæmdir. 


Húsið þarf nauðsynlega á klæðningu að halda og vonandi komumst við í það fyrir vorið.



Útihúsin hafa verið notuð sem hesthús síðustu ár. Ég ætla að hafa fé í hlöðunni og hesta í gamla fjósinu. Síðar meir verð ég væntanlega með fé þar líka. 

Við erum byrjuð að taka til hendinni og gera og græja. Íbúðarhúsið fer í útleigu um mánaðarmótin og því höfum við verið að eyða tíma í það núna. Eftir mánaðarmótin getum við svo sett meiri kraft í útihúsin. Síðan við fengum afhent þann 1. september höfum við tekið til, hent rusli, mokað út úr hlöðunni og hesthúsinu, lagað rafmagnið í hesthúsinu og hlöðunni, sett upp ljós inni og úti og girt. Í íbúðarhúsinu er búið að háþrýstiþvo, mála, pússa, hengja upp ljós, ganga frá rafmagni og fleira. 




Sævar mættur að moka út


Valerie vinnukona að háþrýstiþvo


Hérna erum við Valerie búnar að handmoka því sem liðléttingurinn náði ekki úr hlöðunni


Atli að smíða stoðir undir þakið í hlöðunni

Í september er alltaf nóg að gera í réttum og því tengdu. Ég fór sjálf í göngur í fyrsta skipti í ár. Ég tók Valerie vinnukonu með mér og ég held að við höfum ekki gert mikið af okkur. Valerie var búin að vera dugleg að hreyfa reiðhrossin á meðan ég var í vinnunni, á milli þess sem hún vann allt milli himins og jarðar. Hún var sko algjör himnasending þessi stelpa og vonandi kemur hún til okkar aftur á næsta ári. 


Valeri á Vöku, teymir Rák og Kóngur utaná

Í göngunum kom ég á Mjóadal í fyrsta skipti sem var mjög gaman því þarna á ég land sem ég hafði aldrei séð. 


Séð yfir þröskuld


Á leið ofan í Mjóadal


Mætt á Mjóadal


Mjóidalur





Valerie og Kóngur


Safnið að koma niður að Balaskarðsrétt.

Mamma og pabbi og Lólý systir og hennar fjölskylda komu til okkar réttarhelgina. Atli var erlendis og missti því af öðrum réttunum í röð. Þetta var þrælskemmtileg helgi og auðvitað nóg að gera. Við gistum öll á Sturluhóli svo það var nóg pláss fyrir alla.


Valerie og Ágúst Unnar búin að finna Snædísi


Kiddi og Sandra fundu lamb



Lengi vel leit dilkurinn okkar svona út.. rosa margt fé

Ein af okkar kindum kom af fjalli með lítið lamb og fékk því far í réttina á kerru. Lambið var ca 1-2 vikna gamalt (réttirnar voru 7. sept). Lambið vakti mikla lukku enda voða lítið og sætt emoticon




Frændsystkin saman í réttunum


Kolla BÓNDI komin heim með litlu gimbrina

September er algjör veisla fyrir sveitavarga eins og mig. Helgina eftir fjárréttirnar eru stóðsmölun og stóðréttir sem er ekki minna skemmtilegt en fjárréttir og göngur. Við Valerie fórum að sjálfsögðu ríðandi Laxárdalinn og höfum með okkur Kanadíska ferðakonu og Gumma vinnufélaga minn. Þar með voru öll mín reiðhross í notkun og hér með óska ég eftir reiðhrossum að láni næsta sumar emoticon Ég fór í fyrsta skipti frá Gaustsdal eins og gagnamennirnir og það var upplifun að fara þessa leið núna en hingað til hef ég riðið upp Strúgsskarðið. 


Tiffany með Vöku og Valerie með Kóng


Drungi tapaði skeifu og fékk nýja neglda undir á Kirkjuskarði


Fullt af hrossum og fólki


Rák, Drungi og Vaka

Við stelpurnar skelltum okkur á ball á Blönduósi með Made in Sveitin og Magna Ásgeirs um kvöldið. Þetta var rosalega gaman og þrátt fyrir langan dag þá varð ég eiginlega spæld þegar hljómsveitin hætti að spila emoticon en fyrst stóðréttirnar eru svo daginn eftir var kannski bara ágætt að fara heim að sofa.


Ég var ekki lengi að finna hana Orðu mína í réttinni.. ég þarf bara að finna alla útlendingana með myndavélarnar á lofti.. þá finn ég Orðu. Hún er alltaf vinsælt myndefni enda spök og nýtur þess að baða sig í sviðsljósinu.


sko mig.. búin að finna hross





Brynja Pála kom svo norður til að finna sinn hest í réttunum og setja á hann múl. Þrátt fyrir mörg hross fundum við rétta hestinn og viti menn hann var ekki búinn að gleyma neinu frá fortamningunni í vor. 


Vörður frá Narfastöðum, Brynja Pála stoltur eigandi og Guðrún Árný

Lambadómar fóru svo fram í síðustu viku og þá var loksins komið að því að uppskera árangur erfiði síns. Öll lömbin okkar skiluðu sér heim í haust fyrir utan það eina sem týndist hérna heima við bæ síðasta vor. Það var alveg merkilegt, kindin fór út með tvö lömb og var í hólfi hér heima við bæ með hinum kindunum. Allt í einu var hún bara með annað lambið og hitt fannst hvergi. Ég var langt frameftir nóttu að leita að lambinu hennar en allt kom fyrir ekki. Heilt á litið er ég var mjög ánægð með lömbin mín þetta árið. Ég fékk mun fleiri einlembinga en ég kæri mig um en í staðin voru lömbin að meðalali mjög væn. Sigurvegarinn í lambadómum þetta árið reyndist vera hrúturinn hennar Þórdísar. Við gátum þá með góðri samvisku sett hann á eins og við höfðum óskað okkur. Þessi hrútur er undan einni af spökustu kindunum og er botnóttur Grámannssonur. 


Hrúturinn hefur fengið nafnið Hraunar og er búinn að stækka ansi mikið síðan þessi mynd var tekin.

Hraunar stigaðist svona:
51 kg
ómv. 30
ómfita 3,4
lögun 5
 fótur 104
haus 8
frampartur 8,5
bak og útl 9
bak 9
malir 8,5
læri 18
ull 8
fætur 8
samræmi 8,5
ALLS 85,5 stig

Annar hrútur var settur á svona bara "just in case".. svona ef þessi skyldi óvænt drepast eða eitthvað svoleiðis. Sá er undan Salamon sæðingarstöðvarhrút og þrílembu undan Frostasyni. Hann fékk nafnið Órói og hann er skemmtilega flekkóttur. Á þessum bæ voru semsagt bara settir á mislitir hrútar svo vonandi fáum við einhverja skemmtilega liti í sauðburðinum í vor emoticon

Við fengum líka vænar gimbrar og ætla ég að gera þeim nánari skil síðar.

Ég veit að ég er að gleyma og sleppa mörgum hlutum sem ég hefði almennt leyft að fljóta með í bloggið en ég held að þetta sé orðið gott í bili. Ég ætla að vona að ég standi við að koma héðan í frá með fréttir reglulega. Það var bara svo erfitt að koma sér af stað fyrst það var orðið svo langt um liðið. 

30.07.2013 21:41

Hryssurnar fengnar og eldhúsið tilbúið

Það var sónað frá Hvítserk frá Sauðárkróki í dag og við stelpurnar fórum að fylgjast með. Það er stutt síðan ég fór með hryssurnar okkar til hans og því átti ég alveg eins von á að þær væru ekki fengnar eða með of lítið fyl til að það sæist. 








Assa var sónuð með 23 daga fyli og Hugsýn með 16 daga fyl svo við erum bara sátt emoticon Ég fór svo bara heim og sótti Atla og hestakerruna og við tókum hryssurnar og folöldin heim. Folaldið hennar Össu er rosa fallegt en vá hvað Hugsýnar sonurinn er rólegur og knúsulegur. Hann leyfir manni alveg að klappa sér í bak og fyrir, það er sko ekki mikið stressið á þeim bænum. 

Þar sem hryssurnar og folöldin eru komin heim í tún verður myndavélin örugglega eitthvað á lofti á næstu dögum.

Ég tók loksins myndir af nýja eldhúsinu mínu! 



Eldhúsið mitt fyrir


Búið að rífa innréttinguna


Búið að rífa vegginn inn í borðstofuna


Allt á hvolfi


Eldhús eftir breytingu


Eldhúsið teygir sig inn í borðstofuna


Þegar klæðningin á veggnum í borðstofunni var rifinn kom í ljós gamall panill sem fékk að halda sér.

Við erum voða ánægð með breytinguna á eldhúsinu enda skápaplássið ólíkt meira nú! 

29.07.2013 22:17

Ótitlað

Júlí mánuður er nánast á enda og það þýðir að það styttist í barnið! Ég er gengin rétt tæpar 39 vikur og var að hætta að vinna svo núna er maður "formlega" farinn að bíða eftir nýja fjölskyldumeðliminum emoticon Ég held að það sé allt að verða tilbúið en síðasta þvottavélin er akkúrat í gangi núna. 

Það er alltaf eitthvað að frétta héðan úr sveitinni. Í júní bættist við ferfætlingana í sveitinni en hún Heimsenda Sumar Nótt kom til okkar, hreinræktuð Australian Shepherd tík. Týri minn tók henni auðvitað bara vel þó svo að hann verði nú stundum að taka í þetta hvolpaskott sem er stundum bara of óþolandi fyrir svona höfðingja. Þegar hvolpurinn er farinn að hanga í skottinu á honum og stökkva upp á bak honum þá fær hann stundum nóg. 



Nótt stækkar ótrúlega hratt og stefnir með hraði inn í gelgjuna. Við erum að reyna að æfa okkur eitthvað að "standa" og vera sætar þar sem það búið að skrá hana á hennar fyrstu hundasýningu í september. Ég vona að hún verði ekki sú allra óþekkasta emoticon Annars missi ég sjálf af þessari sýningu þar sem hér eru göngur og réttir sömu helgi og ég er nú líka með mjög ungt barn á þessum tíma og kannski ekki það gáfulegasta að eltast við hundasýningar. Ég vona að Linda Björk geti sýnt Nóttina fyrir mig því þá veit ég að hún er í fínum höndum. Ásta á Króknum sem ég var búin að sjá fyrir mér sem mjög álitlegan sýnanda fyrir Aussie fékk sér svo bara systur Nætur svo þar fór það! Hún á væntanlega aldrei eftir að geta sýnt fyrir mig.. og hennar tík verður væntanlega alltaf betur sýnd líka.. djö! hehe.

Nótt tæplega 13 vikna

Ásta kom einmitt í heimsókn hingað í Laxárdalinn með gotsystur Nætur, Heimsenda Sumar Nótt og eldri albróðir þeirra Týr. 



Það gekk nú ekkert rosa vel að ná mynd af þeim öllum saman en hér eru þau allavega emoticon


Þar síðustu helgi komu tengdaforeldrar mínir hingað og það er ekki að spyrja að því hvað þau voru dugleg að hjálpa til. Sveinbjörg þvoði barnaföt og meðan tengdapabbi smíðaði í eldhúsinu. Eldhúsið mitt er semsagt orðið alveg gjörbreytt og ég hlakka til að setja inn myndir af því! Atli reif sjálfur niður vegginn sem var á milli eldhúss og borðstofu svo það rýmkaði aldeilis um okkur. 


Veggurinn farinn og framkvæmdir að hefjast

(fleiri eiga eftir að bætast við).

Nýja eldhúsið er algjör lúxus miðað við það gamla svo nú ætti ég aldeilis að geta verið húsmóðir emoticon Frænka Þórdísar hún Brynja Pála kom með Sveinbjörgu og Gunna og var svo hjá okkur alla vikuna. Þær Þórdís léku heilmikið saman og það létti heilmikið undir Atla þar sem ég var enn að vinna.  Brynja Pála á tryppi hérna úti á túni og var dugleg að heimsækja Vörð sinn og færa honum og Orðu brauð. 


Frænkurnar að baka

Hryssurnar okkar fóru loksins undir hest en þetta var ótrúlega erfið ákvörðun. Ég hef aldrei verið svona róleg í því að velja stóðhesta og ætla að vera mun fyrr á ferðinni fyrir næsta ár! Hugsýn og Assa fóru báðar undir 1. verðlauna hestinn Hvítserk frá Sauðárkróki sem er brúnskjóttur undan Álfi frá Selfossi og Smáradóttur. Ég bara krossa putta eins og alltaf áður og vona að þær haldi, og að ég fái hryssur.


Hvítserkur tekur á móti dömunum

Folöldin þeirra hafa ekki enn fengið nafn en ég held að ég sé að verða búin að skíra þau fyrir Atla :) Maður bíður nú ekki endalaust eftir svona hlutum emoticon

Við höfum séð til kindanna okkar af og til í sumar. Sumar þeirra virðast halda sig nærri og við sjáum þær reglulega en aðrar höfum við ekki séð síðan við slepptum þeim.

Ég mætti nokkrum vinkonum fyrir þónokkru síðan og vippaði mér út úr bílnum til að athuga hvort þær vildu eitthvað við mig tala.. og auðvitað komu þær hlaupandi til mín emoticon


Spari kolla


Aþena hennar Þórdísar


Kolla með gimbrarnar sínar tvær

Það er bara tilhlökkun til þess að heimta féð okkar frá fjalli fyrsta árið og sjá afraksturinn emoticon

Fjórhjólið hennar Þórdísar Kötlu var sett í gang um daginn líka og hún þeysist heldur geyst á því. Allavega þarf pabbinn að hlaupa með til að afstýra stórslysum. 





Ég reyni að vera dugleg að pósta fréttum á síðuna uppfrá þessu þar sem ég er nú komin í frí frá vinnu og er bara að "bíða" eftir barninu.

01.07.2013 18:28

Sumarið flýgur áfram

Jæja það er ekki seinna vænna en að gera grein fyrir því hvað er helst í fréttum úr sveitinni. Síðasta færsla var úr sauðburði í maí! Þetta gengur nú bara ekki lengur.

Í byrjun júní fórum við til Spánar í sumarfrí með foreldrum Atla, systrum hans og fjölskyldum. Við vorum með tvær íbúðir á leigu í Torrevieja og höfðum það ansi gott. Krakkarnir skemmtu sér konunglega og allir nutu ferðarinnar. Það var svolítið óþægilegt að fara frá öllu hérna í sveitinni á þessum tíma þar sem lömbin voru enn lítil og folöldin á leið í heiminn. Við vorum svo rosalega heppin að Linda vinkona mín var til í að flytjast búferlum í sveitina á meðan við vorum fjarverandi. Hún ásamt dóttur sinni og Íslensku fjárhundunum Orra og Hökka höfðu það sko bara fínt í sveitinni á meðan emoticon og við fengum reglulega fréttir að heiman og gátum verið áhyggjulaus í fríinu.

Það voru ekki teknar mjög margar myndir í ferðinni þar sem ég tók ekki myndavél út en svo missti ég mig á síðustu dögunum og keypti mér nýja svo eftir það var myndavélin á lofti. Ég er þó með eitthvað af myndum í símanum mínum sem eiga eftir að bætast við myndaalbúmið á síðunni.


Hverfið okkar, útsýnið frá svölunum


Þórdís Katla


Úti að borða


Höfrungasýning í Mundomar garðinum


Atli og Þórdís


Þórdís fann sjóræningja

Heima á Íslandi var Linda Björk að færa hross á milli hólfa og gera og græja. Kindurnar okkar fengu heimsókn frá henni og Ellen Katrínu daglega að ógleymdum fóðurbætinum! 



Kindurnar fengu svo auðvitað heimsókn þegar við komum heim. Hér er Aska með gimbrina sína undan Prúð (tvílembingur). 


Afríka ættleiddi hrútinn hennar Ösku þar sem hennar lamb drapst í burði.


Hér er svo sparigimbur undan Streng sem vonandi kemur flott af fjalli í haust.

Bæði folöldin sem við áttum von á komu í heiminn á meðan við vorum í sólinni á Spáni. Ég átti von á að Hugsýn myndi kasta á meðan við vorum úti og Linda fylgdist sérstaklega vel með henni en viti menn allt í einu var Assa köstuð! Hún átti brúnstjörnótta hryssu með hvítt á báðum afturfótum undan Kvist frá Skagaströnd emoticon Mér fannst nú alveg vera kominn tími á hryssu þar sem mér hafði ekki fæðst merfolald síðan 2004! 







Hugsýn kastaði svo þrem dögum síðar eða 10. júní brúnskjóttum blesóttum hesti.








Svo dugar mér ekki að eiga hesta og kindur, ég fékk nýjan hund fyrir nokkrum dögum. Fyrir valinu varð Australian Shepherd frá Heimsendahundum. Tíkin sem ég valdi mér er svört þrílit og heitir Heimsenda Sumar Nótt og er fædd á sumardaginn fyrsta. Ég sótti Nótt til Reykjavíkur í síðustu viku og henni gengur ágætlega að aðlagast nýjum heimkynnum og mér að vera komin með "barn" á heimilið. Þar sem ég er enn ekki komin í frí stendur Atli vaktina á daginn enda er hann svosum vanur að "lenda í öllu" sem viðkemur áhugamálunum mínum. Hann er ótrúlega þolinmóður við mig blessaður emoticon

Þessar myndir af Nótt eru fengnar að láni frá ræktandanum








Af mér er svo helst að frétta að meðgangan gengur vel. Ég er gengin tæpar 35 vikur svo þetta fer allt að skella á! Ég tók við nýrri stöðu í vinnunni minni og gerði þar með breytingar á sumarfríi og fæðingarorlofi. Leikskólinn hennar Þórdísar lokar eftir þessa viku en ég er að vinna til 1. ágúst. Ég er svo heppin að vera búin að finna stelpu sem ætlar að koma til okkar og sjá um Þórdísi á meðan ég er að vinna svo Atli hafi vinnufrið á daginn líka. Ég vona að Þórdís og Signý verði ánægðar með hvor aðra. Ég er líka búin að stytta fæðingarorlofið mitt og ég geri ráð fyrir að þurfa einhverja pössun fyrir litla barnið áður en það kemst inn á leikskóla. Hugsanlega þarf ég Au pair eða einhverja álíka stelpu til að flytja inn á heimilið. Ég hef ágætann tíma til að finna út úr því en ég tek glöð við ábendingum ef einhver veit um góðan kandiat. 


15.05.2013 22:45

Ótitlað

Það kom loksins að því að okkar fyrsti sauðburður færi af stað. Ég átti von á fyrstu lömbum síðastliðna helgi og á mánudag 13. maí gerðist það loksins. 

Fyrst til að bera var kollótt gimbur undan Lagði og kind sem var þrílembingur. Hún hélt í sæðingu við Streng. Burðurinn var erfiður sökum stærðar lambsins og ég var ekki í fjárhúsinu sjálf þegar hún bar. Sindri á Neðri Mýrum dró úr henni lambið og blés í það líf. Lambadrottningin mín braggaðist vel og dafnar núna í fjárhúsinu.


Fyrsta lambið okkar - gimbur undan Algebru (12-008) og Streng frá Árbæ


Þórdís með fyrstu gimburina dagsgamla


14. maí bar svo Aþena hennar Þórdísar hvítum hrút undan Prúð frá Ytri Skógum. Hún var ekki alveg að átta sig á þessu lambi fyrst um sinn og kærði sig ekki um það en þegar leið á daginn var hún búin að sættast við það.


Hrútur undan Aþenu (12-004) og Prúð frá Ytri Skógum

Í nótt fékk Afríka lambsóttina en því miður var lambið bæði gríðarstórt og snéri eitthvað vitlaust svo það lifði ekki fæðinguna af. Sindri og Birna voru á vaktinni og þrátt fyrir tilraunir þeirra til að koma lambinu í heiminn á lífi gekk það ekki upp. Svona er nú bara víst að vera bóndi, maður missir stundum skepnur. Afríka var fengin við Streng eins og Algebra.

Í morgun bar svo Aska (12-016) tveimur hvítum lömbum, hrút og gimbur. Tekin var ákvörðun að gera tilraun til að venja annað lambið hennar undir Afríku. Þar sem búið var að telja fósturvísa var nokkuð öruggt að Aska væri með tvö lömb svo hægt var að skipuleggja þetta fyrirfram. Hún fékk að halda fyrra lambinu sínu en það seinna var sett ókarað, beint til Afríku og meira að segja baðað upp úr salti (sumir segja að það sé alveg málið). Þetta fór nú þannig að Afríka tók að sér hrútinn svo þær eru nú sáttar með sitt hvort lambið. Þetta gerðu Sindri og Birna fyrir okkur þar sem ég var í vinnunni minni og Atli að heiman í vinnu. Ég get allavega verið sátt við að þetta endaði vel miðað við aðstæður emoticon
Nú eru allar gimbrarnar bornar sem voru fengnar við sæðishrútum svo ég hef engar tímasetningar á hinar gimbrarnar. Væntanlega fara þær að bera koll af kolli og ég krossa putta og vona að sauðburðurinn gangi vel.

Hvernig er það svo er maður nokkuð fjárbóndi nema að eiga fjárhund? .. og þarf maður ekki klárlega að eiga fleiri en einn? Týri minn er nú víst fjárhundur og allt það en ég er búin að vera að bíða eftir rétta Australian shepherd hvolpinum í þónokkurn tíma. Á sumardaginn fyrsta fæddust svo loksins hvolpar hjá Heimsendaræktun og þar af þrjár tíkur, tvær blue merle og ein svört þrílit. Ég er búin að fara að skoða hvolpana og auðvitað er maður alveg ástfanginn. Nú er bara að sjá hvaða tík er mín tík emoticon 


Foreldrarnir eru margverðlaunaðir og ótrúlega flottir fulltrúar sinnar tegundar


Er eitthvað dásamlegra en hvolpahrúga!


05.05.2013 23:31

Ekkert bólar á vorinu

Það er nú kominn vorhugur í mann þó veðrið minni ekkert á vor. Grillið er komið út og garðhúsgögnin líka.. en það hættir bara ekki að snjóa!



Sauðburður er hafinn á Neðri Mýrum svo við bíðum spennt eftir okkar fyrstu lömbum. Ég á þó ekki von á lömbum úr okkar ám fyrr en um næstu helgi eða svo. Samkvæmt fósturvísatalningu héldu 4 gimbrar í sæðingum og eina af þeim ætti að vera tvílembd. Af þessum 4 eru allar lituðu gimbrarnar okkar, tvær svartar og ein grá svo vonandi fáum við eitthvað skemmtilegt til að setja á undan þeim. 

Ég hef verið léleg með myndavélina í fjárhúsunum svo ég skelli hér inn myndum frá því í apríl sem aldrei rötuðu inn á síðuna.




Aþena hennar Þórdísar hér fyrir miðju


Púkadóttir



Þessi kolla er svo ein ef þeim sem eiga að bera fyrst hjá okkur, hún er fengin við kollóttan sæðishrút.

Ég á von á að fyrstu ærnar okkar beri um næstu helgi svo hér er bara tilhlökkun emoticon

Við mæðgur erum búnar að vera á reiðnámskeiðum í vetur, ég á knapamerki 1 og Þórdís á reiðnámskeiði með yngstu krökkunum. Ég tók verklega prófið í knapamerkinu í síðustu viku á Drunga mínum og það gekk bara vel, erfiðast var þó að fara á bak, hann er nú bæði stór en svo er ég bara orðin ansi stirð og þung á mér enda gengin 26 vikur þegar ég tók prófið. Þórdís Katla tók svo þátt í afmælissýningu hestamannafélagsins Neista á sunnudaginn á Drunga.




Hamingjusöm hestastelpa


Litli strumpurinn búinn að snúa sér við og situr öfugt á hestinum

Þessi sýning er vonandi bara forsmekkurinn af því sem koma skal því á meðan hún sýnir áhuga á hestamennskunni verður allt fyrir hana gert svo mamman fái hana með í sportið emoticon

Það er aldrei lognmolla á heimilinu heldur. Foreldrar Atla komu til okkar um helgina og reyndar var tengdapabbi mættur fyrr og hér var tekið til hendinni í eldhúsinu. Ég ætla að sýna fyrir og eftir myndir af eldhúsinu þegar það er tilbúið en það er nú þegar orðin þvílík breyting þó svo að fyrsti hluti nýja eldhúsins sé ekki fullkláraður. Þeir feðgar drifu sig líka af stað í að klára baðherbergið og þar er nú komin upp innrétting emoticon Myndir koma inn fljótlega.

Ég verð svo vonandi dugleg að skrifa fréttir á næstunni enda er vorið spennandi tími í sveitinni. Myndavélin fór með í fjárhúsið áðan.. en svo var engin mynd tekin og vélin gleymdist þar. Nú jæja hún er þá allavega til staðar fyrir næstu ferð í fjárhúsið!

Fleiri myndir af þessu öllu í myndaalbumi.


20.04.2013 22:27

Styttist í vorið

Ég held að fréttaleysið hafi aldrei varað jafn lengi og núna. Reyndar ætla ég að kenna internetinu um það að hluta þar sem það hefur verið afleitt internetsamband hérna vikum og mánuðum saman. Núna á að bæta úr fréttaleysinu og vonandi verða svo tíðar fréttir hér í gegn um sauðburð og fleira skemmtilegt emoticon

Síðasta frétt á heimasíðunni var í janúar (sem betur fer á þessu ári!).. og það hefur heilmikið gerst síðan þá en ég er ansi hrædd um að margt af því sé gleymt þar sem ég hef líka verið arfaslök við að taka myndir. Það er helst að ég muni hvað við vorum að bralla ef ég á myndir af viðburðinum.

Þórdís var í ballett eins og áður sagði en hún fékk meira að segja sendan alvöru ballettbúning frá frænku sinni í Reykjavík sem sló heldur betur í gegn.



Þórdís fékk svo sinn eigin ballettbúning sendan frá Svíþjóð svo nú á stelpan allt tilheyrandi.

Svo kom langþráð afmæli hjá heimasætunni og varð hún loksins 4 ára emoticon Hún fékk að bjóða vinkonunum í afmæli í félagsmiðstöðinni á Skagaströnd því færið hingað heim í febrúar er ekki upp á marga fiska.








Fleiri skemmtilegir dagar voru í febrúar og þar á meðal öskudagurinn. Við komumst að því að metnaður Skagstrendinga fyrir öskudagsbúningum er mikill og væntanlega verður ekki búðarkeyptur búningur aftur á þessum bæ.. hér koma sko allir í heimagerðum búningum og þeir voru sko rosalega flottir! Þórdís Katla var samt mjög ánægð með búninginn sem hún hafði valið sér.. auðvitað var það prinsessulegt, Mjallhvít varð fyrir valinu.



Þórdís Katla tilbúin í leikskólann á öskudaginn




Krakkarnir á leikskólanum gengu á milli fyrirtækja á Skagaströnd og sungu.



Öskudagsballið var mjög skemmtilegt og búningarnir frábærir.


Vinkonurnar Mjallhvít, krókódíll og prinsessa



Karakterar úr Oz


Stjáni blái, Betty Boop og strympa dóttir þeirra


hani og kjúklingur

Það var svo haldin smá ballett sýning í lok námskeiðsins og það er óhætt að segja að þessar litlu ballettskottur hafi verið algjörar dúllur.







Af hrossunum er allt gott að frétta. Veturinn hefur verið heldur hvítur og snjóþungur á köflum. Hér eru girðingar búnar að vera meira og minna á kafi síðan ég man ekki hvenær. Hrossin hafa verið til vandræða þar sem girðingar hafa ekki haldið þeim. Ég er að vona að við séum að sjá fyrir endann á vetrinum en það er nú ekkert öruggt í þeim efnum ennþá. Hrossin eru búin að vera í nokkrar fyrir í hólfi fyrir neðan veg en sú girðing hefur staðið að mestu upp úr snjó og hægt var að setja örlítinn straum á hana. Ég hef tekið skammarlega lítið af myndum af hrossunum mínum og verð að bæta úr því bráðlega.



Gleði fór til nýrra heimkynna í Belgíu

Ég byrjaði á reiðnámskeiði í janúar og fékk lánað hryssu til að byrja með. Drungi kom svo á hús á Blönduósi og fékk það hlutverk að bera mig á knapamerki og Þórdísi Kötlu á krakkanámskeiðinu hennar. Í byrjun mars fór Drungi svo á Sölvabakka í gott atlæti og ég tók inn nýja hestinn minn hann Kóng sem ég keypti í haust.


Kóngur frá Mið-Fossum

Ég hef reyndar ekki stundað útreiðar mikið undanfarið en það litla sem ég hef prufað hann er ég mjög sátt og hlakka til að brúka hann meira. Ég tók þátt í smá rekstri um páskana og Kóngur stóð sig vel í þeirri reið.

Þórdís Katla sýnir hestamennskunni áhuga og ég krossa putta og vona að það endist emoticon Henni finnst gaman á reiðnámskeiði og vill ólm fá að fara á bak. Ég er að byrja að sleppa af henni hendinni og hér er hún á Drunga okkar inni í skemmu á Sölvabakka.. alein og ánægð með lífið.


Þórdís Katla á Drunga

Ég átti svo að taka próf í knapamerkjum í síðustu viku en þurfti að sleppa því vegna vinnu í Rvk. Ég tek því prófið fljótlega í staðinn.

Nú styttist í vorið og eigum við von á 2 folöldum þetta árið, eða Atli réttara sagt því hann á þau bæði. 

Hugsýn fór undir Abraham frá Lundum II og kastar væntanlega í byrjun júní


Abraham frá Lundum II á Vesturlandssýningunni um daginn.

Assa fór svo undir Kvist frá Skagaströnd og hún kastar líklega í lok júní/byrjun júlí.

Sauðburður er að skella á og við bíðum spennt eftir lömbunum okkar. Fósturvísar voru taldir í mars og lítur út fyrir að við eigum von á nokkuð mörgum lömbum. Ein gimbur hafði látið, 7 teljast tvílembdar og 7 einlembdar. Svo er bara að sjá hvað gerist og hvernig gengur. 



Það hefur ekki verið spennandi færðin heim á bæ í vetur, í raun hefur ekki verið fært nema stundum fyrir jeppann. Ég var að viðurkenna að fyrir ekki svo löngu síðan var ég að vona að þessi vetur væri búinn og ég gæti komist á bíl upp á hlað hérna heima fyrir vorið.. en svo snjóaði aftur svo ætli þetta verði ekki þannig að skaflinn hverfi ekki fyrr en í júní.

Ég krossa putta og vona að við fáum allavega gott vor þar sem núna hef ég lömb að hugsa um! 

Svo er auðvitað fjölgun í fjölskyldunni eins og allir eflaust vita nú þegar. Ég er sett 7. ágúst og er því á 25. viku núna. Þórdís Katla verður því loksins stóra systir og hlakkar mikið til emoticon 



Fleiri myndir af þessu öllu í myndaalbumi.





19.01.2013 20:31

Allt of langt síðan síðast

Húsfrúnni á Mánaskál gengur ekkert að halda blogginu lifandi um þessar mundir. Reyndar hjálpar netleysið ekki til, netleysið sem hrjáir okkur stundum heilu dagana. Það fer víst eftir veðri hvort það er nothæft internet hjá okkur og það hefur verið mikið um rigningu undanfarið og þá er netið upp á sitt versta.

Ég er langt á eftir í öllum fréttum og ætla ekki að ryfja það allt upp núna en í staðinn ætla ég að setja inn nokkra myndir af Þórdísi Kötlu sem fór í ballett í dag emoticon 


Tilbúin í fyrsta balletttímann











Fleiri myndir í myndaalbumi

16.10.2012 20:54

Ótitlað

Héðan er allt gott að frétta og ég er að reyna að standa við að skrifa fréttir reglulega. Þar sem ég á núna meiri búfénað en áður verða væntanlega "fréttir" oftar emoticon

Við erum nú strax orðin það miklir "bændur" að við eyddum síðasta laugardagskvöldi í fjárhúsinu að gefa ormalyf. Þetta var reyndar bara ágætis laugardagskvöld hjá okkur og Þórdís fékk að heimsækja strákana á Neðri-Mýrum sem hún fær aldrei nóg af.










Atli er duglegur í skemmunni sinni eins og alltaf og hann var að steypa í gaflinn það sem brotnaði úr veggnum forðum, þegar sagað var fyrir skemmuhurðinni. 






Þórdís Katla fer stundum út í skemmu til pabba og um helgina var hún eitthvað þreytt og lagði sig á þessum forláta gestabedda sem við fundum á háaloftinu um daginn. Hún steinsofnaði og til að geta haldið áfram að saga skelltum við á hana heyrnahlífum á meðan hún kláraði blundinn sinn. Hún rumskaði ekki þessi elska, enda stundum lík mömmu sinni, sem gæti sofið allt af sér emoticon





Svo verð ég að tala aðeins um hann Týra minn svo hann gleymist ekki í spenninginum fyrir að finna sér nýjan hund. Svona fyrir ykkur sem minnist alltaf á það hvað hann sé feitur.. svona er hann nú nettur ef það er búið að bleyta feldinn hans!





Hann Þórshamar Týri er nefnilega ekki eins feitur og hann lítur út fyrir að vera emoticon.. en jú hann er alveg í góðum holdum.

Svo ég spjali nú aðeins meira um þessar skjátur mínar sem ég er svo ánægð með þá er ég búin að velja nöfn á þær allar. Svona til að passa upp á að ég sé örugglega með nógu mikið af seremóníum í kring um sauðfjárbúskapinn (dekurdýrin) þá valdi ég mér þema og þessi árgangur fékk allur nöfn sem byrja á A.


Afríka - Arabía - Alein - Alþýða - Aska - Afþreying - Atvinna - Alvara - Andrá - Aukning - Aðdáun - Algebra - Askja - Auðn - Arna


12.10.2012 22:03

Sauðfé og fleira

Tíminn líður svo hratt hérna í sveitinni að allt í einu eru bara tveir mánuðir liðnir frá síðustu fréttum.

Veturinn minnti á sig heldur betur snemma í ár því svona var umhorfs hjá okkur þann 10. september.


á heimleið úr vinnunni


komin inn í dal - Atli þurfti að sækja mig að Neðri-Mýrum


Nýræktin var óslegin ennþá..






Við sóttum Hugsýn og folaldið sem hún fóstrar að Lundum til Abrahams í september. Hugsýn er fengin og kastar líklega snemma í júní. Í sömu ferð var Assa sótt til Kvists frá Skagaströnd. Hún var líka fengin og kastar líklega seint í júní eða í byrjun júlí. Eftir þessa ferð er ég búin að ákveða að drífa í að frostmerkja hrossin mín. Assa er auðvitað bara brúnt meðalhross og ég lenti í vandræðum því þegar ég sótti hana var gjörsamlega ausandi rigning og hrossin voru öll rennandi blaut og húktu inni í gerði. Allar brúnar hryssur voru eins! Eina ráðið var að grípa eitthvað sem var líklegt og fara með það þar sem sónarskoðun fór fram og láta lesa af örmerkinu.. en viti menn.. ég átti fyrstu hryssuna emoticon Ég verð samt að viðurkenna að þetta var frekar neyðarlegt en sem betur fer var ég ekki sú eina sem var í þessum vandræðum þarna. Það ringdi svo svakalega að Assa bókstaflega hljóp upp á hestkerruna og ég þurfti að rífa mig úr fötunum þegar ég kom inn í bíl. Gallabuxurnar voru orðnar 20 kg og þetta var ekki rétti dagurinn til að gleyma úlpunni! .. í raun hefði 66 pollagallinn verið málið!

Atli getur semsagt látið sér hlakka til vorsins því hann á folaldið í Hugsýn og Össu!


Assa frá Þóroddsstöðum - fylfull við Kvist frá Skagaströnd


Hugsýn og fóstursonurinn - Vaka á bakvið

Göngur og réttir og allt það var á sínum stað í september. Stóðréttarhelgin var auðvitað frábær eins og alltaf áður. Enn á ný tók ég eiginlega engar myndir nema á myndavélina hans Sissa og ætli ég verði ekki heilt ár að komast yfir þær eins og síðast. Ég skal gera mitt besta til að fá einhverjar myndir frá honum til að geta sýnt frá reiðinni á laugardeginum. Ég fékk auðvitað góða gesti en Sissi kom alla leið frá Kirkjubæjarklaustri með hryssu á hestakerru. Siggi Fúsi, Þorbergur og Konný komu líka alla leiðina að austan. Eyþór vinnufélagi minn fékk lánaða hryssu á Efri Mýrum og komst því með í stóðreksturinn. Svo voru auðvitað sveitungarnir á sínum stað. 

Þetta árið var ekki hægt að fara ríðandi frá Strjúgsskarði eins og hefur verið gert í áratugi en vegna snjóa og bleytu var dalurinn og sérstaklega skarðið erfitt yfirferðar. Í staðinn var auglýst ferð frá Skrapatungurétt í Kirkjuskarð og svo var riðin sama leið til baka. Veðrið slapp ótrúlega vel þrátt fyrir blauta spá og frekar lítil hlýjindi. Það ringdi aðeins á okkur á bakaleiðinni en annars var þetta bara frábært. Atli mætti líka í Kirkjuskarð með heita kjötsúpu svo það væsti ekki um okkur. Um kvöldið var svo skundað á ball með Pöpunum og trallað fram á rauða nótt.

Það var svo réttað á sunnudegi og hrossin mín skiluðu sér til byggða. Þau hafa því verið komin framfyrir afréttargirðingu eins og mig grunaði. Ég hafði ekki séð litla stóðið mitt í nálægt tvo mánuði svo það hlaut eiginlega að vera. Tryppin mín vöktu mikla lukku hjá ferðamönnum sem voru þarna á vegum Íshesta. Þau eru svo spök að þau tóku sig út úr stóðinu sem var í hólfinu fyrir utan réttina og hreinlega böðuðu sig í athygli og þáðu klapp og knús. Það gekk eins og í sögu að sækja hrossin mín inn í almenning og koma þeim inn í dilk. Svo voru þau bara sett á kerru og skutlað heim.


Orða og Brattur komin af fjalli


Orða

Við Atli erum búin að klippa hófa og gefa ormalyf þetta haustið og eru hrossin komin í hausthagann. Ég er reyndar enn með Vöku og Drunga á járnum en þau verða væntanlega ekki notuð meira samt þetta árið.

Merkisviðburður átti sér einnig stað í september en þá fórum við á Snæfellsnes og keyptum okkur gimbrar. Við eigum semsagt orðið fé núna og bíðum spennt eftir þeim ævintýrum sem bíða okkur í sauðfjárræktinni. Við fórum á Hraunháls á Snæfellsnesi og gátum þar valið okkur þær gimbrar sem okkur leist vel á. Ráðunautur var búinn að dæma þær svo við gátum dálítið valið þær eftir því (ekki veitir af fyrir okkur sem kunnum ekkert á þetta). Sindri á Neðri-Mýrum kom með okkur og sá til þess að við keyptum ekki einhverja vitleysu.


Atli minn bóndalegur


Sindri lítur yfir og er sjálfsagt að undra sig á því hvað hann er hrifinn af þessum kollóttu


og svo þurfti að þreyfa og káfa og finna vænstu gimbrarnar


.. og líta á dómana og sjá hvort þetta er ekki allt með besta móti


Hér eru gimbrarnar loksins komnar "heim". Hér fremst er Afríka


Ein falleg hyrnd sem á eftir að fá nafn


Þessi fékk nafnið Alþýða


Sú svarta er Arabía


tvær kollóttar stöllur


Þórdís Katla mætt í fjárhúsið að gefa kindunum okkar


Ég er voðalega ánægð með gimbrarnar okkar og hlakka til að hefja okkar sauðfjárrækt. Hérna eru dómar gimbranna. 

kg Ómvöðvi Ómfita Lögun Frampartur Læri Ull
47 28 4.2 4 8.5 17.5 8
45 28 2.3 4.5 8.5 17.5 7.5
42 30 2.3 4.5 8.5 18 8
55 33 4.3 4.5 8.5 17.5 8
50 28 4 4 8.5 17.5 8.5
53 29 5 4 9 17.5 8
46 30 3.3 4 8.5 17 8.5
47 29 2.5 4 8.5 17.5 8
46 31 5.4 4 8.5 18 8
48 32 4.3 4 9 18 8.5
50 31 3.4 4.5 9 17.5 8
50 29 4.7 4 8.5 17.5 8
53 27 4.2 4 9 18 7.5
55 31 3.2 5 8.5 18 8

Sú efsta á listanum er þrílembingur og var hérumbil skilin eftir á Hrauntúni. Þegar ég skoðaði dómablaðið við kaffiborðið inni í bæ taldi ég að mig vantaði eina gimbur á kerruna sem ég hefði ætlað að fá. Þegar við fórum svo út í hús að sækja hana var hún hvergi sjáanleg og fannst á kerrunni.. en þá kom í ljós að það var búið að merkja við þrílembinginn á blaðinu en hún var ekki komin á kerruna. Þarna var ég heppin að glata ekki verðandi sparikind emoticon

Svo þegar maður er orðinn sauðfjárbóndi.. þarf maður þá ekki að eiga fjárhund? Þórshamar Týri er á þrettánda ári og því ekki hægt að taka hann með sér í göngur. Ég er því alvarlega farin að spá í að fá okkur annan hund en spurningin er bara hvernig fjárhund á að fá sér? .. ég er þessa stundin að stúdera Ástralska fjárhundinn (Aussie) og ég er bara ansi hrifin af þeirri tegund. Þetta á allt eftir að koma í ljós og það eru væntanlega nokkrir mánuðir í að það dragi til tíðinda í þessari deild!

07.08.2012 21:21

Hestaferð, verslunarmannahelgi og fleira

Sumarið æðir áfram og veðrið hefur verið frábært í allt sumar. Allt í einu er bara kominn ágúst og mánuður frá síðasta bloggi! 



Ég eyddi dálítið af júlí í höfuðborginni á meðan Atli var að vinna hjá Icelandair í Keflavík. Við notuðum ferðirnar í að versla inn á baðherbergið en það var ráðist í framkvæmdir hér á bæ fyrir um mánuði síðan. Allt var rifið út af baðinu, loft, veggur, hurð og tækin. Núna er að komast mynd á baðið aftur og ég hlakka verulega til að sjá afraksturinn.. já og geta baðað mig í almennilegri sturtu! Við erum farin nokkur ár aftur í tímann þar sem "sturtan" er komin aftur niður í kjallara og maður þarf að smúla sig sjálfur.

Þó sumarið líði hratt þá hef ég reynt að ríða dálítið út og höfum við nágrannakona mín bara verið ágætlega duglegar saman. Ég fór svo líka í miðnætur reiðtúr í júlí með sveitungum en þá var riðið frá Hæli og inn á Blönduós nema hvað að ferðafélögum mínum þótti ekki nóg að ríða á Blönduós svo það var riðið alla leið heim líka! Ferðin tók því dálítið lengri tíma en áætlað var og vorum við Rák komnar að Neðri-Mýrum undir morgun og þá átti eftir að mjólka emoticon 

Það var sónað frá Dagfara frá Sauðárkróki í síðustu viku og Gleði frá Þóroddsstöðum var fengin en Vaka mín ekki emoticon Ég sem hafði planað að járna hana og koma henni i form fyrir stóðréttir. Hún fær að vera áfram hjá hestinum og vonandi fyljast hún. Hún verður nú samt komin á járn fyrir stóðréttir. Ég hef svo ekki heyrt enn af því hvenær verður sónað frá Kvist eða Abraham en þetta skýrist allt með tímanum. 



Núna um verslunarmannahelgina fengum við fullt af góðum gestum en foreldrar Atla og systur mættu hingað með fjölskyldum og einnig bróðir Sveinbjargar og fjölskyldan hans. Hérna var mikið fjör og veðrið lék við okkur. Við Garðar skelltum okkur í hestaferð út á Skagaströnd á föstudag og laugardag.



Auðvitað detta alltaf einhverjar skeifur undan


Hrossin lögð af stað frá Skagaströnd og vita alveg í hvaða átt á að hlaupa



Garðar kominn í hnakkinn






Fleiri myndir úr ferðinni eru hér

Við fengum líka kanínur í heimsókn yfir helgina og þeir sem vildu fengu að fara á hestbak. 


Brynja Pála og Kolla


Þórdís Katla og Habba frænka


Birta


Brynja Pála


Þórdís Katla í reiðtúr með mömmu

Fleiri myndir frá verslunarmannahelginni eru hér

Auðvitað var eitthvað unnið líka en Einar var ansi duglegur að taka til hérna heima við bæinn, girðingadræsur voru rifnar upp, keyrð möl og fleira gagnlegt. Atli og Gunni byrjuðu að flísaleggja baðherbergið og í dag voru settar nýjar heitavatnslagnir í húsið okkar emoticon Hér er alltaf nóg um að vera! 


06.07.2012 23:19

Vestmannaeyjar, veiði og fleira

Þórdís Katla fékk loksins að bjóða vinkonum sínum þeim Sigríði Kristínu og Birgittu í heimsókn og það var rosalega gaman hjá þeim stöllum. Hún hefur nokkrum sinnum fengið að fara heim með þeim að leika og það hefur verið rosa gaman. Eftirvæntingin var mikil hjá stelpunum og hafði þeim hlakkað lengi til að fá að koma í sveitina til Þórdísar Kötlu.













Ég kíkti á hryssurnar hjá Dagfara frá Sauðárkróki þann 26. júní. Folinn var kurteis við mig og fallegur er hann á litinn emoticon Það verður gaman að sjá hvað við Elsa vinkona fáum að ári en hún fór líka með hryssu undir Dagfara. 


Dagfari ræðir málin við Gleði


Dagfari heilsar upp á mig


Gleði


Katla hennar Elsu

Fleiri myndir úr þessari heimsókn eru hér 
Ég fer svo fljótlega aftur í myndatökuleiðangur

Við fórum svo í smá frí fyrir síðustu helgi og tókum með okkur hestakerruna og keyrðum Hugsýn og Össu undir hesta í leiðinni. Það var svolítið skemmtileg tilbreyting að vera með fulla hestakerru í eftirdragi og það var því Atli var að fara með hryssur undir hesta! Loksins var það ekki ég sem var með vesenið emoticon Núna er bara að krossa putta og vona að hann fái myndarlegar hryssur að ári.

Hugsýn fór eins og áður sagði undir hinn vel ættaða Abraham frá Lundum II

Abraham er undan Auðnu frá Höfða og Vilmundi frá Feti


Assa frá Þóroddsstöðum fór svo á stefnumót við Kvist

Kvistur frá Skagaströnd - mynd fengin að láni frá hrossvest.is (ljósmynd: Kolla Gr.)

Við fórum í stórskemmtilegt brúðkaup síðustu helgi í Vík í Mýrdal og hittum þar fólkið hans Atla í góðum gír. Ég tók því miður engar myndir úr Vík en þetta var mjög gaman. Daginn eftir renndum við svo í Landeyjahöfn og fórum með Herjólfi til Vestmanneyja. Það var alveg kominn tími til að heimsækja Eyjar og systkini mín þar. Týri kom að sjálfsögðu með og vel var tekið á móti honum í Vestmannaeyjum þar sem hann sló í gegn í pössun í vetur emoticon


Atli og Þórdís Katla komin út á dekk


Þórdís var mjög spennt fyrir því að veiða fiskana sem voru til sýnis á höfninni

Við fórum svo í heimsókn í fiskasafnið þar sem Örn mágur ræður ríkjum. Á safninu er ársgamall lundi sem vakti mikla lukku hjá bæði börnum og fullorðnum! 


Þórdís Katla, pabbi og lundinn


þessi mamma getur aldrei látið nein dýr vera og þurfti líka að máta lundann



Svo voru tveir aðrir litlir ungar á safninu líka sem Þórdís fékk að skoða





Fleiri myndir frá Vestmannaeyjaferðinni eru hér

Atli situr aldrei auðum höndum hér heima og nú er búið að rífa allt út af baðinu og á að taka það alveg í gegn emoticon Gangurinn verður tekinn í leiðinni og það verða sko teknar fyrir-myndir þar sem ég veit að munurinn verður svakalegur emoticon Húsið á eftir að fá mikla andlitslyftingu við þessar framkvæmdir. Svo er Atli líka búinn að klára rafstöðvarhúsið og mála það.



Í vikunni bauðst honum svo veiði í ánni okkar, Laxá í Refasveit. Hann veiddi þrjá laxa og varð var mikið marga í viðbót. Laxarnir voru 6-9 pund. Því miður klikkaði eitthvað að færa myndirnar af fiskinum yfir í tölvuna mína úr símanum hans Atla en ég tók samt nokkrar myndir á myndavélina mína og ég skelli inn fleiri myndum síðar.


Feðginin að veiðum






9 pund - 77 cm

Þann 4. júní kom hingað fréttamaður frá Fréttablaðinu ásamt ljósmyndara til að ræða við okkur furðufuglana. Við eru víst orðin eitthvað "fræg" fyrir eitthvað sem er okkur óskiljanlegt. Við tökum bara vel á móti öllum og þykir alltaf gaman að fá heimsóknir svo það var nú ekkert vandamál að taka á móti blaðamönnum. Um nóttina fæddist Atla fyrsta folaldið hans, brúnstjórnótti Hugsýnar og Abrahamssonurinn og var því tækifærið gripið og við fjölskyldan mynduð hjá hryssunni og folaldinu. 

Ljósmyndarinn var svo almennilegur að senda mér svo tvær myndir og er önnur sú sem birtist af okkur í Fréttablaðinu þann 30 júní.


Myndin úr Fréttablaðinu


Atli með fína folann sinn

Annað kvöld verður svo miðnæturreið frá Hæli á Blönduós sem ég ætla að taka þátt í svo vonandi koma fljólega inn skemmtilegar fréttir og myndir.
Flettingar í dag: 204
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 303
Gestir í gær: 66
Samtals flettingar: 300883
Samtals gestir: 37228
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:47:49

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar