Mánaskál |
|
Færslur: 2014 Október19.10.2014 23:05Fé komið á húsNýju gimbrarnar mínar mættu á norðurlandið fyrir rúmri viku síðan. Þær fengu far með gimbrum sem voru að fá nýtt heimili að Fremsta-gili og ég verð að viðurkenna að þeirra gimbrar voru dálítið mikið flottari á litinn en mínar en jæja, mínar eru samt alveg fínar þó þær séu allar hvítar. Við fluttum svo kindurnar að Sturluhóli á miðvikudaginn en þá var kominn tími til að bólusetja kaupagimbrarnar öðru sinni, þá var alveg eins gott að taka þetta allt heim. Bjarki á Breiðavaði aðstoðaði okkur að koma fénu á kerrur og ég verð að segja að það er snilld að eiga svona hörkuduglega og vel þjálfaða Border Collie hunda (þið getið rétt ýmindað ykkur hvað ég er að hugsa!). Enginn þurfti að hlaupa og missa andann! Love it! Atli vinnur eins og herforingi á Sturluhóli og eyðir öllum sínum tíma þar að undirbúa fyrir veturinn. Útihúsin eru í forgangi ennþá en við förum að sjá fyrir endann á því helsta sem liggur á þar. Hurðin er komin upp Komið gler í alla glugga á hlöðunni Mörg járn í eldinum! Kindurnar eiga að fá að ganga við opið og fá það besta úr báðum heimum (endalaust dekraðar þessar elskur). Þær voru settar í hólfið við hlöðuna og eiga að vera hamingjusamar þar. Ég mætti með fóðurbætistunnuna og uppskar smá vinsældir við það. Aska hans Kormáks Tvenna Sparikolludóttir Kindurnar voru ekki hamingjusamari en það að þær gerðu mjög svo heiðarlega tilraun til að strúka úr hólfinu. Atli kom sem betur fer auga á þær í gærkvöldi og gat fengið aðstoð við að koma þeim aftur heim. Þær voru því settar inn og verða þar þangað til búið verður að yfirfara girðinguna og styrkja hana. Þær virðast geta farið í gegn um allt ef þær vilja. Þar sem hlaðan er ekki tilbúin voru þær settar inn í hesthús en þar er nóg pláss líka svo það fer ekkert illa um þær. Í dag tengdi Atli svo fyrstu vatnsskálina í hlöðunni og fleiri eru væntanlegar Gjafagrindin ætti svo að vera tilbúin eftir nokkra daga. Allt að gerast Ég er búin að vera að bíða eftir fínu móflekkóttu forystugimburinni frá Hafrafellstungu sem ég festi mér í vor. Hún hefur svo bara ekki skilað sér af fjalli blessunin svo líklega gerir hún það ekki úr þessu Það hefur ekki farið framhjá neinum á þessu heimili að haustið sé gengið í garð. Pestir hafa lagst óvanalega þungt á fjölskylduna og eiginlega bara á stelpurnar. Íris er búin að vera lasin af og til síðastliðinn mánuð og lagðist enn eina ferðina í flensu á fimmtudagskvöld (auðvitað akkúrat þegar Atli fór suður að vinna). Við mæðgur vorum því heima á föstudaginn og vorum líka innandyra allan gærdag. Íris var hraustari í dag svo við kíktum á Sturluhól og kíktum á kindurnar en henni finnst það sko ekkert leiðinlegra en mér! Hún er algjör kindakerling Þórdis Katla fékk ný íþróttaföt þegar Atli kom að sunnan og hún hefur ekki farið úr þeim alla helgina! Hún er alsæl með nýja fótboltaskó, stuttbuxur og bol. Svo hefur verið spilaður fótbolti hér innandyra og á Sturluhóli alla helgina. Svo er hún lika orðin svo stór að hún er búin að missa fyrstu tönnina! Svo eru fleiri nýjar myndir í myndaalbumunum Skrifað af Kolla 05.10.2014 23:47Lítið kindabloggÞað er alltaf nóg að gera í sveitinni og okkur leiðist það sko ekki. Ég hef reyndar hangið yfir bókhaldinu alla helgina við mikinn ófögnuð en í dag fór ég aðeins út því ég bara varð að komast ÚT. Ég kíkti við það tækifæri á nokkrar góðar vinkonur hér niður á túni. Þegar við fóðurbætistunnan gerðum vart við okkur komu þessar hlaupandi. Algebra frá Hraunhálsi fremst í flokki Algebra er skemmtilega spök og ein af þessum uppáhalds kollóttu (þær eru nú samt næstum því allar uppáhalds). Hún átti áberandi besta gemlingslambið í fyrra og í ár átti hún líka þyngsta lambið. Algebra er undan Lagði. Fóðurbætirinn er rosa góður Veturgamla Mökk er komin í heimsókn líka Svo bættist Aþena hennar Þórdísar í hópinn Hrúturinn hennar Aþenu var settur á Þórdísi til mikillar gleði. Hann er svarbotnóttur Grámannssonur og vonandi fáum við einhver botnótt lömb undan honum í vor. Ég gaf honum nafnið Hraunar en Þórdís Katla er víst búin að nefna hann allt öðru nafni, einhverju sem hún sá í Börnunum í Ólátagarði. Kannski ætti hann bara að heita Ólátabelgur. Mökk fékk dálítla atygli í vor því hún átti mjög erfiðan burð. Hún átti gríðar stóran hrút og var smá stund að jafna sig og gekk illa að ná upp mjólk. Við brugðum á það ráð að gefa lambinu pela í nokkra daga en fljótlega var Mökk sjálf farin að spekjast og farin að líta hýru auga á pelann. Ég fór því að gefa henni mjólk líka. Þegar lambið hafði klárað sinn sopa fékk hún restina í skál og svo gekk ég alla leið og blandaði tvær blöndur, eina fyrir lambið og aðra fyrir Mökk. Ég var aðeins rög við að sleppa þeim út og setti þau því í garðinn í einn eða tvo daga. Það var æðislegt að fara út til þeirra með mjólk því ég veit eki hvort jarmaði meira á móti mér, lambið eða ærin Frameftir sumri var ég svo að rekast á þau og þá komu þau jarmandi á móti manni. Mökk hefur engu gleymt og er mjög spök og forvitin Hrúturinn hennar Makkar reyndist svo 43 kg í haust og viktaði 17,9 kg í SAH svo hún hefur alveg mjólkað nóg eftir þetta. Ekki eru nú allir háir eða þungir í túninu hjá mér. Þessi litla gimbur er væntanlega fædd í lok ágúst. Ég vona að hún braggist í vetur með stóru gibbunum. Mamma hennar var sónuð með tvo fósturvísa í vetur en Ásta í Veðramóti taldi að hún væri búin að láta. Hún var því sett út í vor sem geld enda var ekki annað að sjá en að hún væri tóm. Það kom því dálítið á óvart þegar þessar mæðgur mættu í réttirnar. Hún hefur því fundið sér hrút eftir fóturvísatalninguna. Það er nú svolítið merkilegt með þessa kind að sama gerðist gemlingsárið hennar. Í henni voru taldir tveir fósturvísar en svo urðum við vör við að hún væri að láta í mars/apríl. Þessi heitir Afþreying og er undan Lagði eins og Algebra en móðir hennar er undan Grábotna. Algebra var kjössuð í bak og fyrir og kunni vel við athyglina. Útsýnið úr stofunni minni er líka bara frábært.. kindur og hestar. Svona á lífið að vera Atli setti upp járnstoðir í hlöðuna til að halda uppi þakinu. Við létum burðarþolsreikna þetta og það þurfti ekki nema tæp 800 kg af járni til að halda þessu uppi en það hafa engar stoðir verið undir þakinu í fleiri ár. Næstu dagar og vikur fara líklega í að halda áfram að gera tilbúið á Sturluhóli fyrir kindurnar okkar. Það stóð ekki til að kaupa fé í ár en svo frétti ég af sveitungum sem voru að fara á Snæfellsnesið að sækja sér gimbrar. Þá var nú ansi freistandi að kaupa sér nokkrar og fá þær heimsendar Ég meina það er nú ekki hægt að láta fólk fara í svona ferð nema að kerran sé fullnýtt Ég hafði samband við Hraunháls en við höfum keypt fé þaðan síðastliðin tvö ár en ég var of sein, allar álitlegar gimbrar voru þegar seldar. Til að fyrirbyggja svona að ári, lagði ég strax inn pöntun fyrir næsta haust! Eftir nokkrar fyrirspurnir fann ég gimbrar til sölu sem hægt var að nálgast nú um helgina en það var á bænum Fáskrúðarbakka. Ég fékk upplýsingar um nokkrar gimbrar sem ég gat valið úr og úff, þetta er meira en að segja það. Eftir marga hringi og langann umhugsunartíma gat ég loks ákveðið mig.. en gimbrarnar sem áttu að vera 3-4 urðu 6. Svo er bara að vona að þessar skjátur standi sig og ég lendi ekki í sömu hremmingum og síðasta vetur þegar 2 af 5 gimbrum sem ég keypti voru dauðar fyrir áramót og svo misstum við 2 ær til viðbótar á sauðburði. Gimbrarnar eru allar hvítar og hyrndar (engar kollóttar til), ein er undan Guðna (og fær nafnið Systir), ein undan Garra, tvær undan Snævarssyni, ein undan Grábotnasyni og ein undan Prúðssyni. Ég bíð spennt eftir að sjá þessar skjátur mínar Skrifað af Kolla
Flettingar í dag: 39 Gestir í dag: 11 Flettingar í gær: 303 Gestir í gær: 66 Samtals flettingar: 300718 Samtals gestir: 37182 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:05:40 |
Eldra efni
Tenglar
|
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is