Mánaskál |
|
Færslur: 2015 September20.09.2015 17:18September æðir áframHaustið ætlar að fara jafn hratt og það kom, allavega æðir september mánuður áfram þó mér finnist hann vera nýkominn. Það voru göngur og réttir hérna fyrstu helgina í september. Ágúst Unnar systursonur minn kom ásamt Benedikt vini hans og svo mættu bestu tengdaforeldrar í heimi ásamt Brynju Pálu frænku hans Atla. Ég hafði því þrjá unglinga til að hlaupa og sendast fyrir mig og ég get ekki sagt annað en að ég kunni mjög vel við það. Á föstudeginum hjálpuðu krakkarnir til við að smala heimalöndin á Sturluhóli. Brynja Pála fékk að fara ríðandi með Gísla en strákarnir þurftu að láta sér duga að hlaupa. Þeir fengu þó að leika sér á fjórhjólinu og voru bara ánægðir með það held ég. Á laugardag fór Gísli á Sturluhóli í göngur fyrir óléttu konuna. Féð kom svo niður í réttina milli Balaskarðs og Mánaskálar og þar fengum við stærstann hluta af okkar fé. Unglingarnir mínir sáu um að draga fyrir mig og eina sem ég gerði var að merkja við bókhaldið hvaða skjátur voru búnar að skila sér Atli kom svo og keyrði umframfé í Skrapatungurétt og svo okkar fé heim að Mánaskál. Við unglingarnir gerðum líka gagn í þessum göngum en þau stóðu vörð niður við veg til að passa að féð myndi fara með fjallinu í átt að Balaskarðinu frekar en að fara niður á eyrarnar fyrir neðan Mánaskál. Svo tóku þau þátt í að reka féð meðfram hlíðinni og standa í fyrirstöðu við Balaskarðsá. Heimasæturnar fylgjast með Aðdáun mætt ásamt fleiri vinkonum Á sunnudag tóku svo við "aðal"réttirnar í Skrapatungurétt. Ég mætti ásamt unglingunum mínum til að finna afganginn af fénu. Við tókum eina hópselfie að því tilefni. Ekki fundum við margar skjátur í þessum "aðal"réttum en það varð nú samt að sækja þær. Ég fékk nú meira að segja undanvillings þrílembing sem ég hafði talið af svo það má kannski segja að ég hafi grætt eitthvað. Sveinbjörg og Gunnar voru svo áfram eftir réttirnar og unnu á Sturluhóli með Atla. Feðgarnir kláruðu að setja grindina á húsið og komust langt í að ulla það og tengdamamma málaði gluggana. Allt að gerast Á laugardeginum fóru feðgarnir ásamt Sigga vini Atla að veiða í Laxá. Ég kíkti svo til þeirra aðeins seinna og ákvað að gera tilraun til að veiða með Atla. Eftir dágóða stund færðum við Atli okkur yfir á annað svæði og stoppuðum við bílinn hans tengdapabba. Atli heyrir þá strax að hann er að kalla á hjálp og rýkur hann af stað að leita að honum. Gunni hafði hrasað og fallið fram af kletti. Hann var í framhaldinu fluttur á Akureyri og þaðan með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hann gekkst undir aðgerðir. Við erum öll ógurlega þakklát fyrir að hann sé enn á meðal okkar því þetta hefði hæglega geta farið verr. Bataknús til þín elsku besti tengdapabbi! Hér er tengdapabbi í þrælavinnunni með syninum Drungi minn var búinn að vera eitthvað veikur undanfarið. Ég varð allt í einu vör við mikla bjúgsöfnun við skaufahúsið sem svo færði sig fram kviðinn. Stefán dýralæknir kom og kíkti á hann og taldi öruggast að gefa honum breiðvirkt ormalyf ef ske kynni að hann hefði náð sér í svæsna ormasýkingu, annars gat hann ekki útilokað að það væri eitthvað alvarlegt að s.s. í lifur eða hjarta. Hann lagði til að við myndum hreyfa hann næstu daga og athuga hvort bjúgurinn myndi renna af honum. Ég er ekki í miklu standi til að ríða út þessa dagana svo við Atli hjálpuðumst að við að teyma hann út um bílgluggann. Greyjið klárinn teymdist ekki vel og þetta gekk yfirleitt frekar hægt fyrir sig. Ég dauðvorkenndi honum að vera að níðast þetta á honum. Eftir nokkur skipti var bjúgurinn þó farinn að minnka og greinilegt að hestinum leið betur. Svo 2 dögum eftir að Gunni slasaði sig og hesturinn hafði ekki verið hreyfður í 2 daga var hann orðinn alveg jafn slæmur og áður ef ekki verri. Ég var akkúrat á leiðinni suður og gat ekki hugsað mér að skilja hestinn eftir svona eftirlitslausan. Ég hringdi því í Gísla á Sturluhóli og bað hann að sækja hestinn fyrir mig og hafa hann á Sturluhóli á meðan ég færi í burtu. Ég ætlaði svo að fá Stefán til að líta á hann einu sinni enn áður en ég tæki ákvörðun um að fella hann. Eftir skoðun hjá Stefáni var ákveðið að láta hestinn fara, að öllum líkindum var hann með lifrarbólgu og hann var orðinn mjög veikur. Sævar á Sölvabakka var akkúrat að vinna á gröfu á Sturluhóli svo hann græjaði holuna og Gísli felldi hann áður en ég kom norður aftur. Ég var ósköp fegin að þetta hafi bara vera yfirstaðið þegar ég kom til baka. Þórdís Katla á Drunga fyrir líklega rúmum 2 árum Svo þegar ég var búin að redda því að Drungi færi á Sturluhól þarna á mánudeginum og byrjaði að bera dótið okkar út í bíl kom ég auga á afvelta lamb í nýræktinni. Ég brunaði þangað og snéri því við en það kútveltist bara þegar það ætlaði að æða af stað. Þegar hér var komið við sögu var mér alveg hætt að lítast á að ég færi að heiman, mér fannst að mér væri ekki ætlað að fara. Aftur bað ég Gísla um greiða, að líta eftir lambinu til að vera viss um að það hefði ekki farið beint á hrygginn aftur. Sindri meira að segja leit líka á það daginn eftir. Lambið varð ekki afvelta aftur en það jafnaði sig ekki og fer í sláturhúsið á morgun, á undan öðrum lömbum. Við stelpurnar komum svo aftur norður úr Reykjavík á fimmtudaginn og Atli og Jói frændi hans komu á föstudag. Þeir eru búnir að eyða helginni í að klára að ulla húsið á Sturluhóli og setja járnið, sem þeir voru að beygja í vikunni, utan um fyrstu gluggana. Á meðan við vorum í burtu mokaði Sævar frá hlöðuveggnum sem lak svo hrikalega síðasta vetur og gerði það að verkum að í leysingum flæddi inn á gólfið undir kindunum. Þegar búið verður að drena þessa hlið og ganga frá þessu ætti að vera þurrt og gott hjá spariskjátunum Einnig er búið að moka upp úr skurðum við utihúsin og laga "planið" fyrir framan mjólkurhúsið og framkvæmdir eru enn í gangi Núna um helgina voru stóðréttir og ég verð að viðurkenna að í fyrsta skipti þá fór ég hvorki inn að Kirkjuskarði né niður í rétt. Það er bara meira en nóg fyrir mig að vera með stelpurnar og heimilið. Atli fór í morgun í réttina og sótti einn gemling frá okkur með myndarlegan hrút undan Drífanda og held ég að okkur vanti þá ekkert nema Gránu hans Bjarka Rúnars sem er sjálfsagt í fríu fæði með hrútana sína einhversstaðar hjá Sindra á Neðri-Mýrum. Ég er allavega fullviss um að hún eigi eftir að koma í leitirnar. Skrifað af Kolla
Flettingar í dag: 89 Gestir í dag: 26 Flettingar í gær: 303 Gestir í gær: 66 Samtals flettingar: 300768 Samtals gestir: 37197 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:26:41 |
Eldra efni
Tenglar
|
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is