Mánaskál |
|
08.08.2015 22:21Ágúst kominnSumarið líður, komið framyfir verslunarmannahelgi en ég ætla að vera áfram með sól í hjarta og lifa í sumri fram í október allavega Ég byrjaði að vinna í síðustu viku og þá sumarfríinu mínu að mestu lokið. Ég á eitthvað smátterí eftir en það verður eflaust notað í kring um göngur eða eitthvað þannig. Ekki það að ég haldi að ég get smalað þetta árið eða gert nokkurt gagn en það væri samt fínt að geta átt smá frí á undan eða eftir þessum annasömu dögum. Fjárréttir eru í ár 6. september en seinni göngum og stóðréttum var seinkað um eina viku og því eru stóðréttir ekki fyrr en 19. september. Ég sem var svo glöð að loksins lenti septembersýning HRFÍ ekki á réttarhelgi, en jú þá voru stóðréttirnar fluttar yfir á sýningarhelgina. Ég er nú hvort sem er ekki að fara ríðandi með stóðrekstrinum þetta árið og mun ekki eiga nein hross í réttinni heldur svo ég fer kannski bara samt á hundasýninguna eins og til stóð. Það fer nú svolítið eftir ástandinu á Nóttinni en hún er í hárlosi núna og er að verða alsber. Vonandi verður hún komin í flottan feld aftur í september Atli er búinn að vera ofurduglegur undanfarna daga og hamast eins og enginn sé morgundagurinn því það styttist í að hann fari að vinna erlendis. Ansi margt er á dagskrá hjá okkur ennþá og langt liðið á sumarið. Við fengum verktaka til að koma og moka meðfram húsinu á Mánaskál svo Atli gæti græjað dren á síðustu hliðinni. Núna getum við aldeilis haldið áfram að klæða höllina okkar heima á Mánaskál Bjarki smiður mætti svo í morgun á Sturluhól svo nú má segja að framkvæmdir við klæðninguna á íbúðarhúsinu séu hafnar Ég hlakka rosalega til að sjá útkomuna, ég held að húsið verði glæsilegt. Atli var með honum í dag að mæla fyrir grindinni og fór svo í að bora fyrir múrboltunum. Hér er Atli að bora fyrir múrbolta 1 af 1.100 Undanfarna daga hafa Atli og Jón Heiðar gert kraftaverk á Sturluhóli. Búið er að moka út úr hlöðunni eftir veturinn, og svo handmokuðu þeir út eldgömlum skít sem var á milliloftinu og úr hrútastíunni. Einnig var mokað út undan kanínunum. Atli er líka byrjaður að einangra og klæða veggina í nýja "gamla" hesthúsinu. Um daginn múruðu Atli og Geir í Skrapatungu aðeins í skemmdir á útihúsunum en ég málaði yfir það í dag svo húsið lítur aftur glæsilega út Þórdís Katla hjálpaði til við að mála Nýja "gamla" hesthúsið fer alveg að verða tilbúið. Það er orðið klárt að utan en það er dálítið eftir inní því. Það er allt annað að sjá húsið svona með hvítan neðri part og í kring um gluggana. Vonandi kemur svo fljótlega þak á súrheysturninn því þar höfum við ákveðið að gera kaffistofu Þeir félagar réðust líka á gömlu girðinguna meðfram túnunum og rifu hana og settu niður hornstaura. Ég held að ný girðing sé komin á planið og ætti að vera tilbúin fyrir réttir. Þá geta kindurnar komið beint á Sturluhól eftir réttir sem ætti að einfalda ýmislegt fyrir mig ef Atli verður ekki heima þegar það á að dæma lömbin, senda í slátur hús og svo taka á hús. Þar sem búið var að moka undan kanínunum þá skellti ég upp aðstöðu fyrir þær á sama stað en með breyttu sniði. Ég gerði þrjár stíur fyrir þær og fékk Lúpus karlinn eina, Ísing og kvenkyns ungarnir eina og svo karlungarnir þá þriðju. Ungarnir eru nú orðnir rúmlega tveggja mánaða gamlir og ég tel að ég sé með 2 kerlingar sem ég ætla að halda sjálf en karlarnir 4 eru tilbúnir á ný heimili. Fyrri sláttur er búinn á Sturluhóli en við eigum eftir að slá smá há þar. Svo er eftir að slá nokkur stykki í hrossin en vonandi verður ekki endalaus vætutíð í ágúst. Síðustu helgi fengum við góða gesti en þá kom Jói vinur hans Atla í heimsókn með strákinn sinn. Auðvitað voru fjórhjólin sett í gang sem krökkunum (og fullorðnum) leiddist ekki. Íris keyrði meira að segja alveg sjálf Nótt nýtur þess alltaf þegar það eru langir útidagar Góðar vinkonur þessar tvær Íris er byrjuð á leikskólanum eftir sumarfrí og allt er að komast í rútínu. Þórdís Katla byrjar fljótlega í skólanum aftur og þá verður þetta allt komið í fastar skorður. Vinnukonan okkar sem er búin að vera hjá okkur síðan í mars fer til síns heima um svipað leiti og það á eftir að koma í ljós hvenær einhver kemur í hennar stað. Ég geri ráð fyrir að vera með einhverja aðstoð í vetur þar sem Atli verður væntanlega mikið að heiman. Þetta á allt saman eftir að koma í ljós og alveg á hreinu að tíminn líður sama hvort maður er tilbúinn eða ekki. Skrifað af Kolla Flettingar í dag: 242 Gestir í dag: 10 Flettingar í gær: 304 Gestir í gær: 19 Samtals flettingar: 330494 Samtals gestir: 39776 Tölur uppfærðar: 15.1.2025 14:56:10 |
Eldra efni
Tenglar
|
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is