Mánaskál |
|
Færslur: 2015 Júní29.06.2015 21:57ÓtitlaðÉg gerði tilraun til að mynda folaldið sem kom í heiminn í gær en hryssurnar voru ekkert á því að hleypa mér of nálægt. Á svona dögum vantar mig Hugsýn mína til að hafa hemil á stóðinu, hún haggast aldrei. Alltaf er hægt að ganga upp að henni og taka hana þó maður svoleiðis sveifli framan í hana múlnum og mæti brauðlaus og allt. Hún stendur alltaf kyrr þessi elska Ég smellti nokkrum myndum af öðrum hrossum í leiðinni og þessi 2. vetra Össudóttir er sérstaklega mikið fyrir augað Svo loksins stoppuðu þessar drottningar og leyfðu örlitla myndatöku áður en þær æddu af stað aftur. Atli hamast í að klára að styrkja gamla hesthúsið á Sturluhóli svo hægt sé að setja nýja járnið utan á það en það gerist vonandi á morgun! Skrifað af Kolla 22.06.2015 21:07Jamm og jæjaJamm og jæja! .. þessi heimasíða er nú bara alveg að deyja út hjá mér. Ég vil endilega reyna að halda henni gangandi enda er þetta minnið mitt, allt sem ég þykist muna er klárlega skráð hér og það eina ástæðan fyrir því að það er ekki gleymt! Það líða orðið margir mánuðir á milli blogga svo það verður alltaf heljarinnar átak að koma sér af stað í að skrifa! Ég nenni aldrei að skrifa neitt nema að hafa myndir með svo það fer eiginlega mesta vinnan í að halda utan um myndirnar. Reyndar verð ég að viðurkenna að undanfarið hef ég bara ekki verið nógu dugleg að taka myndir, ég þarf klárlega að herða mig í þeirri deild. Ég sé að ég hef ekki sett inn frétt síðan í janúar svo ég ætla að reyna að stikla á stóru og segja eitthvað frá vetrinum og vorinu. Veturinn var í minningunni frekar langur og mikið um leiðinlegt veður. Ég var allavega alltaf að segja vinnukonunum mínum að þetta færi að skána, mér fannst það samt gerast ansi seint. Ég var með eina Hollenska stelpu hérna í nokkrar vikur sem sá held ég varla neitt nema lægðir, þar á eftir kom ein frá Þýskalandi sem er búin að vera hjá mér í 3 mánuði og hún er varla farin að sjá sólardag. Ég held að sumarið sé nú reyndar loksins mætt svo vonandi verður framhaldið gott Sauðburður byrjaði 5. maí eftir mikla eftirvæntingu. Þetta er okkar fyrsti alvöru sauðburður svo þetta var bæði spennandi og strembið. Við samstillum allar ær og lambgimbrar og sæddum. Þessar ungu héldu illa í sæðingum en þessar eldri ágætlega. Vegna samstillingarinnar kom sauðburðurinn því í gusum sem er bæði gott og slæmt. Fyrstu dagarnir voru mjög skemmtilegir, nokkrar sem báru á hverjum degi og alltaf nóg að gera. Svo kom pása í nokkra daga, svo báru nokkrar á nokkrum dögum, svo aftur pása og svo voru þessar síðustu heila eilifð að klára að okkur fannst. Þórdís Katla og Anna Rakel vinkona hennar með lamb Ég var svo heppin að fá hana Brynju Pálu frænku í heimsókn yfir fyrstu sauðburðarhjálpina. Atli var erlendis svo það var gott að fá svona duglega stelpu til okkar. Zanný vinkona var líka boðin og búin svo ég var í góðum málum Brynja Pála með eitt af sæðingarlömbunum Við sluppum við að missa ær en hún Sparikolla varð þó eitthvað veik. Ég veit ekki hvað amaði að henni en ég stalst til að gefa henni breiðvirkt sýklalyf fyrst ég átti það til og hún allavega braggaðist og er enn á lífi úti með flottu gimbrina sína undan Þoku-Hreini Sú mun heita Spari-Þoka ef hún skilar sér heim í haust. Sparikolla bíður eftir fóðurbæti Ein sæðisgimburin undan Drífanda fæddist risa stór og var alltaf eins og skessa við hliðina á öðrum lömbum. Hún fær nafnið Skessa í haust ef hún skilar sér heim. Ekki voru allir gemlingarnir stórir og miklir svo einhverjir fengu sérmeðferðir og dekur. Hér eru Óvænt, sem kom óvænt í réttirnar sl. haust með móður sinni, og ein af kaupagimbrunum mínum sem hefur bara ekki stækkað nóg í vetur. Sauðburðaraðstaðan okkar var alveg að gera sig. Við gerðum 8 einstaklingsstíur sem dugði okkur vel enda ekki með nema innan við 40 sem áttu að bera. Svo var notaður hitalampi yfir nýjustu lömbin svo engum yrði nú kalt Vinnukonan fékk alveg stundum að setjast niður og fá sér kakó.. en bara stundum Ég varð að taka selfie með Spari-Þoku.. hún verður algjört spari þessi Í þessu kalda vori var ósköp gott að hafa mjög rúmt pláss og geta leyft lambfénu að ganga við opið. Stundum voru skáturnar bara settar inn fyrir nóttina. Mér fannst lömbin dugleg að leita inn í skjólið og þessar mömmur gátu bara alveg verið inni með þeim að passa upp á þau í köldustu og blautustu veðrunum. Þórdís Katla kom reglulega við og tók út nýju lömbin. Íris Björg er líka mjög áhugasöm um "me" og fannst sko ekki leiðinlegt að halda á lömbunum. Lólý systir og fjölskylda gerðu sér ferð hingað norður til að kíkja í smá sauðburð. Þó að það hafi verið fáar eftir óbornar þá fengu þau samt að sjá tvö lömb koma í heiminn. Annað þeirra var grábotnótt gimbur sem Sandra Dilja ætlar að finna í réttunum og eigna sér. Ég er búin að segja henni að hún fengi númerið 261 og hún verði bara að finna hana Ágúst ætlar líka að koma í haust og hjálpa mér að draga svo Sandra verður að passa að Ágúst finni hana ekki á undan! Bjarki Rúnar, Ágúst Unnar og Sandra Diljá fylgjast með. Hér er botna litla (sem ég man ekki hvað Sandra vildi nefna) að fæðast. Nótt var mikið með okkur í fjárhúsunum og lætur fátt framhjá sér fara, hún er þó ekki endilega með einhverja fyrirferð þó hún kunni það sko alveg líka! Nótt á vaktinni Það voraði svo seint að það þýddi ekkert nema að hafa rúllur hjá fénu þó það væri sett á nýræktina. og svo var svarti sparijeppinn notaður sem skjól! .. .. og hitt gullið reyndar líka.. Sauðburði lauk svo loksins 12. júní. Við fengum óþarflega marga hrúta miðað við gimbrar en þó bíð ég spennt eftir að fá nokkrar af þeim heim í haust í dóm Einnig fengum við mikið minna af litum en ég taldi ég hafa samið um við hrútana okkar. T.d. var nú settur á einn flekkóttur en okkur fæddist ekki eitt einasta flekkótta lamb. Hinn hrúturinn er botnóttur og fengum við eina botnótta gimbur og einn botnóttan hrút. Á vorin er vanalega beðið eftir folöldunum á þessum bæ en nú í ár létu þau ekkert bíða eftir sér, fyrsta folaldið kom 28. maí en það var hún Assa sem kastaði rauðstjörnóttum hesti undan Byr frá Borgarnesi. Rauður hestur var nú ekki það sem ég hafði pantað en eins og Helga mín í Miðengi segir alltaf þá er rauður hestur betri en dauður hestur Byr frá Borgarnesi Hugsýn mín kastaði svo 4. júní, án þess að ég væri farin að bíða eftir henni. Viti menn.. ég fékk fína skjótta, tvístjörnótta hryssu sem ég stend í trú um að sé jarpvindskjótt Þessi er líka undan Byr frá Borgarnesi. Hún fékk nafnið Hugulsemi því ég sagði strax í fyrra að nú ætlaði ég að fá jarpvindskjótta hryssu og sú ætti að heita Hugulsemi, það væri jú svo hugulsamt af gömlu minni að verða við þessari ósk. Hún bætti svo við og gaf mér tvær stjörnur. Hún klikkar ekki hún Hugsýn mín Nokkrum dögum síðar keyri ég svo fram á Orðu mín að kasta en ég átti ekki von á hennar folaldi fyrr en seint í júní. Eitthvað hefur bókhaldið mitt klikkað eða þá að hún hefur eitthvað verið að flýta sér. Ég fylgdist með köstuninni og átti hún rauða tvístjörnótta hryssu undan hesti sem ég man ekkert hvað heitir en sá er undan Óskasteini frá Íbishóli. Þetta folald er algjört slys en Orða mín stakk af síðasta sumar og fann sér stóðhest, alveg upp á eigin spítur. Ég ætlaði svo ekki að halda nema einni hryssu en alltaf gerir maður aðeins meira. Ég eignaðist nýja hryssu um daginn en henni verða gerð betri skil fljótlega. Hún var sótt um helgina austur í Landeyjar og fór beint undir Blæ frá Miðsitju Hugsýn fór á fimmtudaginn undir efnilega leirljósan fola frá Steinnesi. Sá heitir Ljósvíkingur og er undan Óskasteini frá Íbishóli og Oddsdóttur. Assa fer svo undir hinn fallega Roða frá Garði Heimsenda Sumar Nótt varð 2 ára í apríl og mætti í fyrsta skipti í opinn flokk á tvöfalda sýningu Hundaræktarfélagsins í maí. Hún vann opna flokkinn á báðum sýningunum og fékk meistaraefni á sunnudeginum og frábæra umsögn. Ég er voðalega ánægð með þennan voffa minn. Við gerðum okkur svo ferð suður aftur núna um nýliðna helgi á deildarsýningu Fjár- og hjarðhundadeildarinnar. Sama dag var sýning hjá Deild íslenska fjárhundsins svo við byrjuðum á að hanga þar allan daginn og fylgjast með fínu íslendingunum. Linda vinkona hefur verið dugleg að sýna Nótt fyrir mig og er svo miklu betri í því en ég. Þar sem þessar sýningar voru sama dag var erfiðara fyrir Lindu mína að sjá um okkur Nótt líka, hún hafði eiginlega nóg að gera á sinni sýningu. Ég brá á það ráð að freista þess að fá annan sýnanda fyrir Nóttina því mér leist ekkert á að sýna hana sjálf. Ég var svo stálheppin að fá svakalega góðan sýnanda fyrir hana þó ég hafi ekki haft samband við hana fyrr en samdægurs. Þarna duttum við Nótt í lukkupottinn því Theodóra og Nótt voru hrikalega flottar saman og ég eiginlega hélt niður í mér andanum á meðan þær voru í dómi. Útkoman var dásamleg. 1. sæti í opnum flokki með meistaraefni. og svo í úrslitum varð hún þriðja besta tík og fékk sitt fyrsta íslenska meistarastig! Nú bíðum við bara spenntar eftir tvöfaldri útisýningu HRFÍ í júlí Atli situr aldrei auðum höndum. Um leið og sauðburði lauk málaði hann útihúsin (og mér finnst það flott sama hvað hann hefur sagt öðrum!) Þar á eftir fór hann af stað í að endurbyggja gamla hesthúsið á Sturluhóli. Ég er ekki frá því að hann haldi svo áfram með húsið mitt heima á Mánaskál þegar hann klárar að loka hesthúsinu Við erum enn að bíða eftir að teikningarnar af klæðningunni á íbúðarhúsið á Sturluhóli verði tilbúnar. Það er nú orðið dálítið síðan að þeim var lofað fyrst. Allt þarf þetta svo að fara fyrir byggingarnefnd sem gefur okkur leyfi til að klæða húsið. Í haust á það allta að vera klætt og frágengið! Ég hlakka mjög til að sjá útkomuna. Ég held að húsið verði glæsilegt Nú og svo verður fjölskyldan að fá nokkrar línur í fréttunum en stelpurnar bara stækka og dafna. Þórdís Katla útskrifaðist úr 1. bekk með góðum árangri og er komin í langþráð sumarfrí. Þessi dugleg stelpa les, skrifar og reiknar og er altalandi á ensku, hún hefur sko rúllað því upp að byrja einu ári á undan í grunnskóla Íris Björg stækkar og verður kröftugri með hverjum deginum. Hún er mjög sjálfstæð og lætur ekkert stoppa sig. Það þarf nú svosum heldur ekkert því hún er svo dugleg. Hún vill helst af öllu vera úti að leika og leiðist ekki að prufa fjórhólið og kíkja á kindurnar okkar Svo eru nú víst tíðindi að fjölskyldan stækkar enn frekar í haust en þá bætist við annað systkin í hópinn. Áætlaður lendingardagur er 28. október og það verður spennandi að sjá hvort við fáum þriðju duglegu heimasætuna eða lítinn bróðir Ég veit að ég er að sleppa fullt af hlutum en ég ætla að skrifa fljólega aftur og halda áfram að ryfja upp veturinn og vorið. Skrifað af Kolla
Flettingar í dag: 89 Gestir í dag: 26 Flettingar í gær: 303 Gestir í gær: 66 Samtals flettingar: 300768 Samtals gestir: 37197 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:26:41 |
Eldra efni
Tenglar
|
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is