Mánaskál |
|
Færslur: 2013 Júlí30.07.2013 21:41Hryssurnar fengnar og eldhúsið tilbúiðÞað var sónað frá Hvítserk frá Sauðárkróki í dag og við stelpurnar fórum að fylgjast með. Það er stutt síðan ég fór með hryssurnar okkar til hans og því átti ég alveg eins von á að þær væru ekki fengnar eða með of lítið fyl til að það sæist. Assa var sónuð með 23 daga fyli og Hugsýn með 16 daga fyl svo við erum bara sátt Ég fór svo bara heim og sótti Atla og hestakerruna og við tókum hryssurnar og folöldin heim. Folaldið hennar Össu er rosa fallegt en vá hvað Hugsýnar sonurinn er rólegur og knúsulegur. Hann leyfir manni alveg að klappa sér í bak og fyrir, það er sko ekki mikið stressið á þeim bænum. Þar sem hryssurnar og folöldin eru komin heim í tún verður myndavélin örugglega eitthvað á lofti á næstu dögum. Ég tók loksins myndir af nýja eldhúsinu mínu! Eldhúsið mitt fyrir Búið að rífa innréttinguna Búið að rífa vegginn inn í borðstofuna Allt á hvolfi Eldhús eftir breytingu Eldhúsið teygir sig inn í borðstofuna Þegar klæðningin á veggnum í borðstofunni var rifinn kom í ljós gamall panill sem fékk að halda sér. Við erum voða ánægð með breytinguna á eldhúsinu enda skápaplássið ólíkt meira nú! Skrifað af Kolla 29.07.2013 22:17ÓtitlaðJúlí mánuður er nánast á enda og það þýðir að það styttist í barnið! Ég er gengin rétt tæpar 39 vikur og var að hætta að vinna svo núna er maður "formlega" farinn að bíða eftir nýja fjölskyldumeðliminum Ég held að það sé allt að verða tilbúið en síðasta þvottavélin er akkúrat í gangi núna. Það er alltaf eitthvað að frétta héðan úr sveitinni. Í júní bættist við ferfætlingana í sveitinni en hún Heimsenda Sumar Nótt kom til okkar, hreinræktuð Australian Shepherd tík. Týri minn tók henni auðvitað bara vel þó svo að hann verði nú stundum að taka í þetta hvolpaskott sem er stundum bara of óþolandi fyrir svona höfðingja. Þegar hvolpurinn er farinn að hanga í skottinu á honum og stökkva upp á bak honum þá fær hann stundum nóg. Nótt stækkar ótrúlega hratt og stefnir með hraði inn í gelgjuna. Við erum að reyna að æfa okkur eitthvað að "standa" og vera sætar þar sem það búið að skrá hana á hennar fyrstu hundasýningu í september. Ég vona að hún verði ekki sú allra óþekkasta Annars missi ég sjálf af þessari sýningu þar sem hér eru göngur og réttir sömu helgi og ég er nú líka með mjög ungt barn á þessum tíma og kannski ekki það gáfulegasta að eltast við hundasýningar. Ég vona að Linda Björk geti sýnt Nóttina fyrir mig því þá veit ég að hún er í fínum höndum. Ásta á Króknum sem ég var búin að sjá fyrir mér sem mjög álitlegan sýnanda fyrir Aussie fékk sér svo bara systur Nætur svo þar fór það! Hún á væntanlega aldrei eftir að geta sýnt fyrir mig.. og hennar tík verður væntanlega alltaf betur sýnd líka.. djö! hehe. Nótt tæplega 13 vikna Ásta kom einmitt í heimsókn hingað í Laxárdalinn með gotsystur Nætur, Heimsenda Sumar Nótt og eldri albróðir þeirra Týr. Það gekk nú ekkert rosa vel að ná mynd af þeim öllum saman en hér eru þau allavega Þar síðustu helgi komu tengdaforeldrar mínir hingað og það er ekki að spyrja að því hvað þau voru dugleg að hjálpa til. Sveinbjörg þvoði barnaföt og meðan tengdapabbi smíðaði í eldhúsinu. Eldhúsið mitt er semsagt orðið alveg gjörbreytt og ég hlakka til að setja inn myndir af því! Atli reif sjálfur niður vegginn sem var á milli eldhúss og borðstofu svo það rýmkaði aldeilis um okkur. Veggurinn farinn og framkvæmdir að hefjast (fleiri eiga eftir að bætast við). Nýja eldhúsið er algjör lúxus miðað við það gamla svo nú ætti ég aldeilis að geta verið húsmóðir Frænka Þórdísar hún Brynja Pála kom með Sveinbjörgu og Gunna og var svo hjá okkur alla vikuna. Þær Þórdís léku heilmikið saman og það létti heilmikið undir Atla þar sem ég var enn að vinna. Brynja Pála á tryppi hérna úti á túni og var dugleg að heimsækja Vörð sinn og færa honum og Orðu brauð. Frænkurnar að baka Hryssurnar okkar fóru loksins undir hest en þetta var ótrúlega erfið ákvörðun. Ég hef aldrei verið svona róleg í því að velja stóðhesta og ætla að vera mun fyrr á ferðinni fyrir næsta ár! Hugsýn og Assa fóru báðar undir 1. verðlauna hestinn Hvítserk frá Sauðárkróki sem er brúnskjóttur undan Álfi frá Selfossi og Smáradóttur. Ég bara krossa putta eins og alltaf áður og vona að þær haldi, og að ég fái hryssur. Hvítserkur tekur á móti dömunum Folöldin þeirra hafa ekki enn fengið nafn en ég held að ég sé að verða búin að skíra þau fyrir Atla :) Maður bíður nú ekki endalaust eftir svona hlutum Við höfum séð til kindanna okkar af og til í sumar. Sumar þeirra virðast halda sig nærri og við sjáum þær reglulega en aðrar höfum við ekki séð síðan við slepptum þeim. Ég mætti nokkrum vinkonum fyrir þónokkru síðan og vippaði mér út úr bílnum til að athuga hvort þær vildu eitthvað við mig tala.. og auðvitað komu þær hlaupandi til mín Spari kolla Aþena hennar Þórdísar Kolla með gimbrarnar sínar tvær Það er bara tilhlökkun til þess að heimta féð okkar frá fjalli fyrsta árið og sjá afraksturinn Fjórhjólið hennar Þórdísar Kötlu var sett í gang um daginn líka og hún þeysist heldur geyst á því. Allavega þarf pabbinn að hlaupa með til að afstýra stórslysum. Ég reyni að vera dugleg að pósta fréttum á síðuna uppfrá þessu þar sem ég er nú komin í frí frá vinnu og er bara að "bíða" eftir barninu. Skrifað af Kolla 01.07.2013 18:28Sumarið flýgur áframJæja það er ekki seinna vænna en að gera grein fyrir því hvað er helst í fréttum úr sveitinni. Síðasta færsla var úr sauðburði í maí! Þetta gengur nú bara ekki lengur. Í byrjun júní fórum við til Spánar í sumarfrí með foreldrum Atla, systrum hans og fjölskyldum. Við vorum með tvær íbúðir á leigu í Torrevieja og höfðum það ansi gott. Krakkarnir skemmtu sér konunglega og allir nutu ferðarinnar. Það var svolítið óþægilegt að fara frá öllu hérna í sveitinni á þessum tíma þar sem lömbin voru enn lítil og folöldin á leið í heiminn. Við vorum svo rosalega heppin að Linda vinkona mín var til í að flytjast búferlum í sveitina á meðan við vorum fjarverandi. Hún ásamt dóttur sinni og Íslensku fjárhundunum Orra og Hökka höfðu það sko bara fínt í sveitinni á meðan og við fengum reglulega fréttir að heiman og gátum verið áhyggjulaus í fríinu. Það voru ekki teknar mjög margar myndir í ferðinni þar sem ég tók ekki myndavél út en svo missti ég mig á síðustu dögunum og keypti mér nýja svo eftir það var myndavélin á lofti. Ég er þó með eitthvað af myndum í símanum mínum sem eiga eftir að bætast við myndaalbúmið á síðunni. Hverfið okkar, útsýnið frá svölunum Þórdís Katla Úti að borða Höfrungasýning í Mundomar garðinum Atli og Þórdís Þórdís fann sjóræningja Heima á Íslandi var Linda Björk að færa hross á milli hólfa og gera og græja. Kindurnar okkar fengu heimsókn frá henni og Ellen Katrínu daglega að ógleymdum fóðurbætinum! Kindurnar fengu svo auðvitað heimsókn þegar við komum heim. Hér er Aska með gimbrina sína undan Prúð (tvílembingur). Afríka ættleiddi hrútinn hennar Ösku þar sem hennar lamb drapst í burði. Hér er svo sparigimbur undan Streng sem vonandi kemur flott af fjalli í haust. Bæði folöldin sem við áttum von á komu í heiminn á meðan við vorum í sólinni á Spáni. Ég átti von á að Hugsýn myndi kasta á meðan við vorum úti og Linda fylgdist sérstaklega vel með henni en viti menn allt í einu var Assa köstuð! Hún átti brúnstjörnótta hryssu með hvítt á báðum afturfótum undan Kvist frá Skagaströnd Mér fannst nú alveg vera kominn tími á hryssu þar sem mér hafði ekki fæðst merfolald síðan 2004! Hugsýn kastaði svo þrem dögum síðar eða 10. júní brúnskjóttum blesóttum hesti. Svo dugar mér ekki að eiga hesta og kindur, ég fékk nýjan hund fyrir nokkrum dögum. Fyrir valinu varð Australian Shepherd frá Heimsendahundum. Tíkin sem ég valdi mér er svört þrílit og heitir Heimsenda Sumar Nótt og er fædd á sumardaginn fyrsta. Ég sótti Nótt til Reykjavíkur í síðustu viku og henni gengur ágætlega að aðlagast nýjum heimkynnum og mér að vera komin með "barn" á heimilið. Þar sem ég er enn ekki komin í frí stendur Atli vaktina á daginn enda er hann svosum vanur að "lenda í öllu" sem viðkemur áhugamálunum mínum. Hann er ótrúlega þolinmóður við mig blessaður Þessar myndir af Nótt eru fengnar að láni frá ræktandanum Af mér er svo helst að frétta að meðgangan gengur vel. Ég er gengin tæpar 35 vikur svo þetta fer allt að skella á! Ég tók við nýrri stöðu í vinnunni minni og gerði þar með breytingar á sumarfríi og fæðingarorlofi. Leikskólinn hennar Þórdísar lokar eftir þessa viku en ég er að vinna til 1. ágúst. Ég er svo heppin að vera búin að finna stelpu sem ætlar að koma til okkar og sjá um Þórdísi á meðan ég er að vinna svo Atli hafi vinnufrið á daginn líka. Ég vona að Þórdís og Signý verði ánægðar með hvor aðra. Ég er líka búin að stytta fæðingarorlofið mitt og ég geri ráð fyrir að þurfa einhverja pössun fyrir litla barnið áður en það kemst inn á leikskóla. Hugsanlega þarf ég Au pair eða einhverja álíka stelpu til að flytja inn á heimilið. Ég hef ágætann tíma til að finna út úr því en ég tek glöð við ábendingum ef einhver veit um góðan kandiat. Skrifað af Kolla
Flettingar í dag: 89 Gestir í dag: 26 Flettingar í gær: 303 Gestir í gær: 66 Samtals flettingar: 300768 Samtals gestir: 37197 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:26:41 |
Eldra efni
Tenglar
|
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is